Feðraveldi, Kínapistill frá 2007

 

Ég var eitthvað að minnast á foreldraveldi hér um slóðir, en í raun er það feðraveldi, en konur ráða ekki rétt miklu svona yfirleitt. Elsti karlmaðurinn í beinan karllegg ræður yfir öllum í fjölskyldunni, allir hlýða honum. Næst honum er svo elsti sonurinn ef hann á fleiri en einn og svo koll af kolli. Konan hefur eflaust einhver völd  en það eingöngu innan veggja síns heimilis. Það er mjög algengt að karlar eigi sér viðhöld og þykir svosem ekkert tiltökumál að sýna sig opinberlega með þeim, enda algeng sjón. Karlar leiða yfirleitt ekki konuna sína, bara viðhaldið eða eigum við að segja hjákonuna. En heima stjórnar konan því sem hún fær að stjórna og leiðir þetta allt hjá sér. 

 Ef synirnir ætla eitthvað að bardúsa, svona eins og að stofna fyrirtæki, kaupa sér íbúð eða bíl, ræður pabbi gamli öllu og enginn gerir neitt nema með hans samþykki. Þetta á við, hvort sem þeir eru í heimahúsum eða harðgiftir og búnir að stofna fjölskyldu. Þegar faðirinn hættir að vinna, er það skylda elsta sonar (oftast er þó bara einn sonur samkv. reglunni um eitt barn) að sjá um foreldra sína, það sem eftir er. Þetta veldur því að allir vilja eignast son og dætur eru hálfgerð olnbogabörn hjá mörgum.

Það er lenska hér, þegar barn fæðist í fjölskyldunni og er strákur, að haldin er stórhátíð. Drengnum eru færðar stórgjafir, gríðarleg matarveisla haldin, með öllu  tilheyrandi og allsherjar húllum hæi. Ef það er hinsvegar stelpa er bara te og smákökur, örfáar frænkur koma, ódýrar gjafir og móðirin situr uppi með skelfilega sektarkennd.  

Vesalaings drengirnir eru undir alveg rosalegu álagi ,allt frá fæðingu, því allir foreldrar vilja veg þeirra sem mestan, góða menntun og háskólanám, því drengurinn þarf vinnu, góða vinnu, - á jú að sjá fyrir þeim í ellinni. Mér er sagt að sjálfsmorðstíðni hjá unglingum sem ekki geta risið undir námskröfum foreldranna sé rosalega há hérna. Stelpurnar verða hinsvegar bara að reyna að giftast vel eins og það er víst kallað.  

Meira um karlaveldið. Ef synirnir eru fleiri en einn, ræður sá eldri skilyrðislaust, þetta er svo slæmt, að kona yngri bróður þarf að þjóna þeim eldri þegar hann kemur í heimsókn á allan hátt. Setja hann í fótabað og nudda aumingja þreyttu fæturna hans, þó hann sé etv. óþreyttur, en hún búin að vinna langan vinnudag. Það liggur við að hún þurfi að borða fyrir hann, en ekki held ég þó að hún þurfi að þjóna honum til sængur.  

Það sem mér finnst hræðilegast við þetta er, að maður sem á son sem vinnur og býr í annarri borg en hann, getur tekið barn sonarins og farið með það heim með sér, ef honum sýnist svo og meinað foreldrunum um að hitta barnið nema einu sinni á ári. Bara ef honum sýnist svo, jafnvel þó foreldrar þess geti ekki flutt til sömu borgar og karlinn, því atvinna liggur ekki á lausu í þessu landi og foreldrarnir verða að borga með barninu og foreldrum mannsins - þó þeir séu svona grimmir.

Þetta er flókið og erfitt kerfi, sem ég held að verði ekki auðvelt að breyta, hefðin er svo óralöng og óhagganleg. Þetta hefur valdið hræðilegri sorg hjá mörgum þessara ungu foreldra, sem geta ekkert gert í málinu. Þeim er bannað að eiga fleiri börn, nema þau taki alla ábyrgð og kostnað á sig,  í sambandi við alla samfélagslega þjónusu, læknishjálp og skólagöngu - og það er dýrt. Aðeins forríkt fólk hefur efni á því. 

 Dæturnar þurfa síðan þegar þær giftast, að hugsa um foreldra mannsins og bræður hans, en enginn hugsar um foreldra hennar, það verða þeir bara að gera sjálfir, ergo – enginn vill eignast dóttur.  

 Það er stundum erfitt að vera útlendingur í landi sem er svona gjörólíkur menningarheimur og geta ekkert gert, þetta bara hreinlega kemur manni ekkert við og enginn myndi kæra sig um að maður skipti sér af því. Þess vegna reyni ég bara að hugsa ekki um það, enda best fyrir alla, að ég held. Sinn er siðurinn í hverju landi og það hvarflar oft að mér hvað ég á gott að vera ekki kínversk, þegar þetta allt, er haft til hliðsjónar. Annars líkar mér einstaklega vel við land og þjóð, eins og oftlega hefur komið fram. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Þetta er bara hræðilega sorglegt, en svona er þetta víst víðar.  Takk fyrir þetta Bergljót mín.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 22.8.2011 kl. 19:32

2 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Takk fyrir lærdómsríka frásögn, þetta eru bara lög í þessu landi þó afleit séu og getum við afar lítið sett út á þau.

Kveðja
Milla

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 22.8.2011 kl. 22:38

3 Smámynd: Ólafur Ólafsson

Takk fyrir...Áhugaverð lesning...hvað getur maður sagt...

Ólafur Ólafsson, 23.8.2011 kl. 13:01

4 Smámynd: Bergljót Gunnarsdóttir

Það er víst mest lítið hægt að segja, en svona er þetta bara. Sem dæmi um þetta veldi þess elsta í fjölskyldunni á ég til litla persónulega sögu.

Ég var með listsýningu í Kína og bauð leigusalanum mínum og fjölskyldunni hans að koma og vera við opnun. Þetta er forríkur maður, kominn nærri áttræðu. Hann mætti á tilsettum tíma með alla fjölskylduna, konu,dóttur, tengdason og barnabarn. Hann æddi eins og stormsveipur um allt og svo allt í einu lá honum þessi ósköp á að fara, ekki viðlit að bjóða þeim veitingar eða neitt slíkt.

En eftir ca. hálftíma var hann kominn aftur með stóra bróður með sér. Sá var áttatíu og eitthvað mikið, enda komst hann varla úr sporunum fyrir hrumleika, en  höfuð ættarinnar var hann. Sá gamli var teymdur að stórum og miklum mósaikspegli, sem var dýrasti gripurinn, hann gaf sér góðan tíma til að virða gripinn fyrir sér og sagði síðan já. Þessi sprettur á þeim yngri var semsagt til að flýta sér, til að fá samþykki fyrir kaupunum.

En kaupin á eyrinni eru ekki alltaf eins og maður óskar sér, og þess vegna hafði spegillinn selst á meðan hann hljóp eftir samþykkinu. Nú langaði húseigandann minn í annan spegil sem var þarna líka, en þeim gamla var ekkert haggað með að vinurinn mátti ekki kaupa hann. Þetta endaði síðan með að þeir fóru, en ég sá ekki betur en litli bróðir væri með stóra skeifu á munninum.

Svona er þetta bara, sá elsti ræður, og skiptir þá engu máli þó þú sért forríkur og eigir heila blokk, eða jafnvel fleiri, en þær eru þá auðvitað keyptar með fullu samþykki þess elsta.

Bergljót Gunnarsdóttir, 23.8.2011 kl. 16:09

5 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Þetta er alveg ótrúlegt Bergljót, en gefur svo sannarlega nasasjón inn í reglurnar þarna. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 23.8.2011 kl. 16:21

6 Smámynd: Bergljót Gunnarsdóttir

Ég er ekki viss um að þetta séu lög Milla, heldur aldagamlar hefðir sem ráða og enginn tilbúinn að breyta þeim, því fólk þekkir ekkert annað og virðist þessvegna ásátt, jafnvel þó það valdi því hjartasorg. Þetta er bara svona. Þegar fram líða stundir og stóraukin almenn menntun fer að skila sér, er líklegt að þetta fari e.t.v. að mjakast í það sem við köllum rétta átt, en ég er ekki viss um að allflestum Kínverjum finnist það. Máttur vanans er sterkur.

Bergljót Gunnarsdóttir, 23.8.2011 kl. 21:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband