Reiði

„Reiðin er eitt andskotans reiðarslag“ skrifaði Jón Vídalín forðum og verður ekki annað séð en hann hafi  haft nokkuð til síns máls. Samfélagið nötrar undan heilagri reiði allflestra landsmanna og þeir láta hana óspart í ljósi. Hver höndin er upp á móti annarri eftir því hvar menn standa í flokki , en stundum verður reiðin jafnvel flokkspólitíkinni yfirsterkari og menn bölva sínum eigin flokki, ef ekki opinberlega, þá  á laun.

Þetta kemur allt mjög berlega í ljós hérna á blogginu þar sem menn munnhöggvast út í allt og alla. Allmargir leita sér að fréttum til að hneykslast útaf og senda svo  út um allan heim í tölvur þeirra Íslendinga sem á annað borð lesa blogg,  hvaðan svo sem það blogg  er sent, jafnvel þó bloggið fjalli ekki  um reiðina sem kvelur flesta, en það er þó langoftast einhverskonar  reiðilestur.

Eyjan virðist nokkuð vinsæl í dag og líklega það blogg sem flestir lesa, enda margir málsmetandi menn sem skrifa þar góða pistla. Slíkir pistlar sjást líka hér á moggablogginu, en þeim fer stöðugt fækkandi. Einhvernveginn hefur maður orðið á tilfinningunni að ritstjórn Mbl. Vilji bara hreinlega losna við bloggið, síðum er lokað og aðgangur að bloggheimum falinn svo mjög,  að hann nálgast að vera orðinn neðanmáls.

Það vekur mér nokkra undrun að blogg skuli vera ritskoðað hér á Mogganum, minnir helst á Kína, þar sem allt er ritskoðað sem ekki er hreinlega bannað, sbr. Facebook ofl. o.fl..

Snúum okkur aftur að reiðinni, sem er svo landlæg. Það má flokka hana í þrjá meginflokka.

1.       Reiði út í stjórnvöld.

2.       Reiði út í stjórnvöld

3.       Reiði út í stjórnvöld

Þessi reiði beinist gegn duglausum stjórnvöldum, núverandi og fyrrverandi. Fólkið er búið að fá nóg af framkvæmdaleysi ríkisstjórnarinnar, sem sér ekkert annað en Icesave og einhversstaðar á bak við það glittir í ESB. fyrir utan að hver höndin virðist upp á móti annarri. Fólk er reitt út í að aðrir vilja ekki það sama og það sjálft, þ.e. vera meðmæltur ef þú ert það ekki og öfugt, og nennir að þenja sig alveg endalaust útaf þessu.

Fólk sem hefur tapað aleigunni vegna óheiðarleika annarra og orðið blásaklaus fórnardýr kreppunnar er líka reitt og það skiljanlega. Það er ekkert verið að gera í málum þessa fólks á meðan starað er á Icesave, rétt  eins og það sé mikilvægasti hlutur í heimi að auka á skuldir þjóðarinnar. Hjónaskilnaðir, sjálfsvíg og brotin heimili er algengur fylgifiskur þessa hóps, það þarf enginn að ræða hvaða áhrif þetta hefur á börnin, það vita allir hugsandi menn.

Svo eru það glæpamennirnir sem við nefnum útrásarvíkinga og allt bankastjóra og bankaráðspakkið sem var svo duglegt að draga sér fé almennings, eftir svo lygilegum leiðum að venjulegt fólk skilur ekkert í hvernig það var hægt. Þetta lið virðist eiga arftaka sem eru að stinga aftur upp kollinum í bankakerfinu og víðar, alveg kinnroðalaust, veldur líka hömlulausri reiði. Þetta fólk kann ekki að skammast sín og virðist ekki  einu sinni vita hvað það er. Það er ekkert gert til að stöðva þetta, meðan Icesave er vaggað eins og það væri nýfætt barn Steingríms og Jóhönnu, enda er það ekkert annað, þó ekki sé það nýfætt.  Það þarf ekki að minnast á að byrjunarliðið í glæpamennsku gengur allt laust ennþá og sendir þjóðinni bara langt nef.

Nýsköpun atvinnulífsins er nánast eins gleymdur draugur einhversstaðar aftur í fortíðinni, svo langt er hún frá raunveruleikanum,  meðan stjórnvöld halda uppteknum hætti við að rífast innbyrðis og hugsa ekki um neitt annað en Icesave.

Meira að segja grínistar Besta flokksins sem eru löngu búnir að koma því sem þeir vildu koma á framfæri, eru í óða önn að gera allt vitlaust í skólamálum borgarinnar og fólk er brjálað úr reiði.  Ég held að þeir megi nú alveg fara að draga sig á hlé, enda að færast alvara í leikinn, þegar börnin, framtíð landsins, eða réttara sagt menntun þeirra  er í húfi. Þeir voru nauðsynlegt innlegg í stjórnmálin til að sýna okkur hinum hvað þetta er allt meira og minna rotið og forstokkað. Þeir  mega þó eiga, að þótt  þeir hugsi stundum dálítið einkennilega, þá hugsa þeir ekki um Icesaave. Ríkisstjórnin sér um það.

Er einhver furða þótt svona margir séu reiðir?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Mikið til í því sem þú segir.  Ég hef samt aldrei orðið vör við ritskoðun á mínum pistlum og hef ég þó tekið stórt upp í mig stundum.  Eyjan aftur á móti hefur dalað mikið og allir helstu pennarnir farnir þaðan yfir á DV. 

Svo er gott að fara aðeins inn á www.svipan.is og www.kjósum.is ef maður vill fá önnur sjónarmið en endalausan áróður um Icesave á einn veginn.

En reiðin er eyðileggjandi afl, sem við þurfum að reyna að losna við.  Ég óttast samt að það verði ekki fyrr en eitthvað nýtt og betra tekur við hvenær sem það verður.  Því þó þessi ríkisstjórn fari frá, er ekki víst að neitt betra taki við. 

Þess vegna vil ég fá utanþingsstjórn sérfræðinga sem þekkja til mála og þora að takast á við það sem skiptir okkur máli, þar er ESB ekki inn í myndinni.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 22.3.2011 kl. 10:40

2 Smámynd: Bergljót Gunnarsdóttir

Ég er búin að tala um utanþingsstjórn í mörg ár og vona svo sannarlega að sá draumur rætist.

Bergljót Gunnarsdóttir, 22.3.2011 kl. 11:46

3 Smámynd: Sigurbjörg Eiríksdóttir

Góður pistill Beggó.

Kveðja úr Heiðarbæ.

Sigurbjörg Eiríksdóttir, 22.3.2011 kl. 20:36

4 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Frábær samatekt, já ég hef einnig sagt að best væri að fá utanþingsstjórn.

Reiðin sækir að um hver mánaðrmót og maður kemmst að því að endar ná ekki saman.

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 22.3.2011 kl. 20:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband