Hvernig er að vera í Kína I

P9222438

 

 

 

 Fiskibátahöfn við háskólahverfið í   Xiamen, Xia Da.

 

Ég var spurð hérna á blogginu nýlega "Hvernig er að vera í Kína?". Einfaldasta svarið er fínt. En eins og allir hljóta að sjá er það ekkert svar í sjálfu sér. Eftir rúmlega fjögurra ára dvöl í landinu, með smá hléum, myndi ég segja stórkostlegt, en bæta þó við, oftast. Þetta er ægifagurt og gríðarstórt alltsaman og fólkið yfirleitt með afbrigðum vingjarnlegt.

Til að byrja með hafði maður ekki við að verða hissa, hissa á fátæktinni og fallegu stolti hinna fátæku og síðan á ríkidæminu sem virðist ekki eiga sér nein takmörk. Þar varð ég lítið vör við stolt, aðallega frekju og yfirgang. Mest var ég þó þó hissa á að sjá harðan kommúnisma rekinn samhliða jafn gallhörðum kapitalisma, þarna leiddust þeir hönd í hönd "ismarnir" eins og ástfangið par. 

Talandi um fallegt stolt hinna fátæku, sem hafa aldrei verið annað en fátækir, og nægjusömu, varð mér oft starsýnt á fólk við vinnu. Það skipti engu máli hversu erfið vinnan var líkamlega, það skein oftast úr andlitunum hér er ég og ég hef vinnu. Þeir sem hafa komist í álnir hafa ekki þetta fallega yfirbragð að öllu jöfnu. En þarna fastklemmt einhversstaðar á milli er hellingur að fólki sem vill komast í hóp hinna ríku og vílar ekki hlutina fyrir sér, treður á öllu og öllum og er óheiðarlegt með afbrigðum. Þetta fólk minnir mann á einhverskonar sníkjudýr.

Hinir snauðu eru ekki allir af bestu sort heldur, þarna mátti sjá börn og unglinga sem höfðu verið lemstruð á fótum þannig að vonlaust var að þau gætu gengið aftur, síðan send út af foreldrunum á trébrettum til að betla, og þar með orðin fyrirvinna fjölskyldunnar. Mér var sagt að þeim væri talin trú um að þetta væri stórt hlutskipti og þeim einum ætlað. Í dag sést þetta ekki lengur sem betur fer, en hvað hefur orðið um þessi börn veit ég ekki, þau bara hreinlega hurfu. Afturámóti er ennþá töluvert af fólki  með lítil börn sem er alla daga betlandi. Þessi börn eru alltaf sofandi, en guð einn veit hvernig þau eru á sig komin þegar þau vakna, ef það er þá einhverntímann.

Ég bjó lengst af í borginni Xiamen, sem er stór og nútímaleg hafnarborg, höfnin ein sú stærsta í Kína. Íbúatalan er einhversstaðar á bilinu 3 til 5 milljónir að sögn, en nú er manntal í gangi, þannig að það kemst fljótlega á hreint. Xiamen er að stærstum hluta á eyju hæðóttri og skógi vaxinni að hluta. Að norðanverðu er höfnin sem teygir sig tugi kílómetra meðfram ströndinni, en að sunnan og austan er strönd sem teygir sig tandurhrein og hvít svo langt sem augað eygir.

Borgin er nútímaleg mjög, enda ásetningur stjórnenda að gera hana að einni stærstu viðskiptaborg Kína. Þarna rís hver glerhöllin á fætur annarri, allar um 30 til 50 hæðir. Innan um hallirnar eru víða gömul hverfi, en þeim fer óðum fækkandi vegna þessa byggingaræðis, þó svo flest af  nýju húsunum standi auð ennþá. En þeir hafa biðlund, og peninga til að hafa efni á henni, þarna austurfrá og vita sem er, að þetta á allt eftir að fyllast.

Verst finnst mér þó, að þeir hafa engan sans fyrir að halda í neitt af fortíðinni og rífa bara allt sem fyrir verður. Hús sem einu sinni hafa greinilega verið undurfögur, í mjög sérstæðum kínverskum stíl, eru bara látin gossa eins og ekkert sé, enda þekkist ekki viðhald húsa og allt látið drabbast niður, ekkert skal skilið eftir sem minnir á fortíðina, ekki smáskiki.

En borgin er bæði falleg og heillandi og mikið um stóra almenningsgarða, sem fólk notar sér óspart. Morgunleikfimi ásamt tónlist er daglegt brauð og mjög vel sótt. Hundruðir manna koma þarna og teygja sig saman, sér til heilsubótar, enda auðséð hversu fólk er vel á sig komið, og það á öllum aldri. Það eru eingöngu útslitnir erfiðismenn sem ekki ganga um teinréttir og tágrannir, þeir eru bara tágrannir.

Þessir garðar hafa margir hverjir stór útisvið og sumir mörg. Þarna eru fluttar kínverskar óperur, leiksýningar, og tónlist af öllum toga, bæði vestræn og austurlensk. Dóttir mín Elín og tengdasonur Rúnar, sem kalla sig Heima sem tónlistarmenn, héldu allmarga tónleika í þessum görðum. Þar kemst enginn að nema eftir vali, en þau hlutu alltaf mjög góðar móttökur. Þau ráku einnig veitingastað í borginni sem hét Heima og var vinsæll meðal bæði kínv. og vesturl.búa.

Þarna sá ég í fyrsta sinn kínv. óperu. Stórkostlegt "show" búningarnir engu líkir og litríkið ótrúlega flott, en söngurinn maður, honum þarf að venjast svo ekki sé meira sagt. Fyrsta tilfinningin var eins og að fá sturtubað af skrækum hljómum niður eftir öllum líkamanum og ekki endilega mjög þægilegt. Þetta hefur þó vanist smátt og smátt, þannig að ég er næstum því farin að njóta skrækjanna.

Frh.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Frábær og skemmtileg frásögn.  Bíð spenntur eftir framhaldi.

Axel Jóhann Axelsson, 26.10.2010 kl. 13:24

2 Smámynd: Sigurbjörg Eiríksdóttir

Ég tek undir með Axel..

Sigurbjörg Eiríksdóttir, 26.10.2010 kl. 14:13

3 Smámynd: Bergljót Gunnarsdóttir

Takk fyrir það. Góð hvatning.

Bergljót Gunnarsdóttir, 27.10.2010 kl. 07:50

4 identicon

Vá vá vá!!!  Ég thakka fyrir kaerlega!  Thad var ég sem spurdi.  Nú hlakka ég til thess ad lesa I, II og III.

Thakklátur (IP-tala skráð) 27.10.2010 kl. 16:28

5 Smámynd: Bergljót Gunnarsdóttir

Verði þér að góðu!

Bergljót Gunnarsdóttir, 27.10.2010 kl. 18:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband