Hvernig er að vera í Kína XII

 

 

Áramótin kínversku II

Ég sýndi af mér þann hetjuskap að stökkva fram úr rúminu í fullum herklæðum, eins og Gunnar á Hlíðarenda forðum. Að vísu stökk hann hæð sína, alvopnaður, eins og ekkert væri og sló mér alveg við. Það er bara ansi þægilegt að þurfa ekki einu sinni að klæða sig, bætti þó á mig dúnúlpunni góðu og hlýnaði bara nokkuð vel, smástund.

Síðan læddist ég fram, til að vekja Odd ekki, og fór að leita að morgunverðar borðstofu. Við höfðum nefnilega fengið miða í afgreiðslunni sem hljóðaði upp á frían morgunverð til reynslu. Ég þyki nú ekki matvönd, en mér leist bara ekkert á allar hinar mismunandi tegundir af slími sem var þarna í stórum skálum, ásamt einhverskonar ólseigum hrísgrjónabúðingi, sem var svo þéttur að það var virkilega erfitt að skera hann með beittum hníf. Hann límdist síðan fastur inni í munninn, svo ég gafst upp og fékk mér heitt te.

Við áttum nokkra banana í poka á heberginu og þeir voru morgunverðurinn alla þrjá morgnana, ásamt tebolla sem við gátum lagað sjálf. Það var eins og helgiathöfn að drekka það, norpandi þarna í kuldanum.

John kom og sótti okkur, því við vorum boðin í hádegisverð hjá sama fólkinu og áður, en nú var tekið á móti okkur með björtum svip og örlaði jafnvel fyrir smábrosi. Eftir hann, fengum við Oddur okkur langan göngutúr eftir að hafa verið boðið aftur og enn, til þessara gestrisnu hjóna, en núna var það áramótadinnerinn sem skyldi snæddur kl. 6 um kvöldið.

Þegar þarna var komið sögu voru sprengingarnar byrjaðar á fullu gasi og ekki heyrðist mannsins mál fyrir þeim. Fullorðnir menn og unglingar gjörsamlega slepptu sér í þessu og magnið var svo mikið að það mynduðust eins og háir snjóskaflar af rauðum pappír, sem skothylkin voru gerð úr. Þetta rigndi allt niður og þegar við fórum heim var þetta bara eins og þéttir rauðir hólar, út um allt. Ótrúlegt enn satt, og hávaðinn maður! Ein og ein raketta sást á himni, en þær voru nú hálf litlar og óspennandi fyrir þá sem hafa séð rakettugeðveikina á Íslandi.

Þessi gamla fallega brú á myndinni liggur í gengum bæinn og á henni eru um sextíu ljósker sem eru árituð með öllum kínversku ættarnöfnunum, en þau eru ekki feiri en þetta.                                                                                    

                                                                                                                                                       

AlbumImage[10]

Eftir göngutúrinn lögðum við okkur í klukkutíma, í öllum fötunum og fórum síðan að hafa okkur til fyrir kvöldverðinn. Þar sem við vorum í öllum tiltækum fötum, ákvað ég bara að fara bara úr og raða þessu á mig aftur í annarri röð. Núna var hlýja góða móhairpeysan mín innst, næst kroppnum, önnur röndótt þarnæst, og svo svört yst, og þarna gerðist undrið, mér fór að hlýna. Þegar ullin var komin innst og hitt yfir. hélst líkamshitinn bara jafnheitur og þó ég fyndi alltaf fyrir kuldanum, var þetta bara ólíkt líf..

Við gengum síðan í boðið, farin að rata gegnum þröngu göturnar, Oddur vafinn í trefla og peysur, en ég í dúnúlpunni góðu yst fata. Oddur fékkst aldrei til að fara í sína mohairpeysu næst sér,. fannst það eitthvað asnalegt, svo það endaði bara með að ég gafst upp á að suða í honum. Mikið held ég hann hafi verið feginn.

Jæja, við gengum þarna í gegnum þorpið, en nú var allt þagnað, engir kínverjar að springa, hvorki af þessum heimi, né púðurs og hvellhettna. Grafarþögn ríkti, ekki nokkur maður á ferli, en inn um opnar dyr þess sem var verslun um daginn, var allsstaðar búið að ryðja söluvörunni upp að vegg, draga fram borð, kveikja á kertum, heilu stófjölskydurnar sátu þar þétt saman, með litu skálina sína og prjónana, kappklædd og  snæddu saman hátíðarmáltíð ársins, en engin ljós loguðu nema á kertunum. Yfir þessu hvíldi þvílík helgi og friður, að við bara hreinlega steingleymdum hversu kalt var. Ég formaði ekki að taka myndir, það hefðu verið alvarleg helgispjöll.

Þegar við komum í boðið var bróðir húsbóndans og fjölskylda hans komin á undan okkur, ásamt nokkrum vinum hjónnanna. Þarna var alveg það sama uppi á teningnum, allir sátu í úlpum og treflum við kertaljós og meira að segja hjónin sem stóðu hlið við hlið, við gaseldavélina, elduðu við kertaljós. Ég var svo imponeruð að ég gat bara í hvorugan fótinn stigið, þetta var svo yndislega rómantískt og hátíðlegt. Allur maturinn sem hafði legið þarna frammi daginn áður, ásamt endalausu öðru var borið á borð, en við höfum verið u.þ.b. 20 kringum tvö borð, og hann bragðaðist guðdómlega, sjóðandi heitur og ljúffengur og ekki skemmdi hið "tradisionella" Midju stemmninguna..

En þá gerðist það! Guð minn almáttugur, rafmagnið kom á, og helbláu kínversku ljósaperurnar fóru að skína af allri sinni hræðilegu líkhússbirtudýrð. Allir stukku upp til handa og fóta til að slökkva á kertunum alsælir með að þurfa ekki að hafa það svona kósý lengur. Þetta var eins og ísköld vatnsgusa á hana litlu rómantísku mig, sem hélt að þetta væru helgisiðir en ekki ískalt, órómantískt rafmagnsleysi  Allt í einu fór allt af stað fyrir utan, kínverjarnir byrjuðu að springa, fólk að æpa, og eins og þeir myndu segja á ensku "all hell broke loose".

Samkvæmt hefðinni fóru allir heim eftir smá tesopa, mandarínur og heimboð í næsta þorp daginn eftir, til að hitta aðra fjóra bræður húsbóndans og fjölskyldur þeirra. Við óðum rauðu skaflana á leiðinni til baka og vorum komin heim um kl. 10.

Það var ekkert við að vera á hótelinu og hebergið kaldara en ísskápur, þannig að við skelltum okkur bara undir sængina einn góðan gang, fullklædd. Oddur bara steinlá, því hans heppni er að geta bara tekið úr sér heyrnartækin og slökkt á umhverfinu. Ég bylti mér á fjölinni og kom ekki blundur á brá, fyrr en undir morgun, fyrir hávaðanum sem var eins og stanslaus sprengjugnýr í stríðsmynd.

AlbumImage[9] 

Því miður gleymdist hleðslutækið fyrir myndavélina heima, þannig að engar myndir af kertaljósastemmningunni eða því sem á eftir kemur eru til, en ég læt bara nokkrar aðrar flakka, eins og þessa sem mér finnst ansi góð. Kærustupar?

Skal tekið fram að í Xiamen eru öll mótorhjól bönnuð, ásamt bílflauti. Allstaðar annarsstaðar þar sem ég kom eru þau leyfð og mengun af hávaða og útblæstri yfirþyrmandi. Xiamen er ein af þrem minnst menguðu borgum í Kína.

 

 

frh.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband