Morgunleikfimi Kínapistill frá sept. 2007

 

Mikið getur maður nú alltaf verið seinheppinn. Þið hafið margheyrt um leikfimisgaurinn minn, hérna á svölunum á móti. Hann er sá al - iðnasti sem ég hef ennþá heyrt um, eða eigum við að segja séð til, í sinni rólegu, þöglu morguníþrótt og hefur átt sér ósvikinn aðdáanda – guess who - í mínu húsi. Það er með svona spíonakerlur eins og mig, að þær halda auðvitað að enginn taki eftir þeim, þar sem þær sitja í sínu skoti og rannsaka fórnarlömbin.  Ég var mætt á mitt vanalega svalapláss, eða bara sannleikanum samkvæmt í stúkusætið,  þegar greip mig óumræðanleg löngun að fara bara inn og herma bara svolítið eftir honum. Hann var svona rétt að ljúka við allar andlitsgeiflurnar þegar ég sá mér leik á borði, læddist inn í stofu og tók mér stöðu svona passlega langt fyrir innan gluggann, til að hann sæi nú örugglega ekki til mín.    

Þar með hófst mín fyrsta stund á ævinni í morgunleikfimi. Þetta var all mjög strembið, ekki vegna þess, hversu stirð ég er, það heyrist í mér brakið mér langar leiðir, heldur af því ég náði ekki þessum rólega rythma. Hann hélt alltaf áfram eins og mér liggur við að segja lygn á, en ég ruglaðist alltaf í ríminu. Gáfur eru gull, eins og ég hef margsagt - og þegar ég var við það að gefast upp, áttaði ég mig loksins á að þetta hafði bara ósköp einfaldan takt sem aldrei stoppaði, einn, tveir, þrír, fjórir og aftur og aftur og aftur, engar þagnir, bara einn, tveir, þrír, fjórir.     

Þarna gat ég loksins snúið mér að alvöru málsins og byrjað að gera æfingarnar í takt við blessaðan manninn. Það tókst nú bara allbærilega, þó svo að ég áttaði mig á að ég væri nú kannski ekki alveg jafn góð og hann. Já, já, þegar hann byrjaði á teygjunum settist ég bara niður alveg örmagna. Ákvað eftir smástund að þetta væri bara bölv. aumingjaskapur og reyndi allt hvað ég gat að nema þau fágætu fræði, svona yfir götuna, og byrjaði að herma eftir, sem best ég gat. - Ég veit ekki hvort ég kom til fjallsins eða fjallið til mín? En fjallið er að mestu ennþá óklifið ennþá og er virkilega á brattann að sækja.  Ég held, að maður þurfi aðeins betri kennslu en svalanjósnir (eða þannig) til að ná blessuðum teygjunum almennilega.  Það var 30° hiti úti. Hann stóð úti á svölum, ég inni í stofu með loftkælinguna á, og það lak af mér svitinn. Það en datt hvorki af honum né draup. Hann lauk þessu öllu, en ég, - ja, svona varla, segjum næstum því. Það má alltaf fegra sjálfan sig svo lítið beri á.      

Jæja nú jæja, látum hann hlæja. Nú lágu danir í því. Haldið þið ekki að maðurinn hafi endað á alveg glænýrri æfingu, sem ég hafði aldrei séð áður. Hann sneri sér að húsinu á móti – mínu húsi, og hneigði sig djúpt og virðulega, og svona rétt til að bæta gráu ofan á svart lyfti hann hendinni í kveðjuskyni. Ég bókstaflaga lak niður innra með mér, hafði þó rænu á að hneigja mig djúpt á móti. Þarna stóð ég á náttfötunum eins og hálfviti, þurfti svo sem ekkert að hafa fyrir því að hneigja mig, þegar ég bara lak líka niður að utan, samt tókst mér einhvernveginn að lyfta hendinni, mjög aumingjalega, þá brosti hann alveg yndislega og óleikfimislega - og bjargaði fyrir mér deginum. Ég held að mitt bros hljóti að hafa litið út eins og hikandi gretta, enda var mér ekki hlátur í hug – þá stundina.     

Ég man eftir því að ég las einu sinni í gestabók vestur á Hellnum, vísu eftir Kalla vin minn Roth sem hljóðaði svo  -  Í Triviali Purshuti ég tapa nú á kvöldin.  En bráðum tek ég völdin - ég æfi mig bak við tjöldin. Það er ákaflega gott að hafa þann eiginleika að vera duglegur að muna svona óbeinar heilræðavísur, þegar maður skammast sín, svona pínulítið - bara pínulítið þó.    Guð geymi ykkur öll.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Hahahahaha þetta er frábær frásögn Bergljót. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 23.8.2011 kl. 12:32

2 Smámynd: Sigurbjörg Eiríksdóttir

Alltaf jafngaman að lesa pistlana þína...

Sigurbjörg Eiríksdóttir, 23.8.2011 kl. 21:15

3 Smámynd: Bergljót Gunnarsdóttir

Takk stelpur mínar, þetta gleður mig.

Bergljót Gunnarsdóttir, 23.8.2011 kl. 21:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband