Menning og mannlíf.

 

 

Var að kaupa miða á jólatónleika sem haldnir verða síðasta sunnudag í aðventur, strax núna í byrjun nóvember, og hlakka mikið til. Falleg tónlist er svo einstaklega uppörvandi í skammdeginu. 

Fjölmargir tónlistarmenn hafa árlega lagt leið sína í miðborgina fyrir jólin, til að skemmta fólki með fallegri jólatónlist. Á menningarnótt eru tónleikar, upplestrar og allskyns aðrar uppákomur, sem eru sóttar af fólki í þúsundavís, allt án endurgjalds og hreinnar ánægju við að miðla öðrum af list sinni og visku. Ég minnist ekki á alla þá tónleika, upplestra, leiksýningar o.fl. o.fl. sem fólk neytir líka, allt árið um kring.

Svo merkilegt sem það er, virðast fjölmargir álíta að stöðva eigi allar menningartengdar framkvæmdir, vegna þess að menningin sé óþörf og öllum kostnaði sem  í hana fer sé kastað á glæ.

Hugsum okkur lífið án tónlistar af öllu tagi, bóka og blaða, leikhúsa, kvikmyndahúsa, fallegs arkitektúrs, ásamt myndlistar af öllum toga. Hugsum okkur að allri menningu í útvarpi, sjónvarpi og öllu sem því fylgir, yrði hætt, meira að segja videoleigum yrði lokað. Allt myndi þagna, utan frétta og auglýsinga, sem mætti þó oft telja til menningar.
 
 Ég álít að menningin sé það sem fólk sækir mest í þegar illa árar, öll námskeið fyllast, fólk sækir leikhús, tónleika og allskyns uppákomur í ríkara mæli en oftast áður, og þeim aurum sem fólk álítur sér fært að eyða, er eytt í menninguna, en ég álít þeim mjög vel varið.

Við eigum aldrei að spara við okkur menningu og menningarneyslu, hún er þvílík lyftistöng öllu veljulegu fólki, og kemur í veg fyrir að fólk leggist í eitthverja lágkúru. En það er eins og allmargir átti sig ekki á að þeir neyta menningar alla daga, en tala síðan á móti henni og það af hörku á stundum. Listamenn eru kallaðir listaspírur, trúðar, og einhverntímann heyrði ég mann lýsa því yfir að það ætti að banna þetta klassíska væl í Ríkisútvarpinu..

Þessu fólki er fyrirgefið, af því það veit ekki hvar það væri statt án alls þessa, og er oft mestu neytendurnir án þess að gera sér nokkra grein fyrir því. 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Í tilefni þessara skrifa þinna má benda á að það flokkast ekki undir pólitískan rétttrúnað dagsins að styðja áframhaldandi byggingu Tónlistarhússins Hörpu og hef ég verið einn, eða einn örfárra, á blogginu sem hef skrifað til stuðnings því að lokið yrði við húsið og það tekið í notkum, þjóðinni til menningarauka, þrátt fyrir kreppu og harðindi.

Og fengið miklar skammir fyrir, eins og gefur að skilja, þegar maður lætur hjarðhegðunina ekki stjórna sér.

Axel Jóhann Axelsson, 9.11.2010 kl. 11:07

2 Smámynd: Bergljót Gunnarsdóttir

Gott hjá þér!

Bergljót Gunnarsdóttir, 9.11.2010 kl. 11:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband