Hvernig er að vera í Kína IV

Af því stórt var spurt, verður margt um svör. Það koma svo endalaust margir hlutir upp í hugann. Ég sé ekki annað, en  þetta endi með mörg hundruð síðna ritgerð. Ég ætla að halda mig við fyrstu mánuðina í þessu landi hinna mörgu andstæðna, til að byrja með, þarna fyrir austan Himalayafjöllin. Ég mun halda áfram að vitna í gömul blogg, þ.e. brot úr þeim. Hér koma kaflar frá því í nóv. 2007.

"Síðan ég kom hingað vakna ég alltaf kl. hálfsex á morgnana eins og klukka. Til að byrja með fór þetta ógurlega í taugarnar á mér, en hvernig sem ég reyndi tókst mér ekki að sofna aftur. Einn morguninn settist ég hérna út á svalir í dögun, í ógurlegri fýlu yfir ástandinu. En það stóð ekki lengi því allt í einu í grafarþögninni sá ég mann á svölunum hérna á móti gera morgunleikfimina sína. Hún stóð yfir í ca. 45 mín, og það var ekki vöðvi eða liðamót neinsstaðar í líkamanum skilið eftir. Ég fór að fylgjast með manninum (svona hálfpartinn í laumi) og þvílík kúnst.

Smám saman fóru að heyrast allskyns hljóð og borgin fór að vakna. Verkamennirnir með handvagnana sína fóru á stjá, húsmæður að þrífa svalirnar, á meðan ein og ein kallaði eða æpti á karlinn og börnin, byrjað var að hengja þvott á snúrurnar (herðatrén) og þá uppgötvaði ég þau dásamlegu sannindi að ég er ekkert árrisul á kínverskan mælikvarða. Síðan tók eitt við af öðru og kl. 7 er allt komið í fullan gang.

Núna sest ég alltaf út með góðan tebolla og fylgist með borginni vakna og það er gott. Alveg steinhætt að gjóa augunum á leikfimisséníið bara góni á hann svona álíka og innfæddir gera, hver á annan og mig líka ef út í það er farið.

Þeir eiga eitt met hérna og mættu Íslendingar skammast sín í samanburðinum, þótt góðir séu. Þetta er að rífa upp götur og gangstíga og bauka eitthvað með það sem undir er, loka aftur, helluleggja, malbika og rífa síðan allt upp aftur og það sem allra fyrst. Þetta veldur því að maður er alltaf að leita að nýjum gönguleiðum, sem veldur því að maður áttar sig betur og betur á  umhverfinu, sem veldur því að ég er orðin betri en Pollýanna sjálf í jákvæðni.

.

Uppbyggingin hérna er svo hröð því það er verið að byggja háhýsi á hverjum auðum reit, og virðist ekkert lát á. Mikið af þessu stendur autt ennþá, en þeir hafa engar áhyggjur af því, því vinnuaflið er ódýrt og þeir sem byggja hafa nóga peninga, en fasteignaverðið rýkur upp. 50 – 70% frá því um áramót að því að mér er sagt.

 Andstæðan við þessar framkvæmdir allar, eu svo hverfi fátæka fólksins, sem sumt hefur aldrei farið út fyrir götuna sína. Þó ljótt sé að segja, finnst mér þessar götur svo heillandi í allri sinni eymd og á vissan hátt póetískri fegurð. Skíturinn og sóðaskapurinn svo mikð að maður er hættur að taka mark á því. Þessar götur eru ekki nema svona rúml. faðmur á breidd og þarna ægir öllu saman, því allt þarf að vera til staðar ef alheimurinn er gatan þín, að vísu með örfáum undantekningum

.

 Þarna er verið að elda mat við ömurlegar aðstæður og kallast víst veitingahús (svona smápartur af gangstétt og 1 ferm. fyrir innan). Helstu húsdýrin eru rottur og kakkalakkar. Mamman er að þvo þvott, sem er hengdur hvar sem hægt er að troða honum, litla systir að hreinsa telauf, stóra systir falbýður sig í dyrunum á hreysinu og pabbinn jafnvel að mæla með henni á fjálglegan hátt, við kúnnana sem eru ekki allir af lekkerustu teg. Í næsta húsi er svo virðuleg teverslun eða eitthað slíkt

.

Allt í einu dúkkar einhver upp og fer að bjóða þér allar nýjustu dvd diskana eða jafnvel vestrænan tískufatnað á fáránlegu verði, svo lágu að maður roðnar. Til þess að nálgast þessa vöru ertu td. leidd á bak við þil, upp þröngan, skítugan stiga og alls kyns króka og kima þangað til þú kemur inn í svona eihverskonar leynilega þjófa eða eitthvað svoleiðis verslun, þar sem glæsileiki er síðasta orðið sem þér dytti í hug . En varan er góð ef þú hefur áhuga. Hér er allt til sölu alveg sama hvað það er.

Til þess að enginn fái ranghugmyndir, þá eru kínverjar mjög hreinlegir að öllu jöfnu og borgin að öðru leiti tandurhrein. Allt rusl er flokkað og meira að segja allar göturuslafötur tvískiptar, fyrir endurvinnanlegt eða úrgansrusl.

   

 Svona smá innskot: Í þessu stóiðnaðarveldi sem Kína er orðið, er ekki búið að finna upp þvottasnúruna!, allt hengt upp á herðatré eða hvað sem fyrir er. Það er svaka system hérna á svölunum sem hala má upp og niður, á mörgum hæðum og allt útbíað í herðatrjám. Sjáið þið í anda nærbuxur, sængurver sokka og what have you, hanga á herðatrjám? Ég elska þetta og ætla ekki að fá patentið á þvottasnúrunni í Kína.

  

Í gær varð Rúnar Breki 9 ára og allt íslendingasamfélagið boðið í stórglæsilegt afmæliskaffi a la Elín. Það hafði dottið hérna inn auglýsing, en á kínversku, samt gat ég lesið upptalningu á ýmsum vestrænum sjónvarpsstöðvum þar á meðal. Sports Channel og svo ýmsum  frétta og fræðslumyndastöðvum. Þar sem minn heittelskaði, er mesti áhugamaður sem ég þekki um enska boltann og evrópumeistarakeppnina ákvað ég að gleðja hann óvænt og taka miðann með til að láta Joey sem er kíverji í vinnu hjá okkur öllum, lesa og þýða – sem endaði með því að hálftíma seinna var búið að panta gerfihnattadisk sem nær 55 stöðvum. Allur pakkinn og árs áskrift á uþb.tíu þúsund kall. 

Tíu mínútum  seinna var hringt og sagt að mennirnir myndu mæta með allt krúsidúlluverkið og setja það upp NÚNA. Þeir eru ekki lengi að þessu kínverjarnir, --- og þó.

Jæja jæja, Joey var sendur á undan til að hleypa þeim inn og fylgjast með, þá var kl. 3. Þegar við komum heim klukkutíma síðar, því mínum varð ekki haldið í barnaafmæli, vitandi af enska boltanum heima, stóðu mennirnir með allt draslið og biðu og höfðu beðið lengi, alveg sallarólegir en enginn Joey. Nú upphófst æðisleg leit að Joey, því hann var með lyklana að íbúðinni. Hann fannst að lokum, en löggan hafði tekið hann á leiðinni fyrir að taka ranga beygju. Við komumst inn um 6 leytið.

 

Mennirnir byrjuðu á að setja upp diskinn og tengja allt draslið og svo settumst við voða spennt og þeir kveiktu. En viti menn allt í rugli, mennirnir hömuðust í öllum tökkum alveg kófsveittir en allt kom fyrir ekki. Eftir nokkra íhugun ákáðu þeir að hringja eftir nýju boxi, Eftir það box og ennþá meiri íhugun var hringt eftir 3ja boxinu og þá komu tveir menn í viðbót og kættist þá hugur minn mjög.

 

Annar af þessum nýju henti sér á sófann og steinsofnaði og hinn fékk sér sígarettu og hafðist svosem ekkert annað að en að góna á hina með vægast sagt ógáfulegum svip. Upphaflegu gaurarnir voru nú orðnir á svipinn eins og ungur drengur sem missir niður um sig buxurnar á fyrsta stefnumótinu og fóru eitthvað að íja að því að senda eftir 4ða boxinu.

  

Ég var farin að sjá fram á að maðurinn myndi sofa á sófanum alla nóttina, við orðin sársvöng og ekki leist mér á að bjóða liðinu í mat, þannig að ég sagði að mér litist eiginlega ekkert á að sitja til kl. 8 í fyrramálið og bíða þá eftir svona 12, til 13. boxi. Þetta fannst þeim alveg svakalega fyndið og mér eiginlega líka, að þeim skildi finnast þetta svona fyndið. En þeim létti greinilega og ákváðu, þá orðnir mjög alvarlegir á svip og ábyrgðarfullir að þetta væri tæknilegt vandamál sem þeir þyrftu að fara með heim og hugsa til morguns. Ég vona að þeir geri meir en að hugsa, það þarf víst líka að leysa. Jæja, jæja þeir fóru kl. að ganga 11 og tóku þennan sofandi með.

   

Nú er bara að sjá hvað dagurinn ber á skauti sér. Fær Oddur enska boltann, missir Beggó þolinmæðina, koma etv. tveir til að sofa á sófanum, verður allt vitlaust eða koma þeir bara og gera þetta rétt?  Þá vitið þið hvernig domestic vandamálin eru í Kína, eða þannig. Ekki orð um það meir fyrr en leikslokum.
 

Eins og þið vitið núorðið, byrja ég alltaf daginn á því að skoða vininn minn fjölfima hérna á móti, en af því við erum búin að eignast þessa líka dásamlegu expressovél ákvað ég að fá mér ilmandi og sterkt kaffitár í morgun í staðinn fyrir hið hefðbundna te. Ég kom mér vel fyrir á svölunum, naut þess halda um heitan bollann með Lavazza ilminn í nefinu og leit yfir götuna til að gá hvort hann væri ekki að byrja.

Ég veit eiginlega ekki hvernig ég á að lýsa þessu mesta morgunsjokki lífs míns. Á svölunum sat svo eldgömul kerling að ég hélt að hún væri að minnsta kosti dauð, grafkyrr í ruggustól og starði á mig á móti, því ég hlýt að hafa fengið Stóra störu, og glotti ógurlega upp í opið geðið á mér.

Var þetta konan hans, mamma, amma, langamma eða bara einhver norn send mér til höfuðs af því ég glápi svo mikið? Voru þetta kannské einhver mótmæli við kaffinu, því kínverjar drekka ekki kaffi? Er vinurinn mögulega fluttur eða er bara einhver gömul frænka komin í heimsókn og hann ekki kunnað við að troða sér út á svalirnar til hennar og fara að sprikla? Þið haldið líklega að ég sé orðin eitthvað rugluð, en þetta er grafalvarlegt mál! Hvar verð ég án mogunleikfiminnar?

 Í gærkvöldi fórum við út að borða fimm saman, á alveg rosalega fínan franskan stað og fengum okkur fimmréttaða máltíð. Ég fékk mér gæsalifur í forrétt, svo fiskisúpu, síðan kom salat, þá önd sem aðalréttur og loks báberja ostakaka og kaffi. Þau fengu sér eitthvað svipað og með þessu drukkum við tvær flöskur af rauðvíni. Þetta kostaði allt saman 9000 kr. allur pakkinn og þar af var rauðvínið helmingurinn. Hugsið ykkur fimmréttuð lúxusmáltíð fyrir fimm. Þarna voru fínir þjónar á hverju strái, lifandi tónlist, flottir dúkar og srevíettur og staðurinn bæði stór og glæsilegur. 

 Eftir matinn fórum við hérna út með ströndinni í leifarnar af gullfallegu þröngu fiskimannaþorpi, sem liggur á bak við stórt og glæsilegt Búddahof. Eftir að hafa þrætt dimm og þröng öngstrætin komum við að alveg stórfurðulegum stað sem er víst hótel, allt eldgamalt og upprunalegt. Þú kemur inn í nokkuð stóran forsal með kojuherbergjum til hliðanna ásamt eldúsi, klósettum og þvottavél sem er komið haganlega fyrir, þannig að enginn pissi óvart í hana í öllu kraðakinu. Það er gamall alveg stórhættulegur stigi upp á þak og þar sátum við og spiluðum og sungum fram á nótt. Þarna voru mættir nokkrir vinir Rúnars sem spila allir mjög frambærilega á gítara og þetta varð alveg meiri háttar skemmtun.

Þetta hótel er byggt í kring um forsalinn en í honum er stórt borð og stólar þar sem margir geta setið og þarna voru  kínv. stúdentar sem sungu kínversk lög, framandi en falleg tónlist. Það er ekkert þak yfir þessari miðju bara strekktur dúkur yfir þegar rignir. Hvernig ætli sé að búa á hóteli með engu þaki? Nóttin kostar 72 kr. ef einhver vill prófa. Á laugardögum er alltaf flóamarkaður þarna uppi á þakinu og kennir víst oft nokkurra stórmerkilegra grasa. Þarf endilega að skoða hann fljótlega.

Í dag erum við að hugsa um að ganga niður að höfninni í gegn um gamla hlutann af borginni og etv. að villast svolítið í kraðakinu.

 

Ps. Það kom einn gæi morguninn eftir og tengdi sjónvarpið á örskotsstundu, við alsæl en höfum ekki gefið okkur tíma til að kveikja á því síðan".

Því miður klessist þetta allt saman þegar þeg set það inn á netið, en við því kann ég engin ráð.

frh.


 

» 0 hafa sagt sína skoðun


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Stórfín frásögn og maður er ekki búinn að fá nærri því nóg ennþá.

Axel Jóhann Axelsson, 28.10.2010 kl. 13:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband