Færsluflokkur: Bloggar

Stimplar og stimpilmenni

 

Ég bý við Hexian Xilu  sem útleggst Hósiansílú og til að muna það í byrjun, söng ég alltaf, svona innan í mér, Hósana, hei sana og þá kom það rétt út framburðarlega. Núna býr Elín við Gungjuan Xilu (Gúngjúansílu) en það er nokkuð auvelt að muna þegar maður bara hugsar um Don Juan - af öllum. Gungan Juan, já (á spænsku) og lu sem þýðir gata. Ég er bara ansi heppin að fyrrnefnd persóna var raggeit  á köflum þó hann tæki örlögum sínum af karlmennsku í allri þrjóskunni - og að ég skuli hafa haft það fyrir leik sem krakki að muna hitt og þetta eftir svona löngum leiðum. Æfingin skapar ekki bara meistarann, heldur líka rugludalla. 

Kínverska hefur ekki mörg orð, en hvert þeirra hefur mjög margar merkingar eftir framburði og hann  verður að vera hárréttur til þess að þú sért ekki að segja eitthvað allt annað en þú vildir sagt hafa. Hún er alltaf skrifuð á táknmáli. Stundum sér maður undurfögur skilti með stórum fallegum táknum og stendur lengi og gapir yfir myndlistinni í þessu og gleðst í hjarta sér hvað maður upplifir fegurðina í mörgum myndum. Ég er löngu hætt að spyrja hvað þau þýða, því það er oftast eitthvað ópóetískt eins og -  Hamboragabúlla Gumma - eða eitthvað viðlíka - sem skellir allri rómantík, á augabragði. 

Götumerkingar eru allar á táknmálinu en oftast með vestrænu letri neðanmáls. Þetta er því miður ekki nóg, því ef þú tekur t.d. leigubíl og nærð framburðinum ekki rétt, skilur enginn bílstjóri neitt og þótt þú skrifir götunafnið á miða, eins og það er skrifað þarna neðanmáls á skiltinu, er það sama upp á teningnum því kínverjar lesa bara táknmálið og eiga það oft til að keyra mann bara eitthvað og henda manni svo út. Þetta lagast þegar maður forframast og fer að rata um borgina, sem ég er farin að gera, þá sest ég bara í framsætið, tala móðurmálið og bendi þeim bara á hvert þeir eiga að fara og það gengur oftast. Stundum þarf ég þó að hringja í Joey (túlkinn okkar) og láta hann tala við bílstjórann. Joey er meðal annars ráðinn til að sinna þessum upphringingum nótt og dag ef þörf krefur. 

Ég hugsa að margir útlendingar, sem stoppa stutt hér, haldi sig nálægt hótelunum út af þessu, meirihluta tímans. Borgin virkar ógnvekjandi kraðak í byrjun, en á hana lærist smám saman eins og allt annað. Það sem gerir gæfumunin, er hversu vinsamlegir allir eru, þó það sé lítið eða ekkert hægt að spyrja til vegar. Eina ráðið, er bara að ganga og ganga og skoða og skoða og þá kemur þetta alltsaman.

 Málakunnáttan er skammarlega lítil eftir fjóra mánuði, en maður kann rétt svona að bjóða góðan daginn og helstu kurteysisorð, ásamt hellingi af götunöfnum því maður er alltaf í þessum margnefndu leigubílum sem kosta allir kr. 72.  

Eitt er það í þessu landi skrifræðisins sem heillar mig mjög, en það eru stimplarnir. Allt er stimplað, þó sumt sjaldnar en annað, en allt er stimplað og ekkert sleppur undan hinu alsjáandi auga stimpilsins. Allar litlar verslanir gefa kassakvittun og svo er hún stimpluð (allir stimplar með rauðu)  Stærri búðir hafa dyraverði sem stimpla allar kvittanir, fyrr færðu ekki að fara út. Margir, ja ég held bara flest þessara stimpilmenna (nýyrði sbr. vélmenni) eru í alveg rosalega flottum einkennisbúningum, með snúrum og gullhnöppum og alltaf alveg grafalvarleg á svip, því þetta er greinilega mikið alvörumál. Þegar út er komið geturðu hent kvittuninni fyrir framan nefið á þeim og enginn deplar auga. Ég veit satt að segja ekki hvort þetta er atvinnubótavinna fyrir stimpilmenni og einkennisbúningasaumara, eða stimpla, stimpilpúða og blekframleiðendur - eða hvað þetta heitir nú alltsaman. 

Það sem heillar mig - eru stimplarnir sjálfir. Flestir eru þeir handútskornir með allskyns myndum og táknum, stórum og smáum. Það er ótrúlega gaman að fylgjast með þeim sem hafa atvinnu af að skera þá út. Þeir eru með pínulítil verkstæði, opin út á götu, (nánast lítil skot) víða um borgina og sitja þar við iðju sína. Ég er ef til vill svona mikill handverksmaður í mér, því ég hreinlega elska að fylgjast með þessari hagleiksvinnu þeirra. 

Svo ég bæti við smávegis um stimplana. Við keyptum okkur mjög fallega mynd um daginn, með 100 stórum handgerðum, kínverskum hamingjutáknum. Hún er í fallegum ramma eins og fallegar myndir eiga að vera, en þarna hefur eitt af stimpilmennum hins Kínversla alþýðulýðveldis heldur betur náð sér á strik, því ekki eru á henni minna en sex eldrauðir stórir stimplar og það á myndinni sjálfri.- Ja hvað skal segja- hvernig ætli ísl. myndlistarmanni þætti að fá svona glaðning á verkin sín? 

Erum á leiðinni út, til að kaupa farmiðana til Peking, Stendur til að fara þ. 28. -  Bið að heilsa heim,  eins og karlinn sagði, á ströndinni, liggjandi í blóði sínu og klóraði sér í hausnum - eftir að hákarl beit af honum fótinn.    

 


Um daginn og veginn

100_3066Picture_0186

Einhvern tímann talaði ég um að ég væri hætt að sjá kínverja sem kínverja, heldur bara eins og mörlanda í sauðalitunum eða þannig. Síðan þá er ég búin að uppgötva að kínverjar sjálfir vilja gjarnan líkjast okkur sem mest. Fólkið hérna er að uppruna alveg ótrúlega ólíkt enda margir tugir þjóða sem byggja þetta stóra land.

Sumir eru hávaxnir og fremur ljósir á hörund, svipaðir okkur, aðrir í öllum lita og stærðarskalanum, feitir, mjóir, langir og stuttir og ákaflega miskínverjalegir (ekki eins og við sjáum þá oftast í bíó). Eitt virðast þeir þó eiga algjörlega sameiginlegt og það er að vilj líta út eins og venjulegur mörlandi sem hefur lengi búið við alvarlegan sólarskort og aldrei á ævinni til sólarlanda komið.

Allar snyrtivöruverslanir og apótek eru stappfull af allskyns kremum til að sýnast hvítur.  Það er stórmál að finna venjulegt andlitskrem sem er laust við þennan hvíttunareffekt. 

Það er rosaleg stéttaskipting hérna og miklir kynþáttafordómar gagnvart negrum. Sumir kínverjar eru nánast svartir á hörund vegna mikillar vinnu útivið og  þeir eru lægst settir, í virðingarstiganum í þessu andstyggilega kapphlaupi um að vera hvítur, næstir negrum. Fínu frúrnar eru nánast eins og ómálaðar postulísbrúður í framan, þó krossmálaðar séu. Þetta kemur mér ákaflega spánskt fyrir sjónir (eða kinverskt), en ég er auðvitað efst í þessum stiga, þó ég vildi  gjarnan vera þar fyrir eitthvað annað. Þeir halda að ég sé rík og þar með fín og svona líka snjóhvít.

Best að hætta þessum móraliseringum og snúa sér að daglegu lífi. Í gær málaði ég einn vegg í stofunni hérna fagurblá-gráan. Ég er líka í óðaönn að hengja verkin mín á veggina, því ég gafst allt í einun upp á því að búa í ískaldri, hvítri naumhyggju.

 

Eftir málningarvinnuna fengum við hjónaleysin okkur göngutúr á grænmetismarkaðinn, en í bakaleiðinni tókum við smákrók og hvað blasti við mér? Ekki nema ruslahaugur og í honum miðjum, þetta líka flottur, lítill, gamall skeinkur. Drasl sagði Oddur eða hugsaði það allavega og teymdi mig nauðuga viljuga í burtu. Ég hef ráð undir rifi hverju og stakk pent upp á því þegar leið að kvöldi, að hann fengi ekki kvöldmatinn fyrr en við værum búin að fara og sækja gripinn. Og hvað haldið þið að sé næst á verkefnaskránni  þegar búið er að kaupa rafmagnsofn? Gera upp skeinkinn!

.

 

100_3168Fyrst þegar ég kom hingað, hélt ég að það væru löggur og hermenn um allt og gætti þess vandlega að hegða mér eins og vera ber, sem er svo sem enginn sérstakur vandi fyrir fágaða dömu eins og mig. Nú er komið á daginn að get bara farið að hegða mér eins og ég vil, því hérna er alveg dásamlegt einkennisbúninga- brjálæði.

Að vísu eru nokkrir hermenn og löggur á stangli eins og vera ber, en stöðumælaverðir, húsverðir, dyraverðir, móttökufólk á hótelum, veitingastöðum og fótanuddstofum og er þá fátt eitt talið, er allt í
einkennisbúningum og þeim alveg rosalega flottum.

Bílastæðaverðirnir hérna í nágrenninu eru í dökkbláum ”hátíðahermannasparifötum”(eða þannig) af flottustu gerð. Þau eru með gylltum og rauðum snúrum og svona hermanna strípum á ermum og brjósti, gylltum hnöppum og guð veit hvað. Húfurnar eru eins og amerískar admirálshúfur með þykku gylltu gullskrambúli á derinu. Þeir eru ansi flott, þangað til þeir fara að skammast í fólki og leggja sig svo í öllu skrautinu í næsta skúmaskoti í hádeginu
.

Mér finnst líka rosalega gaman að sjá hvað allt þetta einkennisbúningalið er ósköp venjulegt fólk, sem sest bara niður þar sem því hentar, þegar því hentar og vantar þá oft eitthvað til að setjast á.  Þá er það bara gatan, næstu tröppur eða bara bílarnir sem þeir eru að passa. Það skal tekið fram að búningarnir eru alltaf hreinir og fínir eins og fólkið upp til hópa.

Götusópararnir eru allir í hvítum skyrtum og svörtum buxum með kínverska stráhatta en eðli máls samkvæmt verða þeir einir manna stundum nokkuð rykugir, þannig að það sést varla í þá en á morgnana eru þeir allir tandurhreinir og fínir.

Byggingaverkamenn, múrarar, ravirkjar o.s.frv. eru oftast í sparifötunum og á ég þá við jakkaföt og hvítar skyrtur, og jafn hreinlegir með sig og götusópararnir en þeir virðast bara skitna minna út yfir daginn.

Ég verð að fylgjast vel með þessu fólki því ég get aldrei farið hérna inn á verkstæði í fimm mínútur, án þess að verða eins og drulluhaugur. Við skulum vona að svo lengist lærið sem lífið í þeim efnum.

 


Og hvað svo?

Gæsluvarðhald til 2. sept nk. Hvað tekur síðan við? Verður manninum sleppt, eða verða réttarhöld og hver verður þá dómurinn.

Eins og allir vita er mjög vægt tekið á öllum svona brotum og hámarksrefsingu aldrei beitt. Hvers vegna? Allir virðast sammála um alvöru glæpsins, en hvers vegna er dómsvaldið ekki að virka í þessum málum


mbl.is Gæsluvarðhald staðfest
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Prútt

 

 Nóv.  ' 06.

100_3167Mjög algeng staða hjá Kínverjum. Þeir sitja svona tímunum saman. Ég hef séð kínverska ferðamenn sofa þó nokkra stund, í þessari stöðu úti á gangstéttum.

Því miður á ég engar myndir af prútti. það er mjög illa séð að taka myndir þar sem fleiri en 10 koma saman, það er oftast leyst í sundur með lögregluvaldi,ef til sést.

 

 

 

 

Í dag ætla ég að ræða aðeins um verslunarmátann hérna. Eins og allir vita, viðgengst prútt um allan heim, en það er nokkuð sem ég hef aldrei getað haft mig í, og þess vegna ekki verslað á þannig stöðum, nema þegar löngunin að eignast eitthvað (oftast algeran óþarfa) hefur borið mig ofirliði, en þá hef ég alltaf verið höfð að fífli og seljendur stórgrætt á túristahálfvitanum.

 Kína er engin undantekning frá prúttinu, en nú er það bara yours truly, sem er farin að færa sig upp á skörina og hefur gaman af. Það er svo gaman að stúdera þetta og núna þegar ég er orðin klár á reglunum, er þetta eins og skemmtileg íþrótt, skylmingar eða eitthvað svoleiðis.

Maður velur sér hlut, spyr um verð, fær það og ákveður síðan hvað maður er tilbúinn að borga. Því næst fer maður töluvert niður fyrir sitt fyrirfram ákveðna verð og býður þá upphæð. Nú byrja lætin, sölumaðurinn verður alveg steinhissa, alveg eins og ég varð á upphaflega verðinu, og segir þvert nei. Ég verð alveg ógurlega móðguð og þykist ætla að fara. Núna lækkar hann sig aðeins og ég segi aftur nei, þá horfir hann á mig spurnaraugum og ég hækka mig örlítið. Hann brosir og hugsar, jæja það er hægt að mjaka kerlingunni og lækkar sig aftur, bara örlítið. Ég segi þvert nei og stend við mína tölu alveg harðákveðin á svip og skjálfandi innan í mér.

Núna hættir honum að lítast á blekuna og verður alveg rosalega aumingjalegur á svip (svona, ætlarðu virkilega að svelta konuna mína og barnið), og horfir fast í augun á mér. Ég stend alveg gallhörð, ennþá töluvert undir verðinu sem ég var búin að ákveða í upphafi og þá byrjar showið. Hann hendir sér í gólfið eða götuna, hágrátandi og lætur öllum illum látum á kínversku, en ég læt mér fátt um finnast (enda skil ég ekki stakt orð) og þá rís hann á fætur aftur og lækkar sig aðeins, ég hugsa mig um og hækka mig örlítið, hann hristir hausunn og ég býst til að fara. Hann verður eins og hundur í framan og segir ok.ok.

Eftirleikurinn er það skemmtilegastia, því nú hefst lokakaflinn. Hann snýr sér undan, og ég held að hann sé í ógurlegri fýlu, en hann nær í einhverjar blaðadræsur og pakkar öllu undurvel inn, margvefur allt með tágabandi, réttir mér pakkan stoltur á svip, skælbrosir og segir, thank you, come again (það er eina enskan sem þeir kunna fyrir utan ok. ok.)) og ég geng burt alsæl, staðráðin í þessu come againi. Það skal tekið fram, að allt prútt fer fram á vasatölvum, svipbrigðum, kínversku og íslensku.

Það sem maður verður að passa er virða reglurnar og bakka aldrei með það sem maður er búinn að bjóða og hann hefur samþykkt. Það þykir slæmur skortur á siðferði og þú byrjar aldrei að prútta ef þú ætlar ekki að kaupa. Einu skiptin sem þú getur hætt við er, ef þér finnst verðið of hátt þegar hann hefur gert sitt lokatilboð sem þú vilt ekki taka.

Kínverjum finnst ógurlega gaman að fylgjast með prútti og stundum safnast stór hópur í kring um mann þegar á þessu gengur og endrum og eins hef ég fengið lófaklapp að viðskiptum loknum og klappar þá sá sem seldi ekkert síður með. Ég held að þeir klappi fyrir útlendingi sem hefur tekist að láta ekki plata sig , því ég held að kínverjar sjái stórt $ á enninu á öllum útlendingum. Þegar þetta gerist sný ég mér við og klappa fyrir þeim líka. Semsagt, þetta er íþrótt með leikreglur og heila gillið, þar sem allir brosa að leikslokum.

Svo eu það umbúðirnar í þessu blessaða, fyrrverandi keisarans, Kína. Hér er öllu pakkað ákaflega fallega og vandlega inn, svo vel og vandlega að það er nánast ógjörningur að opna pakkana og dugar þá ekkert til nema hnífar og skæri. Mér verður oft hugsað til gamla fólksins, þegar ég hálfþrítug, ræð varla við þetta! Það er alveg sama hvort það er matvara, klósettpappír, fatnaður eða what have you, þetta kostar allt slagsmál við umbúðir.

E.t.v. er þetta einhver stjórnskipuð leið til sparnaðar, á ég þá við að fólk kjósi frekar að vera án hlutanna en að standa í þessum atgangi. En eitt er víst, að allt er þar af leiðandi, ákaflega hreinlegt og ferskt sem kemur endanlega innan úr pappísflóðinu, svo maður tali ekki um úr plasti og áli. 


Lofthræðsluleysi og gullmoli

 

 

IMG_0145Landlega í litlu sjávarþorpi

Eitt hugtak virðist ekki vera til í Kína, en það er lofthræðsla. Ég hlýt að hafa óvenjulega sterkt hjarta að horfa á þessa lofthræðluleysishegðun fólks Við búum á þrettándu hæð en ræstikonan okkar, vílar sér ekki við að fara út um stofuglugann (alveg) og stendur þar á ca. 5 cm breiðri álímdri graníthellu alveg flughálli og heldur sér lauslega í gluggapóstinn.Þarna teygir hún sig eins langt og hún nær og hamast mjög við gluggaþvottinn. Í fyrsta skipti sem hún gerði þetta, brá mér all illilegaog augsýnilega, og þá tók hún bakföll af hlátri en ég settist bara niður titrandi og skjálfandi og þakkaði mínum sæla fyrir þetta sterka hjarta. Um daginn var verið að skipta um ljósadótið sem hangir hér á öllum húsum, og voru nokkrir gaurar hangandi utan á 14 hæða húsinu hérna a móti, í einhverskonar kaðli, grönnum mjög og neðst í kaðalinn var fest smáspýta, handhnýtt sem þeir sátu á.

Á þakbrúninni, alveg fremst, stóð  maður og hallaði sér alltaf fram til að fylgjast með þeim við vinnuna, og þegar þurfti, ýmist hífði hann eða slakaði þeim, upp eða niður. Festingin efst var þannig að bandinu var vafið í tví- eða þrígang utan um handriðisræfil sem á ábyggilega að vera einhv.konar öryggisgirðing, en enginn virðir. Þegar hann þurfti að hífa og slaka losaði hann einfaldlega bandið og gerði þetta allt af handafli og hnýtti síðan einhverskonar lykkju að verkinu loknu. Mennirnir héngu sallarólegir eg létu sér ekkert bregða. Eins gott að enginn þeirra haldi við konu hífarans og hann komist að því. Eg persónulega fæ bara sting í nárann, þegar ég hugsa um þetta.  

071 Svona eru barnaheimilin í Kína, en þá á ég ekki við um munaðarleysingjahæli. Þar er ekkert skraut og engin gleði, og eingöngu stelpur.

 Það er farið að rigna, og hefur rignt nokkuð hressilega, þó ekki sé von á regntímabilinu fyrr en eftir áramót.

Elín og Sólkatla systir hennar (sem ég á ekkert í), fóru í langan hjólreiðatúr í gær, sem varð hálf endasleppur þegar sprakk, með hvelli, á hjólinu Elínar. Þetta var töluvert langt fá heimilum þeirra og góð ráð dýr, að þurfa ekki að ganga með hjólin til baka. Þær stóðu þarna heillengi og reyndu að stöðva vegfarendur og spyrja á einhverri íslenk-ensk-kínverskri málblöndu hvort einhver vissi um reiðhjólaverkstæði í nágrenninu.

 Það hlýtur að vera fullt af þeim í þessari margmilljón hjóla borg. Enginn brást við og fólk forðaðist þær eins og heitan eldinn, þó föngulegar séu, allavega á vestrænan mælikvarða.Álengdar hafði staðið kengbogin og gömul betlikerling sem allt í einu, eftir svona hálftíma eða svo, nálgaðist þær og á leiðinni hvæsti hún á þá sem urðu á vegi hennar með einhverskonar fissssh hljóði og bandaði öllum í burt með stuttri en snöggri handahreyfingu. Þegar hún kom að þeim notaði hún sama hljóðið og handahreyfinguna til að benda þeim að elta sig.

 Kerlingin var svo skítug og illa til reika að þær vissu ekki alveg hvernig þær áttu að bregðast við. En henni varð ekki þokað, hún hvæsti og bandaði og benti á rassinn á sér svo þær ákváðu að elta. Eftir að hún hafði leitt þær áfram, dágóða stund, og hvæst og bandað öllum burt sem á vegi hennar urðu, fóru göturnar að þrengjast og standardinn á umhverfinu að lækka, þannig að þeim hætti smám saman að verða um sel.

Kerla hélt áfram ótrauð en Sólkatla spurði Elínu hvort þetta væri ekki að verða tvísýnt. Elín hinn týpiski íslenski víkingur í neyð sagði, skíthrædd að vísu, að það væri nú hábjartur dagur ennþá og tvær íslenskar á besta aldri hlytu að ráða við eina eldgamla betlikerlingu og hennar hyski ef svo bæri undir. Áfram hélt kerling og alltaf varð umhverfið þrengra og skuggalegra og þær orðnar alveg rammvilltar. Alt í einu stoppaði sú gamla og fnæsti hátt og bandaði hendinni, eins og áður, á karl sem sat í algjörum ruslahaug, inni í smáskonsu, og reykti eins og hann ætti lífið að leysa (sló mér næstum við að sögn). Sá brosti út að eyrum þegar hann sá fylgifiska kerlu, og þá hætti nú Elínu stóru systur að lítast á blekuna, eða þannig.

Hún fór nú að líta í kring um sig og sá þá í öllu draslinu, eitthvað sem líktist reiðhjólaslöngu og svona hitt og þetta annað sem kom reihjólum við. Karlinn tók hjólið, ég veit ekki hvort hann hætti að brosa þegar hann sá slönguna, en það reyndust þrú stór göt á henni ,en sá var ekki svifaseinn, að bæta þetta allt eftir kúnstarinnar reglum. Verðið, jú 9 kr. ísl. á gat, og ekki nokkur leið í gleðinni og léttinum sem þessu fylgdi að hækka verðið við hann.

Eftir að hafa hvatt karl með virktum var farið að svipast um eftir þeirri gömlu og stóð hún þá á næsta götuhorni og fylgdist vel með. Elín gekk til hennar og ætlaði auðvitað að gauka einhverju að henni fyrir alla hjálpina og tímann sem fór í þetta, en sú gamla bara fnæsti á hana eins og alla hina, fisssh, og bandaði þeim í burtu eins og hún hefði aldrei séð þær áður og ekki viðkomandi að gefa henni í baukinn sinn sem aðrir máttu þó gera. Þessi litla saga segir mér  hvað það leynast skínandi fallegir gullmolar í mauraþúfunni hérna.  Jæja, hann rignir ennþá en rigningin er heit og þægileg og svo sem ekkert undan henni að kvarta. Þakka þeim sem lásu og hafið það nú virkilega huggulegt í snjónum og frostinu inni í hlýjunni heima! 

Þegar ég tek upp svona gömul blogg er erfitt að ráða við hvernig þau koma út á þessu bloggi núna. Stundum kemur allt í einum hnapp, hversu sem ég hamast við að hneppa frá, en stundum er allt í lagi.

Þetta verður bara að vera eins og kaupin gerast á eyrinni hverju sinni.


Te, sopið í blíðunni

08bb1fe95a1c93446545b1f1c1f4db6c44972b33fc58f3bdf21cf16bde65b1bbSéð frá Gulandyu til Xiamen

 

Botaniski garðurinn til hægri, eins og ævintýri svo fellegur er hann.

 

 

Xiamen er í Fujianfylki, en það er gríðarstórt og liggur að sjó við suðurströnd Kína og teygir sig langt inn í land. Hversu stórt það er man ég ekki, en það er margfalt á við litla landið okkar, sem er þó "stórasta land í heimi", eins og datt svo fallega út úr forsetafrúnni okkar staddri í Kína. Fujian er hálent og undrafagurt.  Þarna er svo auðvelt að sjá út frá hverju kínverk myndlst er sprottin, dulúðin og fegurðin á sér engin takmörk, og svo er fjallaloftið þarna hreint og tært.

Á láglendinu nærri Xiamen er hver blettur ræktaður, ávextir og grænmeti eru þar í aðalhlutverki. Fjöllin éru ræktunarstaður tesins, en Fujian te þykir það albesta sem þekkist. Tegundirnar eru ótalmargar, allt frá auðræktuðu glulu og grænu tei upp í allskyns teg. svo sem rautt og fl. en það te er dýrt og ekki á allra færi að kaupa. Mest af því er flutt út, en sumar tegundirnar eru þyngdar sinnar virði í gulli.

 Það er ævintýri líkast að sjá fólkið sem vinnur við teræktina, það prílar upp örmjóa og snarbratta stalla með verkfæri og stóra strigapoka. Þau fikra sig upp eins og fjallageitur til að sinna ræktuninni og tína telaufin. Þau eru klippt og sett í pokana þar til þeir eru úttroðnir af þessum lífselexír Kínverja sem drekka te eins og um helgiathöfn sé að ræða, mörgum sinnum á dag.

AlbumImage[5] T

Tefjöllin í Fujian, tölvuteining með mús sem ég gerði 2010.

 Konur og karlar sinna þessu sameiginlega, enda ekkert sem heitir karla eða kvennastörf. Konur vinna jafnt á við karla öll þau störf sem þær hafa líkamlega burði til, en þeir eru oft ótrúlegir. Að sjá þessar lágvöxnu tágrönnu konur leggja gangstéttir er hreint undrunarefni. Þær taka hellurnar og bera þær á milli eins og ekkert sé.  Annað virðist fólki sameiginlegt, það virðist ekki þekkja lofthræðslu og á ég þá bara við fólk almennt, ekki bara þá sem vinna við terækt.

Fyrsta daginn sem ég var í Xiamen gekk ég um og skoðaði það sem fyrir augu bar og þar sem ég er bara venjuleg  íslensk kona voru búðargluggarnir freistandi. Í þriðja til fjórða hverjum glugga voru svona yndilslega falleg dúkkubollastell í öllum litum og gerðum. Ætli börnin hérna leiki sér ekki með neitt nema bollastell hugsaði gáfukonan góða. Út um allar gangstéttir fyrir framan hverja einustu versl. eða fyrirtæki voru líka lítil mjög lág borð og agnarlitlir kollar svona ca. 25 cm. háir. Skömmu seinna fór starfsfólkið þarna í kring að setjast út og hita sér tesopa. Þá rann upp fyrir undirritaðri að fólkið var e.t.v. ekki alveg jafn barngott og hún hafði haldið.

Þegar allir eru sestir er vatnið soðið í katli, teið látið í könnu á stærð við rjómakönnu og sjóðandi vatninu hellt yfir, litlu dúkkubollarnir síðan skolaðir hver á fætur öðrum úr þessari fyrstu uppáhellingu og öllu hellt niður. Síðan fer ný gusa í könnuna og látið standa smástund. Nú er hellt í bollana og eins og ég sagði áðan upphefst helgiathöfnin. Fólkið liftir þessum örlitla bolla upp að vörunum og sýpur á, það þagnar allt á meðan og smástund á eftir. Síðan tekur sá sem sér um teið nýtt sjóðandi vatn og hellir upp á aftur o.s.frv. Það er hellt svona sex til sjö sinnum upp á sama teið og síðan er skipt um. 100_2330                                                                               

Meðan á tedrykkjunni stendur er oft tekið í spil og þá nær undantekningarlaust upp á peninga. Einnig er oft teflt, en þeirra skák er kölluð Fílaskák og leikin á borði eins og því sem sést hér til hliðar, en ég gerði mörg slík á meðan ég dvaldi þarna stór og lítil. Heimareitirnir eru þar sem rauðu flísarnar eru og síðan er taflborðinu skipt í miðjunni með á.Leikreglurnar kann ég ekki að öðru leyti, en venjulega vestræna taflmenn má vel nota og er þá blessaðri drottningunni sleppt. Er farið að örla smá á kvenréttindakerlingunni í mér, e.t.v. engin furða, því þarna eru víðáttumiklir óplægðir akrar í þeim efnum. Má vera að ég komi að því seinna.

 

 Tedrykkju nýlokið, litla bollastellið fyrir fjóra og allar græjur á borðinu

 

 

 

PA261644

Utan við Xiameneyjuna er önnur lítil eyja, Gulangyu. Sú er bara hólmi miðað við Xiamen en á sér allmerkilega sögu. Hún liggur álíka langt frá landi og Viðey frá Reykjavík  og tekur u.þ.b. fimm mín að komast þangað með ferju. Þarna voru stórveldin með sendiráð sín fyrr á tímum, áður en þau flæmdust úr landi undan byltingunni. Þarna bjuggu auðmenn margir og bera húsin þess merki að ekki skorti peninga, þau voru sannkallaðar glæsihallir. Voru segi ég því þeim var ekki haldið við fremur en öðrum húsum þarna eftir að þau voru yfirgefin í snarhasti af eigendum sínum.

Í dag hefur ástandið breyst mjög svo til batnaðar, mörg húsanna verið tekin eignarnámi, önnur grotna niður því erlendir erfingjar þeirra standa í strögli við stjórnvöld um eignarréttinn. Þarna hafa verið sett á stofn mörg söfn og merkileg, því eyjan á sér langa og merkilega sögu. Ég ætla ekki að telja þau upp hér, utan eitt sem er píanósafn. Sagan segir að fyrsta píanóið hafi orðið til þarna (?) og hefur öllum teg. af píanóum verið safnað þarna saman, gömlum og nýjum, sum minna nú ekki alveg á nútímahljóðfærið sem heitir þessu nafni í dag.

 En hvað með það, á eynni er skylda að hafa píanó í hverju húsi og það er ótrúlega gaman að ganga um þröngar göturnar og heyra misfallega spilað á þetta hljóðfæri hljóðfæranna, en það fer líklega eftir aldri kunnáttu og "músikkaliteti" íbúanna. "Músikkalitet" verður víst aldrei hægt að lögskipa. Gulangyu gengur jöfnum höndum undir nafninu Píanóeyjan.

 

frh.

 

 


Fótanudd og Karioki

 

 

Færsla nóv. 2006

 

100_2580

100_2598                                                                                                          

Í dag er ég leið og í dag vil ég liggja,

lengst undir sænginni og klóra mér vel.

Flugnabit fjandans ég ekki vil þiggja,

fjárinn sá beit mig – mér varð ekki um sel.

Farðu í heitasta hel, ég minn óvin þig tel.

Moskítofluga - til þín hatur ég el!

 

Svona er nú heilsan hjá mér! Við sátum úti í gærkvöldi á yndislega fallegum veitingastað og borðuðum ítalskan mat, en yours truly gleymdi að setja á sig moskíoeitrið. En hvað um það, lífið heldur áfram og svo var maturinn alveg þess virði.

Við vorum að koma af konsert sem Elín og Rúnar héldu, í kínversku nútíma gallerýi, og var ákaflega fallegur, við góðar undirtektir. Gamla móður og tengdamóðurhjartað sló ansi ljúft og stolt undir þessu.

Eftir matinn fórum við, í góðum fíling, í axla, bak og fótanudd. Þær stofnanir eru opnar allan sólarhringinn og eru alveg jafnvinsælar og pöbbarölt eða annað álíka. Sumar eru gríðarstórar og þessi sem við vorum á tekur mörg hundruð manns í einu.Þarna liggur maður í djúpum stól og sötrar bjórglas svona rétt fyrir háttinn. Ó, þú ljúfa líf!

Fótanudd og Karioki eru langalgengustu afþreyingarstaðirnir hér um slóðir og alveg gríðarlega vinsælir. Kariokiið er alveg alveg sérstakt fenomen. Þetta eru gríðarstórir staðir, oft á mörgum hæðum og er skipt niður í mörg hundruð misstóra klefa, yfirleitt mjög huggulega með þægiðegum húsgögnum og litlu sviði til að syngja á. Hljóðkerfið gott og þú getur valið textann á um 4 – 5 tumgumálum.

Þarna er hægt að kaupa allt sem rennur, allskyns smárétti og snakk, semsagt verið í vellystingum og praktuglega og haldið gott partý ef svo ber undir. Þetta er sótt af öllum þorra fólks, háum og lágum. Mjög algengt er að vinnufélagar skreppi í matartímanum og taki nokkur lög saman. Helgarsportið hjá heilu fjöskyldunum er að taka lagið saman, svona eins og við heima skreppum á skíði eða eitthv. álíka. Ég þakka mínum sæla fyrir að þurfa ekki að hlusta á þann samsöng, mér finnst alveg nóg að heyra í einum innfæddum syngja í einu, hvað þá heilli rammfalskri fjölskyldu því músikalitet kemur þessu ekkert við.

Svo eru sérmerktir kariokistaðir, bara fyrir karla og alveg fullt af þeim. Þeir finnst mér alveg dýrðlegir, því þar fær karlremban notið sín að fullu. Þeir fara þarna einir, eins og vera ber í fínu hóruhúsi, fá að velja sér eina af hundruðum stúlkna sem þurfa að ganga í röð og láta velja sig. Þeir taka veslings stúlkuna með sér inn og syngja fyrir hana af hjartans lyst.

 Ekki er krafist sönghæfileika frekar en í öðru kaiokíi. Ef hún klappar ekki og ærist af hrifningu, skila þeir henni og fá aðra, alveg þangað til einhver er nógu góð leikkona og tryllist af hrifningu (eða bara tryllist), þá láta þeir kannské svo lítið að sofa hjá henni, ef þeir eru þá bara ekki orðnir alveg steinuppgefniraf öllum söngnum og sofnaðir.  Það er misjafnt mannanna bölið.                                                                             


Domestic vandamál

  Langur laugardagspistill.

  Bloggffærsla frá nóv. ' 06. 

100_2489

 

Götumyndir frá Gulangyu. Eins og sjá má er þetta sjopppa hérna til vinstri, 

 

Eins og klukka vakna ég alltaf  kl. 6 á morgnana síðan ég kom hingað. Til að byrja með fór þetta ógurlega í taugarnar á mér, en hvernig sem ég reyndi tókst mér ekki að sofna aftur. Einn morguninn settist ég hérna út í svalir í dögun í ógurlegri fýlu yfir ástandinu. En það stóð ekki lengi því allt í einu í grafarþögninni sá ég mann á svölunum hérna á móti gera morgunleikfimina sína. Hún stóð yfir í ca. 45 mín, og það var ekki vöðvi eða liðamót neinsstaðar í líkamanum skilið eftir. Ég fór að fylgjast með manninum (svona hálfpartinn í laumi)og þvílík kúnst.

Smám saman fóru að heyrast allskyns hljóð og borgin fór að vakna. Verkamennirnir með handvagnana sína fóru á stjá, húsmæður að þrífa svalirnar sínar á meðan ein og ein kallaði eða æpti á karlinn og barnið, byrjað var að hengja þvottinn á snúrurnar (herðatrén) og þá uppgötvaði ég þau dásamlegu sannindi að ég er ekkert árrisul á kínverskan mælikvarða.

Síðan tók eitt við af öðru og kl. 7 er allt komið í fullan gang.. Núna sest ég alltaf út með góðan tebolla og fylgist með borginni vakna og það er gott. Alveg steinhætt að gjóa augunum á leikfimisséníið bara góni á hann svona álíka og innfæddir gera, hver á annan og mig líka ef út í það er farið.100_2499

Við vorum boðin að vera við opnun á sýningu eftir rússneska listakonu sem býr í Noregi og hefur tekið sér kínverst nafn. Þessi ágæta kona hélt álíka langa og leiðinlega ræðu og hún heitir mörgum nöfnum og það á rússnesku, ensku og lét síðan túlka allt á kíversku  Það voru auðvitað allir að sofna yfir þessu og þegar hún loksins hætti var orðið dimmt, en til stóð að skoða þetta í dagsbirtu.

Samt var reynt láta mann sjá eitthvað, sem gekk ekki, þannig að ljósin voru kveikt og þessi andstyggilega sérkínveska bláa flúorljósabirta stakk bæði listaverkið og sýningargesti.

                                                                                                                                                       

 Þrátt fyrir þetta allt var sýningin gullfalleg og aðstandendum                                                                   Við lítið Búddahof. 

 til stórsóma, utan ræðuna löngu og kíverska ljósasystemið.

Það stóð nú eiginlega ekki til að setja sig á háan hest sem einhver kritikker en það er bara svona.

Í gærkvöldi fórum við Oddur út að borða á ítölskum stað, hérna ekki langt frá og gengum síðan heim í gegnum garðinn stóra, sem er í raun eyja úti í stóru vatni. Þar var Rúnar að spila og syngja á cosy stað sem heitir því skemmtilega nafni Asgard eða Ásgarður. Svona nöfn eru ekki algeng hér um slóðir. Við tylltum okkur þar og fengum okkur gin and tonic, of course, og löbbuðum síðan heim í goody fíling. Það vill svo skemmtilega til að þetta liggur allt í nokkuð beinni línu, gangan héðan að brúnni, eyjan, önnur brú úr eynni og gangan að Tutto Bene en það er þessi ítalski staður. Út úr þessu fær maður semsagt nokkuð langan göngutúr í kvöldblíðunni og ljósadýrðinni, góðan mat, tónleika og smá laugardags kenderí. Ekki alvont?

Hér má sjá þvottaaðstöðu flestra kvenna

lítill vaskur utandyra og svo allt hengt upp

 þar sem eitthvað pláss er, en oft er slegist

um þerriplássið.

100_2504

Nýr dagur.

Góðan daginn góðir hálsar. Nei fjárinn hafi það, ekki vildi ég láta kalla mig háls. Góðan og blessaðan daginn öllsömul. Nú er klukkan að verða sjö að morgni og vinur minn hérna á móti, þessi fimi, hættur öllum sínum fettum og glæsileika. Hann er alveg ómótstæðilegur.----  E.t.v. er ég bara komin á þann aldur að vera farin að glápa á strákana, who knows?

  Það hafði dottið hérna inn auglýsing, á kínversku, samt gat ég lesið upptalningu á ýmsum vestrænum sjónvarpsstöðvum þar á meðal. Sports Channel og svo ýmsum  frétta og fræðslumyndastöðvum.

 Þar sem minn heittelskaði, er mesti áhugamaður sem ég þekki um enska boltann og evrópumeistarakeppnina ákvað ég að gleðja hann óvænt og taka miðann með til að láta Joey, sem er kínverji í vinnu hjá okkur öllum og við getum hringt í hvenær sem er til að vera málpípa okkar, lesa og þýða – sem endaði með því að hálftíma seinna var búið að panta gerfihnattadisk sem nær 55 stöðvum.

Allur pakkinn og árs áskrift á uþb.tíu þúsund kall. 10 mín seinna var hringt og sagt að mennirnir myndu mæta með allt krúsidúlluverkið og setja það upp NÚNA. Þeir eru ekki lengi að þessu kínverjarnir, --- og þó.

 

Mennirnir byrjuðu á að setja upp diskinn og tengja allt draslið, og svo settumst við voða spennt og þeir kveiktu. En viti menn, allt á rugli, mennirnir hömuðust í öllum tökkum, alveg kófsveittir, en allt kom fyrir ekki. Eftir nokkra íhugun ákáðu þeir að hringja eftir nýju boxi, Eftir það box og ennþá meiri íhugun var hringt eftir 3ja boxinu og þá komu tveir menn í viðbót og kættist þá hugur minn mjög.

 

 Annar af þessum nýju henti sér á sófann og steinsofnaði og hinn fékk sér sígarettu og hafðist svosem ekkert annað að, en að góna á hina með vægast sagt ógáfulegum svip. Upphaflegu gaurarnir voru nú orðnir á svipinn eins og ungur drengur sem missir niður um sig buxurnar á fyrsta stefnumótinu og fóru eitthvað að íja að því að senda eftir 4ða boxinu

  

Ég var farin að sjá fram á að maðurinn myndi sofa á sófanum alla nóttina, við orðin sársvöng og ekki leist mér á að bjóða liðinu í mat, þannig að ég sagði að mér litist eiginlega ekkert á að sitja til kl. 8 í fyrramálið og bíða þá eftir svona 12, til 13. boxi. Þetta fannst þeim alveg svakalega fyndið og mér eiginlega líka, að þeim skildi finnast það. En þeim létti greinilega og ákváðu, þá orðnir mjög alvarlegir á svip og ábyrgðarfullir að þetta væri tæknilegt vandamál sem þeir þyrftu að fara með heim og hugsa til morguns. Ég vona að þeir geri meir en að hugsa, það þarf víst líka að leysa. Jæja, jæja þeir fóru kl. að ganga 11 og tóku þennan sofandi með sér.

   

Nú er bara að sjá hvað dagurinn ber á skauti sér. Fær Oddur enska boltann, missir Beggó þolinmæðina, koma kannski tveir sofandi, verður allt vitlaust, eða koma þeir bara ög gera þetta rétt?  Þá vitið þið hvernig domestic vandamálin eru í Kína eða þannig. Ekki orð um það meir fyrr en leikslokum.

Þeir segja hérna að veturinn sé kominn, búnir að loka öllum sundlaugum og enginn á ströndinni, en ég sé engan mun. Hitinn þetta 23 – 24° á daginn og eitthvað svalara á nóttinni. Svona eiga vetur að vera. Núna er fínt að fara út á strönd og finna alls kyns steina og slípuð postlíns og glerbrot í mósaikið, svo maður tali ekki um fallegar skeljar og kuðunga.

100_2505100_2508

Listmálaraverslun og

eitt af þessu húsasundum sem heilla mig svo mjög.

Hér má sjá alveg stórglæsilega þvottaaðstöðu með skolkari.

Í dag kemur síðasta stykkið sem vantaði til að fá fullbúið verkstæði en það er rekki fyrir glerið. Ég var svo heppin að hitta á þennan ágætis mann sem smíðaði vinnuborðið og er að þessu núna. Sá er sko betri en enginn og nú neyðist Beggó til að hætta öllu gjálífi og sulli og fara að vinna.

Framhald.

Skal tekið fram að ég er búin að margreyna að skilja sundur texta og myndskýringar við þessa færslu, en það hrekkur alltaf í sama farið aftur. Vona að fólk finni út úr þessu án mikillar áreynslu.

 


Alltaf eitthvað nýtt

Bloggfærsla frá nóv. 2006

100_2386

 Myndirnar eru allar af mismunandi fiskibátum í sundinu milli Xiamen og Gulangiu, en Gulangiu liggur svipað langt frá landi eins og Viðey frá Reykjavík, ca. 5 mín með ferju.

Skal tekið fram að myndefni á ekki endilega við færsluna sem það fylgir, en ég reyni að útskýra það eftir föngum.

 

100_2387

Það er svo skemmtilegt, að eftir smátíma í þessu umhverfi hættir maður að sjá kínverja sem kínverja og þeir breytast bara í vejulegt fólk með öllu sínu litrófi og þannig er mikið auðveldara að umgangast þá og eiga við þá samskipti. Engin hræðsla eða feimni eða hvað það er kallað. Maður er bara kominn innan um fólk sem er eins og ég og þú og líður vel.

  

  Í dag hrapaði hitinn niður í 23° og kínverjarnir allir komnir í peysur. Konan sem þrífur, stendur og hálfskelfur en mér líður svona ljómandi vel. Þetta á allt eftir að fara á betri veg, fyrir þessa nýju samlanda mína, því klukkan er bara níu að morgni. Þetta er dálítið ólíkt viðhorf til hita og kulda heldur en við höfum, því ég man ekki betur en þeir væru allir í vattúlpum þegar við vorum hérna um háveturinn í fyrra, en við sátum úti og sóluðum okkur.

Í gær fórum við út á strönd, sem er svoa  10 -15 mín keyrsla héðan, og fengum okkur lunch á alveg frábærum veitingastað sem stendur á nokkrum pöllum í lágri hæð alveg niður við sjó. Þarna sátum við í skugga trjánna og hlustuðum á ölduna gjálfra við hvítan sand rétt fyrir framan okkur. Maturinn var góður og kompaníið, Elín, Rúnar og Rúnar Breki ennþá betra.

Við fórum þetta í leigubíl, en það er ferðamátinn hérna að reiðhjólunum undanskildum. Þetta er mjög þægilegt, því það er alltaf nóg af leigubílum og þeir kosta yfirleitt 8 – 10 juan sem er uþb. 90 kr. íslenskar, strætó heima stenst engann samanburð, því bílarnir taka eins marga og hægt er að troða inn í þá með góðu eða illu.

Við sáum ma. 8 kínverja koma út úr einum í gær. Þeir tíndust út hver á eftir öðrum og ætluðu aldrei að hætta. Ég hef grun um að við rithöfundurinn höfum verið orðin ansi langleit þegar runan  stoppaði Ég þorði ekki annað en að stinga hausnum inn og ath. statusinn áður en ég settist sjálf. Maður er ekkert sérstaklega fyrir að kremja litla sæta kínverja undir sér svona rétt fyrir kvöldmat.

   100_2544

 Eftir lunchinn fóum við Elín í smá búðarrölt en karlarnir í hárþvott, sem er aukaatriði, því honum fylgir höfuð, axla og baknudd. Síðan hittumst við öll aftur og fórum í fótanudd. Enginn partur skilinn eftir og maður er alltaf að liðkast.

   Þeir eiga eitt metið enn hérna og mættu íslendingar skammast sín í samanburðinum þó góðir séu. Þetta er að rífa upp götur og gangstíga og bauka eitthvað með það sem undir er, loka aftur, helluleggja og malbika og rífa síðan allt upp aftur og það sem allra fyrst.

Þetta veldur því að maður er alltaf að leita að nýjum gönguleiðum, sem veldur því að maður áttar sig betur og betur á  umhverfinu sem veldur því að ég er orðin betri en Pollýanna.

 Uppbyggingin hérna er svo hröð að það er verið að byggja háhýsi á hverjum auðum reit,og virðist ekkert lát á. Mikið af þessu stendur autt ennþá, en þeir hafa engar áhyggjur af því, því vinnuaflið er ódýrt og þeir sem byggja hafa nóga peninga og fasteignaverðið rýkur upp. 50 – 70% frá því um áramót að því að mér er sagt.

    Andstæðan við þessar framkvæmdir allar eu svo hverfi fátæka fólksins, sem sumt hefur aldrei farið út fyrir götuna sína. Þó ljótt sé að segja, finnst mér þessar götur svo heillandi í allri sinni eymd og á vissan hátt póetískri fegurð. Skíturinn og sóðaskapurinn svo mikð að maður er hættur að taka mark á því. Þessar götur eru ekki nema svona rúml. faðmur á breidd og þarna ægir öllu saman, því allt þarf að vera til staðar ef alheimurinn er gatan þín, að vísu með örfáum undantekningum. Þarna er verið að elda mat við ömurlegar aðstæður og kallast víst veitingahús (svona smápartur af gangstétt og 1 ferm. fyrir innan).

Helstu húsdýrin eru rottur og kakkalakkar. Mamman er að þvo þvott, sem er hengdur hvar sem hægt er að troða honum, litla systir að hreinsa telauf, stóra systir falbýður sig í dyrunum á hreysinu og pabbinn jafnvel að mæla með henni á fjálglegan hátt, við kúnnana sem eru ekki allir af lekkerustu teg.  Í næsta húsi er svo virðuleg teverslun eða eitthað slíkt.

Allt í einu dúkkar einhver upp og fer að bjóða þér allar nýjustu dvd diskana eða jafnvel vestrænan tískufatnað á fáránlegu verði, svo lágu að maður roðnar. Til þess að nálgast þessa vöru ertu td. leidd á bak við þil, upp þröngan, skítugan stiga og alls kyns króka og kima þangað til þú kemur inn í svona eihverskonar leynilega þjófa aða eitthvað svoleiðis verslun, þar sem glæsileiki er síðasta orðið sem þér dytti í hug . En varan er góð ef þú hefur áhuga. Hér er allt til sölu alveg sama hvað það er.

    Til þess að enginn fái ranghugmyndir, þá eru kínverjar mjög hreinlegir að öllu jöfnu og borgin að öðru leiti tandurhrein. Allt rusl er flokkað og meira að segja allar göturuslafötur tvískiptar, fyrir endurvinnanlegt eða úrgansrusl.

   

    Svona smá innskot: Í þessu stóiðnaðarveldi sem Kína er orðið, er ekki búið að finna upp þvottasnúruna!, allt hengt upp á herðatré eða hvað sem fyrir er. Það er svaka system hérna á svölunum sem halast upp og niður á mörgum hæðum en allt útbíað í herðatrjám. Sjáið þið í anda nærbuxur, sængurver sokka og what have you, hanga á herðatrjám? Ég elska þetta og ætla ekki að fá patentið á þvottasnúrunni í Kína.

   Lýk þessu hér með að sinni. Allt í fína frá Kína.                  

  

Framhald.


Kveðja frá Beggó Group

Bloggfærsla frá 0kt. ' 96

 

IMG_0006

Þá er lífið að komast í gang hjá okkur í þessari yndislegu borg andstæðnanna. Hún er gríðarstór og mjög nútímaleg, en svo koma hverfi inn á milli sem eru næstum eins og að hverfa mörg hundruð ár aftur í tímann.     

Mannlífið spannar allan skalann, þannig að maður ýmist grætur eða hlær innra með sér, allt frá börnunum sem ég minntist á áður sem hafa verið beinbrotin og bækluð af foreldrum sínum og send út af örkinni á litlum hjólabrettum, með fæturna mölbrotna þannig að þeir vísa í allar áttir, og þau ýta sér áfram með höndunum, til að betla handa fjölskyldunni, -  upp í fólk sem er svo ríkt að það þarf allt upp í átta lífverði til að hlaupa í kring um sig. Og það fólk held ég að líti aldrei í kringum sig, því það vill ekki sjá eymdina.  Þar á milli er svo alþýðan, mjög vingjarnlegt fólk og brosmilt að öllu jöfnu og algjörir vinnuþjarkar. Einn af þeim er hérna frammi núna að setja upp vinnustofuna mína.


Umferðin hérna er svo mikið kraðak, að það þyrfti a.m.k. kolruglaðann mann til að skilja hana, ég held að flestir Íslendingar séu allt of skynsamar til þess. Bílarnir æða hver um annan þveran og fólkið líka og þótt það sé allt fullt af umferðarljósum, þá eru þau ekkert sérstaklega til að fara eftir, nema svona með happa og glappa aðferðinni. Við skulum ekkert tala um hraðann! Við þurfum að ferðast allar lengri leiðir með leigubílum og þá sest maður bara upp í og krossar sig og passar að horfa ekki fram á veginn, því þá myndi maður af öllum líkindum lenda á einhverjum kínverskum Kleppi. Ekki orð um það meir.


Við erum búin að borða mikið af góðum og ekta kínverskum mat og finnst mjög gaman að kynnast öllu í kringum það. Hann líkist ákaflega lítið kínverska matnum á vesturlöndum án þess að setja nokkuð út á þann mat. Hér þekkist varla sykur í réttunum en þeim finnst gott að fá sér ferska ávexti til að fá sykurinn í desert, aðallega melólur af öllum gerðum.


Við vorum boðin í mat í gærkvöli af viðskiptafélaga  sem útvegar mér það sem hægt er að finna til gleslistar. Þeir hafa þann sið hérna að ef þeir meina eitthvað með viðskiptunum, þá bjóða þeir í allsherjar dinner, báðar fjölskyldur, afi, amma, foreldrar og börn á báða bóga. Þetta var alveg meiriháttar veisla og maturinn frábær, svona 10 réttir með allskyns sósum og allt eldað á borðinu, í potti sem stanslaust var bætt í, svo allt væri alltaf nýeldað.

Þegar maður kingir síðasta bitanum standa allir upp og kveðjast með virktum. Það er ekkert verið að hangsa af óþörfu. Don´t mix dinner with pleasure. Mér fannst þetta algjört æði. Ég kýs nú samt að að nota ekki þessa koma, borða fara aðferð, því maður vill nú helst slaka aðeins á. 


Það er ótrúlega erfitt en stundum mjög gaman að versla hérna talandi ekki stakt orð í málinu en þetta tekst alltaf. Ég fór td. í dag að kaupa hosuklemmu á slöngu sem er hérna á svölunum, bara svona til að hreinsa þær, og þurfti að teikna  klemmuna og ná í slöngu sem ég sá í búðinni til að sýna þeim, en þetta tókst allt og báðir höfðu gaman af.


Fyrsta verslunarferðin okkar hér var í gríðarstóra verslun, sem sérhæfir sig í öllum vörum og búnaði fyrir hótel, Þarna keyptum við allt sem við þurftum í þessa dásamlegu íbúð sem við höfum.Til þess vað versla þarna þarftu að vera á vegum einhvers fyrirtækis.  Þar sem þetta er eina verslunin sem selur evróskan mat og krydd verður  venjuleg kona frá Íslandi að stofna fyrirtæki á staðnum og helst auðvitað að vera alveg svakalega merkileg á svipinn á meðan.

 

 Ég leit á þá alveg ísköld á framan í manninn og sagði bara Beggó Group, og þar með er ég komin í hóp með Jóa í Bónus og þeim öllum. Bara smásvindl eða þannig og maður er  nánast kominn með mikilmennskubrjálæði að vera heilt Group.  Ekki það að Jói í Bónus sé neinn svindlari eða þannig, vinur fáfæka mannsins og margdæmdur saklaus af öllu slíku. Það er nánast guðlast að nefna hann í þessu sambandi.

      

 

 

   


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband