Færsluflokkur: Bloggar

Á felgunni - á felgunni

120 km. á felgunni. Var ekki ökumaðurinn á henni líka?

Er ekki óþarfi að stöðva bíla með því að aka á þá þegar svona er komið. Ég trúi því bara ekki, að það sé hægt að halda þessum hraða lengi á felgunni, og þá er sjálfhætt. Er ekki nóg að láta þennan sem hlýtur að vera á felgunni eyðileggja sinn bíl, sem er á felgunni, og sleppa við að eyðileggja lögreglubílinn líka, með því að hætta eltingarleiknum? Þá hlýtur sá á felgunni að róast aðeins og hægt að draga þann á felgunni burt, eða jafnvel báða.


mbl.is Ók á 120 km hraða á felgunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einu sinni einu sinni enn

Flugvöllinn burt!, hafa verið einkunnarorð mín um alllangt skeið. Ég á heima í næsta nágrenni vallarins þar sem einhverskonar olíusót setst á allt sem utandyra er, og hávaðamengunin er slík  að það heyrist ekki mannsins mál, þegar vélarnar fljúga yfir, og á ég þá við að það heyrist ekkert,  í orðsins fyllstu merkingu. 

Víst er nauðsynlegt að hafa samgöngur milli landshluta, en ég sé ekki hvernig utanbæjarmenn eiga að hafa öll völd í þeim málum. Hólmsheiði var fyrir nokkru inni í myndinni sem tilvonandi flugvallarstæði og stutt þangað að fara frá Reykjavík og ætti að duga. Við sem þurfum að búa við völlinn ættum líka að vega þungt í málinu, en svo virðist bara alls ekki vera. Þetta er óþolandi ástand.


mbl.is Ræddu um Reykjavíkurflugvöll
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úr hlaði með hraði

Þetta er greinilega spennufíkill í stuði. Annað hvort flýgur bíllinn bara sjálfur á þessum hraða og þá sleppurðu við allt vesenið á flugvellinum, eða þú flýgur bara beint inn í eilífðina.
mbl.is Tekinn á 198 km hraða á leið í flug
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Menning og mannlíf.

 

 

Var að kaupa miða á jólatónleika sem haldnir verða síðasta sunnudag í aðventur, strax núna í byrjun nóvember, og hlakka mikið til. Falleg tónlist er svo einstaklega uppörvandi í skammdeginu. 

Fjölmargir tónlistarmenn hafa árlega lagt leið sína í miðborgina fyrir jólin, til að skemmta fólki með fallegri jólatónlist. Á menningarnótt eru tónleikar, upplestrar og allskyns aðrar uppákomur, sem eru sóttar af fólki í þúsundavís, allt án endurgjalds og hreinnar ánægju við að miðla öðrum af list sinni og visku. Ég minnist ekki á alla þá tónleika, upplestra, leiksýningar o.fl. o.fl. sem fólk neytir líka, allt árið um kring.

Svo merkilegt sem það er, virðast fjölmargir álíta að stöðva eigi allar menningartengdar framkvæmdir, vegna þess að menningin sé óþörf og öllum kostnaði sem  í hana fer sé kastað á glæ.

Hugsum okkur lífið án tónlistar af öllu tagi, bóka og blaða, leikhúsa, kvikmyndahúsa, fallegs arkitektúrs, ásamt myndlistar af öllum toga. Hugsum okkur að allri menningu í útvarpi, sjónvarpi og öllu sem því fylgir, yrði hætt, meira að segja videoleigum yrði lokað. Allt myndi þagna, utan frétta og auglýsinga, sem mætti þó oft telja til menningar.
 
 Ég álít að menningin sé það sem fólk sækir mest í þegar illa árar, öll námskeið fyllast, fólk sækir leikhús, tónleika og allskyns uppákomur í ríkara mæli en oftast áður, og þeim aurum sem fólk álítur sér fært að eyða, er eytt í menninguna, en ég álít þeim mjög vel varið.

Við eigum aldrei að spara við okkur menningu og menningarneyslu, hún er þvílík lyftistöng öllu veljulegu fólki, og kemur í veg fyrir að fólk leggist í eitthverja lágkúru. En það er eins og allmargir átti sig ekki á að þeir neyta menningar alla daga, en tala síðan á móti henni og það af hörku á stundum. Listamenn eru kallaðir listaspírur, trúðar, og einhverntímann heyrði ég mann lýsa því yfir að það ætti að banna þetta klassíska væl í Ríkisútvarpinu..

Þessu fólki er fyrirgefið, af því það veit ekki hvar það væri statt án alls þessa, og er oft mestu neytendurnir án þess að gera sér nokkra grein fyrir því. 

 

 


Besti flokkurinn og besta fólkið

 

Var að lesa viðtalsgrein í Fréttatímanum við Jón Gnarr og Einar Örn Benediktsson, en greinin sú fékk mig virkilega til að hrökkva í kút.  Þar sem ég var stödd í Kína í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna og gat því ekki fylgst svo glatt með, fékk ég dálítið ranga mynd af því sem Besti flokkurinn stendur fyrir.

Ég hélt að þetta gengi allt út á að gera grín að kerfis- kerlunum og körlunum og lífga upp á borgina með allskyns skemmtilegum uppákomum. Þetta fannst mér kappnóg ástæða til að styðja þetta nýja ferska fólk, sem ullaði bara á kerfið án gamans og í..
Stefnuskráin fannst mér stórfyndin og finnst að mörgu leyti enn, en munurinn er sá að nú finnst mér hún líka stórmerkileg og falleg. Nú skil ég hvers vegna Dagur vildi taka þátt í samstarfi, og líka ýmsa hegðan borgarstjóra, sem mér fannst ansi furðuleg á köflum. 

Einlægni og sannsögli á greinilega ekki upp á pallborðið hjá stórum hluta borgarbúa og þess vegna snúast menn af þvílíkri hörku gegn borgarstjórninni. Að lúta valdinu virðist svo ríkt í huga okkar að við neitum að sjá þegar fram kemur afl, sem býður okkur með sér til góðra verka með heiðarleika, velvilja  og sannsögli að vopni.

Ég vona og bið að þeim félögum verði vel ágengt.  Það yrði bara alger nýnæmis sprengja ef "sjálfstæðisdýrkendurnir" í borgarstjórn smituðust, hættu að taka við skipunum úr Valhöll, og færu af tala af hjartans einlægni, ásamt því að segja satt, án þess að líta alltaf til valdsins um leyfi.

Ég fór fram á að flokkurinn, sá Besti, segði af sér, en ég tek það auðmjúk aftur í skjóli orða þeirra tvímenninga sem sem mér finnst að ásamt öðrum forsvarsmönnum Besta flokksins eigi heiður skilinn fyrir að nálgast þessi afdödkuðu og oft spilltu stjórnmál okkar á nýjan og mannlegan hátt. Ég áttaði mig ekki á  hvernig við lútum alltaf valdinu og valdboðum, og gleymum okkar eigin gildum. Takk fyrir að vekja mig, og áfram með smérið!
 
Gleymið samt ekki lögbundini framfærsluskyldu sveitarfélaga á erfiðum tímum, það er mál málanna í dag.

Utopia?

Gaman væri ef þetta væru einhverjar niðurstöður sem giltu til framtíðar. Bara eins og flestar mínar innstu hjartans óskir uppfylltar á einu bretti!
mbl.is Grunngildin skýrð á þjóðfundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig er að vera í Kína XIV

Áramótin IV                                                                                                    

AlbumImage[11]Rakarastofa, mjög venjuleg í þorpunum. Þarna býr eigandinn og sefur í flatsæng á nóttinni. Þetta er ekkert óvenjuleg íbúðarstærð, smá salernishola einhv.staðar á bakvið og ef heppnin er með, eldhúskrókur, annars er bara eldað fyrir utan og þar er alltaf vaskað upp.

Þetta er tekið á gamlársdag og þið getið séð áramótadinnerinn liggla á borðinu sem er úti á götu. Eigandinn að klára síðasta kúnnan áður en farið er í að undirbúa kvöldið

Á leiðinni, til baka niður fjallið, fór ég að hugsa, eitthvað gekk ekki upp í höfðinu á mér gagnvart yfirgefna syninum og föður hans. Hvers vegna var karlinn að æða með okkur í grenjandi rigningu og kulda, í  gamla húsið sitt þar sem hann geymdi þetta olnbogabarn sitt. Hvað rak hann til þess? Niðurstaðan af þeim hugleiðingum var, að einhversstaðar þarna innst inni voru etv. hlýrri tilfinningar en hann sýndi, og samvikubit, eða eitthvað mannlegt element sem ég átta mig ekki á.  Allavega tókst mér ekki að sýna manninum þá fyrirlitningu sem mér fannst hann eiga skilið. 

Þegar okkur hafði verið ekið að heimili hans aftur, fóru allir inn og skelltu í sig nokkrum tebollum,  Karlarnir fíruðu restinni af kínverjunum, sem tók dágóða stund, en þá var kallað matur!, einu sinni enn. Nú höfðu bæst við enn einn sonur karlsins,  með fallega konu, og son sinn, ásamt einhverju mjög huggulegu ungu fólki sem ég kann engin deilli á. Við vorum því miður aldrei kynnt fyrir neinum, það virðist ekki tíðkast. Ég get mér til að við höfum verið 40 eða 50 í borðstofunni og þétt var setið við stóru hringborðin tvö. 

Maturinn flæddi inn, þrjár eða fjórar mismunandi súpur, ásamt endalausum fisk, kjöt, og grænmetisréttum. Nú byrjaði sko gambeijið fyrir alvöru. Gambei er eins og íþrótt hjá kínverjum, sem flestir þola þó mjög takmarkað áfengi. Þeir grípa saklausa gesti, sem hafa ekki hugmynd á hverju þeir eiga von og gambeija þá. Fyrst stendur sá sem er í forsvari upp og gambeijar við einhvern sem búið er að velja sem fórnarlamb. Sá sem verður fyrir valinu, verður að drekka í botn með þeim sem skálar. Að neita að gambeija við gestgjafa sína þykir hræðileg mógun. Allir standa þeir upp, feður og synir , þó bara einn í einu og gambeija alltaf við sama manninn, sem þarf að drekka í botn í hvert sinn.
 

Að þessu sinni var John sá sem varð fyrir valinu. Aftur og aftur varð hann að standa upp og skála í botn, meðan hver hinna þurfti einungis að gera það einu sinni. John vinur minn stóð sig eins og hetja gagnvart fjölskyldu konunnar sinnar. Hann drakk svona ca. 15 – 20 sinnum í botn og þegar þeir héldu að hann væri alveg búinn á því, stóð hann upp og skálaði við hvern og einn aftur. Hreinlega skoraði þá á hólm og hlaut mikla aðdáun fyrir. Það sá ekki á honum vín þegar við kvöddum skömmu seinna, en þegar hann settist inn í bílinn þar sem farþegarnir samanstóðu eingöngu af  Zhong Yu og okkur Oddi, og hann gat slakað á, varð hann svo pissfullur, að hann steinlá alla leiðina til baka. Skal tekið fram að hann er alger hófdrykkjumaður. En John er þverasti maður sem ég þekki, ef svo ber undir, og hann hefði frekar dottið niður dauður en að láta sjá á sér vín, í þessari prófraun fjölskyldunnar.

Áður en við kvöddum var öll fjölskyldan kölluð saman og tekin ein allsherjar fjölskyldumynd. Ég var að vona að hún yrði komin, svo ég gæti látið hana fylgja þessum skrifum, en verð bara að skella henni inn þegar þar að kemur.. Á þrem stólum í miðjunni situr höfuð fjölskyndunnar, kameljakkinn, og við hliðina á honum Beggó og Oddur, en annað "óæðra" lið varð að stilla sér upp, standandi fyrir aftan okkur og til hliðanna. Ég hlakka rosalega til að fá myndina og vona að staðið verði við að senda okkur hana. 

Við fengum mikið lof og prís, þarna yfir kvölmatnum, fyrir hæð, gæsileika, og klæðnað $#//&%$)(/&%$=)(/ , ha,ha, ha og  við í samfestingunum, eins og ég var farin að kalla fötin okkar, sem ég álít bara hreina heppni að voru ekki farin að límast saman. Þetta endaði sem sagt með að við vorum kvödd með virktum og hlýju handabandi, ásamt því að vera boðin velkomin aftur hvenær sem okkur hentar. Förum við þangað aftur, verður það um sumar. Það get ég fullvissað ykkur, sem þetta lesa, um.

Síðasta nóttin var tíðindalaus. Við sváfum eins og staurar og rumskuðum ekki, þrátt fyrir allar dýnur, eða skort á þeim, kulda og kínverjasprengingar fyrir utan. Stukkum á fætur fullklædd þegar John kom, fölur mjög á kinn, kl. 9 morguninn eftir, því hann vildi endilega sýna okkur hús sem Mao formaður bjó í,  í nokkur ár. Hann leyndist þarna í fjöllunum þegar hann var að brjótast til valda, enda erfitt yfirferðar að leita hann uppi, áður en vegir voru lagðir um fjöllin, lögu seinna. Hann eða réttara sagt konan hans, eignuðust tvö börn þarna, en hann lét skilja þau eftir, þegar þau fóru, og hún sá þau aldrei aftur. 

Húsið sem þau bjuggu í, er stór, gæsileg villa, efst uppi í hlíð, með útsýni yfir dalinn sem bærinn stendur í. Einhver veslings auðmaður byggði þetta, en formaðurinn rak hann bara út og gerði húsið að herbækistöð. Ég tyllti mér aðeins á rúmið sem þau sváfu í og þakkaði mínum sæla fyrir að það var jafn grjóthart og mitt, annars hefði ég orðið virkilega spæld. Mao er afskaplega undarlegt fyrirbrigði í Kína nútímans, að mínu mati. Gamalt fólk dáir hann og sér ekki sólina fyrir minningu hans, en margt yngra fólkið fyrirlítur þennan mann, kallar hann fjöldamorðingja og annað þaðan af verra. Ég legg ekkert mat á þetta, til þess er ég of óupplýst um málavexti. 

Eftir að hafa skoðað þennan bústað formannsins, hittum við Zhong Yu, bara svona rétt til að kveðja og þakka fyrir okkur, en hún hafði farið að gröf afa síns um morguninn,  Rúsínan í pylsuendanum, áður en við fórum í rútuna sem ók okkur heim til Xiamen, var leiguhjólakerru ferðalag, frá hótelinu, að umferðarmiðstöðinni þarna í bænum. 

 Ökumaðurinn var kona, eins og flestir slíkir þarna, og hún steig hjólið, gíralaust, fast og örugglega, upp og niður brekkur. Ég var nærri köfnuð af áhyggjum þegar hún nálgaðist efsta toppinn á síðustu brekkunni. Þá var greinilega farið að draga af henni. Hún rétt hafði það af  að komast yfir síðasta  hjallann, en hefði einhver gengið í veg fyrir hana, hefði hún þurft að stoppa, og við að fara út, eða réttara sagt ofan, til að hjálpa henni að ýta hjólinu áfram, en við vorum svo krókloppin og stíf, eftir að sija grafkyrr í kerrunni, að sú hugsun var bara hreinlega óbærileg.  

Við kvöddum þennan ágæta stað kl. 12 á hádegi, á sama hátt og við heilsuðum, í rigningu og ískulda. Ferðin í rútunni var tíðindalaus, enginn hiti á miðstöðinni, fremur en annarsstaðar, en sætin þau þægilegustu sem ég hef tyllt mínum eðla afturhluta á, í almenningsvagni. Við steinsofnuðum bæði og sváfum alla leiðina heim. 

Ég gerði mér enga grein fyrir, fyrr en ég var komin heim, búin að fara í heitt bað og fá mér G&T í hönd, hversu dásamlega skemmtilegt þetta ferðalag var, og hversu þakklát ég er Zhong Yu fyrir að "kynna mig"  fyrir ættingjum sínum og leyfa mér að eyða með þeim áramótunum. Við erum  sammála um að þessi ferð gleymist aldrei.

Ég held það sé komið mál að linni, svona gæti ég haldið endalaust áfram án þess að skorta efni. Vona að þeir sem lásu hafi einhverja hugmynd um hvernig mér fannst að vera í Kína. Þér sem spurði þakka ég fyrir, vegna þess að mér hefur þótt verulega gaman að rifja þetta upp. Þætti  líka verulega gaman að vita hver þú ert og hvort þú hefur lesið alla pistlana. 


 


Hverrnig er að vera í Kína XIII

Kínversku áramótin III

 

AlbumImage[5] (2)

Ég held að enginn alki eða dópisti, hafi nokkurntímann þráð skammtinn sinn, eins og ég þráði heitt rjúkandi kaffi þennan fyrsta morgun nýs árs. Auðvitað var það borin von, því kaffi fæst ekki nema á örfáum vestrænum veitingastöðum í borgunum.

Ég gat þó yljað mér við tilhugsunina, smástund, áður en ég  ákvað að sýna af mér þann hetjuskap að afklæðast öllum fötunum, sem ég hafði á tilfinningunni að væru farin að gróa við mig, og láta mig síðan hafa  það að fara undir ískalda sturtuna, því ekki var neitt heitt vatn á þessu lúxushóteli okkar. Þegar til kom gat ég þó ekki, með nokkru lífsins móti, fengið líkamann til að hlýða höfðinu og þetta endaði með ísköldum kattarþvotti, sem ég skal þó viðurkenna að var allhressandi, svona eftirá, þegar ísinn fór að bráðna í blóðinu.

Raufjólublá á litinn, gvöð það fer mér svo illa, hófst ég síðan handa við að dulbúast, svo enginn sæi að þetta voru alltaf sömu fötin sem ég var í. Fyrst var það mohairpeysan, síðan svört, og sú röndótta yst. Guð hvað mér leið vel, nýþvegin fra top til to, í síðasta nærfatasettinu, tvennum þykkum sokkabuxum og tvennum legglífum undir gallabuxunum sem ég hreinsaði með blautu handklæði til að hressa aðeins upp á þær. Ég reyndi aldrei að fara í pilsið sem ég tók með, það hefði verið óðs manns æði og líklega valdið uppþoti að klæða sig svo glænepjulega :-D

Á slaginu 11 fh. komu gestgjafar kvöldsins áður, að sækja okkur, ásamt flestum gestanna, því þetta er jú allt sama familían. Við settumst upp í þrjá bíla og ókum sem leið lá, fram hjá beljuþorpinu, og síðan aftur ofar í fjöllin, ekið var  í sömu þéttu úðarigningunni, þannig að varla sá handaskil í u.þ.b. klst.

Þegar við komum að húsi elsta bróður fjölskyldunnar, stóðu 6 - 8 karlmenn úti, en þegar við stigum út úr bílunum var kveikt í heilli stæðu af kínverjum, okkur til heiðurs. Stæðu, ég meina STÆÐU! Hávaðinn var svo ærandi að ég var með hellu fyrir öðru eyranu allan daginn, og hef grun um að svo hafi verið um fleiri. Sprengjendurnir skemmtu sér þó konunglega, enda orðnir góðu vanir, því rauðu skaflarnir fyrir utan húsið voru af hærri gerðinni.

Þessu næst vorum við boðin að ganga í hús, ekkert smáhús, upp á fjórar hæðir og hver þeirra örugglega ekki minni en 300 ferm. Þetta var allt ein opingátt, en á borðum stóð heitt te og sælgæti í hrúgum. Enginn var kynntur fyrir neinum, fólkið, það sem þekktist, heilsaðist ekki með neinum sérstökum virktum, þó ekki væri það neitt kuldalegt hvert við annað. Við Oddur stóðum þarna gjörsamlega óáreitt, svona rétt eins og enginn tæki eftir okkur og biðum þess sem verða vildi. Þá tók einn bróðirinn sig út úr hópnum og rétti okkur sígarettur, Oddi þrjár, mér tvær. Við vorum rétt búin að kveikja í, þegar sá næsti kom og síðan koll af kolli, með smáhléum þó, þar til allir vasar voru fullir af tóbaki.

Nú var boðið til borðstofu og þá fyrst gekk húsbóndinn í salinn, mesti myndarkarl, dökkbrúnn á hörund og bar það greinilega með sér að hann hefur unnið hörðum höndum að velsæld dagsins í dag. Þar með upphófst átveisla sem sló öllu því sem á undan var gengið við. Það var setið við tvö gríðarstór hringborð og réttirnir flæddu yfir okkur hver af öðrum. Síðan kom Midjuið og nú upphófst eitt allsherjar gambei, allir skáluðu við alla og meira að segja ég stóð upp og gambeijaði við húsráðendur til að vera ekki síðri hinum, þetta líkaði þeim greinilega vel. Að vísu sá ég frúna aldrei, hún var alltaf í eldhúsinu, en þrír synir tóku hennar stað. Það skal tekið fram, að til sveita má eignast mörg börn, því þar er alltaf skortur á vinnuafli.

Eftir matinn ákváðum við, ásamt  John og Zhong Yu að fá okkur göngutúr, vopnuð stórum regnhlífum. Þetta er fremur lítið þorp, en nokkuð ríkmannlegt, þó sýndist mér hús gjestgjafa okkar stærst. Við höfðum gengið svona 100 metra þegar hann birtist, á sparifötunum, yfirhafnarlaus, en hann virtist sá eini sem ég sá í allri ferðinni, sem kuldinn virtist ekki hafa nein áhrif á, jafnvel þótt hann væri rennblautur í lappirnar. Sparskyrtan, flottur kamelullar jakki og blankskórnir báru þess merki, ásamt stórri, risastórri regnhlíf, að hér fór fyrirmaður og þeir geta greinilega ekki veitt sér þann lúxus að vera kalt.

Hann dró okkur á eftir sér meðfram löngum hrísgrjónaakri, ca 3 til 4 km. og þá fór að grilla  í hús. Við eltum hann allangan veg að einu þeirra. Hann óð inn í einhversskonar stóra forstofu og kallaði fullum hálsi  þar til kona ein lítil og grönn, með afbrigðum roluleg, jafnvel hrædd birtist.

Hann skipaði henni nokkuð valdsmannslega fyrir og innan tíðar kom hún með rjúkandi te, en fyrir voru hrúgaðir bakkar af sælgæti og ávöxtum. Allt í einu stóð ungur maður inni á gólfinu, án þess að ég sæi hann koma, skælbrosandi og óðamála mjög. Hann talaði á mállysku sem hvorki Zhong Yu eða Jonh skildu, en hvert þorp hefur sína mállýsku og enginn skilur neinn, nema talað sé mandarin, sem er hin opinbera kínverska. Skyndilega sá ég að þessi brosmildi, málglaði ungi maður var vangefinn, en alsæll að fá gesti. Fylgdarmaður okkar byrjaði að gefa honum einhverjar bendingar um að þegja, sem hvarflaði ekki að honum að gera, en hann er sá eini þar sem við komum í hús, sem tók okkur fagnandi við fyrstu sýn. Þökk sé honum.

Við höfðum gengið frá þorpshúsi þessa fylgdarmanns okkar, til borgarinnar og nú vorum við stödd í borgarhúsinu hans. Það var gríðarstórt, en að niðurlotum komið og skítugt eftir því. Þessi karl var svo ríkur að hann byggði bara nýtt hús í næsta þorpi þegar honum leist ekki lengur á blikuna, flutti með sér stórfjölskylduna, fimm syni og þrjár dætur og parkeraði frúnni í nýtt eldhús, eflaust alsælli, ásamt einhverju af tengdadætrum og barnabörnum.

Dæturnar voru ekki sjáanlegar, því þær voru allar giftar, fluttar að heiman og tilheyrðu þar af leiðandi nýrri fjöskyldu, fjölskyldu mannsins, og þar með orðnar eign hennar. Eiginkonur kínverja eru eiginkonur í orðsins fyllstu merkingu, þær eru eign mannanna og hafa ekkert um neitt að segja, nema maðurinn af örlæti sínu samþykki það. Engin furða að kínverskar konur ásælist erlenda menn, jafnvel 50 árum eldri.

Nú þreyttist maðurinn á að skipa þessum syni sínum, sem hann hafði skilið eftir í borgarhúsinu þegar hann flutti, að þegja og öskraði á hann, eldrauður í framan og ungi maðurinn hraktist frá um stund. Það virðist engum finnast neitt tiltökumál að hann var skilinn eftir þegar fjölsyldan flutti, ásamt þessari rolulegu tilsjónarkonu sinni, sem var honum þó greinilega góð.

Eftir að hafa drukkið teið stóð maðurinn upp og byrjaði að tala í símann og var mikið niðri fyrir. Greinlegt var að þarna var hann að stjórna einhverri aðgerð. Hann sagði að við yrðum við að bíða eftir að synirnir kæmu á bílum úr þorpinu, og nú yrði haldið að gröf föður þeirra bræðra, og elstu synir þeirra allra  kæmu líka.. Við biðum dágóða stund eftir þeim, en þegar við settumst inn í bílana var yfirgefni sonurinn kominn aftur, skælbrosandi og málglaður sem fyrr, en þó brá brosinu þegar ekið var burt, og hann skilinn eftir aleinn í rigningunni, þarna við húsdyrnar.

Leiðin lá upp í fjall eitt og bílunum lagt þar. Síðan gengum við í grenjandi rigningu upp leðjukenndan leirstíg, einhveja par hundruð metra uppímóti, þar til komið var að grafhýsinu. Ég hefði sprungið hefði ég þurft að ganga skrefinu lengra, en nú var mér þó orðið sjóðheitt.

Grafhýsið var skærbleikt að lit, með stórri verönd og allt flísalegt að utan sem innan með allskyns blóma, fiska og fuglamyndum. Inni fyrir var fallegt altari með Búddalíikneski, og í krigum það var raðað allskyns táknrænum hlutum og fórnargjöfum, svo sem fallegum skeljum og allskyns glingri. Karlarnir og synir þeirra voru allir kampakátir, greinilega stoltir mjög og hlógu mikið, það var sko ekki aldeilis nein fýla á ferðinni þarna þrátt fyrir stífa serimóníu. Fyrst var kveikt á kertum og ljóskerjum, síðan á nokkrum tugum reykelsisstanga, sem loga upp undir sólarhring, og okkur réttar þrjár til fjórar á mann.

Við stóðum fyrir utan meðan þessu fór fram, en nú steig Kameljakkinn innfyrir, hneigði sig tvisvar og tautaði eitthvað, kom reykelsum sínum fyrir í keri við fótstall Búdda, en síðan gerðu allir karlarnir það sama í réttri goggunarröð, eftir aldri. Að lokum kom að okkur. John hinn trúlausi fór fyrstur og  síðan Zhong Yu. Oddur benti mér að fara á undan sér, karlarnir urðu svolítið skrítnir á svipinn eitt augnablik, en sögðu ekkert.

Þar sem ég er hvorki búddatrúar eða veit hvað þeir sem hana stunda hugsa á svona stundum, hallaði ég mér bara einu sinni fram og hugsaði, guð hvað mér er kalt, síðan beygði ég mig aftur og hugsaði megi friður fylgja þeim sem hér hvíla, og svo beygði ég mig í þriðja sinn og hugsaði, eða tuldraði upphátt  Viltu góði guð hugsa um þennan einmanna vangefna mann, sem var skilinn eftir aleinn og var ekki nógu góður fyrir fjölskylduna. Að lokum  bætti ég við í Jesú nafni, signdi mig, stakk niður reykelsinu og fílaði mig eins og hálfvita í þessari undarlegu situasjón. Þetta var léleg frammistaða miðað við samúðina sem ég hafði með manninum, en þó það eina sem ég gat gert í stöðunni. 

Oddur fór síðastur inn. Hann stóð þarna án þess að bukta sig, stakk reykelsunum varlega en vandlega niður, sneri sér síðan við og horfði á alla viðstadda með fallegt en dauft bros á vör. Þetta var eitt af þeim augnablikum sem ég veit hvað ég elska hann mikið.

Þetta er nú að verða allmikil langloka en ég ætla að ljúka henni á morgun. Þið ráðið hvort þið nennið að lesa þetta allt, en ég er haldin óþrjótandi ritgleði og veð bara áfram, þar til ferðinni lýkur.

 


Að líta undan

Eru stjórnvöld virkilega svo slöpp að þau geti eða vilji ekki sinna þéim sem minnst mega sín. Væri ekki ráð að sveitarfélögin ath. líka sinn gang í þessum málum.

Það þarf að taka  flækjuna sem kallast stjórnarheimilið og greiða úr henni. Ef hún er orðin óhrein, tætt og illa farin þarf bara að gera það sama og á öðrum heimilium, þ.e. taka til og þrífa. En hvað þá um börnin á heimilinu, það er ekki hægt að láta eins og þau séu ekki til, þeim þarf jú að sinna, meira að segja á meðan allt er í skít og drasli.

Verkefni nr. 1 hjá stjórnvöldum ætti að vera að sjá til þess að fólk fái að borða og ekkert múður. Góðgerðarfélög og hjálparstofnanir ættu ekki að þurfa að koma þar að nema um stórkostlegar náttúruhamfarir eða annað slíkt væri að ræða. Hvar eru allar þessar nefndir og ráð sem eiga að sjá um þessa hluti. Eru þær sofandi eða bara alveg sama? Við höfum ekki efni á að hafa þannig fólk í vinnu, hvorki á stjórnarheimilinu eða í borgarstjórn. 

Mér finnst líka orðið óhæft að fulltrúar Besta flokksins sitji bara á grínstólunum sínum með borgarstjóra í farabroddi og hafist ekkert að, annað en að leika aula. Þarna er t.d. heilmikið af peningum að fara í súginn. Mér er búið að finnast þetta fyndið hingað til, en nú er mál að linni. Hætta skal leik þá hæst hann stendur! Víst tekst þeim að gera borgina skemmtilegri og betri ef þeim tekst að skapa fegurra mannlíf, mannlíf sem felst í því að fólkið fái að borða.

Forgangur nr. 1, sjáið til þess að fólk fái að borða, án þess að þurfa að skammast sín fyrir að hafa komist í þá aðstöðu að þurfa hjálp. Burt með allar niðurlægingarbiðraðir!

 


mbl.is Deila á matargjafir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig er að vera í Kína XII

 

 

Áramótin kínversku II

Ég sýndi af mér þann hetjuskap að stökkva fram úr rúminu í fullum herklæðum, eins og Gunnar á Hlíðarenda forðum. Að vísu stökk hann hæð sína, alvopnaður, eins og ekkert væri og sló mér alveg við. Það er bara ansi þægilegt að þurfa ekki einu sinni að klæða sig, bætti þó á mig dúnúlpunni góðu og hlýnaði bara nokkuð vel, smástund.

Síðan læddist ég fram, til að vekja Odd ekki, og fór að leita að morgunverðar borðstofu. Við höfðum nefnilega fengið miða í afgreiðslunni sem hljóðaði upp á frían morgunverð til reynslu. Ég þyki nú ekki matvönd, en mér leist bara ekkert á allar hinar mismunandi tegundir af slími sem var þarna í stórum skálum, ásamt einhverskonar ólseigum hrísgrjónabúðingi, sem var svo þéttur að það var virkilega erfitt að skera hann með beittum hníf. Hann límdist síðan fastur inni í munninn, svo ég gafst upp og fékk mér heitt te.

Við áttum nokkra banana í poka á heberginu og þeir voru morgunverðurinn alla þrjá morgnana, ásamt tebolla sem við gátum lagað sjálf. Það var eins og helgiathöfn að drekka það, norpandi þarna í kuldanum.

John kom og sótti okkur, því við vorum boðin í hádegisverð hjá sama fólkinu og áður, en nú var tekið á móti okkur með björtum svip og örlaði jafnvel fyrir smábrosi. Eftir hann, fengum við Oddur okkur langan göngutúr eftir að hafa verið boðið aftur og enn, til þessara gestrisnu hjóna, en núna var það áramótadinnerinn sem skyldi snæddur kl. 6 um kvöldið.

Þegar þarna var komið sögu voru sprengingarnar byrjaðar á fullu gasi og ekki heyrðist mannsins mál fyrir þeim. Fullorðnir menn og unglingar gjörsamlega slepptu sér í þessu og magnið var svo mikið að það mynduðust eins og háir snjóskaflar af rauðum pappír, sem skothylkin voru gerð úr. Þetta rigndi allt niður og þegar við fórum heim var þetta bara eins og þéttir rauðir hólar, út um allt. Ótrúlegt enn satt, og hávaðinn maður! Ein og ein raketta sást á himni, en þær voru nú hálf litlar og óspennandi fyrir þá sem hafa séð rakettugeðveikina á Íslandi.

Þessi gamla fallega brú á myndinni liggur í gengum bæinn og á henni eru um sextíu ljósker sem eru árituð með öllum kínversku ættarnöfnunum, en þau eru ekki feiri en þetta.                                                                                    

                                                                                                                                                       

AlbumImage[10]

Eftir göngutúrinn lögðum við okkur í klukkutíma, í öllum fötunum og fórum síðan að hafa okkur til fyrir kvöldverðinn. Þar sem við vorum í öllum tiltækum fötum, ákvað ég bara að fara bara úr og raða þessu á mig aftur í annarri röð. Núna var hlýja góða móhairpeysan mín innst, næst kroppnum, önnur röndótt þarnæst, og svo svört yst, og þarna gerðist undrið, mér fór að hlýna. Þegar ullin var komin innst og hitt yfir. hélst líkamshitinn bara jafnheitur og þó ég fyndi alltaf fyrir kuldanum, var þetta bara ólíkt líf..

Við gengum síðan í boðið, farin að rata gegnum þröngu göturnar, Oddur vafinn í trefla og peysur, en ég í dúnúlpunni góðu yst fata. Oddur fékkst aldrei til að fara í sína mohairpeysu næst sér,. fannst það eitthvað asnalegt, svo það endaði bara með að ég gafst upp á að suða í honum. Mikið held ég hann hafi verið feginn.

Jæja, við gengum þarna í gegnum þorpið, en nú var allt þagnað, engir kínverjar að springa, hvorki af þessum heimi, né púðurs og hvellhettna. Grafarþögn ríkti, ekki nokkur maður á ferli, en inn um opnar dyr þess sem var verslun um daginn, var allsstaðar búið að ryðja söluvörunni upp að vegg, draga fram borð, kveikja á kertum, heilu stófjölskydurnar sátu þar þétt saman, með litu skálina sína og prjónana, kappklædd og  snæddu saman hátíðarmáltíð ársins, en engin ljós loguðu nema á kertunum. Yfir þessu hvíldi þvílík helgi og friður, að við bara hreinlega steingleymdum hversu kalt var. Ég formaði ekki að taka myndir, það hefðu verið alvarleg helgispjöll.

Þegar við komum í boðið var bróðir húsbóndans og fjölskylda hans komin á undan okkur, ásamt nokkrum vinum hjónnanna. Þarna var alveg það sama uppi á teningnum, allir sátu í úlpum og treflum við kertaljós og meira að segja hjónin sem stóðu hlið við hlið, við gaseldavélina, elduðu við kertaljós. Ég var svo imponeruð að ég gat bara í hvorugan fótinn stigið, þetta var svo yndislega rómantískt og hátíðlegt. Allur maturinn sem hafði legið þarna frammi daginn áður, ásamt endalausu öðru var borið á borð, en við höfum verið u.þ.b. 20 kringum tvö borð, og hann bragðaðist guðdómlega, sjóðandi heitur og ljúffengur og ekki skemmdi hið "tradisionella" Midju stemmninguna..

En þá gerðist það! Guð minn almáttugur, rafmagnið kom á, og helbláu kínversku ljósaperurnar fóru að skína af allri sinni hræðilegu líkhússbirtudýrð. Allir stukku upp til handa og fóta til að slökkva á kertunum alsælir með að þurfa ekki að hafa það svona kósý lengur. Þetta var eins og ísköld vatnsgusa á hana litlu rómantísku mig, sem hélt að þetta væru helgisiðir en ekki ískalt, órómantískt rafmagnsleysi  Allt í einu fór allt af stað fyrir utan, kínverjarnir byrjuðu að springa, fólk að æpa, og eins og þeir myndu segja á ensku "all hell broke loose".

Samkvæmt hefðinni fóru allir heim eftir smá tesopa, mandarínur og heimboð í næsta þorp daginn eftir, til að hitta aðra fjóra bræður húsbóndans og fjölskyldur þeirra. Við óðum rauðu skaflana á leiðinni til baka og vorum komin heim um kl. 10.

Það var ekkert við að vera á hótelinu og hebergið kaldara en ísskápur, þannig að við skelltum okkur bara undir sængina einn góðan gang, fullklædd. Oddur bara steinlá, því hans heppni er að geta bara tekið úr sér heyrnartækin og slökkt á umhverfinu. Ég bylti mér á fjölinni og kom ekki blundur á brá, fyrr en undir morgun, fyrir hávaðanum sem var eins og stanslaus sprengjugnýr í stríðsmynd.

AlbumImage[9] 

Því miður gleymdist hleðslutækið fyrir myndavélina heima, þannig að engar myndir af kertaljósastemmningunni eða því sem á eftir kemur eru til, en ég læt bara nokkrar aðrar flakka, eins og þessa sem mér finnst ansi góð. Kærustupar?

Skal tekið fram að í Xiamen eru öll mótorhjól bönnuð, ásamt bílflauti. Allstaðar annarsstaðar þar sem ég kom eru þau leyfð og mengun af hávaða og útblæstri yfirþyrmandi. Xiamen er ein af þrem minnst menguðu borgum í Kína.

 

 

frh.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband