Færsluflokkur: Bloggar
4.11.2010 | 10:25
Hvernig er að vera í Kína XI
Erum hér í febrúar á þessu ári, en við vorum boðin til Hakka sem er hérað í norður Fujian. Ferðin er með öllu ógleymanleg fyrir ýmissa hluta sakir, en svarar líka spurningunni, "Hvernig er að vera í Kína" mjög vel.
"Ár tígursins er gengið í garð hérna fyrir austan Himalayafjöllin. Hvað okkur snertir, gerðist það alláþreifanlega í þetta sinn. Við vorum boðin með John vini okkar og Zhong Yu konunni hans, eða Phoebie eins og hún heitir á ensku, til Langyan á Hakkalandissvæðinu, eins og John segir alltaf. því hann er stóráhugamaður um íslensku og alveg að drepa mig með löngum háfleygum setningum sem hann ofhleður hátíðlegum orðum, að heimsækja móður hennar og fjölskyldu sem þar búa. Ókum því af stað á nýja BMWinum hennar Phoebiar í prýðis veðri, og hlökkuðum mikið til að sjá allt stórkostlega fjallaútsýnið á leiðinni.
Þegar komið var yfir Hatichang brúna byrjaði að rigna, og rigna og rigna o.s.frv. Á leiðinni sáum við ekkert nema tvær sjoppur, þar sem stoppað var til að pissa og smóka, þarna förlaðist John ofurlítið en þetta eru hans orð. Við ókum þó vongóð um betri tíð í fjórar klst. þar til við komum í bæ sem heitir eflaust einhverju góðu nafni og er næsti bær við þann sem leiðin lá til.
Phoebie segir að fólkið þar sé aldrei kallað annað en kýrhausarnir og bærinn sjálfur beljubærinn. Þetta er af því að börnin þar eru látin drekka útþynnt kýrblóð í bernsku, líklega sökum fátæktar og skorts á kjöti. Við þurftum að taka bensín þarna innan um rusl og sorp, sem lá eins og hráviði um allt, en þetta er sóðalegasti staður sem ég hef séð hingað til og hef þó séð ýmislegt af því tagi víða um lönd.
Okkur var sagt að fólkið væri jafn ógestrisið og fruntalegt og ruslið væri mikið, og ég fékk smjörþefinn af því þegar ég fór út úr bílnum að taka myndir af allsérstökum reiðhjóla leiguvögnum sem koma í stað bíla og ökuönnunum sem voru alveg kappdúðaðir ásamt einum herlögreglumanni sem virtist vera að frjósa úr kulda, kominn í hálfan frakkann, en síðan gefist upp.
Allt í einu sá ég Phoebie hlaupa inn í bílinn sem Oddur var sestur inn í. Í sama vetfangi greip John í mig og hvíslaði, svo ákveðið að ég hlýddi umyrðalaust, komdu strax inn í bílinn. Síðan greip hann í handlegginn á mér og hálfhljóp af stað, ýtti mér inn, stökk á eftir og skellti hurðinni, bíllinn þaut af stað og þá sá ég að stórt gengi af mótorhjólaköppum var u.þ.b. að umkringja okkur.
Ég ætlaði, en átti eftir að taka myndir af þeim, því þeir voru svo margir að ég hafði tekið sérstaklega eftir því og hávaðinn yfirþyrmandi. Hefði ég ekki verið með kínverskumælandi fólki hefði ég líklega verið barin. Einhver hafði kallað, við viljum engar myndatökur, hættu - annars berjum við þig. Ég er ekki alveg viss um að mig langi til að koma þarna aftur. Á þessum tímapunkti var orðið allkalt, eins og sá á fólkinu, kannski vill það bara hasar til að halda á sér hita.
Við ókum sem leið lá á leiðarenda u.þ.b. 20 mín upp fjöllin þar til við komum til Wong Ting, en þar er Phoebie fædd. Byrjuðum á því að tékka okkur inn á hótelið sem var bara all þokkalegt og kostaði ekki nema 120 yuan nóttin en það er um fimmtungur af verði samskonar gistingar hér í Xiamen.
Einn galli var þó á gjöf Njarðar, því þar var engin kynding og alveg ískalt og hitinn kominn niður á frostmark með 95% raka. Okkur var tjáð að ekkert hótel þarna utan eitt hefði kyndingu, en það var alveg stappfullt og engin von um herbergi. Við klæddum okkur því bara í allt sem við vorum með af fatnaði og gengum í áttina að heimili gestgjafa okkar í kvöldverð.
Byrjuðum öll á því að kaupa okkur ullarvettlinga, en þeir, regnhlífar og kínverjar (þessir sem eru sprengdir), í öllum stærðum og gerðum, virtist eina söluvaran á þessum næstsíðasta degi ársins hérna í Kína. Gengum síðan í gegnum borgarhlið elsta hluta bæjarins og allt í einu var eins og þú værir komin mörg hundruð ár aftur í tímann.
Húsin öll lágreist, undurfalleg, en mörg að falli komin, göturnar þröngar, engin bílaumferð en því meira af fólki sem þurfti að komast leiðar sinnar með aðdrátt áramótanna í fanginu., komst þó varla áfram fyrir urmul af reið og mótorhjólum. Það var tekið að dimma og út um opnar dyrnar sást inn í húsin, en þar voru ýmist litlar verslanir, heimili, lítil hof, eða jafnvel hárgreiðslu og rakarastofur ásamt allskyns öðru sem of langt yrði að telja upp.
Við gengum í gegnum þetta allt og eftir að hafa beygt ótal sinnum vorum við stödd í götunni sem ferðinni var heitið í, en þar eru nýrri hús og töluvert hærri. Þarna hefur allt verið rifið og byggt nýtt, eftir að eldri húsin gáfust upp fyrir tímans tönn, en eins og allstaðar annarsstaðar er engu haldið við þarna.
Phoebie gekk fyrst innfyrir og heilsaði mömmu sinni og stjúpföður, sem voru klædd úlpum og treflum og hún með stóra svuntu yfir því öllu, svona rétt eins og hún væri að koma inn eftir að hafa skroppið frá í smástund, síðan kinkuðu þau kolli til Johns, eins og hann væri einhver dindill aftan í henni. Þegar kom að okkur voru þau farin að sýsla í eldhúsinu og létu eins og við værum ekki þarna. Guð minn góður, hvað erum við komin út í hugsaði ég, við erum bara alls ekki velkomin, standandi þarna eins og illa gerðir hlutir, skjálfandi af kulda, enda komið 2ja° frost.
Phoebie og John virtust ekkert láta þetta á sig fá, buðu okkur inn í stóra stofu sem var inn af nokkurskonar porti sem var fullt af mat, en þar lágu nýslátraðar hænur, allskyns innmatur og kjöt, stór fiskur synti um í vaskafati, grænmeti, og ávextir voru þarna líka í bunkum á stóru borði. Vatnspóstur var á miðju gólfi, greinilega notaður til að dæla upp vatni til matartilbúnings. Stofuborðið var fullt af allskyns sælgæti og smákökum ásamt hinu ómissanlega tei sem landsmenn drekka í tíma og ótíma, en þarna verð ég að segja að tesopinn, sjóðheitur, var kærkominn.
Ég hugsa að ég hafi drukkið svona tíu bolla hið minnsta, enda eru kínverskir tebollar á stærð við það sem við köllum dúkkbollastell á Fróni. Þarna sátum við og skulfum og þömbuðum te sem mest við máttum, enda jafn ískalt þarna inni eins og annarsstaðar, þar til húsmóðirin stóð í dyrunum og sagði stutt og laggott, matur! Það var ca. hálftíma síðar.
Við gengum inn í gríðarstórt eldhús og þar sauð og kraumaði í pottum og pönnum. Hjónin stóðu hlið við hlið í eldamennskunni og nú birtist hver rétturinn á fætur öðrum á borðinu. Húsbóndinn kom með fulla tinkönnu af Midju, þessum dásalmega þjóðardrykk þeirra í Hakkalandi , hellti í glös og sagði "gambei" en það þýðir skál í botn.
Það læddist svona smábirta fyrir brjóstið á manni, og okkur tókst að ná í matinn með skjálfandi krumlunum, og það með prjónum. Prjónar og ein lítil skál er sá borðbúnaður sem þekkist best á kínverkum alþýðuheimilum, jafnt hjá ríkum og snauðum, ásamt tissuepakka, en það er óspart notaðað til að þurrka munn og hendur. Í þessu tilviki einnig til að snýta sér hressilega inn á milli. Borðdúkar, annað prjál og óþarfi þekkist bara ekki..
Eftir að hafa borðað nægju okkar af ótal réttum og þrennskonar súpum og drukkið margar könnur af midju vorum við orðin nokkuð vel haldin , en þá voru gestgjafarnir líka orðnir málglaðir og brosmildir. Húsbóndinn er þekktur þar um slóðir fyrir að reykja ekki, drekka ekki og spila ekki fjárhættuspil, en þetta þykir allt eiginlega sjálfsagt þarna.
Eftir að hafa þó drukkið allvel með okkur af midjuinu og blótað þar með á laun, stóðu allir upp, því hér gilti eins og annarsstaðar reglan, koma, borða, fara, voru gestgjafarnir orðnir afslappaðir og brosmildir, búnir að skoða vel og og láta sér bara vel líka gestirnir, sem voru sama sinnis um þá, og hættir að finnast þeir óvelkomnir.
Frúin hvarf smástund, en kom þó fljótl. aftur með stóran plastpoka fullan af hlýjum fötum okkur til handa. Stóra vatteraða dúnkuldaúlpu á mig og hlý ullarnærföt á Odd. Þetta átti eftir að bjarga lífi okkar í framhaldinu, því hvergi nokkursstaðar þekktist að hita upp húsin.
John gekk með okkur heim á hótelið og sagðist helst óska sér að vera kominn heim til Xiamen, til að vígja nýja trébaðkarið sem þau höfðu keypt sér daginn áður og skríða upp í heitt bólið hjá sinni heittelskuðu. Ég skildi hann vel, þar sem hann stóð gegnkaldur með sultardropann í nefinu og átti eftir að ganga alla leið til baka. Þetta var um korters gangur hvora leið, og Jonh er með grennri mönnum.
Við fórum afurámóti upp á herbergi og skelltum okkur undir sængurnar í flestöllum fötunum og fundum varla fyrir því vegna kulda, að í rúmunum voru kínverskar dýnur, sem eru alveg eins í útliti og vestrænar, nema þú liggur á tréfjöl sem er fest undir áklæðið og fjölin hvílir á stífum gormum. Hvers vegna verið er að hafa fyrir að gera þessar dýnur er mér fyrirmunað að skilja. Því er ekki bara sofið á rúmbotninum, það er alveg eins? Við sváfum í einum dúr til morguns og vöknuðum ekki fyrr en upp var runninn gamlársdagur, jafn ískaldur og sá á undan.
Framhald á morgun.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.11.2010 | 13:57
Trú eða trúleysi
Hvernig er hægt að blanda svona saman trú og kirkjunni eins og margir hafa gert undanfarið. Það að sækja kirkju er ekki endilega trú og það að trúa kallar ekki endilega á kirkjusókn. Fólk hefur lýst yfir trúleysi og sagt sig úr þjóðkirkjunni vegna hneykslismálanna sem hafa komið upp meðal kirkjunnar þjóna og víst eru þau skelfileg.
Vonandi tekst að stöðva þessa óáran, vekja aftur traust á kirkjunni sem stofnun, þar sem þeir sem áhuga hafa geta komið saman óáreyttir, óhræddir og sáttir við guð og menn. Allir sem vilja, vita að innan kirkjunnar starfar fjöldi presta af heilindum og góðmennsku.
En þetta kemur bara trúnni ekki við nema að litlu leyti, því trúin er innra með fólki og einhverjir afvegaleiddir prestar geta engin áhrif haft á hana. Að lýsa yfir trúleysi vegna þess að kikjunnar menn bregðast, er bara uppgjöf og sýnir nánast ekkert nema tækifærismennsku.
Hugsið vel áður en þið lýsið ykkur trúlaus, Hver veit nema það komi að því að þið þurfið á trú að halda, hvaða nafni sem hún nefnist, og þá er gott að hafa ræktað hana með sér. Ekki veitir af á þessum tímum óöryggis og sviptinga.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
2.11.2010 | 16:17
Hvernig er að vera í Kína X
Kínamúrinn ásamt Feneyjum og Hollywood var bernskudraumurinn. Feneyjar sá ég um fimmtugt og Kínamúrinn rétt nýorðin 67 ára. Hollywood getur bara átt sig héðan af, enda löngu gleymd og grafin.
Síðasta morguninn okkar í Peking skruppum við, ég meina skruppum, til að skoða Forboðnu borgina enda tíminn orðinn naumur. Þarna áttaði maður sig í raun og veru á glæsileika Ming tímabilsins, því hún hefur fengið að standa óhreyfð í tímans rás undir stöðugu viðhaldi og er eins og það sem enn stendur frá þessum tíma breathtakingly beautiful. Að vísu fær maður ekkert að sjá, nema það sem utandyra er, en rigning og kuldi jók ekki beinlínis á viðveruna þarna.
Þetta er löng ganga í gegnum mörg hlið, því fyrsti keisari þessa tímabils var alveg eins og hinir, sem á undan voru og eftir. Hann áleit sig nafla alheimsins og byggði því borgina í miðju þessa alheims sem hann lét reikna út og hefur örugglega þurft til þess mikla útreikninga, landmælingar og fyrirgefið mér, þvælu, til þess að það mætti lukkast. Á núllpunktinum voru vistarverur hans sem enginn fékk að koma í nema hann, svakalega hefur verið gaman hjá honum!
Peking byggðist síðan smám saman upp út frá þessu og skiptist í hverfi eftir mannvirðingarstigum, aðalsmenn og ættingjar og í austur og vestur við Forboðnu borgina og allir hinir í norður og því norðar sem þeir voru lægra settir. Auðvitað bjó enginn fyrir sunnan nafla alheimsins, þeas.í suður innan borgarmúranna sem hann lét reisa, því varla hefur verið hægt að elta vitleysuna út yfir öll þjófamörk.
Þetta er þó eini staðurinn af öllum þeim mannvirkjum sem ég hef séð og lýst, þar sem lifandi fólk bjó, utan hallarinnar á Torgi hins h........friðar að ég best veit, byggðist þó upp á nákvæmlega sama hátt og grafhýsin, pupullinn að fyrsta hliði og síðan fækkaði þeim sem höfðu aðgang snarlega, þar til komið var að innstu sellu, þar sem hann hlýtur að hafa setið ósköp einmanna blessaður karlinn. Það er örugglega ekki auðvelt að vera nafli alheimsins.
Ég vorkenni þó meira konunum hans sem ekki voru álitnar færri en 300. Þær voru færðar til borgarinar og fengu aldrei að fara þaðan aftur, þó þær fengju sumar aldrei augum litið þennan ástmann sinn, sem eftir málverkum og gömlum teikningum að dæma var hinn mesti rindill og í raun alveg stórhlægilegur. Þarna þurftu þær að dvelja ævina út, með reyrða fætur og til þess að fá einhverja hreyfingu, af því það var þröngt á þingi eða í búri, höfðu þær kaðla til að príla í og láta reyna á aðra vöðva líkamans en fæturna, svo þær fengju ekki blóðtappa og dyttu niður steindauðar áður en ástmögurinn mikli birtist, ef hann þá birtist á annað borð. Jæja stelpur, var einhver að kvarta?
Þetta er svosem allt sagt án ábyrgðar en þó með bestu vitund. Eitt verð ég þó að taka fram, að Ming keisari hlýtur að hafa verið ákaflega klókur maður. Áður en hann færði sig úr innstu sellu í þá næstu fyrir framan til að hitta ráðgjafa sína, sem flestir voru geldingar, því hverjum öðrum var treystandi fyrir þessum 300 konum, flestum í kynsvelti, og þegar hann þurfti að skreppa af bæ, kallaði hann þá yfir í helgidóminn, þe. innsta hring. Þakið hafði hann látið gera með stórum opnanlegum gluggum, gólfið með háglansandi gullhúð og spegla í loftinu.
Hann kallaði aldrei á þá nema í sólskini og var þá í gulum fötum, með gluggana opna og þegar sólin skein inn á gullgólfið og endurkastaðist á speglana lýstist hann upp í gullnum ljóma. Þarf nokkur að efast um áhrifin sem þetta hefur haft á karlagreyin, að sjá alvald tilverunnar í gullnum ljóma með stóran geislabaug? Eigum við ekki bara að segja, að hafi einhver þeirra reynst laungr.... hafi hann örugglega misst alla náttúru á stundinni við þessa, geislandi sýn, þegar keisararindillinn breyttist allt í einu í guðlega veru.
Það er nú það, ég hef séð, eins og ábyggilega mörg ykkar, myndir af þessu öllu innandyra, en engum er hleypt þarna inn í dag, þannig að maður er í sömu stöðu og pupullinn forðum og verður bara að standa utandyra og gera sér í hugarlund hvernig þetta var og er nú alltsaman. Þó hefur nútímafólk það forskot að fá að ganga í gegn um öll hliðin og virða þetta fyrir sér, sem er vel þess virði. Þessa borg í borginni, ásamt öllu því sem inni er, létu Mao og hans menn í friði, guði sé lof".
Þá er komið að Kínamúrnum. Ég vissi svosem á hverju ég átti von, annað er ekki hægt eftir 60 ára þráhyggju, að lesa og dreyma um að komast einhverntímann til að sjá hann. En tilfinningin - hún er ólýsanleg einhverri meðaljónu frá Íslandi sem fær augum litið og að stíga upp á þetta ótrúlega afrek sem múrinn er. Það greip mig þvílíkur fídonskraftur að ég prílaði upp einar 300 misháar steintröppur, margar allt að 50 cm. háar og komst í gegn um þrjá varðturna áður en ég mundi að ég var búin að vera að drepast í bakinu í marga daga, draghölt og skökk. Mikill er máttur þinn Múr.
Útsýnið þegar svo hátt er komið er ákaflega fallegt og kínverskt. Niðri sér á þökin á bóndabæjum og öðrum húsum, þessi dæmigerðu fallegu þök sem eru eins og litlir svartir miðar þarna lengst niðri, síðan gróðurinn í fjallshlíðunum og upp úr þessu stendur svo múrinn, óralangur og hlykkjast um fjöllin eins og eilífðin sjálf Þennan dag bar hann við bláan og heiðskíran himin Það veit sá sem allt veit að ég varð ekki fyrir vonbrigðum.
Svo mörg voru þau orð, en sjaldan hef ég orðið eins þakklát og sæl innra með mér, eins og þegar ég stóð á fjallstindi uppá sjálfum Kínamúrnum og leið örugglega eins og guði almáttugum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.11.2010 | 11:23
Narr Gnarr
Nú gleðjast andstæðingar borgarstjórans, en væri ekki ráð að bíða og sjá myndina í heild, því þetta er ekkert annað en hinn alkunni moggatætlu útúrsnúningur. Það er ótrúlegt hvað þetta fyrrum víðlesnasta blað landsins nennir að eltast við að klippa allt í sundur algerlega húmorslaust og birta eins og aðalfrétt. Etv. er það þess vegna sem þeir eru ekki stærstir lengur.
Mér finnst "klippið" að vísu bráðfyndið, þó ekki sé víst að bloggvini mínum einum finnist það sama .
Frumsýning á myndbút úr Gnarr | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
1.11.2010 | 18:27
Hvernig er að vera í Kína IX
Ég hélt sýningu á mósaikverkum, mest speglum og stórum skálum. Hún var vel sótt og allt seldist á fyrstu þrem dögunum. Hér koma lýsingarnar sem ég bloggaði, bara nokkuð ánægð með sjálfa mig. Þarna var ansi gaman að vera í Kína.
Þetta er allt komið í gang og Beggó hinn stórkostlegi mósaiklistamaður, hefur stigið fram á sviðið og situr hér virkilega auðmjúkur - og aldeilis - virkilega skelþunnur. Það hvarflaði aldrei að mér hversu góð tilfinning það er að slá bara hreinlega í gegn. Á dauða mínum átti ég von - en ekki þessu. Klukkan fimm opnaði sýningin og fólkið byrjaði að koma, að vísu ofurrólega og frú listamaðurinn fór gjörsamlega á taugum og hélt að það kæmu ekki fleiri, því það var verið að frumsýna kvikmynd á sama tíma, en upp úr sex byrjuðu lætin og fólkið streymdi inn.
Það komu vel á annað hundrað manns jafnvel rúml. það á opnunina og dýrasti spegillinn seldist eftir ca. 5 10 mín. og sama fólkið keypti líka skál. Þetta voru eigendur Sheraton hótelsins, en það er nýjasta hótelið hérna. Þau komu fyrst til að geta valið á undan hinum. Það sem seldist var allt það dýrasta, og þó ég segi sjálf frá var alveg ofsa hrifning með litlu mig - "ef mig skyldi kalla". Það er ekki alveg á hreinu hversu mikið er selt, en það kemur í ljós á næstu dögum. Eitt er þó ljóst að við erum búin að fá fyrir húsaleigunni og uppihaldinu í sex mánuði og vel það. Það er rosalega skrítin tilfinning að speglarnir mínir séu að fara inn á amerísk, þýsk og kínversk millaheimili. Maður er bara að verða eins og einhver tískuvörukerling.
Manninum sem á íbúðina okkar var boðið, og hann mætti með alla fjölskylduna. Þau brunuðu í gegn um þetta og flýttu sér út aftur, þáðu ekki einu sinni veitingar, þeim lá svo á. Ég var pottþétt á því að þeim fyndist lítið til koma. En viti menn, hálftíma seinna var karlinn, sem er tæplega áttræður, kominn aftur sprengmóður með eldri bróður sinn, ca. hálfníræðan og æddi að speglinum sem seldist fyrst og þeir áttu einhver orðaskipti. Síðan sagðist hann ætla að kaupa gripinn.
Því miður var hann seldur, en ég hélt að karlanginn myndi bara fara að gráta. Þá benti hann á annan spegil, en þá hristi stóri bró bara hausinn, og ekki orð um það meir í þeim bræðraranni. En málið er bara þetta, að samkv. kínverskri hefð ræður elsti karlmaðurinn í fjölskyldunni öllu og velsjötugur maðurinn myndi aldrei voga sér að kaupa sér spegil, að vísu rándýran á þeirra mælikvarða, án þess að sýna þessum áttræða hann - og fá leyfi, jafnvel þó hann sé forríkur, og gæti þess vegna keypt sér marga spegla. Það er ekkert sem heitir tækifærið gríptu greitt í viðskiptum, þegar alltaf þarf að hlaupa heim og sækja pabba eða stórabróður. Þessi stóribróðir var að vísu ekkert stór, allur samfallinn og krumpaður og komst varla úr sporunum.
Þetta varð alveg rosalega skemmtilegt kvöld, allir dokuðu lengi við, og Elín, Rúnar og vinur þeirra Hans frá Kanada spiluðu og sungu við góðar undirtektir. Um miðnættið fórum við svo á næturklúbb og ég dansaði af miklum móð til kl. fjögur, enda orðin ansi létt ad öllu kampavíninu og bara hreinlega í sigurvímu. Þá skelltum við okkur út að borða. Hér eru margir staðir sem hafa opið alla nóttina. Komum heim klukkan um sex, og ég er ennþá rangeygð út af öllum litlu körlunum sem eru að smíða inni í höfðinu á mér eins og í akkorði séu.
Námskeiðin hefjast á morgun. Það fylltist á þau, þannig ég er bara í góðum málum. Sýningin verður opin til jóla, svo að ég get alltaf bætt í skörðin ef einhver ætlar að gefa þetta í jólagjöf. Nú er bara að fara snemma í rúmið og láta sig dreyma um frekari landvinninga. Lifið heil.
Ég fékk fínar umsagnir í blöðunum, viðtöl og myndir af verkunum. Þetta var allt voða gaman eins og ég sagði í upphafi. Maður verður nú líka að monta sig aðeins.
frh.
Bloggar | Breytt 2.11.2010 kl. 17:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.11.2010 | 11:19
Hvernig er að vera í Kína VIII
Eitt hugtak virðist ekki vera til í Kína, en það er lofthræðsla. Ég hlýt að hafa óvenjulega sterkt hjarta að horfa á þessa lofthræðluleysishegðun fólks án þess að detta bara niður dauð af skelfingu.
Við bjuggum á þrettándu hæð en ræstikonan okkar, vílaði sér ekki við að fara út um stofuglugann (alveg) og standa þar á ca. 5 cm breiðri álímdri graníthellu, alveg flughálli, og halda sér lauslega í gluggapóstinn. Þarna teygði hún sig eins langt og hún náði og hamaðist mjög við þvottinn. Í fyrsta skipti sem hún gerði þetta, brá mér alveg rosalega og augsýnilega og þá tók hún bakföll af hlátri en ég settist bara niður titrandi og skjálfandi og þakkaði mínum sæla fyrir þetta sterka hjarta.
Um daginn var verið að skipta um ljósadót sem hangir hér á öllum húsum, en rætnar tungur segja að þetta sé vegna þess að bróðir borgarstjórans á stórt rafmagnsfyrirtæki, og voru nokkrir gaurar hangandi utan á 14 hæða húsinu hérna a móti, í einhverskonar kaðli, grönnum mjög. Neðst var kaðlinum brugðið utan um smá spýtu og handhnýtt lauslega og á þessu sátu mennirnir við vinnu sína.
Á þakbrúninni alveg fremst stóð maður og hallaði sér alltaf fram til að fylgjast með þeim við vinnuna og þegar þurfti, ýmist hífði hann eða slakaði þeim upp eða niður. Festingin efst var þannig að bandinu var vafið í tví- eða þrígang utan um handriðisræfil sem á ábyggilega að vera einhv.konar öryggisgirðing, en enginn virðir.
Þegar hann þurfti að hífa og slaka losaði hann einfaldlega bandið og gerði þetta allt með handafli og hnýtti síðan einhverskonar lykkju að verkinu loknu. Mennirnir héngu sallarólegir eg létu sér ekkert bregða. Eins gott að enginn þeirra haldi við konu hífarans og hann komist að því. Eg persónulega fæ bara sting í nárann þegar ég hugsa um þetta. Nóg af svo góðu."
Nú skulum bregða okkur í göngutúr. Að þessu sinni liggurleiðin niður í miðbæinn sem er í kringum höfnina. Þetta er ákaflega skemmtileg gönguleið og margt að sjá. Stór hluti leiðarinnar er í gegnum gamalt hverfi og þar eru litlar verslanir á báða bóga.
"Þessar verslanir eru allar eins og opnir básar út að götunni. Þarna gætir ýmissa grasa og kemur nú upptalning af því helsta, en tekið skal fram að þetta eru allt sérverslanir, hver með sína vöru. Grænmetisbúð, ávaxtabúð og eru þær allmargar. Rusla og flöskumóttökur, þar sem fólk er að flokka ruslið sem er af öllum toga, og þarna er verið að reyna að pranga inn á þig notuðum ljósaperum, gömlum rafmagnssnúrum, notuðum nöglum, spýtnarusli af öllum toga og allskyns öðru góssi. Það sem ekki tekst að selja til baka, er sett í endurvinnslu.
Næst kemur kannski lítill veitingastaður sem selur allskyns dumplings en þeir eru ákaflega vinsælir, nánarst eins og bæjarins bestu hjá okkur, ásamt ormum sem eru seldir í litlum hlaupbollum með mism. sterkum sósum. Þetta er æðislega gott - oftast. Ein búð með plastfötur og bala, önnur með rúmdýnur og þriðja selur handklæði. Næst kemur síðan píulítið skot, þar sem skósmiður gerir við skóna þína meðan þú bíður, tebúð, stimplabúð, sem býr líka til hvers kyns stimpla eftir pöntun. Svo kemur lítil og umkomulaus saumakona sem saumar listavel á eldgömlu fótstignu saumavélina sína ,en tekið skal fram að langflestar saumakonur, og þær eru margar út um allt, nota handsnúnar vélar. Saumavélar af íslenskum standard þekkjast ekki. Þessar saumakonur, sem hafa enga fasta vinnu, sitja oft með vélina sína fyrir utan litla vefnaðarvöruverslun, þú ferð inn, velur efni og hún saumar á staðnum.
Þarna eru alveg endalausar listaverkabúðir, sem selja allskyns myndlist og útskurð, og alveg urmull af listmálarabúðum, sem selja allt sem til þarf til þeirrar iðju. Þarna fást litir af öllum gerðum, sumir stundum orðnir dálítið harðir en penslarnir maður minn, þeir eru af öllum stærðum og gerðum úr ekta hári og kosta, afsakið orðbragðið, skít á spýtu.
Þarna innan um eru alltaf öðru hverju litlir, eigum við að segja syndastaðir, og held ég að það sé oftast einmenningsútgerð. Stúlkurnar eru eins mismunadi og þær eru margar og standa þær oftast í húsasundinu heima hjá sér, sem er alltaf bæði þröngt og skítugt. Raftækja og verkfærabúðir. Búðir sem selja allskyns gúmmíborða, vír og málmplötur. Er nú aðeins fátt upp talið, en fjölbreytnin er ótrúleg.
Þar sem ég var stödd inni í einni litabúðinni og var í óðaönn að skoða, heyrðist í Oddi, hann er nú all aðgangsharður þessi. Ég var eitthvað upptekin af sjálfri mér og fylgdist ekkert með framhaldinu, en sá Odd, svona útundan mér, reyna að losna við karlinn sem lét ekki segjast. Þegar ég hafði lokið erindinu héldum við áfram og karlinn elti. Hamaðist hann nú heldur betur við sölumennskuna, þar sem við vorum orðin tvö. Ég reyndi aftur og aftur að reka hann í burtu, með engum árangri.
Karl var með poka yfir öxlina, og nú spurði ég minn mann Hvað er í fj. pokanum. Slanga, sagði hann, rólegur að vanda. Slanga, át ég upp eftir honum og í því dreif karl upp stóra slöngu og veifaði henni framan í okkur. Upphófst síðan þvílíkur orðaflaumur um ágæti vörunnar, að ég held, - að við vorum bara orðlaus.
Hann hætti ekki þrátt fyrir að ég setti upp svipinn, sem dugar þó oftast og Oddur reyndi margoft að ýta honum burt. Nú var svo komið að ég var farin að hugsa hvar getum við geymt slönguna! - Guð minn góður hugsaði ég allt í einu, er ég orðin vitlaus kaupa slöngu. Það var eins og himnafaðirinn hefði heyrt til mín, því allt í einu gafst karlinn upp og gekk burt, alveg rosalega sorry á svipinn. Sektarkennd, það veit ég ekki, en eitthvað fékk mig til að vorkenna honum alveg ógurlega. En fari það í heitasta, maður getur ekki tekið að sér slöngu, sem gæti jafnvel drepið mann, bara af því einhver verður svona rosalega sorry í framan".
Það er nú það!
frh.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.10.2010 | 00:33
Hvernig er að vera í Kína VII
Ég ætla að tala aðeins um feðraveldið í Kína í þetta sinn, en konur ráða ekki rétt miklu svona yfirleitt. Elsti karlmaðurinn í beinan karllegg ræður yfir öllum í fjölskyldunni, allir hlýða honum. Næst honum er svo elsti sonurinn ef hann á fleiri en einn og svo koll af kolli. Konan hefur eflaust einhver völd en það eingöngu innan veggja síns heimilis. Það er mjög algengt að karlar eigi sér viðhöld og þykir svo sem ekkert tiltökumál að sýna sig opinberlega með þeim, enda algeng sjón. Karlar leiða yfirleitt ekki konuna sína, bara viðhaldið eða eigum við að segja hjákonuna. En heima stjórnar konan því sem hún fær að stjórna og leiðir þetta allt hjá sér.
Ef synirnir ætla eitthvað að bardúsa, svona eins og að stofna fyrirtæki, kaupa sér íbúð eða bíl, ræður pabbi gamli öllu og enginn gerir neitt nema með hans samþykki. Þetta á við, hvort sem þeir eru í heimahúsum eða harðgiftir og búnir að stofna fjölskyldu. Þegar faðirinn hættir að vinna, er það skylda elsta sonar (oftast er þó bara einn sonur samkv. reglunni um eitt barn) að sjá um foreldra sína, það sem eftir er. Þetta veldur því að allir vilja eignast son og dætur eru hálfgerð olnbogabörn hjá mörgum.
Það er lenska, þegar barn fæðist í fjölskyldunni og er strákur að haldin er stórhátíð. Drengnum eru færðar stórgjafir, gríðarleg matarveisla haldin, með öllu tilheyrandi og allsherjar húllum hæi. Ef það er hinsvegar stelpa er bara te og smákökur, örfáar frænkur koma, ódýrar gjafir og móðirin situr uppi með skelfilega sektarkennd.
Vesalings drengirnir eru undir alveg rosalegu álagi ,allt frá fæðingu, því allir foreldrar vilja veg þeirra sem mestan, góða menntun og háskólanám, því drengurinn þarf vinnu, góða vinnu, - á jú að sjá fyrir þeim í ellinni. Mér er sagt að sjálfsmorðstíðni hjá unglingum sem ekki geta risið undir námskröfum foreldranna sé rosalega há hérna. Stelpurnar verða hinsvegar bara að reyna að giftast vel eins og það er víst kallað.
Meira um karlaveldið. Ef synirnir eru fleiri en einn, ræður sá eldri skilyrðislaust, þetta er svo slæmt, að kona yngri bróður þarf að þjóna þeim eldri þegar hann kemur í heimsókn á allan hátt. Setja hann í fótabað og nudda aumingja þreyttu fæturna hans, þó hann sé etv. óþreyttur, en hún búin að vinna langan vinnudag. Það liggur við að hún þurfi að borða fyrir hann, en ekki held ég þó að hún þurfi að þjóna honum til sængur.
Það sem mér finnst hræðilegast við þetta er, aðfaðir sem á son sem vinnur og býr í annarri borg en hann, getur tekið barn sonarins og farið með það heim með sér, ef honum sýnist svo og meinað ungu foreldrunum að hitta barnið nema einu sinni á ári. Bara ef honum sýnist svo, jafnvel þó foreldrar þess geti ekki flutt til sömu borgar og karlinn, því atvinna liggur ekki á lausu í þessu landi og foreldrarnir verða að borga með barninu og foreldrum mannsins - þó þeir séu svona grimmir við þau.
Þetta er flókið og erfitt kerfi, sem ég held að verði ekki auðvelt að breyta, hefðin er svo óralöng og óhagganleg. Þetta hefur valdið hræðilegri sorg hjá mörgum þessara ungu foreldra, sem geta ekkert gert í málinu. Þeim er bannað að eiga fleiri börn, nema þau taki alla ábyrgð og kostnað á sig, í sambandi við alla samfélagslega þjónusu, læknishjálp og skólagöngu - og það er dýrt, fyrir utan að það er ekkert hlaupið að því að fá barnsburðarleyfi. Aðeins forríkt fólk hefur efni á því.
Dæturnar þurfa síðan, þegar þær giftast, að hugsa um foreldra mannsins og bræður hans, en enginn hugsar um foreldra hennar, það verða þeir bara að gera sjálfir, ergo enginn vill eignast dóttur.
Það er stundum erfitt að vera útlendingur í landi sem er svona gjörólíkur menningarheimur og geta ekkert gert, þetta bara hreinlega kemur manni ekkert við og enginn myndi kæra sig um að maður skipti sér af því. Þess vegna reyni ég bara að hugsa ekki um það, enda best fyrir alla, að ég held. Sinn er siðurinn í hverju landi og það hvarflar oft að mér hvað gott ég á að vera ekki kínversk, þegar þetta allt er haft til hliðsjónar.
Myndin sem fylgir er af ósköp venjulegri matvöruverslun.
frh.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.10.2010 | 12:14
Hvernig er að vera í Kína VI
Hér fylgja lýsingar á ferðalagi til Xian og Beijing, en við ferðin var farin á ísköldum vetrardögum í mars 2007. Myndir: Hinn þögli leirher, 2000 ára gamall hershöfðingi.
Nú skulum við hverfa tvö þúsund og tvöhundruð ár aftur í tímann og aðeins rúmlega það. Hér var við völd fyrsti keisari Kína og einn af þeim mikilvægustu, fæddur 259 f.k. Hann hét Qin Shiuang. Við hann er kennt fyrsta keisaratímabilið í Kína, Qin tímabilið sem stóð þó aðeins í 12 ár.
Qin var hermaður mikill og lagði undir sig lendur víðar og átti í stöðugum landvinningaerjum við Mongóla sem bjuggu í norðri. Hann hafði um sig nánast óvígan her, tugi þúsunda manna, sem hann lét gera stöðluð spjót, 6 feta löng, en þá var ekkert mál að lagfæra það sem bilaði. Í dag finnst manni allt svona fullkomnlega eðlilegt, en í þá daga var það meiriháttar uppgötvun og gjörbreytti allri hermennsku, því áður voru spjótin af öllu tagi flest heimasmíðuð og gæðin eftir því.
Qin óttaðist ekkert eins og dauðann og leitaði alla sína ævi að lífselexir sem gæti gert hann eilífan. Til vara ákvað hann, eins og allir keisarar á eftir honum, að byggja sér grafhýsi, þar sem hann gæti ráfað um eftir dauðann, því hann trúði því að sálin myndi lifa áfram í gröfinni. Þetta grafhýsi sem er gríðarstórt stendur falið í litlu felli, en hefur ekki verið grafið upp ennþá, því hér er allt gert í réttri röð og það tiltölulega nýfundið.
Fellið stendur undir háum fjallgarði, Svörtufjöllum, gríðarlega fallegum, en þau loka öllum aðgangi að fellinu að norðan og austan. Þau eru mjög auðug af jade að sunnan og gulli að norðan. Þetta áleit hans hátign að veitti meiri vernd. Fyrir sunnan þennan ægifagra legstað hans liggur stórelfur sem lokaði allri aðkomu þeim megin. En í vestur stóð allt galopð og óvarið af náttúrunnar hendi. Karlinn var ekki lengi að sjá við því og þar kemur leirherinn til sögunnar.
Hann lét gera 8000 leirstyttur, nákvæma eftirmynd bestu hermanna sinna í fullri og hárrétti líkamsstærð hvers þeirra.. Þetta var gert af mikilli natni, mótað, brennt og málað í nákvæmum litum, okkur hundruð hesta, heilmikið af skjöldum, vögnum og í raun öllu sem fylgdi alvöruher á þessum tíma. Mér finnst mjög athyglisvert hversu hávaxnir hermennirnir voru, sá lágvaxnasti 1,74 og þeir hæstu 1,97. Þeir snúa allir í vestur, til að sjá óvininn þegar hann nálgaðist. Allir eru þeir í fullum herklæðum með brynjur og vopn, sumir krjúpandi en aðrir uppréttir og mjög auvelt að sjá hvaða tign þeir höfðu eftir einkennisbúningum og höfuðbúnaði.
Þeir hávöxnustu, allir herforingjar, miðstærðin - óbreyttir og þeir lægstu, hestasveinar eða stallarar. Hestarnir af ýmsum toga, vagnhestar og reiðhestar, greinilegir mongólskir gæðingar sem minna mjög á íslenska hestinn, fremur litlir en víst ákaflega fótvissir þarna í fjöllunum.
Þarna var líka lítill vagn úr kopar og gulli, með fjórum hestum fyrir, það voru litlir gluggar svo sálin gæti litið út og fengið sér hreint loft og að aftan lítil hurð, til að skreppa út ef svo bar undir. Þarna var sérsmíðuð sól og regnhlíf sem var tækniundur miðað við tímana sem hún varð til á, koparspegill og koparvasaklútur svo hans hátign væri ekki ósnýttur að þvælast um, á sálnaflakki sínu þarna neðanjarðar.
Þegar hann dó á ferðalagi 50 ára gamall, var hann lagður til hinstu hvílu í grafhýsinu og allar konurnar sem hann átti og voru barnlausar, grafnar lifandi með honum, ásamt handverksmönnunum sem unnu stytturnar og öllum hermönnunum sem stytturnar voru af, alls um 9000 manns. Hermennirnir voru að vísu settir í fjöldagröf lifandi, einhverjum 500 metrum frá fellinu og fundusr leifarnar af þeim fyrir örfáum árum.
Þetta var gert til þess að ekkert fréttist af þessum framkvæmdum keisarnas og þegar allt var komið á sinn stað var grafið yfir. Þetta var undir sterkbyggðu þaki með ca. metersbreiðum bitum í þvermál og sterku þakefni, en betur má ef duga skal og smám saman hefur þetta gefið sig og hrunið yfir þennan þögla her, sem beið óvinarins æðrulaus og keikur, þrátt fyrir að allar fyrirmyndirnar væru myrtar á hræðilegan hátt, af þeim sem þeir voru að vernda.
Síðan liðu rúmlega 2000 ár, allt til ársins 1974, en þá voru nokkrir bændur að reyna að bora eftir vatni og komu niður á leirflögur og spjótsodda. Þeir tilkynntu þetta yfirvölum sem brugðust bæði skjótt og vel við, fengu sína bestu menn í verkið og tveim árum seinna opnaði þetta víðfermasta safn í Kína og líklega í heimi, hlið sín fyrir almenningi. Þegar þar var komið sögu var búið að grafa upp 2 3000 hermenn, en verkinu er langt frá lokið, 2000 manns í það minnsta og fullt af hestum en ennþá neðanjarðar og þeir sem hafa verið grafnir upp meira og minna lemstraðir, eftir að þakið gaf sig. Það er mikil viðgerðarvinna í gangi, unnin af fullkominni nákvæmni, öll smábrot og flísar sett á sinn stað þar til ekkert vantar. Þetta er jú allt þarna.
Yfir safnið hafa þeir byggt stóra, rammgerða og fallega skála, þar sem auðvelt er að skoða þetta alltsaman. Í dag er safnið verndað af Heimsminjasafni Sameinuðu þjóðanna. Mér er ekkert auvelt að meðtaka þetta, svona í einum bita, þegar maður veit um alla þá viðurstyggilegu grimmd sem þessu var framfylgt af. Þó er þetta svo stórkostlega stórt í sniðum og ægifagurt.
Það liggur við að ég voni, að hermennirnir hafi allir gengið aftur og ofsótt sálu keisarans og hún aldrei þorað að kíkja út um gluggana á vagninum, hvað þá að skreppa út til að snýta sér.
Við komum til Peking um hádegisbilið í kulda og rigningarúða og tékkuðum okkur inn á hótelið sem er mjög vel staðsett í miðborginni. Þegar búið var að orientera sig aðeins, tókum við Oddur tókum okkur alllangan göngutúr að Torgi hins himneska friðar. Þetta er um fjögurra km. spölur eftir sömu götunni,
Gangan tók okkur hátt í tvo tíma en þá komum við að tveim gríðarstórum hliðum, eins og það er kallað, undurfögrum, eins og allt það gamla í þessu landi er. Þetta eru gamlir varðturnar, til að fylgjast með óvinaherjum og vernda keisarana, en pupullinn fékk aldrei að fara lengra en að þeim, skítt með að láta brytja niður nokkur þúsund manns fyrir utan ef í það færi. - Að baki þeim liggur svo torgið sjálft.
Það er alveg ólýsanlega undarleg tilfinning að koma þangað á grámyglulegum ísköldum vetrardegi, allt mannlaust, utan nokkurra sölumanna sem voru að selja flugdreka, þetta virkaði allt í svart - hvítu Svo gríðarstórt er þetta í sniðum, með stóra gamla höll í miðjunni og görðum í kring um hana.
Torgið sjálft er hellulagt og alveg af einföldustu gerð, þó ummálið sé mikið, nokkrir fallegir ljósastaurar í kring en engir bekkir til að sitja á eða neitt í þeim dúr og engin merki um mannlíf af neinu tagi. Það nísti í gegn um merg og bein að ganga um og hugsa til atburðanna sem þarna gerðust svo tilt. nýlega og sjá kúlnagötin sem eru ennþá sjáanleg í stéttinni. Þetta er svo hrikalega stórt, fallegt, einmannalegt og sorglegt.
Við fórum út að borða um kvöldið, fengum frábæra, ja hvað haldið þið? Þessi var erfiður: Pekingönd! - ásamt ýmsu öðru góðgæti og hef ég ekki borðað svona mikið í langan tíma, þó ekki hafi ég beinlínis verið talin í svelti hérna".
Skal tekið fram að ég er enginn sagnfræðingur, en allar færslur eru samkv. bestu vitund og uppl. frá leiðsögumanni í Xian.
frh.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.10.2010 | 11:22
Dauðans della
Er ekki kominn tími til að snúa svokallaðri kvenréttindabaráttu upp í mannréttindabaráttu, með áherslu á jafnrétti á öllum sviðum og bræðralag milli kynja. Kvótaskipting milli kynja er þvílíkt rugl að hún hljómar eins og uppgjöf og á ég þá t.d. við kosningarnar til stjórnlagaþings.´
Svokallaðar lýðræðislegar kosningar með 50% sætaskiptingu á hvort kyn, hætta að vera lýðræðislegar þegar slíkt er ákveðið fyrirfram. Er forysta kvenna virkilega svo óánægð með sig að hún treysti landsmönnum ekki til að kjósa þá frambjóðendur sem þeim líst best á, burt séð frá af hvaða kyni þeir eru. Ef þær konur sem í framboði eru höfða til almennings, sem vænlegar til greindarlegrar hugsunar við vinnu sína, munu þær ná kjöri, og jafnvel ná fleiri sætum en karlarnir og visa versa.
Setjið nú upp og hengið á ykkur kynjagleraugun margumtöluðu sem liggja allvíða frammi, og þið munuð sjá að baráttan til jafnréttis kynjanna er að ganga af sjálfri sér dauðri með svona dauðans frekjustússi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.10.2010 | 19:18
Hvernig er að vera í Kína V
Ég reyni að minnast á sitt lítið af hverju sem við upplifðum í þessu nýja og algerlega ólíka umhverfi sem við vorum allt í einu dottin inn í. Upphafið að dvölinni þarna var heimsókn til krakkanna okkar, sem langaði til að skoða heiminn og reyna fyrir sér í leiðinni með að reka veitingastað sem lifibrauð og tónlistarflutningi. Við heilluðumst svo af landi og þjóð að við ákváðum bara að gera það sama, utan tónlistarinnar, enda ekki rokkarar af guðs náð. Það sem hér fer á eftir er frá 2007 - byrjunar 2008.
Fyrsta verslunarferðin okkar hér var í gríðarstóra verslun, sem sérhæfir sig í öllum vörum og búnaði fyrir hótel, Þarna keyptum við allt sem við þurftum í þessa dásamlegu íbúð sem við höfum. Til þess að versla þarna þarftu að vera á vegum einhvers fyrirtækis. Þar sem þetta er eina verslunin sem selur evróskan mat og krydd verður venjuleg kona frá Íslandi að stofna fyrirtæki á staðnum og helst auðvitað að vera alveg svakalega merkileg á svipinn á meðan.
Ég leit, þegar ég var spurð, alveg ísköld í framan á manninn og sagði bara Beggó Group, og þar með er ég komin í hóp með Bónusfeðgum og þeim öllum. Bara smásvindl eða þannig og maður er nánast kominn með mikilmennskubrjálæði að vera heilt Group. Ekki það að feðgarnir séu neinir svindlarar, vinir fáfæka mannsins og margdæmdir saklausir af öllu slíku. Það er nánast guðlast að nefna þá í þessu sambandi.
Hér ferðast allir sem vettlingi geta valdið á reiðhjólum eða leigubílum, auðvitað eru almenningsvagnar, en þar sem maður kann ekkert í málinu og getur þess vegna ekki lært á vagnana verður útslagið oftast leigubíll eða bara tveir jafnfljótir, allavega á styttri vegalengdum, og ég sem hef alltaf notað bílinn minn sem yfirhöfn á Íslandi. Skal tekið fram að það er enginn leikur að segja hvert skal halda, því enginn skilur neitt nema kínversku. Ráðið er því að hringja í einhvern kínverskan vin og biðja hann um að tala við bílstjónann.
Semsagt, leigubíllinn er oftast ferðamátinn hérna að reiðhjólunum undanskildum. Þetta er mjög þægilegt, því það er alltaf nóg af leigubílum og þeir kosta yfirleitt 8 10 yuan sem er uþb. 90 kr. íslenskar, strætó heima stenst engann samanburð, því bílarnir taka eins marga og hægt er að troða inn í þá með góðu eða illu. Við sáum ma. 8 kínverja koma út úr einum í gær. Þeir tíndust út hver á eftir öðrum og ætluðu aldrei að hætta. Ég hef grun um að við rithöfundurinn höfum verið orðin ansi langleit þegar runan stoppaði. Ég þorði ekki annað en að stinga hausnum inn og ath. statusinn áður en ég settist sjálf. Maður er ekkert sérstaklega fyrir að kremja litla sæta kínverja undir sér svona rétt fyrir kvöldmat.
Fyrst þegar ég kom hingað, hélt ég að það væru löggur og hermenn um allt og gætti þess vandlega að hegða mér eins og vera ber, sem er svo sem enginn sérstakur vandi fyrir fágaða dömu eins og mig. Nú er komið á daginn að get bara farið að hegða mér eins og ég vil, því hérna er alveg dásamlegt einkennisbúninga- brjálæði. Að vísu eru nokkrir hermenn og löggur á stangli eins og vera ber, en stöðumælaverðir, húsverðir, dyraverðir, móttökufólk á hótelum, veitingastöðum og fótanuddstofum og er þá fátt eitt talið, er allt í einkennisbúningum og þeim alveg rosalega flottum.
Bílastæðaverðirnir hérna í nágrenninu eru í dökkbláum hátíðahermannasparifötum(eða þannig) af flottustu gerð. Þau eru með gylltum og rauðum snúrum og svona hermanna strípum á ermum og brjósti, gylltum hnöppum og guð veit hvað. Húfurnar eru eins og amerískar admirálshúfur með þykku gylltu gullskrambúli á derinu. Þeir eru ansi flott, þangað til þeir fara að skammast í fólki og leggja sig svo í öllu skrautinu í næsta skúmaskoti í hádeginu.
.
Mér finnst líka rosalega gaman að sjá hvað allt þetta einkennisbúningalið er ósköp venjulegt fólk, sem sest bara niður þar sem því hentar, þegar því hentar og vantar þá oft eitthvað til að setjast á. Þá er það bara gatan, næstu tröppur eða bara bílarnir sem þeir eru að passa. Það skal tekið fram að búningarnir eru alltaf hreinir og fínir eins og fólkið upp til hópa.
Götusópararnir eru allir í hvítum skyrtum og svörtum buxum með kínverska stráhatta en eðli máls samkvæmt verða þeir einir manna stundum nokkuð rykugir, þannig að það sést varla í þá en á morgnana eru þeir allir tandurhreinir og fínir.
Byggingaverkamenn, múrarar, ravirkjar o.s.frv. eru oftast í sparifötunum og á ég þá við jakkaföt og hvítar skyrtur, og jafn hreinlegir með sig og götusópararnir en þeir virðast bara skitna minna út yfir daginn.
Ég verð að fylgjast vel með þessu fólki því ég get aldrei farið hérna inn á verkstæði í fimm mínútur, án þess að verða eins og drulluhaugur. Við skulum vona að svo lengist lærið sem lífið í þeim efnum.
Við fengum okkur langan göngutúr í gær til að ná úr okkur hrollinum eftir alla kampavíndrykkjuna á gamlárskvöld. Við gengum niður í gamla hverfið við höfnina, en þar eru langar, alveg dásamlegar, götur sem eru útimarkaður. Þarna er allt selt, matur, þe. kjöt og fiskur ýmist í lifanda líki, eða eins og við kaupum það heima, alveg steindautt og hanterað. Þarna eru ótrúlegustu tegundir af ávöxtum og grænmeti sem ég kann ekki aðeinu sinni að nefna. En aðal attraktsjónin fyrir mig er allt "skranið sem þarna er selt. Maður hefur ferðast víða um heim en aldrei séð annað eins úrval. Það ægir af öllu, gömlu og nýju og þarna kemst maður aldeilis í essið sitt við að prútta.
Við vorum bara að rölta og skoða í rólegheitunum þegar ég sá alveg yndislega fallegt slagverk með 2 áttundir, úr einhverri steintegund, Hljómurinn í því er alveg dásamlega fallegur og berst langar leiðir. Beggó setti sig í stellingar og byrjaði prúttið og fékk gripinn þegar kaupmaðurinn var kominn með stóra skeifu, eins og þeirra er von og vísa, og nú prýðir þetta stofuna okkar og ég get spilað Yesterday þangað til Oddur fær líka skeifu af því að hlusta. En æfingin skapar meistarann og hann fer örugglega að brosa aftur eins og sá sem seldi mér steinhörpuna góðu.
Ég komst að þeirri sorglegu staðreynd að flestir þeirra sem sofa á vinnustaðnum, t.d. í byggingavinnu, menn og konur, sofa þarna vegna fátæktar. Þetta er mikið til fólk, úr litlum þorpum hérna í kring, sem kemur og púlar 18 20 tíma á sólarhring, sefur á staðnum og borðar núðlur eða hrísgrjón í öll mál. Afraksturinn er uþb. 300 yuan á mánuði eða 2700 kr. íslenskar. Með þetta fer það heim og framfleytir fjölskyldunni.
Eins og ég hef nefnt áður eru miklar framkvæmdir í gangi hérna og allt yfirfullt af vinnuafli sem þessu. Það þykir mikil heppni að fá vinnu. Allt er byggt af handafli og á ég þá við að maður sér næstum aldrei stóra byggingakrana, lyftara, vélskóflur o.s.frv., en þeir sem eru til staðar eru þeir stærstu, sem allavega Oddur hefur séð.
Húsin eru flest 30 40 hæðir og rísa mjög hratt og fólkið er eins og maurar utan á þeim. Þeir slá upp mótum, reisa stillasa úr bambus, sem bambusmottur eru lagðar á. Þetta eru feikilega flott og falleg mannvirki, með svona fyrst kemur spýta, svo kemur spýta og svo kemur spýta í kross systemi, allt mjög traustvekjandi. Síðan er steypunni hellt í mótin úr fötum og svo koll af kolli, upp í hæstu hæðir. Það er fremur fátítt að steypuhrærivélarnar hér hafi mótor, oftast handsnúnar eins og í gamla daga á Fróni.
En þið ættuð að sjá hraðann sem allt rís á, maður gæti haldið að þeir notuðu skriðmót. Margar hendur vinna létt verk, en svo stendur mikið af þessu autt í langan tíma, en það margborgar sig fyrir eigendurna, því þessari borg er ætlað að verða alheims viðskiptaborg og er hún strax komin á góðan rekspöl með það.
Þetta sama vinnuafl leggur göturnar hérna. Öllu er handmokað, steypunni dreift með handafli og sléttað yfir með múrskeiðum. Það er unaðslegt að horfa á handbragðið og nákvæmnina. Það er ekkert verið að kasta til höndunum og fólkið vinnur af reinsn þó launin séu lág. Það eina sem er jákvætt við þennan tækjaskort og það mjög svo, að mínu mati, er að fleiri fá vinnu, og þetta er eflaust ákveðið af stjórnvöldum, þó það séu bara mínar getgátur".
Læt þetta duga í dag.
frh.
Bloggar | Breytt 29.10.2010 kl. 11:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)