Áramót

 

Að líta yfir farinn veg ársins 2010, er hann eins og venjulega stráður minningum, slatta af góðum, sem betur fer,en líka erfiðum. Um pólitík ætla ég ekkert að ræða hér, leyfa öðrum að blása út á þeim vettvangi.

Árið byrjaði í Kína, við leik og störf. Ef það skyldi hafa farið fram hjá einhverjum er ég myndlistarkona og fæst mest við mósaik og blýgler (steint gler). Ég var á lokasprettinum að undirbúa sýningu, en hún opnaði þ. 27. 01. á afmælisdaginn minn, en þann dag komst ég á áttræðisaldurinn án þess þó að verða þess neitt vör, eða yfir mig hress með það.

Hver aldur hefur sinn sjarma segði einhver "vitleysingur" hérna um árið, örugglega einhversstaðar á milli 30 og fertugs. Sá aldur er áður en vefjagigt, sykursýki, hár blóðþrýstingur og fótaóeirð byrja að herja á líkamann. Að vísu er það örugglega allt áunnið, þó enginn hafi minnst á það í mín eyru, fyrr en til að tilkynna mér að ég væri haldin því.

Ég tók strax í upphafi þá afstöðu að að fara eftir leiðbeiningum læknanna en taka ekkert sérstakt mark á því að öðru leyti, til að detta ekki niður í gryfju sjálfsvorkunnar og þess leiðinlegasta sem ég veit í fari fólks, að tala aldrei um neitt annað en sjúkdoma. 

 Nú er þó svo komið að ég er farin að finna töluvert fyrir þessu ásamt því að hafa komið mér upp, að öllum líkindum þó, vægu heilablóðfalli, rétt fyrir jólin. Þá uppgötvaðist að hjartalokurnar eru eitthvað slappar, en í fínu formi til að framleiða fleiri og stærri svona tappa þannig að nú fékk ég eitt lyfið enn til að taka ævina á enda, og það á að sjá við frekari tappaframleiðslu. Nú er bara að bregða á gamla ráðið, undirbúa sýningu sem ég ætla að opna 28. apríl í vor, hafa nóg að gera og nýta tímann skynsamlega

Flutningurinn heim frá Kína eftir fjögurra og hálfs árs viðveru þar togaði heldur betur í mann, en samt finnst mér í rauninni komið nóg. Það er viðskilnaðurinn við góða vini sem maður hefur eignast þarna sem er verstur.Það tekur líka smátíma að venjast gjörbreyttu Íslandi,dýrtíðinni, sýnilegri fátækt fjölda manns og almennu ráðleysi fólks, sem og stjórnvalda.

Besti vinur minn, til 28 ára, var þó aðalástæðan fyrir heimförinni, en hann er Alzheimer sjúklingur og skynsamlegast að vera hérna heima í umhverfi sem hann þekkir vel, nú þegar sjúkdómurinn er að ágerast. Langmesta hugarangur liðins árs er hans vegna. Það veit enginn nema sá sem reynt hefur hversu erfiður sjúdómur þetta er og hann bara versnar og versnar, engin lækning. Það fylgir þessu líka mikið og sárt tilfinningaflóð á báða bóga.Hann hefur þó notið dvalarinnar í Kína í botn, eins og hann orðar það sjálfur, en sjúkdómurinn uppg. töluvert áður en við fórum þangað.

Hlýtt og gott loftslagið hafði alveg undraverð áhrif á heilsu okkar beggja til hins betra. Maður liðkast allur upp í hitanum.

En að koma heim, hitta börnin sín barnabörn og tengdabörn ásamt þrem langömmubörnum, en ég hafði aðeins séð eitt þeirra áður og annað rétt í svip. var það besta. Að vera svona heppinn með fjölskyldu er nokkuð sem ber að þakka, það er svo langt frá því að vera sjálfgefið, en fjölskyldan mun halda upp á áramótin saman.

Ég skal viðurkenna að ég er alger rola í sambandi við flugelda. Þegar ég var lítil faldi ég mig inni í skáp til þess að lenda ekki í þeirri aðstöðu að láta alla sjá hversu hrædd ég var. Ég var svo heppin að við vorum fimm systkynin og þess vegna bar ekkert á þó ég léti mig hverfa á meðan. Þarna húkti ég skjálfandi á beinum  í skápnum innan um alla kústa og skrúbba og myndi gera enn ef svo biði við að horfa.
 
Það að vera fullorðinn veitir manni þau forréttindi að geta bara setið rólegur ( á ytra borðinu) inni, á meðan hinir sprengja eins og óðir menn, og notið þess að vera með þessari utan dyra stöddu familíu minni og hlustað á Nú árið er liðið.

Ég vil þakka öllum þeim sem hafa litið inn á síðuna mína á árinu, svo og óska ég ykkur öllum blessunar og hamingju á komandi ári.
,


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Sömuleiðis til þín Bergljót mín, góð samantekt og ætli raunin sé ekki sú að við flest höfum líka sögu að bera fram, svona eins og þú segir eftir vissan aldur, en gangi þér allt í haginn með allt sem þú gerir og kannski verð ég fyrir sunnan er þú opnar sýningu þína, mun þá láta sjá mig.

Ljós og orku inn í nýtt ár fyrir þig og þína.

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 31.12.2010 kl. 18:50

2 Smámynd: Bergljót Gunnarsdóttir

 Kæra Milla, veistu hvers vegna ég bað um að verða bloggvinkona þín? Það var vegna þess að þú varst svo æðrulaus og frjáls af sjálfri þér að það heillaði mig.  Hvað liggur að baki veit ég ekki, en fallegt fólk skín allstaðar í gegn. Gleðilegt ár og megi þér og þínum ganga allt í haginn.

Guðs blessun þér og þínum til handa!   

Bergljót Gunnarsdóttir, 1.1.2011 kl. 07:50

3 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk fyrir bréfið þitt hér að ofan Bergljót mín.  Óska þér og þínum góðs árs, til hamingju með tilvonandi sýningu og vonandi fer sjúkdómurinn vel með manninn þinn.  Ég hef horft upp á svona í fjarlægð og veit að þetta er eitt það erfiðasta sem nokkur manneskja þarf að glíma við, í sambandi við þá sem hun elskar.  Sendi þér knús.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 1.1.2011 kl. 14:21

4 Smámynd: Sigurbjörg Eiríksdóttir

Takk fyrir mig og þessa mánuði sem við höfum verið bloggvinkonur. Gott að lesa þetta blogg..Gangi þér allt í haginn. Gleðilegt ár.

Sigurbjörg Eiríksdóttir, 3.1.2011 kl. 07:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband