Færsluflokkur: Bloggar

Húsvarsla?

Er ekki húsvörðurinn til að sjá um að bjarga svona málum sjálfur, en ekki fá til þess mann sem þarf að troða sér út um þröngt op þar sem hann getur ekkert séð niður fyrir sig. Mér finnst þetta ansi mikið fljótræði þarna inni á spítalanum, enginn í hættu, bara leysa málið í rólegheitunum. Þetta hefði svo auðveldlega getað farið verr.
mbl.is Féll niður lyftugöng
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mara

Mannanafnanefnd heffur gefið leyfi fyrir nokkrum nýjum nöfnum, en hafnað öðrum. Ég vona að þeir sem ákveða að skíra dóttur sína Möru geri sér grein fyrir hvað nafnið Mara stendur fyrir. 

Mara er, samkvæmt Íslensku orðabókinni, "óvættur sem ætlað var að træði á fólki , eða þjarmaði að því í svefni."  Mara er líka tengt þungum áhyggjum og þá talað um að eitthvað hvíli á fólki eins og Mara. Í búddisma er Mara karlkyns demon.

Aftur á móti finnst mér nafnið Ey alveg gullfallegt, stutt og erfitt að bjaga það á nokkurn hátt.


mbl.is Mara á mannanafnaskrá en ekki Víkingr
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kraftaverk, kínapistill

 

 

Í dag er allsnarpur vindur, óvenju lítill raki og sól - og það gerðist kraftaverk. Allt í einu fauk öll mengun í burtu og þá birtist ægifögur fjallasýn, allt um kring. Ég er búin að standa úti á svölum og njóta dýrðarinnar, sem ég hef aldrei séð áður, því þetta gerist ekki á hverjum degi. Að vísu hafði maður óljósa hugmynd um að þessar dökku þústir, sem stundum sjást óljóst í sortanum væru fjöll, en núna sjást þau langar, langar leiðir, skógi vaxin, eins og gríðarstórir verðir umhverfis borgina, en á milli er fagurblár sjór, því Xiamen er eyja, en liggur þó þétt við land. 

Þetta minnir mig óþægilega á áform íslendinga um að byggja fleiri álver og allt hvað verra. Það mætti alveg bjóða þeim sem ganga með þann hrylling í maganum, hingað til þessa fallega lands, sem sést ekki í fyrir dökkum mengunarþokum, allflesta daga ársins. Samt er ég stödd í hreinustu borginni. En þvílík upplifun að sjá, hversu fallegt umhverfið er þarna undir eiturhulunni, og gleðileg vísbending um að baráttan við mengunina er að bera árangur hér, á þessu svæði. 

Þegar rignir, ganga allir með regnhlífar og núna í sólinni ganga allir með regnhlífar. Maður gæti haldið að það rigndi svo mikið að það væri orðið ávani að spenna upp reghlífina, rétt eins og að fara í nærbuxurnar á morgnana. Það er nú öðru nær. Þegar sólin skín, breytast þær automatiskt í sólhlífar og þarf engan hókus pókus til þess. Ég yrði geðbiluð á að halda á regnhlíf sem sjálfsögðum hlut alla daga. Mín rigningarvörn er góð íslensk regnkápa og gúmmístígvél og sólinnni er vel tekið þegar hún skín á mig í allri sinni dýrð.  

Ég vil gjarnan fá á mig ljósbrúnan, hraustlegan lit, en fólkið hérna vill helst vera sem allra hvítast. Einn er þó galli á gjöf Njarðar, að ég verð alltaf eins og indíáni og síðan hvít aftur, sem leiðir hugann að því, hvort indíánar með sinn lit, séu bara ekki alveg eins fallegir og allir hinir. Vilja ekki allir vera með slétt hár ef þeir eru með krullur og öfugt, ljóshærðir vilja vera dökkhærðir og öll sú della. Ergo, allir keppast við að vera öðruvísi en guð gaf þeim að vera. Hvort þetta allt gerir okkur eitthvað hamingjusamari, er stóra spurningin.  

Ég hef aldrei getað séð að lítið, feitt og ljóshært fólk, með krullur, væri neitt óhamingjusamara en hávaxið og horað, dökkhært fólk, sem er með aftursleikt hár. Málið er að öll viljum við líta vel út, en gætum þó stöku sinnum leitt hugann að, hvort kannski sé óþarfi að breyta sköpunarverkinu mjög drastískt. Ég hef aldrei séð neitt misræmi í náttúrinni (nema af mannavöldum) og hef stundum leitt hugann að því, hvers vegna við eyðum svona miklum tíma í þessa dellu. Skal tekið fram að ég tek fullan þátt í henni. 

Það er nú meiri runan sem vellur upp úr manni, bara svona rétt við að sjá fallegt útsýni. Ég vona að landið okkar sleppi við öll þessi áform sem eru í gangi um að slöra íslenskt útsýni af, hægt og rólega. Það heitir á góðu máli að fljóta sofandi að feigðarósi. – En hvort þið eruð löng, stutt eða feit eða mjó og allt það, er mér alveg sama um, það er bara lífsis gangur. En fólk mætti alveg eyða smávegis af öllum þeim tíma, sem fer í svona pjattpælingar, til að hugsa um hvernig því liði, ef öll þau forréttindi sem fylgja því að eiga hreint land, og lítið mengað – væru ekki lengur fyrir hendi!  - Bestu kveðjur til ykkar allra þarna í hreina loftinu.

 

 


Morgunleikfimi Kínapistill frá sept. 2007

 

Mikið getur maður nú alltaf verið seinheppinn. Þið hafið margheyrt um leikfimisgaurinn minn, hérna á svölunum á móti. Hann er sá al - iðnasti sem ég hef ennþá heyrt um, eða eigum við að segja séð til, í sinni rólegu, þöglu morguníþrótt og hefur átt sér ósvikinn aðdáanda – guess who - í mínu húsi. Það er með svona spíonakerlur eins og mig, að þær halda auðvitað að enginn taki eftir þeim, þar sem þær sitja í sínu skoti og rannsaka fórnarlömbin.  Ég var mætt á mitt vanalega svalapláss, eða bara sannleikanum samkvæmt í stúkusætið,  þegar greip mig óumræðanleg löngun að fara bara inn og herma bara svolítið eftir honum. Hann var svona rétt að ljúka við allar andlitsgeiflurnar þegar ég sá mér leik á borði, læddist inn í stofu og tók mér stöðu svona passlega langt fyrir innan gluggann, til að hann sæi nú örugglega ekki til mín.    

Þar með hófst mín fyrsta stund á ævinni í morgunleikfimi. Þetta var all mjög strembið, ekki vegna þess, hversu stirð ég er, það heyrist í mér brakið mér langar leiðir, heldur af því ég náði ekki þessum rólega rythma. Hann hélt alltaf áfram eins og mér liggur við að segja lygn á, en ég ruglaðist alltaf í ríminu. Gáfur eru gull, eins og ég hef margsagt - og þegar ég var við það að gefast upp, áttaði ég mig loksins á að þetta hafði bara ósköp einfaldan takt sem aldrei stoppaði, einn, tveir, þrír, fjórir og aftur og aftur og aftur, engar þagnir, bara einn, tveir, þrír, fjórir.     

Þarna gat ég loksins snúið mér að alvöru málsins og byrjað að gera æfingarnar í takt við blessaðan manninn. Það tókst nú bara allbærilega, þó svo að ég áttaði mig á að ég væri nú kannski ekki alveg jafn góð og hann. Já, já, þegar hann byrjaði á teygjunum settist ég bara niður alveg örmagna. Ákvað eftir smástund að þetta væri bara bölv. aumingjaskapur og reyndi allt hvað ég gat að nema þau fágætu fræði, svona yfir götuna, og byrjaði að herma eftir, sem best ég gat. - Ég veit ekki hvort ég kom til fjallsins eða fjallið til mín? En fjallið er að mestu ennþá óklifið ennþá og er virkilega á brattann að sækja.  Ég held, að maður þurfi aðeins betri kennslu en svalanjósnir (eða þannig) til að ná blessuðum teygjunum almennilega.  Það var 30° hiti úti. Hann stóð úti á svölum, ég inni í stofu með loftkælinguna á, og það lak af mér svitinn. Það en datt hvorki af honum né draup. Hann lauk þessu öllu, en ég, - ja, svona varla, segjum næstum því. Það má alltaf fegra sjálfan sig svo lítið beri á.      

Jæja nú jæja, látum hann hlæja. Nú lágu danir í því. Haldið þið ekki að maðurinn hafi endað á alveg glænýrri æfingu, sem ég hafði aldrei séð áður. Hann sneri sér að húsinu á móti – mínu húsi, og hneigði sig djúpt og virðulega, og svona rétt til að bæta gráu ofan á svart lyfti hann hendinni í kveðjuskyni. Ég bókstaflaga lak niður innra með mér, hafði þó rænu á að hneigja mig djúpt á móti. Þarna stóð ég á náttfötunum eins og hálfviti, þurfti svo sem ekkert að hafa fyrir því að hneigja mig, þegar ég bara lak líka niður að utan, samt tókst mér einhvernveginn að lyfta hendinni, mjög aumingjalega, þá brosti hann alveg yndislega og óleikfimislega - og bjargaði fyrir mér deginum. Ég held að mitt bros hljóti að hafa litið út eins og hikandi gretta, enda var mér ekki hlátur í hug – þá stundina.     

Ég man eftir því að ég las einu sinni í gestabók vestur á Hellnum, vísu eftir Kalla vin minn Roth sem hljóðaði svo  -  Í Triviali Purshuti ég tapa nú á kvöldin.  En bráðum tek ég völdin - ég æfi mig bak við tjöldin. Það er ákaflega gott að hafa þann eiginleika að vera duglegur að muna svona óbeinar heilræðavísur, þegar maður skammast sín, svona pínulítið - bara pínulítið þó.    Guð geymi ykkur öll.

 

 

 


Feðraveldi, Kínapistill frá 2007

 

Ég var eitthvað að minnast á foreldraveldi hér um slóðir, en í raun er það feðraveldi, en konur ráða ekki rétt miklu svona yfirleitt. Elsti karlmaðurinn í beinan karllegg ræður yfir öllum í fjölskyldunni, allir hlýða honum. Næst honum er svo elsti sonurinn ef hann á fleiri en einn og svo koll af kolli. Konan hefur eflaust einhver völd  en það eingöngu innan veggja síns heimilis. Það er mjög algengt að karlar eigi sér viðhöld og þykir svosem ekkert tiltökumál að sýna sig opinberlega með þeim, enda algeng sjón. Karlar leiða yfirleitt ekki konuna sína, bara viðhaldið eða eigum við að segja hjákonuna. En heima stjórnar konan því sem hún fær að stjórna og leiðir þetta allt hjá sér. 

 Ef synirnir ætla eitthvað að bardúsa, svona eins og að stofna fyrirtæki, kaupa sér íbúð eða bíl, ræður pabbi gamli öllu og enginn gerir neitt nema með hans samþykki. Þetta á við, hvort sem þeir eru í heimahúsum eða harðgiftir og búnir að stofna fjölskyldu. Þegar faðirinn hættir að vinna, er það skylda elsta sonar (oftast er þó bara einn sonur samkv. reglunni um eitt barn) að sjá um foreldra sína, það sem eftir er. Þetta veldur því að allir vilja eignast son og dætur eru hálfgerð olnbogabörn hjá mörgum.

Það er lenska hér, þegar barn fæðist í fjölskyldunni og er strákur, að haldin er stórhátíð. Drengnum eru færðar stórgjafir, gríðarleg matarveisla haldin, með öllu  tilheyrandi og allsherjar húllum hæi. Ef það er hinsvegar stelpa er bara te og smákökur, örfáar frænkur koma, ódýrar gjafir og móðirin situr uppi með skelfilega sektarkennd.  

Vesalaings drengirnir eru undir alveg rosalegu álagi ,allt frá fæðingu, því allir foreldrar vilja veg þeirra sem mestan, góða menntun og háskólanám, því drengurinn þarf vinnu, góða vinnu, - á jú að sjá fyrir þeim í ellinni. Mér er sagt að sjálfsmorðstíðni hjá unglingum sem ekki geta risið undir námskröfum foreldranna sé rosalega há hérna. Stelpurnar verða hinsvegar bara að reyna að giftast vel eins og það er víst kallað.  

Meira um karlaveldið. Ef synirnir eru fleiri en einn, ræður sá eldri skilyrðislaust, þetta er svo slæmt, að kona yngri bróður þarf að þjóna þeim eldri þegar hann kemur í heimsókn á allan hátt. Setja hann í fótabað og nudda aumingja þreyttu fæturna hans, þó hann sé etv. óþreyttur, en hún búin að vinna langan vinnudag. Það liggur við að hún þurfi að borða fyrir hann, en ekki held ég þó að hún þurfi að þjóna honum til sængur.  

Það sem mér finnst hræðilegast við þetta er, að maður sem á son sem vinnur og býr í annarri borg en hann, getur tekið barn sonarins og farið með það heim með sér, ef honum sýnist svo og meinað foreldrunum um að hitta barnið nema einu sinni á ári. Bara ef honum sýnist svo, jafnvel þó foreldrar þess geti ekki flutt til sömu borgar og karlinn, því atvinna liggur ekki á lausu í þessu landi og foreldrarnir verða að borga með barninu og foreldrum mannsins - þó þeir séu svona grimmir.

Þetta er flókið og erfitt kerfi, sem ég held að verði ekki auðvelt að breyta, hefðin er svo óralöng og óhagganleg. Þetta hefur valdið hræðilegri sorg hjá mörgum þessara ungu foreldra, sem geta ekkert gert í málinu. Þeim er bannað að eiga fleiri börn, nema þau taki alla ábyrgð og kostnað á sig,  í sambandi við alla samfélagslega þjónusu, læknishjálp og skólagöngu - og það er dýrt. Aðeins forríkt fólk hefur efni á því. 

 Dæturnar þurfa síðan þegar þær giftast, að hugsa um foreldra mannsins og bræður hans, en enginn hugsar um foreldra hennar, það verða þeir bara að gera sjálfir, ergo – enginn vill eignast dóttur.  

 Það er stundum erfitt að vera útlendingur í landi sem er svona gjörólíkur menningarheimur og geta ekkert gert, þetta bara hreinlega kemur manni ekkert við og enginn myndi kæra sig um að maður skipti sér af því. Þess vegna reyni ég bara að hugsa ekki um það, enda best fyrir alla, að ég held. Sinn er siðurinn í hverju landi og það hvarflar oft að mér hvað ég á gott að vera ekki kínversk, þegar þetta allt, er haft til hliðsjónar. Annars líkar mér einstaklega vel við land og þjóð, eins og oftlega hefur komið fram. 


Elsti Íslendingurinn látinn

 

Morgunblaðið slær nokkrum sinnum á ári upp "stórfrétt" um að elsti Íslendingurinn hafi látist. Ég skil ekki hvers vegna blaðið leggur svona mikla áherslu á þetta, því það er alltaf einhver elstur og ekkert eðlilegra en að fólk fari yfir móðuna miklu þegar það er orðið vel rúml. 100 ára.

Etv.ættu þeir á mbl.is  til að stofna veðmálabanka, fyrir spilafíkla, þar sem veðjað er á hvort einhverjir yngri  fari næst, eða hvort þeir eldri fari í réttri tímaröð, eða, ja, það eru margir möguleikar.

Fólk gæti orðið skítthrætt við að vera á lífi ef það stangast á við einhverjar spilaformúlur.

 


mbl.is Elsti Íslendingurinn látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leirherinn

P6010761P6010743

 

Nú skulum við hverfa tvö þúsund og tvöhundruð ár aftur í tímann og aðeins rúmlega það. Hér var við völd fyrsti keisari Kína og einn af þeim mikilvægustu, fæddur 259 fk. Hann hét Qin Shiuang. Við hann er kennt fyrsta keisaratímabilið í Kína, Qin tímabilið sem stóð þó aðeins í 12 ár.

Hann var hermaður mikill og lagði undir sig lendur víðar og átti í stöðugum landvinningaerjum við mongóla sem bjuggu í norðri. Hann hafði um sig nánast óvígan her, tugi þúsunda manna, sem hann lét gera stöðluð spjót, 6 feta löng og  þá var ekkert mál að lagfæra það sem bilaði. Í dag finnst manni allt svona fullkomnlega eðlilegt, en í þá daga var það meiriháttar uppgötvun og gjörbreytti allri hermennsku, því áður voru spjótin af öllu tagi flest heimasmíðuð og gæðin eftir því.P6010746

Qin óttaðist ekkert eins og dauðann og leitaði alla sína ævi að lífselexir sem gæti gert hann eilífan. Til vara ákvað hann, eins og allir keisarar á eftir honum, að byggja sér grafhýsi, þar sem hann gæti ráfað um eftir dauðann, því hann trúði því að sálin myndi lifa áfram í gröfinni. Þetta grafhýsi sem er gríðarstórt stendur falið í litlu felli, en hefur ekki verið grafið upp ennþá, því hér er allt gert í réttri röð og það tiltölulega nýfundið.

Fellið stendur undir háum fjallgarði, Svörtufjöllum, gríðarlega fallegum, en þau loka öllum aðgangi að fellinu að norðan og austan. Þau eru mjög auðug af jade að sunnan og gulli að norðan. Þetta áleit hans hátign að veitti meiri vernd. Fyrir sunnan þennan ægifagra legstað hans liggur stórelfur sem lokaði allri aðkomu þeim megin. En í vestur stóð allt galopð og óvarið af náttúrunnar hendi. Karlinn var ekki lengi að sjá við því og þar kemur leirherinn til sögunnar. 

Hann lét gera 8000 leirstyttur, nákvæma eftirmynd bestu hermanna sinna í fullri og hárrétti líkamsstærð hvers þeirra.. Þetta var gert af mikilli natni, mótað, brennt og málað í nákvæmum litum, okkur hundruð hesta, heilmikið af skjöldum, vögnum og í raun öllu sem fylgdi alvöruher á þessum tíma. Mér finnst mjög athyglisvert hversu hávaxnir hermennirnir voru, sá lágvaxnasti 1,74 og þeir hæstu 1,97.  Þeir snúa allir í vestur, til að sjá óvininn þegar hann nálgaðist.  Allir eru þeir í fullum herklæðum með brynjur og vopn, sumir krjúpandi en aðrir uppréttir og mjög auvelt að sjá hvaða tign þeir höfðu eftir einkennisbúningum og höfuðbúnaði. P6010766

Þeir hávöxnustu, allir herforingjar, miðstærðin - óbreyttir og þeir lægstu, hestasveinar eða stallarar. Hestarnir af ýmsum toga, vagnhestar og reiðhestar, greinilegir mongólskir gæðingar sem minna mjög á íslenska hestinn, fremur litlir en víst ákaflega fótvissir þarna í fjöllunum. 

Þarna var líka lítill vagn úr kopar og gulli, með fjórum hestum fyrir, það voru litlir gluggar svo sálin gæti litið út og fengið sér hreint loft og að aftan lítil hurð, til að skreppa út ef svo bar undir. Þarna var sérsmíðuð sól og regnhlíf sem var tækniundur miðað við tímana sem hún varð til á, koparspegill og koparvasaklútur svo hans hátign væri ekki ósnýttur að þvælast um, á sálnaflakki sínu þarna neðanjarðar. IMG_0101

Þegar hann dó á ferðalagi 50 ára gamall, var hann lagður til hinstu hvílu í grafhýsinu og allar konurnar sem hann átti og voru barnlausar, grafnar lifandi með honum, ásamt handverksmönnunum sem unnu stytturnar og öllum hermönnunum sem stytturnar voru af, alls um 9000 manns. Hermennirnir voru að vísu settir í fjöldagröf lifandi, einhverjum 500 metrum frá fellinu og fundusr leifarnar af þeim fyrir örfáum árum. 

Þetta var gert til þess að ekkert fréttist af þessum framkvæmdum keisarnas og þegar allt var komið á sinn stað var grafið yfir.  Þetta var allt undir sterkbyggðu þaki með ca. metersbreiðum bitum í þvermál og sterku þakefni, en betur má ef duga skal og smám saman hefur þetta gefið sig og hrunið yfir þennan þögla her, sem beið óvinarins æðrulaus og keikur, þrátt fyrir að allar fyrirmyndirnar væru myrtar á hræðilegan hátt, af þeim sem þeir voru að vernda. 

Síðan liðu rúmlega 2000 ár, allt til ársins 1974, en þá voru nokkrir bændur að reyna að bora eftir vatni og komu niður á leirflögur og spjótsodda. Þeir tilkynntu þetta yfirvölum sem brugðust bæði skjótt og vel við, fengu sína bestu menn í verkið og tveim árum seinna opnaði þetta víðfermasta safn í Kína og líklega í heimi, hlið sín fyrir almenningi. Þegar þar var komið sögu  var búið að grafa upp 2 – 3000 hermenn, en verkinu er langt frá lokið, 2000 manns og fullt af hestum ennþá neðanjarðar og þeir sem hafa verið grafnir upp meira og minna lemstraðir, eftir að þakið gaf sig. Það er mikil viðgerðarvinna í gangi, unnin af fullkominni nákvæmni, öll smábrot  og  flísar sett á sinn stað þar til ekkert vantar. Þetta er jú allt þarna.

 

Yfir safnið hafa þeir byggt stóra, rammgerða og fallega skála, þar sem auðvelt er að skoða þetta alltsaman. Í dag er þetta verndað af Heimsminjasafni Sameinuðu þjóðanna enda alveg jafn áhrifaríkt og og múrinn. Mér er ekkert auvelt að meðtaka þetta, svona í einum bita, þegar maður veit um alla þá viðurstyggilegu grimmd sem fylgdi þessu. Þó er þetta svo stórkostlega stórt í sniðum og ægifagurt.

 

Það liggur við að ég voni, að hermennirnir hafi allir gengið aftur og ofsótt sálu keisarans og hún aldrei þorað að kíkja út um gluggana á vagninum, hvað þá að skreppa út til að snýta sér.

 

 Þessum greinilega geðbilaða keisara skal þó sagt til málsbóta, að hann gjörbreyrtti allri skipan ríkisins til hins betra og þykir einn sá alframfarasinnaðasti af sínu tagi. Það er þó ekki lærð ritgerð um hann, eða aðra keisara kínaveldis, á dagskrá hér, svo ég læt þessu lokið að sinni. Ps. Við hittum einn af bændunum sem fundu herinn og hann áritaði bók á ensku, um þetta alltsaman, fyrir okkur. Ég á eftir að lesa hana með athygli, þegar þar að kemur.

 


Forboðna borgin

 

Á leiðinni heim frá Kínamúrnum var ekið í gegn um tilvonandi ólympíuþorp ársins 2008. Þetta er ótrúlega stórt, glæsilegt og vel á veg komið að því er virðist. Að vísu hef ég hvorki nægan áhuga á íþróttum eða bara vitneskju um hvað þarf, til að gera svona leika vel úr garði, en það veit trúa mín að þarna er hver leikvangurinn um annan þveran, sundhallir og 5 stjörnu hótel á hverju strái. Þetta er stórbrotið og nútímalegt og að ég hygg, kínverjum til stórsóma. Mér skilst að öll skipulagnig sé tipp topp og engu að kvíða með tímaskort eða annað, enda nóg fjármagn og hugvit í gangi. 

 Það sem mér fannst þó flottast, var allmargra ferkílómetra svæði, sem er ætlað til að kynna öll þjóðarbrot eða þjóðir sem byggja Kína, fyrir umheiminum. Þarna hafa verið reist 47 lítil þorp með öllum sínum séreinkennum  og byggingarstíl, alveg gríðarlega falleg og mismunandi og verður lögð mikil áhersla á að kynna land og þjóð í gegnum þau. Þetta liggur svona eins og vafið inn í útkanta ólympíuþorpsins og virkar ekki stórt en er ótrúlega víðfermt. Ef við verðum hérna eitthvað áfram hlakka ég til að sjá þetta í fullum gangi. 

Síðasta morguninn okkar í Peking skruppum við, ég meina skruppum, til að skoða Forboðnu borgina enda tíminn orðinn naumur. Þarna áttaði maður sig í raun og veru á glæsileika Ming tímabilsins, því hún hefur fengið að standa óhreyfð í tímans rás undir stöðugu viðhaldi og er eins og það sem enn stendur frá þessum tíma “breathtakingly beautiful”. Að vísu fær maður ekkert að sjá, nema það sem utandyra er, en rigning og kuldi jók ekki beinlínis á viðveruna þarna.

Þetta er löng ganga í gegnum mörg hlið, því fyrsti keisari þessa tímabils var alveg eins og hinir, sem á undan voru og eftir. Hann áleit sig nafla alheimsins og byggði því borgina í miðju þessa alheims sem hann lét reikna út og hefur örugglega þurft til þess mikla útreikninga, landmælingar og fyrirgefið mér, þvælu, til þess að það mætti lukkast. Á núllpunktinum voru vistarverur hans sem enginn fékk að koma í nema hann, svakalega hefur verið gaman hjá honum!

Peking byggðist síðan smám saman upp út frá þessu og skiptist í hverfi eftir mannvirðingarstigum, aðalsmenn og ættingjar og í austur og vestur við Forboðnu borgina og allir hinir í norður og því norðar sem þeir voru lægra settir. Auðvitað bjó enginn fyrir sunnan nafla alheimsins, þeas.í suður innan borgarmúranna sem hann lét reisa, því varla hefur verið hægt að elta vitleysuna út yfir öll þjófamörk. 

Þetta er þó eini staðurinn af öllum þeim mannvirkjum sem ég hef séð og lýst, þar sem lifandi fólk bjó, utan hallarinnar á Torgi hins h........friðar að ég best veit, byggðist þó upp á nákvæmlega sama hátt og grafhýsin, pupullinn að fyrsta hliði og síðan fækkaði þeim sem höfðu aðgang snarlega, þar til komið var að innstu sellu, þar sem hann hlýtur að hafa setið ósköp einmanna blessaður karlinn. Það er örugglega ekki auðvelt að vera nafli alheimsins.

Ég vorkenni þó meira konunum hans sem ekki voru álitnar færri en 300. Þær voru færðar til borgarinar og fengu aldrei að fara þaðan aftur, þó þær fengju sumar aldrei augum litið þennan ástmann sinn, sem eftir málverkum og gömlum teikningum að dæma var hinn mesti rindill og í raun alveg stórhlægilegur. Þarna þurftu þær að dvelja ævina út, með reyrða fætur og til þess að fá einhverja hreyfingu, af því það var þröngt á þingi eða í búri, höfðu þær kaðla til að príla í og láta reyna á aðra vöðva líkamans en fæturna, svo þær fengju ekki blóðtappa og dyttu niður steindauðar áður en ástmögurinn mikli birtist, ef hann þá birtist á annað borð. Jæja stelpur, var einhver að kvarta? Ég gat nú ekki stillt mig um að kaupa póstkort með mynd af þessu glæsimenni, sem á svo stóran þátt í menningarsögu Kína.

Þetta er svosem allt sagt án ábyrgðar en þó með bestu vitund. Eitt verð ég þó að taka fram, að Ming keisari hinn fyrsti hlýtur að hafa verið ákaflega  klókur maður. Áður en hann færði sig úr innstu sellu í þá næstu fyrir framan til að hitta ráðgjafa sína, sem flestir voru geldingar, því hverjum öðrum var treystandi fyrir þessum 300 konum, flestum í kynsvelti, og þegar hann þurfti að skreppa af bæ, kallaði hann þá yfir í helgidóminn, þe. innsta hring. Þakið hafði hann látið gera með stórum opnanlegum gluggum, gólfið með háglansandi gullhúð og spegla í loftinu. Hann kallaði aldrei á þá nema í sólskini og var þá í gulum fötum, með gluggana opna og þegar sólin skein inn á gullgólfið og endurkastaðist á speglana lýstist hann upp í gullnum ljóma. Þarf nokkur að efast um áhrifin sem þetta hefur haft á karlagreyin, að sjá alvald tilverunnar í gullnum ljóma með stóran geislabaug?  Eigum við ekki bara að segja, að hafi einhver þeirra reynst laungr....  hafi hann örugglega misst alla náttúru á stundinni við þessa, geislandi sýn, þegar keisararindillinn breyttist allt í einu í guðlega veru. 

Það er nú það, ég hef séð, eins og ábyggilega mörg ykkar, myndir af þessu öllu innandyra, en engum er hleypt þarna inn í dag, þannig að maður er í sömu stöðu og pupullinn forðum og  verður bara að standa utandyra og gera sér í hugarlund hvernig þetta var og er  nú alltsaman. Þó hefur nútímafólk það forskot að fá að ganga í gegn um öll hliðin og virða þetta fyrir sér, sem er vel þess virði. Þessa borg í borginni, ásamt öllu því sem inni er, létu Mao og hans menn í friði, guði sé lof. 

Þetta er að verða alllangt svo ég ætla að teygja lopann aðeins og ljúka ferðasögunni í næsta pistli. Við erum  farin að hugsa til hreyfings, svona á rólegum nótum þó, enda ekki nema uþb. mánuður eftir af dvölinni og maður að reyna að koma einhverju í verk áður en heim er haldið. Þetta er góð tilfinning og ég farin að hlakka til að hitta alla heima á gamla góða Íslandi, en í raun líka að koma hingað aftur í haust ef guð lofar. - Með bestu kveðju. Bergljót Gunnarsdóttir, ekkisagnfræðingur.          

 


Kínamúrinn

 

AlbumImage[8]AlbumImage[9]

 

 

 

 

 

 

 

Mao og félagar                                                           Oddur í sporum Maos

Ferðinni var heitið á Kínamúrinn minn langþráða í 60 ár, ásamt því að skoða ýmsar minjar og merkilegheit frá Ming tímabilinu, allt meira eða minna grafhýsi, eða réttara sagt leifar af þeim, fyrir utan forboðnu borgina sem ég lýsi síðar. Þau standa víða, ægifögur, en öll hverjum keisara til minningar um sjálfan sig. Keisararnir í Kínaveldi byrjuðu á því að reysa sér grafhýsi um leið og þeir settust á valdastól. Þessi grafhýsi voru engin smásmíði. Það þurfti  langan aðdraganda að þeim, ef svo mætti segja. Það var byrjað á þessum stórkostlegu hliðum, með löngu millibili og pupullinn mátti aldrei koma nema að því fyrsta, aldrei innfyrir. Eftir það komu endalausar styttur af mönnum og dýrum sem áttu að vernda hinn dauða, og berjast fyrir hann, við margra kíometra langa stíga og því fleiri sem hliðin urðu, fækkaði þeim sem nálgast máttu helgidóminn, gröf keisarans, þeir hrundu út eftir mannvirðingum.  

Ég komst einhvern veginn aldrei að því hvort þeir sem máttu nálgast keisarana dauða, væru sálir dauðra manna eða lifandi, bæði vegna enskunnar sem kínverjar tala og fararstjórinn okkar var þar engin undantekning, eða bara vegna þess að ég efast um að nokkur lifandi maður hafi nennt að eltast við grafir þessara sjálfhverfu bastarða.

Auðvitað skildu þeir eftir sig fágæt menningarverðmæti, sem fengu að standa í nokkur hundruð ár, eða þar til Formaðurinn og menningarbyltingin sáu um að stúta öllu sem eftir stóðog eirðu svo til engu. Þess vegna standa nánast eingöngu  þessi virki eftir, en flestallir minni hlutir hafa glatast, nema  etv. það sem erlendir fornleifafræðingar hafa stolið og varðveitt er víða um heim, svo sem hinir fágætu Ming vasar á British Museum o.s.frv., sem segir að þjófanaður á líka stundum rétt á sér, fj. hafi það.                          
 

AlbumImage[2]

Þá er komið að Kínamúrnum. Ég vissi svosem á hverju ég átti von, annað er ekki hægt eftir 60 ára þráhyggju, að lesa og dreyma um að komast einhverntímann á hann. En  tilfinningin - hún er ólýsanleg einhverri meðaljónu frá Íslandi sem fær augum litið og að stíga upp á þetta ótrúlega afrek sem múrinn er.  Það greip mig þvílíkur fídonskraftur að ég prílaði upp einar 300 misháar steintröppur, margar allt að 50 cm. háar og komst í gegn um þrjá varðturna áður en ég mundi að ég var búin að vera að drepast í bakinu í marga daga, draghölt og skökk. Mikill er máttur þinn Múr. 

Útsýnið þegar svo hátt er komið er ákaflega fallegt og kínverskt. Niðri sér á þökin á bóndabæjum og öðrum húsum, þessi dæmigerðu fallegu þök sem eru eins og litlir svartir miðar þarna lengst niðri, síðan gróðurinn í fjallshlíðunum og upp úr þessu stendur svo múrinn, óralangur og hlykkjast um fjöllin eins og eilífðin sjálf  Þennan dag bar hann við bláan og  heiðskíran himin  Það veit sá sem allt veit að ég varð ekki fyrir vonbrigðum. 


Torg hins himneska friðar

 

Við komum til Peking um hádegisbilið í kulda og rigningarúða og tékkuðum okkur inn á hótelið sem er mjög vel staðsett í miðborginni. Þetta er hótel sem tekur eingöngu á móti útlendingum, starfsfólkið er þó kínverskt, en allir töluðu mjög góða ensku. Af þessum sökum var morgunmaturinn staðgóður, á evrópskan mælikvarða, því kínverskur morgunmatur samanstendur af hrísgrjónalapi ásamt núðlum og soðnu grænmeti, aðallega linu káli og fullt af dísætum kökum, sem ég hef persónulega ekki áhuga á í dagsbyrjun. 

Þegar búið var að orientera sig aðeins, fóru ferðafélagar okkar að skoða stórt náttúruminjasafn sem er staðsett í næsta húsi við hótelið. Þetta var mjög heppilegt, því þau fóru eiginlega til Peking til að gefa syni sínum ferð á þetta safn, í tólf ára afmælisgjöf. Drengurinn sem heitir Ísak er alveg á kafi í öllu sem   snýst um risaeðlur og hefur verið síðan hann var sjö ára. Þarna fékk hann uppfyllingu drauma sinna og gleðibrosið datt varla af honum alla ferðina. Hann er mjög vel að sér í öllu sem snýr að þessum skepnum stórum og smáum og lét sér ekki nægja eina ferð á safnið, því hver vill ekki sjá kærustuna sína aftur og aftur þegar hún loksins birtist?  

Við Oddur tókum okkur alllangan göngutúr að Torgi hins himneska friðar. Þetta er um fjögurra km. spölur eftir sömu götunni, en beggja vegna við hana á rúml. fimm ferkm. svæði er búið að rífa stórt fátækrahverfi sem stóð þarna á verðmætustu lóðunum í Peking (vegna staðsetningar) og á að byggja þarna nýjan miðbæ, sem á að vera tilbúinn fyrir Ólimpíuleikana, en þeir byrja í ágúst 2008.  

Stjórnvöld ætluðu að byggja þarna gríðarmikið Manhattan, en arkitekt nokkur sem ég kann því miður ekki að nefna barðist fyrir annarskonar hverfi með öllum tiltækum ráðum - og vann. Ergo þarna verður byggt alveg undursamlega fallegt verslunar, veitingasaða og íbúðarhverfi, hæstu húsin þrjár hæðir og allt í kínverskum stíl. Loka röksemdir hans voru að Kína væri svo miklu eldra og betra land en hinn vestræni heimur, og því þá að eyðileggja höfuðborgina með amerískum nútíma byggingum í stað þess að láta menninararfinn njóta sín. Allar sórborgir í Kína eru fullar af háhýsum sem og hverfin utan gömlu borgarmúranna í Peking. Þetta gátu yfirvöld ekki hlustað á og hann fékk að ráða. Það voru myndir af líkönum af þessu öllu, uppdrættir og greinargóðar útskýringar á ensku. 

Gangan tók okkur hátt í tvo tíma en þá komum við að tveim gríðarstórum hliðum, eins og það er kallað, undurfögrum, eins og allt það gamla í þessu landi er. Þetta eru gamlir varðturnar, til að fylgjast með óvinaherjum og vernda keisarana, en pupullinn fékk aldrei að fara lengra en að þeim, skítt með að láta brytja niður nokkur þúsund manns fyrir utan ef í það færi.

- Að baki þeim liggur svo torgið sjálft. Það er alveg ólýsanlega undarleg tilfinning að koma þangað á grámyglulegum  ísköldum vetrardegi, allt mannlaust, utan nokkurra sölumanna sem voru að selja flugdreka, þetta virkaði allt í svart - hvítu  

Svo gríðarstórt er þetta í sniðum, með stórri gamalli höll í miðjunni og görðum í kring um hana. Torgið sjálft er hellulagt og alveg af einföldustu gerð, þó ummálið sé mikið, nokkrir fallegir ljósastaurar í kring en engir bekkir til að sitja á eða neitt í þeim dúr og engin merki um mannlíf af neinu tagi. Það nísti í gegn um merg og bein að ganga  um og hugsa til atburðanna sem þarna gerðust og sjá kúlnagötin sem eru ennþá sjáanleg í stéttinni. Þetta er svo hrikalega stórt, fallegt, einmannalegt og sorglegt.  

Við fórum út að borða um kvöldið, fengum frábæra,  ja hvað haldið þið? Þessi var erfiður: Pekingönd! - ásamt ýmsu öðru góðgæti og hef ég ekki borðað svona mikið í langan tíma, þó ekki hafi ég beinlínis verið talin í svelti hérna - eins og þið ættuð að vera farin að skynja.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband