Færsluflokkur: Bloggar

Hverjum er ekki sama?

Þetta er deyjandi flokkur og vonandi heyrist lokastunan fljótt.  Flokkurinn hefur undanfarin ár að mestu verið skipaður tækifærissinnum sem hafa varla haft áhuga á öðru en sjálfum sér og eigin framgangi. Það skiptir engu hver ræður ríkjum þar, flokkurinn hefur tapað orðspori sínu í gegn um valdatíð mislukkaðs fólks eins og Halldórs, Jónínu Bjartmars ofl. o. fl. 

Var nærri búin að gleyma að hann væri til. Get varla ímyndað mér að nokkur óbrjáluð manneskja láti sér detta í hug að kjósa hann. Hlakka til að sjá dánartilkynninguna.


mbl.is Sigmundur sterkari, veik staða Bjarna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að loknum kjörfundi

 

Nú er ég búin að nei -a,
naumt þorrann og góuna þreyja.
Svo kemur vorið,
sólin og þorið,
og sveitamenn vel munu  heyja.


Hverlags drullusokkur er þetta eiginlega?

Þetta er greinilega kolbilaður maður, og ef lífláta ætti  einhvern í sambandi við málið held ég að langbest væri að slá hann sjálfan, sem misnotar að öllum líkindum barnið sitt, af með hraði eins og gert er víða um heim við svona sóðaglæpum, t.d. í Kína að ég best veit.
mbl.is Lögmanni hótað lífláti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrilitning

100_0363

 Ósk um frið og velsæld. Mynd sem ég gerði úr mósaik árið 1995.

 

Ekki nema eitt orð um Icesave kosningarnar í dag. Ég trúi því ekki á landsmenn að þeir kjósi yfir sig skuldir þeirra Björgólfsfeðga, sem þeir virðast vera borgunarmenn fyrir sjálfir, þó annar þeirra segist gjaldþrota.

Ekki trúi ég á þann yngri, þó glæpamaður sé, að hann láti pabba gamla svelta og geymi ekki ofurlítið af peningunum sem þeir stálu úr Landsbankanum, á síðustu mínútu, í handraðanum fyrir þann gamla.

Auðvitað snúast þessar kosningar sem framundan eru ekki um þá feðga, eða annað hyski sem setti þjóðina á hausinn, heldur um hvort við eigum að taka á okkur einhverjar bankaábyrgðir, sem enginn veit hvort eru fyrir hendi, og fórna þarmeð framtíð barnanna okkar í fjárhagslegu tilliti.

En að koma þjóðinni í svona klandur er ekkert til að hrópa húrra fyrir, og á enginn þeirra sem stóðu að hruninu svo mikið sem eilítið bros skilið frá öðrum Íslendingum, og verði þeir þreyttir á útlegðinni verði þjóðin ekki eins fljót að gleyma og oftast nær.

Að nokkur maður geti kosið Sjálfstæðisflokk eða Framsókn kinnroðalaust í dag er mér hulin ráðgáta, en þarna virðist þessi gleymska koma til. Þó svo ríkisstjórnin standi sig með sögulegum eindæmum illa, er það engin afsökun. Þessir flokkar sváfu ekki bara, þeir hrutu meðan forsvarsmenn þeirra gáfu allt, eða seldu ódýrt, til þeirra sem nýttu gjafirnar svona vel. Vel fyrir land og þjóð, ó nei fyrir sjálfa sig og sína nánustu, og enga aðra.

Ég get bara ekki hætt að hugsa um þetta, svo svívirðilegt sem það er og vona svo sannarlega að sá dagur komi fljótt að þeir hitti sjálfa sig fyrir. Græðgin er líklega sú ógeðslegasta af höfuðsyndunum.

 


Dugnaður?

100_3377

Ég held ég sé duglegasta manneskja í heimi á ýmsum sviðum. Ég er alger hamhleypa til verka, þegar verkast vill, og þess utan oftar en ekki búin að gera hlutina áður en mér detta þeir í hug. Þannig gerðist það um árið að ég skellti skúffu af alefli á löppina á mér. Það stóð einhver plastpokaræfill upp úr henni, svo ég ákvað að ýta honum niður með tánum, en áður en mér tókst að lyfta löppinni upp aftur, skellti ég skúffunni af alefli, ergo, ég fótlama í viku.

Ég hef gengið fram á ystu nöf til að skoða mig betur um í Nauthólsvík, þar á ég við einhverjar klettasillur sem ganga fram fyrir ofan víkina. Auðvitað var holt undir snösinni, hún brast, og ég féll einhverja 6 -8 metra og lenti í grjóti, með þeim afleiðingum að ég þríbronaði á hrygg og tvisvar á sama á fæti. Það tók mig þrjá fallega sumarmánuði liggjandi á bakinu á spítala, þar sem ég mátti hvorki bylta mér eða setjast upp, og helti í eitt ár. 

Endalaust hef ég brotið einhver bein, skorið mig illilega eða eitthvað viðlíka. Núna sit ég hérna illa tognuð á vinstri fæti og kemst varla áfram, utan þess að hinn fóturinn er svona ca. tvöfaldur, vegna innvortis blæðinga, og marið er á stærð við fótinn fyrir neðan hné.

Það kom hérna maður, nágranni að ég held, eitt kvöldið og tilkynnti að það hefði runnið vatn úr garðslöngunni í minnsta kosti sólarhring, og hvort ég vildi nú ekki stoppa ósómann, þetta væri farið að renna út um allt. Síðan hvarf hann á brott, en ég, rösk að vanda, hljóp af stað á bakvið hús, til að framkvæma þennan nauðsynlega verknað. 

Það var kolamyrkur og ég sá ekki glóru. Mundi þess vegna ekki að daginn áður hafði verið staflað þarna trékössum með hvössum brúnum, níðþungum, svo ég bara hljóp á þá, og tókst á loft þegar ég lenti á fyrsta kassanum, þá fékk ég höggið sem orsakaði marið. Síðan hentist ég á annan kassa, með þeim afleiðingum að löppin beyglaðist einhverveginn út í loftið og tognaði "par excellence".

Þess vegna sit ég alveg brjáluð út í sjálfa mig fyrir að setja svona strik í reikninginn, þegar ég á að vera niðri í kjallara að ganga frá sýningunni sem ég ætla að opna eftir páska. Verst finnst mér að þetta er allt sjálfskaparvíti. Að vera svona fjári röskur er ekkert grín.

En ég sæi mig samt í anda, ganga að hlutunum af stakri ró, og framkvæma síðan, án þess að nokkur skapaður hlutur gerðist, nema nákvæmlega það sem ætti að gerast. Þá yrði ég nú hissa!


Bíldudalur

100_2040

 Hef það til siðs að láta egg standa upp á endann á vorjafndægri. Gerir svo sem engan gæfumun, en er gaman að glíma við.

100_0484

 Séð út um stofugluggann minn á Bíldudal,

100_0569

 og aftur,

Picture_0080

 og aftur, en á nesinu sem skagar út í sjóinn er sagt að Þorsteinn Erlingsson hafi setið þegar hann samdi Nú blika við sólarlag sædjúpin köld, og svona ætti að vera hvert einasta kvöld. Með hreinan og djúpan og heilnæman blæ, og himininn bláan og speglandi sæ.

 

 Picture_0727

 og aftur.

100_1664

 Síðan má veiða á stórstraumsflóði af skansinum fyrir framan húsið,

 

Picture_0064

 og hafa það bara ansi huggulegt á meðan í kvöldkyrrðinni.

----------------------------------------------------------------------------------------

Bíldudalur er uppáhaldsstaðurinn minn á Íslandi, enda keypti ég mér lítið hús þar, í fjöruborðinu og hef átt ógleymanlegar stundir við fuglasöng, sjávarhljóðið og yndislega vini sem ég hef eignast á staðnum. Var að skoða myndir og flokka í tölvunni og ákvað að láta þetta flakka inn á síðuna.

 


Bréf til guðs.

004

Var að færa til stóran skáp í borðstofunni og þá kom í ljós þessi mynd sem dóttir mín gerði, þá nýlega sex ára gömul.

Ég sat í rólegheitunum inni í stofu um hávertur, en úti var snjókoma og fjúk. Ég tók þá eftir að stelpan var eitthvað að bauka í opnum stofuglugganum, en mér líkaði ekki að fá ískaldan gustinn inn.

Hvað ertu eiginlega að gera spurði ég og svarið kom um hæl, "ég er að senda bréf til guðs." Skilningslaus og leiðinleg,  sagði ég henni að fara strax út og sækja þetta, því ég vildi ekki hafa að hún væri að henda rusli út um gluggana og svona væru bréf ekki send. Þegar hún kom inn aftur og rétti mér þetta sagði hún, "ég er viss um að þetta hefði fokið upp í loft og þá hefði guð bara gripið það.

Ég hef alltaf haldið mikið upp á þetta plagg og hélt að það hefði glatast þegar það kom í ljós áðan.

"


Reiði

„Reiðin er eitt andskotans reiðarslag“ skrifaði Jón Vídalín forðum og verður ekki annað séð en hann hafi  haft nokkuð til síns máls. Samfélagið nötrar undan heilagri reiði allflestra landsmanna og þeir láta hana óspart í ljósi. Hver höndin er upp á móti annarri eftir því hvar menn standa í flokki , en stundum verður reiðin jafnvel flokkspólitíkinni yfirsterkari og menn bölva sínum eigin flokki, ef ekki opinberlega, þá  á laun.

Þetta kemur allt mjög berlega í ljós hérna á blogginu þar sem menn munnhöggvast út í allt og alla. Allmargir leita sér að fréttum til að hneykslast útaf og senda svo  út um allan heim í tölvur þeirra Íslendinga sem á annað borð lesa blogg,  hvaðan svo sem það blogg  er sent, jafnvel þó bloggið fjalli ekki  um reiðina sem kvelur flesta, en það er þó langoftast einhverskonar  reiðilestur.

Eyjan virðist nokkuð vinsæl í dag og líklega það blogg sem flestir lesa, enda margir málsmetandi menn sem skrifa þar góða pistla. Slíkir pistlar sjást líka hér á moggablogginu, en þeim fer stöðugt fækkandi. Einhvernveginn hefur maður orðið á tilfinningunni að ritstjórn Mbl. Vilji bara hreinlega losna við bloggið, síðum er lokað og aðgangur að bloggheimum falinn svo mjög,  að hann nálgast að vera orðinn neðanmáls.

Það vekur mér nokkra undrun að blogg skuli vera ritskoðað hér á Mogganum, minnir helst á Kína, þar sem allt er ritskoðað sem ekki er hreinlega bannað, sbr. Facebook ofl. o.fl..

Snúum okkur aftur að reiðinni, sem er svo landlæg. Það má flokka hana í þrjá meginflokka.

1.       Reiði út í stjórnvöld.

2.       Reiði út í stjórnvöld

3.       Reiði út í stjórnvöld

Þessi reiði beinist gegn duglausum stjórnvöldum, núverandi og fyrrverandi. Fólkið er búið að fá nóg af framkvæmdaleysi ríkisstjórnarinnar, sem sér ekkert annað en Icesave og einhversstaðar á bak við það glittir í ESB. fyrir utan að hver höndin virðist upp á móti annarri. Fólk er reitt út í að aðrir vilja ekki það sama og það sjálft, þ.e. vera meðmæltur ef þú ert það ekki og öfugt, og nennir að þenja sig alveg endalaust útaf þessu.

Fólk sem hefur tapað aleigunni vegna óheiðarleika annarra og orðið blásaklaus fórnardýr kreppunnar er líka reitt og það skiljanlega. Það er ekkert verið að gera í málum þessa fólks á meðan starað er á Icesave, rétt  eins og það sé mikilvægasti hlutur í heimi að auka á skuldir þjóðarinnar. Hjónaskilnaðir, sjálfsvíg og brotin heimili er algengur fylgifiskur þessa hóps, það þarf enginn að ræða hvaða áhrif þetta hefur á börnin, það vita allir hugsandi menn.

Svo eru það glæpamennirnir sem við nefnum útrásarvíkinga og allt bankastjóra og bankaráðspakkið sem var svo duglegt að draga sér fé almennings, eftir svo lygilegum leiðum að venjulegt fólk skilur ekkert í hvernig það var hægt. Þetta lið virðist eiga arftaka sem eru að stinga aftur upp kollinum í bankakerfinu og víðar, alveg kinnroðalaust, veldur líka hömlulausri reiði. Þetta fólk kann ekki að skammast sín og virðist ekki  einu sinni vita hvað það er. Það er ekkert gert til að stöðva þetta, meðan Icesave er vaggað eins og það væri nýfætt barn Steingríms og Jóhönnu, enda er það ekkert annað, þó ekki sé það nýfætt.  Það þarf ekki að minnast á að byrjunarliðið í glæpamennsku gengur allt laust ennþá og sendir þjóðinni bara langt nef.

Nýsköpun atvinnulífsins er nánast eins gleymdur draugur einhversstaðar aftur í fortíðinni, svo langt er hún frá raunveruleikanum,  meðan stjórnvöld halda uppteknum hætti við að rífast innbyrðis og hugsa ekki um neitt annað en Icesave.

Meira að segja grínistar Besta flokksins sem eru löngu búnir að koma því sem þeir vildu koma á framfæri, eru í óða önn að gera allt vitlaust í skólamálum borgarinnar og fólk er brjálað úr reiði.  Ég held að þeir megi nú alveg fara að draga sig á hlé, enda að færast alvara í leikinn, þegar börnin, framtíð landsins, eða réttara sagt menntun þeirra  er í húfi. Þeir voru nauðsynlegt innlegg í stjórnmálin til að sýna okkur hinum hvað þetta er allt meira og minna rotið og forstokkað. Þeir  mega þó eiga, að þótt  þeir hugsi stundum dálítið einkennilega, þá hugsa þeir ekki um Icesaave. Ríkisstjórnin sér um það.

Er einhver furða þótt svona margir séu reiðir?

 


Viðbjóður!

Þessi maður er og hefur alltaf verið þvílíkur viðbjóður að það má undarlegt heita að hann skuli enn við völd.

En?

 Er það þjóðarvilji óupplýsts almennings í sárafátæku ríki sem ræður þessari uppreisn? Hverjir eru þessir uppreisnarmenn? Eru það etv. málaliðar Vesturveldanna sem vilja hann af, til að hirða olíuauðinn, annað eins hafa Bandaríkin gert í gegnum tíðina í flestum heimsálfum.

Mér finnst Össur og þeir innan ríkisstjórnarinnar sem fylgja honum að málum, vera að gera sömu skyssuna og þegar Sjálfstæðisflokkur og Framsókn tóku upp á sitt eindæmi, án þess að leita álits þjóðar eða þings, að styðja aðförina gegn Irak.

Össuri vil ég ráðleggja að ganga hægt um dyr yfirlýsinga á erlendum stríðsrekstri, og reyna heldur að hjálpa til að koma skikkan á málin heimafyrir.

 


mbl.is Gaddafi hótar hefndum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Falleg mynd

558105

Þessi fallega mynd  er af Jizou verndara barna og ferðamanna í borginni Ishimaki í Japan, þar sem hann stendur keikur í rústum borgarninnar, en guðirnir virðast samkv. þessu standa ósnertanlegir til að geta staðið með sínum á hörmungartímum, og gefast ekki upp..

Veit ekki hvort það er leyfilegt að birta myndir með þessum hætti, en mér fannst hún svo táknræn og falleg, frá þessu hrjáða landi sólarinnar, þar sem varla hefur skinið sól í sinni manna undanfa daga.


mbl.is Harður jarðskjálfti í Japan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband