Færsluflokkur: Bloggar
3.2.2011 | 23:48
Hálka og smá hugvit
Það er e.t.v. hranalegt að skammast út í fólk sem er nýbúið að keyra bílinn sinn í klessu og slasa sig í leiðinni. En fólk ætti að hafa þá glóru í höfðinu, að sjá að hálkuslys verða, nærri án undantekninga, vegna þess að fólk sýnir ekki aðgát og heldur að því sé allt fært. Það gerist ekkert svona, ef ekið er eftir aðstæðum hverju sinni, þ.e. bara lúshægt í hálkunni og hafa alla gát á.
Ef fólk vill endilega keyra eins og vitleysingar, hvort heldur er á sléttum dekkjum eða bara hreinlega of hratt, ætti það að sýna vinum og vandamönnum þá tillitssemi að vera ekki með þá í bílnum.
Tvær bílveltur í kvöld | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.2.2011 | 23:44
Skelfileg lífsreynsla
Að fá svona rafstraum hlýtur að vera skelfileg uppákoma fyrir þann sem fyrir verður, mér liggur við að segja fórnarlambið, og gott að einhver var gerður ábyrgur fyrir mistökunum. Slysið varð árið 1998, en lagt var fyrir þessu 1994. Þetta hefur beðið þarna eins og tifandi tímasprengja í fjögur ár.
En það sem vekur furðu mína er allur tíminn sem leið frá slysinu þar til dómur féll í málinu, eða 13 ár. Hverju ætli það sæti? Var kært svona seint, eða tekur mál svona langan tíma að ganga í gegnum kerfið, þetta er jú bara Héraðsdómur. Hversu langan tíma tekur þá að fá lokaniðurstöðu í málið, ef það á jafnvel eftir að fara fyrir Hæstarétt líka?
Fékk raflost í baðinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
1.2.2011 | 03:18
Blogg, myndir og önnur vandræði
Þessar myndir eru allar af hlutum sem ég er að vinna að til að sýna í vor í Iðuhúsinu, Lækjargötu. eins og sjá má eru þær misstórar og allar í einum graut, en það er algerlega skrifað á klaufaskap minn við að stjórna því að koma þeim sómasamlega á síðuna. Þetta stunda ég með íhlaupum í bloggið, en ég hef ótrúlega gaman af að tjá mig um allt sem ég hef áhuga á og aðrir skrifa.
Ég er svo heppin að vinnustofan er hérna í kjallaranum og ég stekk bara milli hæða, annað hvort til að blogga um eitthvað sem mér datt í hug niðri, eða gera einhvern hlut sem mér dettur í hug meðan ég blogga. Nú verð ég að fara að minnka bloggið og vinna meira, örugglega mörgum til léttis, því ekki dugar að halda sýningu í hálftómum sýningarsal. Það er víst, því miður, ætlast til að maður hafi eitthvað til sýnis.
Í gærkvöldi tók ég þátt í umræðu á blogginu Hans Axels Jóhanns Axelssonar, sem endaði í hundleiðinlegum langhundi sem var bara orðinn að þvælu. Axel stoppaði þetta bara, eða reyndi það, en mér sýnist það nú ekki alveg hafa tekist. Ég var svo heppin að vera búin að lýsa mig hætta, þegar hann tók af skarið. Mikið getur argaþras með fákunnáttu verið leiðinlegt, en ég lýsi mig alveg blanka, fyrir utan að ég vil banna búrkur. Fyrirgefðu Axel minn að ég skyldi ekki hætta fyrr.
Ég er algjör þorramatsfíkill, en því miður virðist góður þorramatur vera að hverfa. Hann er illa eða ekkert súrsaður, stundum bara fúll og rándýr í ofanálag. En hákarlinn í Fiskikóngnum toppar tilveruna á meðan hans er neytt. Ég ákvað bara að ég yrði fárveik ef ég fengi hann ekki á hverjum morgni, allan þorran því auðvitað vil ég ekki leggjast í rúmið núna í skammdeginu. Það er bara eitt sem truflar þessa kenningu mína, en ég slæ bara á það, það er, hvers vegna ég er búin að vera stálslegin án hans alla mína ævi - hm. Það er verst að maður getur ekki verið þekktur fyrir að drekka Brennivín, með kalla, eldsnemma á morgnana, en gvöð hvað hann er góður með og án þeirra veiga.
Fékk mér stuttan göngutúr um miðnættið, veðrið var svo gott að ég naut hans virkilega. Ekki var verra að sjá að nágranni minn og fjölsk. voru búin að slökkva á ljótustu útseríu sem ég hef nokkurn tímann séð. Þau gleðja mig með henni á hverju ári, en hún hékk fram í apríl fyrir ári eða tveim en var hengd upp fyrir jólin. Liturinn er eins og að koma inn í illa lýst líkhús og stærðin maður.
Þetta er beint fyrir utan stofugluggann okkar, en eldhúsið hjá þeim, þannig að þau fá ekki að kveljast eins mikið og við hérna beint á móti. Að seríunni undanskilinni hefur þetta fólk aldrei sýnt mér nein leiðindi, er afskiptalaust, svipfallegt og virkar alveg prýðisfólk. Ég er svo mikil gunga að ég hef aldrei getað drifið mig yfir og spurt í góðu, svona upp úr miðjum febrúar, hvort þau væru ekki til í að hætta til næstu jóla. En það er nú kannski hámark frekjunnar að leyfa sér að engjast yfir einhverri jólaseríu sem nágrannanum finnst falleg, en ég fæ hugsunarleg frekjuköst þegar ég horfi á. Þarna sannast enn einu sinni að beauty is in the eye of the beholder.
Best að drífa sig í háttinn og hætta að skrifa mikið um ekkert.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
31.1.2011 | 19:09
Búrkubann!
Ég er algerlega sammála þessum tveim þingkonum um að banna búrkurnar. Fólk sem flytur milli landa verður að vera fært um að lifa samkvæmt þeim venjum sem viðgangast í nýja landinu, annars fer alltof margt úrskeiðis. Konur sem vilja einarðlega ganga í þessum fatnaði verða bara að búa þar sem hann viðgengst.
Þó ég sé mjög fylgjandi að fá innflytjendur og nýbúa og blandast þeim, ef við getum hjálpað fólki á leið þess til betra lífs en það hefur búið við, er þetta að mínu mati kolröng leið til að taka á móti nýbúum. En hér á landi er svo stutt í jafnrétti kynjanna að það yrði óbærilegt eftir stuttan tíma fyrir þessar konur að ganga í búrku og merkja sig þarmeð sem undirokaðar, þar sem þeim myndi örugglega ekki líða vel innan búrsins þegar þær sjá allar aðrar konur óhnepptar í þetta gamla helsi karlrembunnar í Arabalöndunum.
Íslenskar konur vilja ekki fara mörg ár aftur í tímann og við sættum okkur ekki við að einhverjir vilji halda nýjum þegnum þar. Búrkan í hinum Vestræna heimi á bara ekki við, og það vegna þess að samfélagsleg gildi þessara tveggja hugsunarhátta þe. í eða án búrku stangast algerlega á. Þetta sá Frakklandsforseti og lét banna búrkuna.
Vill ekki banna búrkur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
30.1.2011 | 19:57
Húrra fyrir Dönum
Ég er rétt að jafna mig eftir þennan æsispennandi leik. Ég er greinilega tapsárri en danska landsliðið, því ég fór bara að háskæla af vonbrigðum. Það hefði orðið svo yndislegt að fá lille Danmark sem heimsmeistara.
Þeir eru frábærir Strákarnir Okkar, þessir dönskumælandi, og liðið ótrúlega gott. Frakkar unnu einn góðan gang og hlýtur að líða eins og þeim sem valdið hefur. Ég sendi þeim mínar bestu andlegu hamingjuóskir, en verð þó að viðurkenna að það er ennþá skeifa á andlitinu.
Frakkar heimsmeistarar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.1.2011 | 15:13
Enginn Nóbel að sinni
Allt er að verða vitlaust út af Stjórnlagaþings skandalnum. Jóhanna tjáði sig skjálfandi af reiði um málið í þinginu, á þann hátt að andstæðingar hennar hreinlega fitnuðu af gleði. En við verðum bara að vona að þeir grennist fljótlega aftur, þegar sigurvíman rennur af þeim og Stjórnlagaþingið verður haldið, hvað sem hver segir.
Strákarnir Okkar eru ennþá Strákarnir Okkar, og getum við þakkað það Norðmönnum frændum okkar, sem sigruðu Spánverja óvænt og hífðu okkur þar með upp um tvö sæti í bili. Þeir voru ekki alveg að standa sig í milliriðlinum, en þrátt fyrir það verða þeir allavega Strákarnir Mínir í framtíðinni. Það er ekkert smá erfitt fyrir þá að hafa heila spælda þjóð á bakinu, sem nánast heimtaði að þeir færu í úrslitaleikinn og fengju gylltan pening um hálsinn.
Finnst þér ekki dásamlegt lesandi góður að hafa svona hlýjan og góðan vetur hérna sunnanlands, ég elska það hreinlega. Að vísu hef ég fulla samúð með þeim sem stunda vetraríþróttir, en ef til vill koma tímar og ráð þeim til handa seinnipart vetrar, en þá verður líka orðið bjartara og ratljóst þegar þeir bruna af stað niður skíðabrekkurnar, sem er ekkert skemmtilegt í myrkri og snjóleysi.
Þar sem ég bý í næsta nágrenni við Vatnsmýrina hafa gæsir í hundraða ef ekki þúsundatali glatt augu mín þegar ég hef átt leið hjá. Það er ótrúlegt hvað fuglarnir halda tryggð við það sem eftir er af mýrinni, inni í miðri borg, við mengunina sem fylgir bæði flugvellinum og bílaumferð. Þegar vorar bætast lóur og hrossagaukar ásamt ýmsum smáfuglum í hópinn og gleðja þá sem eru ekki of stressaðir og á harðahalupum, til að heyra þennan dýrðlega kór halda ókeypis konsert.
En ennþá er bara þorri og við verðum víst að þreyja hann og góuna, síðan einmánuð, en þá kemur harpa með sín hörpuljóð og tekur undir með fuglunum til að gera þetta ennþá stórkostlegra.
Kveð að sinni út frá þessum hugleiðingum sem sækja á mig núna þegar daginn fer að lengja.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
26.1.2011 | 09:29
Fullorðinn eða barn?
Bandaríkjamenn virðast ekki víla sér við að dæma börn fyrir allskyns glæpi og refsa þeim grimmilega sem fullorðin væru. Séu börnin svo "heppin" að vera dæmd sem slík bíður þeirra margra "betrun" á borð við þá sem fór fram í Breiðuvík og fleiri stöðum á Íslandi á sínum tíma.
Fyrir Bandarískum dómstólum er siðmenningin t.d. á því plani að dæma börn sem fara í svokallaðan læknisleik til þyngstu refsingar. Hann er algengt fyrirbrigði um allan heim, tilkominn af forvitni barna um sjálf sig og hitt kynið. Við munum öll mál íslenska drengsins sem var bjargað heim til Íslands fyrir nokkrum árum vegna þess að hann hafði tekið þátt í slíku, en þar í landi kallast slíkt kynferðisglæpur, og virðist ungur aldur ekki skipta neinu máli.
Mig undrar mest að þeir sem eiga að hafa umsjón með þessum ólánsbörnum skuli aldrei vera dæmdir fyrir þeirra glæpi, framda í hjálparleysi og einangrun barnanna og skilið hafa eftir sig svo djúp sár, svo víða.
Morð er morð, og engar málsbætur fyrir það, en að dæma eftir kerfi sem hefur ekki ákveðið aldurinn sem börn hætta að vera börn og eru orðin fullorðin, er alger óhæfa og ætti ekki að vera til hjá siðmenntuðum þjóðum eins og Skagstrendingur bendir svo réttilega á í bloggi sínu í dag.
Tekist á um réttarhöld yfir 13 ára meintum morðingja | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.1.2011 | 01:10
Djísös Kræst
Stjórnlagaþingskosning ógild | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.1.2011 | 01:51
Ferðin til Mars?
Ef ég væri ein á ferð einhversstaðar úti á landi, fjarri byggð reikna ég með að ég myndi hreinlega leggja upp laupana af hræðslu. Áður en ljósið hyrfi aftur væri ég búin að ímynda mér hersingu af litlum grænum körlum sem myndu bara söðva bílinn með augnaráðinu úr þessu eina auga sem ég held að svoleiðis kallar hafi.
Síðan myndu allir lásar á hurðunum spretta upp af sjálfu sér, Kallagreiin sem hefðu ekkert fundið annað en aleitt kerlingarhró að villast úti í sveit, yrðu að vonum örlítið spældir, en heiðurs síns vegna tækju þeir mig með, upp í silfurlitað geimfarið og síðan væri tekin bein stefna út í geiminn. Af því að ég er svo mikil gunga, myndi ég sennilega ekki lifa þetta af. Eina vonin er sú að það liði bara hreinlega yfir mig, en þá yrði ég fyrsti jarðarbúinn til að stíga mínum netta fæti á Mars.
Sáu ljósbjarma á himni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.1.2011 | 21:46
Ha, hvað?
Er þetta ekki allt í lagi úr því að allt á að vera svona gagnsætt hvort eð er?
Gleymdist það etv. eða týndist einhversstaðar, þ.e. gagnsæið?
Fagmaður að verki | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)