Færsluflokkur: Bloggar
28.10.2010 | 11:28
Hvernig er að vera í Kína IV
Af því stórt var spurt, verður margt um svör. Það koma svo endalaust margir hlutir upp í hugann. Ég sé ekki annað, en þetta endi með mörg hundruð síðna ritgerð. Ég ætla að halda mig við fyrstu mánuðina í þessu landi hinna mörgu andstæðna, til að byrja með, þarna fyrir austan Himalayafjöllin. Ég mun halda áfram að vitna í gömul blogg, þ.e. brot úr þeim. Hér koma kaflar frá því í nóv. 2007.
"Síðan ég kom hingað vakna ég alltaf kl. hálfsex á morgnana eins og klukka. Til að byrja með fór þetta ógurlega í taugarnar á mér, en hvernig sem ég reyndi tókst mér ekki að sofna aftur. Einn morguninn settist ég hérna út á svalir í dögun, í ógurlegri fýlu yfir ástandinu. En það stóð ekki lengi því allt í einu í grafarþögninni sá ég mann á svölunum hérna á móti gera morgunleikfimina sína. Hún stóð yfir í ca. 45 mín, og það var ekki vöðvi eða liðamót neinsstaðar í líkamanum skilið eftir. Ég fór að fylgjast með manninum (svona hálfpartinn í laumi) og þvílík kúnst.
Smám saman fóru að heyrast allskyns hljóð og borgin fór að vakna. Verkamennirnir með handvagnana sína fóru á stjá, húsmæður að þrífa svalirnar, á meðan ein og ein kallaði eða æpti á karlinn og börnin, byrjað var að hengja þvott á snúrurnar (herðatrén) og þá uppgötvaði ég þau dásamlegu sannindi að ég er ekkert árrisul á kínverskan mælikvarða. Síðan tók eitt við af öðru og kl. 7 er allt komið í fullan gang.
Núna sest ég alltaf út með góðan tebolla og fylgist með borginni vakna og það er gott. Alveg steinhætt að gjóa augunum á leikfimisséníið bara góni á hann svona álíka og innfæddir gera, hver á annan og mig líka ef út í það er farið.
Þeir eiga eitt met hérna og mættu Íslendingar skammast sín í samanburðinum, þótt góðir séu. Þetta er að rífa upp götur og gangstíga og bauka eitthvað með það sem undir er, loka aftur, helluleggja, malbika og rífa síðan allt upp aftur og það sem allra fyrst. Þetta veldur því að maður er alltaf að leita að nýjum gönguleiðum, sem veldur því að maður áttar sig betur og betur á umhverfinu, sem veldur því að ég er orðin betri en Pollýanna sjálf í jákvæðni.
.
Uppbyggingin hérna er svo hröð því það er verið að byggja háhýsi á hverjum auðum reit, og virðist ekkert lát á. Mikið af þessu stendur autt ennþá, en þeir hafa engar áhyggjur af því, því vinnuaflið er ódýrt og þeir sem byggja hafa nóga peninga, en fasteignaverðið rýkur upp. 50 70% frá því um áramót að því að mér er sagt.
Andstæðan við þessar framkvæmdir allar, eu svo hverfi fátæka fólksins, sem sumt hefur aldrei farið út fyrir götuna sína. Þó ljótt sé að segja, finnst mér þessar götur svo heillandi í allri sinni eymd og á vissan hátt póetískri fegurð. Skíturinn og sóðaskapurinn svo mikð að maður er hættur að taka mark á því. Þessar götur eru ekki nema svona rúml. faðmur á breidd og þarna ægir öllu saman, því allt þarf að vera til staðar ef alheimurinn er gatan þín, að vísu með örfáum undantekningum
.
Þarna er verið að elda mat við ömurlegar aðstæður og kallast víst veitingahús (svona smápartur af gangstétt og 1 ferm. fyrir innan). Helstu húsdýrin eru rottur og kakkalakkar. Mamman er að þvo þvott, sem er hengdur hvar sem hægt er að troða honum, litla systir að hreinsa telauf, stóra systir falbýður sig í dyrunum á hreysinu og pabbinn jafnvel að mæla með henni á fjálglegan hátt, við kúnnana sem eru ekki allir af lekkerustu teg. Í næsta húsi er svo virðuleg teverslun eða eitthað slíkt
.
Allt í einu dúkkar einhver upp og fer að bjóða þér allar nýjustu dvd diskana eða jafnvel vestrænan tískufatnað á fáránlegu verði, svo lágu að maður roðnar. Til þess að nálgast þessa vöru ertu td. leidd á bak við þil, upp þröngan, skítugan stiga og alls kyns króka og kima þangað til þú kemur inn í svona eihverskonar leynilega þjófa eða eitthvað svoleiðis verslun, þar sem glæsileiki er síðasta orðið sem þér dytti í hug . En varan er góð ef þú hefur áhuga. Hér er allt til sölu alveg sama hvað það er.
Til þess að enginn fái ranghugmyndir, þá eru kínverjar mjög hreinlegir að öllu jöfnu og borgin að öðru leiti tandurhrein. Allt rusl er flokkað og meira að segja allar göturuslafötur tvískiptar, fyrir endurvinnanlegt eða úrgansrusl.
Svona smá innskot: Í þessu stóiðnaðarveldi sem Kína er orðið, er ekki búið að finna upp þvottasnúruna!, allt hengt upp á herðatré eða hvað sem fyrir er. Það er svaka system hérna á svölunum sem hala má upp og niður, á mörgum hæðum og allt útbíað í herðatrjám. Sjáið þið í anda nærbuxur, sængurver sokka og what have you, hanga á herðatrjám? Ég elska þetta og ætla ekki að fá patentið á þvottasnúrunni í Kína.
Í gær varð Rúnar Breki 9 ára og allt íslendingasamfélagið boðið í stórglæsilegt afmæliskaffi a la Elín. Það hafði dottið hérna inn auglýsing, en á kínversku, samt gat ég lesið upptalningu á ýmsum vestrænum sjónvarpsstöðvum þar á meðal. Sports Channel og svo ýmsum frétta og fræðslumyndastöðvum. Þar sem minn heittelskaði, er mesti áhugamaður sem ég þekki um enska boltann og evrópumeistarakeppnina ákvað ég að gleðja hann óvænt og taka miðann með til að láta Joey sem er kíverji í vinnu hjá okkur öllum, lesa og þýða sem endaði með því að hálftíma seinna var búið að panta gerfihnattadisk sem nær 55 stöðvum. Allur pakkinn og árs áskrift á uþb.tíu þúsund kall.
Tíu mínútum seinna var hringt og sagt að mennirnir myndu mæta með allt krúsidúlluverkið og setja það upp NÚNA. Þeir eru ekki lengi að þessu kínverjarnir, --- og þó.
Jæja jæja, Joey var sendur á undan til að hleypa þeim inn og fylgjast með, þá var kl. 3. Þegar við komum heim klukkutíma síðar, því mínum varð ekki haldið í barnaafmæli, vitandi af enska boltanum heima, stóðu mennirnir með allt draslið og biðu og höfðu beðið lengi, alveg sallarólegir en enginn Joey. Nú upphófst æðisleg leit að Joey, því hann var með lyklana að íbúðinni. Hann fannst að lokum, en löggan hafði tekið hann á leiðinni fyrir að taka ranga beygju. Við komumst inn um 6 leytið.
Mennirnir byrjuðu á að setja upp diskinn og tengja allt draslið og svo settumst við voða spennt og þeir kveiktu. En viti menn allt í rugli, mennirnir hömuðust í öllum tökkum alveg kófsveittir en allt kom fyrir ekki. Eftir nokkra íhugun ákáðu þeir að hringja eftir nýju boxi, Eftir það box og ennþá meiri íhugun var hringt eftir 3ja boxinu og þá komu tveir menn í viðbót og kættist þá hugur minn mjög.
Annar af þessum nýju henti sér á sófann og steinsofnaði og hinn fékk sér sígarettu og hafðist svosem ekkert annað að en að góna á hina með vægast sagt ógáfulegum svip. Upphaflegu gaurarnir voru nú orðnir á svipinn eins og ungur drengur sem missir niður um sig buxurnar á fyrsta stefnumótinu og fóru eitthvað að íja að því að senda eftir 4ða boxinu.
Ég var farin að sjá fram á að maðurinn myndi sofa á sófanum alla nóttina, við orðin sársvöng og ekki leist mér á að bjóða liðinu í mat, þannig að ég sagði að mér litist eiginlega ekkert á að sitja til kl. 8 í fyrramálið og bíða þá eftir svona 12, til 13. boxi. Þetta fannst þeim alveg svakalega fyndið og mér eiginlega líka, að þeim skildi finnast þetta svona fyndið. En þeim létti greinilega og ákváðu, þá orðnir mjög alvarlegir á svip og ábyrgðarfullir að þetta væri tæknilegt vandamál sem þeir þyrftu að fara með heim og hugsa til morguns. Ég vona að þeir geri meir en að hugsa, það þarf víst líka að leysa. Jæja, jæja þeir fóru kl. að ganga 11 og tóku þennan sofandi með.
Nú er bara að sjá hvað dagurinn ber á skauti sér. Fær Oddur enska boltann, missir Beggó þolinmæðina, koma etv. tveir til að sofa á sófanum, verður allt vitlaust eða koma þeir bara og gera þetta rétt? Þá vitið þið hvernig domestic vandamálin eru í Kína, eða þannig. Ekki orð um það meir fyrr en leikslokum.
Eins og þið vitið núorðið, byrja ég alltaf daginn á því að skoða vininn minn fjölfima hérna á móti, en af því við erum búin að eignast þessa líka dásamlegu expressovél ákvað ég að fá mér ilmandi og sterkt kaffitár í morgun í staðinn fyrir hið hefðbundna te. Ég kom mér vel fyrir á svölunum, naut þess halda um heitan bollann með Lavazza ilminn í nefinu og leit yfir götuna til að gá hvort hann væri ekki að byrja.
Ég veit eiginlega ekki hvernig ég á að lýsa þessu mesta morgunsjokki lífs míns. Á svölunum sat svo eldgömul kerling að ég hélt að hún væri að minnsta kosti dauð, grafkyrr í ruggustól og starði á mig á móti, því ég hlýt að hafa fengið Stóra störu, og glotti ógurlega upp í opið geðið á mér.
Var þetta konan hans, mamma, amma, langamma eða bara einhver norn send mér til höfuðs af því ég glápi svo mikið? Voru þetta kannské einhver mótmæli við kaffinu, því kínverjar drekka ekki kaffi? Er vinurinn mögulega fluttur eða er bara einhver gömul frænka komin í heimsókn og hann ekki kunnað við að troða sér út á svalirnar til hennar og fara að sprikla? Þið haldið líklega að ég sé orðin eitthvað rugluð, en þetta er grafalvarlegt mál! Hvar verð ég án mogunleikfiminnar?
Í gærkvöldi fórum við út að borða fimm saman, á alveg rosalega fínan franskan stað og fengum okkur fimmréttaða máltíð. Ég fékk mér gæsalifur í forrétt, svo fiskisúpu, síðan kom salat, þá önd sem aðalréttur og loks báberja ostakaka og kaffi. Þau fengu sér eitthvað svipað og með þessu drukkum við tvær flöskur af rauðvíni. Þetta kostaði allt saman 9000 kr. allur pakkinn og þar af var rauðvínið helmingurinn. Hugsið ykkur fimmréttuð lúxusmáltíð fyrir fimm. Þarna voru fínir þjónar á hverju strái, lifandi tónlist, flottir dúkar og srevíettur og staðurinn bæði stór og glæsilegur.
Eftir matinn fórum við hérna út með ströndinni í leifarnar af gullfallegu þröngu fiskimannaþorpi, sem liggur á bak við stórt og glæsilegt Búddahof. Eftir að hafa þrætt dimm og þröng öngstrætin komum við að alveg stórfurðulegum stað sem er víst hótel, allt eldgamalt og upprunalegt. Þú kemur inn í nokkuð stóran forsal með kojuherbergjum til hliðanna ásamt eldúsi, klósettum og þvottavél sem er komið haganlega fyrir, þannig að enginn pissi óvart í hana í öllu kraðakinu. Það er gamall alveg stórhættulegur stigi upp á þak og þar sátum við og spiluðum og sungum fram á nótt. Þarna voru mættir nokkrir vinir Rúnars sem spila allir mjög frambærilega á gítara og þetta varð alveg meiri háttar skemmtun.
Þetta hótel er byggt í kring um forsalinn en í honum er stórt borð og stólar þar sem margir geta setið og þarna voru kínv. stúdentar sem sungu kínversk lög, framandi en falleg tónlist. Það er ekkert þak yfir þessari miðju bara strekktur dúkur yfir þegar rignir. Hvernig ætli sé að búa á hóteli með engu þaki? Nóttin kostar 72 kr. ef einhver vill prófa. Á laugardögum er alltaf flóamarkaður þarna uppi á þakinu og kennir víst oft nokkurra stórmerkilegra grasa. Þarf endilega að skoða hann fljótlega.
Í dag erum við að hugsa um að ganga niður að höfninni í gegn um gamla hlutann af borginni og etv. að villast svolítið í kraðakinu.
Ps. Það kom einn gæi morguninn eftir og tengdi sjónvarpið á örskotsstundu, við alsæl en höfum ekki gefið okkur tíma til að kveikja á því síðan".
Því miður klessist þetta allt saman þegar þeg set það inn á netið, en við því kann ég engin ráð.
frh.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.10.2010 | 16:00
Hvernig er að vera í Kína III
Datt í hug að setja hérna inn gamalt blogg frá fyrstu dögum mínum í Kína. Þessi atburður sem er fjallað um gerðist í markaðsgötu, þar sem fólk kom saman með allskyns dót til að selja, bæði keypt og ábyggilega oft stolið. Þetta var ákaflega vinsælt, en þar sem oft var þröng á þingi var markaðurinn bannaður, því samkomur fleiri en 10 - 15 manna eru leystar upp af hernum og engin miskunn sýnd. Þess vegna stendur gatan auð í dag, en salan á vörunni fer fram innan dyra í litlu búðarholunum sem þarna eru. Þar er engin hætta á ferðum, enginn að plotta, því oftast komast ekki fleiri en 2 - 3 inn í einu.
Þetta skemmtilega skilti er á dæmigerðri kíverskri ensku, sem gengur undir nafninu Chinglish.
"Í dag ætla ég að ræða aðeins um verslunarmátann hérna. Eins og allir vita, viðgengst prútt um allan heim, en það er nokkuð sem ég hef aldrei getað haft mig í og þess vegna ekki verslað á þannig stöðum, nema þegar löngunin að eignast eitthvað (oftast algeran óþarfa) hefur borið mig ofirliði og þá hef ég alltaf verið höfð að fífli og seljendur stórgrætt á túristahálfvitanum.
Kína er engin undantekning frá prúttinu, en nú er það bara yours truly, sem er farin að færa sig upp á skörina og hefur gaman af. Það er svo gaman að stúdera þetta og núna þegar ég er orðin klár á reglunum er þetta eins og skemmtileg íþrótt, skylmingar eða eitthvað svoleiðis.
Maður velur sér hlut, spyr um verð, fær það og ákveður síðan hvað maður er tilbúinn að borga. Því næst fer maður töluvert niður fyrir sitt fyrirfram ákveðna verð og býður þá upphæð. Nú byrja lætin, sölumaðurinn verður alveg steinhissa, alveg eins og ég varð á upphaflega verðinu, og segir þvert nei. Ég verð alveg ógurlega móðguð og þykist ætla að fara. Núna lækkar hann sig aðeins og ég segi aftur nei, þá horfir hann á mig spurnaraugum og ég hækka mig örlítið. Hann brosir og hugsar, jæja það er hægt að mjaka kerlingunni og lækkar sig aftur, bara örlítið. Ég segi þvert nei og stend við mína tölu alveg harðákveðin á svip og skjálfandi innan í mér.
Núna hættir honum að lítast á blekuna og verður alveg rosalega aumingjalegur á svip (svona, ætlarðu virkilega að svelta konuna mína og börnin) og horfir fast í augun á mér. Ég stend alveg gallhörð, ennþá töluvert undir verðinu sem ég var búin að ákveða í upphafi og þá byrjar showið. Hann hendir sér í gólfið eða götuna, hágrátandi og lætur öllum illum látum á kínversku, en ég læt mér fátt um finnast (enda skil ég ekki stakt orð) og þá rís hann á fætur aftur og lækkar sig aðeins, ég hugsa mig um og hækka mig örlítið, hann hristir hausunn og ég býst til að fara. Hann verður eins og hundur í framan og segir ok.ok.
Eftirleikurinn er það skemmtilegastia, því nú hefst lokakaflinn. Hann snýr sér undan, og ég held að hann sé í ógurlegri fýlu, en hann nær í einhverjar blaðadræsur og pakkar öllu undurvel inn, margvefur allt með tágabandi, réttir mér pakkan stoltur á svip, skælbrosir og segir, thank you, come again (það er eina enskan sem þeir kunna fyrir utan ok. ok.) og ég geng burt alsæl, staðráðin í þessu come againi. Það skal tekið fram að allt prútt fer fram á vasatölvum, svipbrigðum, kínversku og íslensku.
Það sem maður verður að passa er virða reglurnar og bakka aldrei með það sem maður er búinn að bjóða og hann hefur samþykkt. Það þykir slæmur skortur á siðferði og þú byrjar aldrei að prútta ef þú ætlar ekki að kaupa. Einu skiptin sem þú getur hætt við er, ef þér finnst verðið of hátt þegar hann hefur gert sitt lokatilboð sem þú vilt ekki taka.
Kínverjum finnst ógurlega gaman að fylgjast með prútti og stundum safnast stór hópur í kring um mann þegar á þessu gengur og endrum og eins hef ég fengið lófaklapp að viðskiptum loknum og klappar þá sá sem seldi ekkert síður með. Ég held að þeir klappi fyrir útlendingi sem hefur tekist að láta ekki plata sig , því ég held að kínverjar sjái stórt $ á enninu á öllum útlendingum. Þegar þetta gerist sný ég mér við og klappa fyrir þeim líka. Semsagt, þetta er íþrótt með leikreglur og heila gillið, þar sem allir brosa að leikslokum.
Svo eu það umbúðirnar í þessu blessaða, fyrrverandi keisarans, Kína. Hér er öllu pakkað ákaflega fallega og vandlega inn, svo vel og vandlega að það er nánast ógjörningur að opna pakkana og dugar þá ekkert til nema hnífar og skæri. Mér verður oft hugsað til gamla fólksins, þegar ég hálfþrítug, ræð varla við þetta! Það er alveg sama hvort það er matvara, klósettpappír, fatnaður eða what have you, þetta kostar allt slagsmál við umbúðir.
Ef til vill er þetta einhver stjórnskipuð leið til sparnaðar, því það gæti verið að fólk léti ekki eftir sér að kaupa hluti sem tekur margar klst. að ná umbúðunum utan af".
Svo mörg voru þau orð.
Frh.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
27.10.2010 | 07:31
Hvernig er að vera í Kína II
Tefjöllin í Fujian. Tölvumúsarteikning við barnasögu sem ég gerði fyrir ömmustrákana mína.
Xiamen er í Fujianfylki, en það er gríðarstórt og liggur að sjó við suðurströnd Kína og teygir sig langt inn í land. Hversu stórt það er man ég ekki, en það er margfalt á við litla landið okkar, sem er þó "stórasta land í heimi", eins og datt svo fallega út úr forsetafrúnni okkar staddri í Kína. Fujian er hálent og undrafagurt. Þarna er svo auðvelt að sjá út frá hverju kínverk myndlst er sprottin, dulúðin og fegurðin á sér engin takmörk, og svo er fjallaloftið þarna hreint og tært.
Á láglendinu nærri Xiamen er hver blettur ræktaður, ávextir og grænmeti eru þar í aðalhlutverki. Fjöllin éru ræktunarstaður tesins, en Fujian te þykir það albesta sem þekkist. Tegundirnar eru ótalmargar, allt frá auðræktuðu glulu og grænu tei upp í allskyns teg. svo sem rautt og fl. en það te er dýrt og ekki á allra færi að kaupa. Mest af því er flutt út, en sumar tegundirnar eru þyngdar sinnar virði í gulli.
Í tefjöllin eru höggnar út mjóar syllur allt um kring og alveg upp á topp. Upp á syllurnar kemst enginn nema fuglinn fljúgandi og fólkið sem þar vinnur. Það er ævintýri líkast að sjá það príla upp örmjóa og snarbratta stallana með verkfæri og stóra strigapoka. Þau fikra sig upp eins og fjallageitur til að sinna ræktuninni og tína telaufin. Þau eru klippt og sett í pokana þar til þeir eru úttroðnir af þessum lífselexír Kínverja sem drekka te eins og um helgiathöfn sé að ræða, mörgum sinnum á dag.
Konur og karlar sinna þessu sameiginlega, enda ekkert sem heitir karla eða kvennastörf. Konur vinna jafnt á við karla öll þau störf sem þær hafa líkamlega burði til, en þeir eru oft ótrúlegir. Að sjá þessar lágvöxnu tágrönnu konur leggja gangstéttir er hreint undrunarefni. Þær taka hellurnar og bera þær á milli eins og ekkert sé. Annað virðist fólki sameiginlegt, það virðist ekki þekkja lofthræðslu og á ég þá bara við fólk almennt, ekki bara þá sem vinna við terækt.
Fyrsta daginn sem ég var í Xiamen gekk ég um og skoðaði það sem fyrir augu bar og þar sem ég er bara venjuleg íslensk kona voru búðargluggarnir freistandi. Í þriðja til fjórða hverjum glugga voru svona yndilslega falleg dúkkubollastell í öllum litum og gerðum. Ætli börnin hérna leiki sér ekki með neitt nema bollastell hugsaði gáfukonan góða. Út um allar gangstéttir fyrir framan hverja einustu versl. eða fyrirtæki voru líka lítil mjög lág borð og agnarlitlir kollar svona ca. 25 cm. háir. Skömmu seinna fór starfsfólkið þarna í kring að setjast út og hita sér tesopa. Þá rann upp fyrir undirritaðri að fólkið var e.t.v. ekki alveg jafn barngott og hún hafði haldið.
Þegar allir eru sestir er vatnið soðið í katli, teið látið í könnu á stærð við rjómakönnu og sjóðandi vatninu hellt yfir, litlu dúkkubollarnir síðan skolaðir hver á fætur öðrum úr þessari fyrstu uppáhellingu og öllu hellt niður. Síðan fer ný gusa í könnuna og látið standa smástund. Nú er hellt í bollana og eins og ég sagði áðan upphefst helgiathöfnin. Fólkið liftir þessum örlitla bolla upp að vörunum og sýpur á, það þagnar allt á meðan og smástund á eftir. Síðan tekur sá sem sér um teið nýtt sjóðandi vatn og hellir upp á aftur o.s.frv. Það er hellt svona sex til sjö sinnum upp á sama teið og síðan er skipt um.
Meðan á tedrykkjunni stendur er oft tekið í spil og þá nær undantekningarlaust upp á peninga. Einnig er oft teflt, en þeirra skák er kölluð Fílaskák og leikin á borði eins og því sem sést hér til hliðar, en ég gerði mörg slík á meðan ég dvaldi þarna stór og lítil. Heimareitirnir eru þar sem rauðu flísarnar eru og síðan er taflborðinu skipt í miðjunni með á.
Leikreglurnar kann ég ekki að öðru leyti, en venjulega vestræna taflmenn má vel nota og er þá blessaðri drottningunni sleppt. Er farið að örla smá á kvenréttindakerlingunni í mér, e.t.v. engin furða, því þarna eru víðáttumiklir óplægðir akrar í þeim efnum. Má vera að ég komi að því seinna.
Utan við Xiameneyjuna er önnur lítil eyja, Gulangyu. Sú er bara hólmi miðað við Xiamen en á sér allmerkilega sögu. Hún liggur álíka langt frá landi og Viðey frá Reykjavík og tekur u.þ.b. fimm mín að komast þangað með ferju. Þarna voru stórveldin með sendiráð sín fyrr á tímum, áður en þau flæmdust úr landi undan byltingunni. Þarna bjuggu auðmenn margir og bera húsin þess merki að ekki skorti peninga, þau voru sannkallaðar glæsihallir. Voru segi ég því þeim var ekki haldið við fremur en öðrum húsum þarna eftir að þau voru yfirgefin í snarhasti af eigendum sínum.
Í dag hefur ástandið breyst mjög svo til batnaðar, mörg húsanna verið tekin eignarnámi, önnur grotna niður því erlendir erfingjar þeirra standa í strögli við stjórnvöld um eignarréttinn. Þarna hafa verið sett á stofn mörg söfn og merkileg, því eyjan á sér langa og merkilega sögu. Ég ætla ekki að telja þau upp hér, utan eitt sem er píanósafn. Sagan segir að fyrsta píanóið hafi orðið til þarna (?) og hefur öllum teg. af píanóum verið safnað þarna saman, gömlum og nýjum, sum minna nú ekki alveg á nútímahljóðfærið sem heitir þessu nafni í dag.
En hvað með það, á eynni er skylda að hafa píanó í hverju húsi og það er ótrúlega gaman að ganga um þröngar göturnar og heyra misfallega spilað á þetta hljóðfæri hljóðfæranna, en það fer líklega eftir aldri kunnáttu og "músikkaliteti" íbúanna. "Músikkalitet" verður víst aldrei hægt að lögskipa. Gulangyu gengur jöfnum höndum undir nafninu Píanóeyjan.
frh.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
26.10.2010 | 11:50
Hvernig er að vera í Kína I
Fiskibátahöfn við háskólahverfið í Xiamen, Xia Da.
Ég var spurð hérna á blogginu nýlega "Hvernig er að vera í Kína?". Einfaldasta svarið er fínt. En eins og allir hljóta að sjá er það ekkert svar í sjálfu sér. Eftir rúmlega fjögurra ára dvöl í landinu, með smá hléum, myndi ég segja stórkostlegt, en bæta þó við, oftast. Þetta er ægifagurt og gríðarstórt alltsaman og fólkið yfirleitt með afbrigðum vingjarnlegt.
Til að byrja með hafði maður ekki við að verða hissa, hissa á fátæktinni og fallegu stolti hinna fátæku og síðan á ríkidæminu sem virðist ekki eiga sér nein takmörk. Þar varð ég lítið vör við stolt, aðallega frekju og yfirgang. Mest var ég þó þó hissa á að sjá harðan kommúnisma rekinn samhliða jafn gallhörðum kapitalisma, þarna leiddust þeir hönd í hönd "ismarnir" eins og ástfangið par.
Talandi um fallegt stolt hinna fátæku, sem hafa aldrei verið annað en fátækir, og nægjusömu, varð mér oft starsýnt á fólk við vinnu. Það skipti engu máli hversu erfið vinnan var líkamlega, það skein oftast úr andlitunum hér er ég og ég hef vinnu. Þeir sem hafa komist í álnir hafa ekki þetta fallega yfirbragð að öllu jöfnu. En þarna fastklemmt einhversstaðar á milli er hellingur að fólki sem vill komast í hóp hinna ríku og vílar ekki hlutina fyrir sér, treður á öllu og öllum og er óheiðarlegt með afbrigðum. Þetta fólk minnir mann á einhverskonar sníkjudýr.
Hinir snauðu eru ekki allir af bestu sort heldur, þarna mátti sjá börn og unglinga sem höfðu verið lemstruð á fótum þannig að vonlaust var að þau gætu gengið aftur, síðan send út af foreldrunum á trébrettum til að betla, og þar með orðin fyrirvinna fjölskyldunnar. Mér var sagt að þeim væri talin trú um að þetta væri stórt hlutskipti og þeim einum ætlað. Í dag sést þetta ekki lengur sem betur fer, en hvað hefur orðið um þessi börn veit ég ekki, þau bara hreinlega hurfu. Afturámóti er ennþá töluvert af fólki með lítil börn sem er alla daga betlandi. Þessi börn eru alltaf sofandi, en guð einn veit hvernig þau eru á sig komin þegar þau vakna, ef það er þá einhverntímann.
Ég bjó lengst af í borginni Xiamen, sem er stór og nútímaleg hafnarborg, höfnin ein sú stærsta í Kína. Íbúatalan er einhversstaðar á bilinu 3 til 5 milljónir að sögn, en nú er manntal í gangi, þannig að það kemst fljótlega á hreint. Xiamen er að stærstum hluta á eyju hæðóttri og skógi vaxinni að hluta. Að norðanverðu er höfnin sem teygir sig tugi kílómetra meðfram ströndinni, en að sunnan og austan er strönd sem teygir sig tandurhrein og hvít svo langt sem augað eygir.
Borgin er nútímaleg mjög, enda ásetningur stjórnenda að gera hana að einni stærstu viðskiptaborg Kína. Þarna rís hver glerhöllin á fætur annarri, allar um 30 til 50 hæðir. Innan um hallirnar eru víða gömul hverfi, en þeim fer óðum fækkandi vegna þessa byggingaræðis, þó svo flest af nýju húsunum standi auð ennþá. En þeir hafa biðlund, og peninga til að hafa efni á henni, þarna austurfrá og vita sem er, að þetta á allt eftir að fyllast.
Verst finnst mér þó, að þeir hafa engan sans fyrir að halda í neitt af fortíðinni og rífa bara allt sem fyrir verður. Hús sem einu sinni hafa greinilega verið undurfögur, í mjög sérstæðum kínverskum stíl, eru bara látin gossa eins og ekkert sé, enda þekkist ekki viðhald húsa og allt látið drabbast niður, ekkert skal skilið eftir sem minnir á fortíðina, ekki smáskiki.
En borgin er bæði falleg og heillandi og mikið um stóra almenningsgarða, sem fólk notar sér óspart. Morgunleikfimi ásamt tónlist er daglegt brauð og mjög vel sótt. Hundruðir manna koma þarna og teygja sig saman, sér til heilsubótar, enda auðséð hversu fólk er vel á sig komið, og það á öllum aldri. Það eru eingöngu útslitnir erfiðismenn sem ekki ganga um teinréttir og tágrannir, þeir eru bara tágrannir.
Þessir garðar hafa margir hverjir stór útisvið og sumir mörg. Þarna eru fluttar kínverskar óperur, leiksýningar, og tónlist af öllum toga, bæði vestræn og austurlensk. Dóttir mín Elín og tengdasonur Rúnar, sem kalla sig Heima sem tónlistarmenn, héldu allmarga tónleika í þessum görðum. Þar kemst enginn að nema eftir vali, en þau hlutu alltaf mjög góðar móttökur. Þau ráku einnig veitingastað í borginni sem hét Heima og var vinsæll meðal bæði kínv. og vesturl.búa.
Þarna sá ég í fyrsta sinn kínv. óperu. Stórkostlegt "show" búningarnir engu líkir og litríkið ótrúlega flott, en söngurinn maður, honum þarf að venjast svo ekki sé meira sagt. Fyrsta tilfinningin var eins og að fá sturtubað af skrækum hljómum niður eftir öllum líkamanum og ekki endilega mjög þægilegt. Þetta hefur þó vanist smátt og smátt, þannig að ég er næstum því farin að njóta skrækjanna.
Frh.
Bloggar | Breytt 27.10.2010 kl. 19:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
16.10.2010 | 15:25
Þrot/seinna Blogg
Bloggheimurinn hérna á moggablobbinu er ákaflega skrítið fyrirbrigði, en oft þó alveg stórmerkilegur að mínu mati.
Allir geta komið skoðunum sínum á framfæri, góðum, vondum, sprenghlægilegum, réttlétum, óréttlétum, stundum heiftúðugum mjög, svo mjög að manni krossbregður. Sem betur fer eru flestir málefnalegir og þess vegna fyrirgefur maður þeim fljótt að leyfa sér að vera á annarri skoðun en maður sjálfur, svarar þeim jafnvel og reynir stundum að æsa þá svolítið upp.
Þarna eru líka þeir sem vilja fræða fólk, sbr séra Þórhallur Heimisson,og Ómar Ragnarsson sem er bloggari af guðs náð Það getur verið dægilega góð upplyfting í að lesa ýmsa fróðleiksmola sem þeir o.fl. skrifa.
Síðan koma þessir reiðu, en flestir eru það einhverntímann, ásamt þeim sem eru bara alltaf öskuvondir út í allt og alla, en þeir verða ekki mjög sennandi til langs tíma, sérstaklega ef þeir þrástagast aftur og aftur á sömu hlutunum. Allt kann sá sem hófið kann.
Allar stéttir manna og kvenna komast að á bloggsíðunni og geta haft samband sín á milli, ýmist til að lýsa yfir ánægju með frammistöðu bloggarans eða þveröfugt. Þarna eru líka vinaleg blogg, fólk sem bloggar um daglegt fremur innihaldslaust líf sitt og tilveru, eða þeir sem lifa litríkara lífi og vilja leyfa okkur hinum að taka þátt í því, ásamt nokkrum" besservissurum" sem skipta sér af öllu sem þeir mögulega geta, til að leiðrétta og sýna fram á yfirburði sína, jafnvel þó enginn sjái nokkra yfirburði eða vit í því sem þeir fjalla svo fjálglega um.
Svo eru svarendur sem þrástagast á sömu hlutunum dag eftir dag, senda þessa litlu pistla sína inn á eins mörg blogg og þeir hafa tíma til, án þess að þeir komi málefninu sem er til umræðu hverju sinni nokkurn skapaðan hlut við, sbr. pistlana um frjálsar handfæraveiðar. Ekki gefast upp þar, etv. verður hlustað á þig að lokum, hver veit. Sagði Cato gamli ekki "Að lokum legg ég til að Karþagó verði lögð í eyði" eftir allar ræður sínar. Svo lengi má brýna að það bíti.
Að lokum verð ég að nefna bloggvin minn Axel J. Axelsson. Við Axel eru í svona 99% tilvika á sitt hvorri skoðun og kítum oft. Ég er búin að leyfa mér að vera allt að því dónaleg við hann þegar mér hitnar í hamsi, en honum tekst alloft að hita þetta blessaða hams mitt. En Axel er góður drengur og var ekki lengi að kenna mér hvernig ég ætti að snúa mér til að eignast bloggvini og varð þar af leiðandi minn fyrsti.
Mér finnst ótrúlega gaman og upplýsandi að lesa marga pistlana, þar sem lærðir menn fara með góð mál, og það öfgalaust.
Til að byrja ameð fannst mér þetta fáránlegt, en núna bara fróðlegt og skemmtilegt. Þökk sé ykkur þarna í bloggheimum.
Bloggar | Breytt 27.10.2010 kl. 08:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
11.10.2010 | 10:57
Kindur
Dottaði á borgarafundi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 27.10.2010 kl. 22:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.10.2010 | 06:00
Tjjáningarfrelsi?
Eiginkonu Xiaobo haldið fastri | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
10.10.2010 | 07:32
Tilhlökkun eða kvíði
Ég hef dvalið, með stuttum hléum, í Kína sl. 4 ár, við leik og störf. Ég er glelistam. að atvinnu, sjálfstætt starfandi, og hef því átt auðvelt með að sinna hvorutveggja í þessu stórkostlega landi. Þó setja megi æði margt út á stjórnarfarið, er það þó ekki mitt mál, þeir hafa 1.5 milljarð manna til að sinna því verkefni. Kína er þó ekki umræðuefnið hérna, heldur væntanleg heimkoma mín til Íslands, nú í lok mánaðarins.
Er búin að hlakka mikið til að flytja aftur heim og hitta fjölskylduna, sem er stór, svo og alla vini og vandamenn. En allt í einu er þessi tilhlökkun farin að breytast í kvíða, svo mikinn að nálgast skelfingu. Ég er búin að fylgjast með framrás stjórnmála, eða eigum við að segja stjórnleysis undanfarið, hvernig fólk er bara ískalt sett út á klakann, ásamt því að þurfa að standa í niðurlægjandi fátæktarbiðröð eftir mat, aftur og aftur, og sér ekkert fyrir endann á vandræðunum.
Ég er með hnút í maganum yfir öllu ráðleysinu, enginn virðist ætla að rétta samherjum sínum í ríkisstjórninni höndina, með beiðni um styrk og samstöðu til að finna lausn á vandanum. Nei, nei , þarna er hver höndin upp á móti annarri. Innbyrðis flokkadeilur, og þær ekkert smávægilegar, tröllríða öllu, meðan Sjálfstæðisflokkur og Framsókn bíða átektar með bros á vör, í fullvissu um að nú sé þeirra tími að komnn. Kominn til að endurreysa frjálshyggjuna, endurlífga gullkálfinn svo darraðadansinn geti hafist aftur?
Eru engin ráð til að stoppa þetta? Mér sýnist ekki annað en að stofna verði til þjóðfundar til að ræða málin, og reyna svo að fara eftir niðurstöðunni, hver sem hún verður. Nýtt, nýtt, nýtt, það er eina vonin. Fólk verður að taka höndum saman. Hvað gamla flokkakerfið varðar, er það gengið úr sér fyrir löngu og mér sýnist einskis að vænta þaðan. Ég vil sérfróða menn á hverju sviði í ríkisstjórn, og til setu í þinginu. Til setu, meina ég að þeir séu til staðar á vinnustaðnum og sinni þessu eins og vitiborið fólk í vinnu fyrir þjóðina alla. Sé unnið af einurð skiptir litlu hvaða flokk þeir hafa kosið áður ef þeir bara sinna starfinu af alúð, eindrægni og ekki síst einlægni.
Það þýðir bara því miður ekkert að óskapast út í það sem hefur gerst, það er liðið og verður ekki aftur tekið. Við verðum að snúa vörn í sókn og horfa til þess sem mögulega er hægt að gera, landi og þjóð til velsældar.
Bloggar | Breytt 27.10.2010 kl. 23:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.10.2010 | 09:55
Skammist ykkar bara, þetta er ekki hægt.
Átta fyrirtækjum gefnir 54,7 milljarðar af bönkunum. Þvílíkt örlæti, en hvaðan koma peningarnir?
Er það vegna svona gjafmildi, sem gengið er fram af þessari hrottalegu hörku, að saklausu fólki sem búið er að missa aleiguna. Já há, það er best að láta skrílinn bara borga, virðist vera hugsunin hjá stjórnendum bankanna. Væri ekki nær að gefa engum neitt, og leyfa þeim verst eru staddir að draga andann vegna skelfingarinnar sem hefur gripið um sig. Hvernig haldið þið að fólki líði þegar það les um í hvað peningarnir þess fara?.
54,7 milljarðar afskrifaðir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.10.2010 | 10:47
Um trúða
Vegna þess hversu sein ég var að svara þér Axel, og ekki víst að þú sjáir það á síðunni þinni, ætla ég að birta þetta hér. en eins og þú veist finnst mér meira en nóg um hvernig þú þrástagast á trúðslátum, sem þú kallar svo, Jóns Gnarr, þannig að líkja má við einelti.
Trúðar eiga sér u.þ.b. 3000 ára sögu og hafa í gegnum tíðina þótt hin merkilegasta stétt manna. Oftast völdust stálgreindir menn í hlutverk þeirra, og trúðar, eða hirðfífl, voru þeir einu sem fengu að tjá sig, oftast óáreittir, um ástand landsmála hverju sinni. Æðstu menn ríkja tóku margir mikið mark á þeim, svo sem Elísabet I, sem ríkti allra þjóðhöfðingja lengst.
Allar aðfinnslur hirðfíflanna fóru fram í gegnum trúðslætin, og þóttu oft með afbrigðum fyndnar, en gengju þeir of langt var þeim oft refsað, oftast hýddir. Þar sem mér sýnist þú taka sjálfskipað hlutverk þitt sem opinber flengill á Jón Gnarr, mjög alvarlega, og linnir varla látum í þeim efnum, langar mig að senda "link" sem upplýsir töluvert um þessa merku stétt manna.
Þar sem það virtist eina leiðin, í íslensku samfélagi í dag, að nota" trúðslætin", sem fara svona fyrir brjóstið á þér, til að ná eyrum borgarbúa, fyrir og eftir kosningar, myndi ég mæla með að hið fyrrum háa alþingi, sem hefur aldrei verið rislægra en í dag, réði sér nokkra góða trúða, því þar sem allir troða á öllum, enginn tekur ábyrgð og enginn hlustar á neinn, myndi góður trúður mögulega ná eyrum þessarar ömurlegu samkundu, sem virðist hafa gleymt að hún á að stjórna og finna leiðir landinu til heilla.
Stjórnarandstaðan er engu skárri en ríkisstjórninog þakkar eflaust í hljóði að þurfa ekki að standa fyrir svörum um afglöp sinna flokka á undanförnum árum.
http://www.clownbluey.co.uk/clown-bluey-clowns-history.html
Mbk. Bergljót
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)