Hinsegin dagar.

Þegar ég var krakki og unglingur, en ég er fædd 1940, var það viðhorf ríkjandi meðal almennings, að samkynhneigt fólk væri stórhættulegt.

Lesbíur var varla minnst á, en væri það gert var fyrirlitningin slík að ég varaðist af öllu megni að koma nálægt þessum afvegaleiddu, karlmannslausu hallærisbreddum sem enginn karlmaðurleit við og þess vegna gripu þær til þess örþrifaráðs að halla sér hver að annarri með sódómískum aðferðum, sem hneikslaði hinn réttsýna alvitra borgara svo mikið að þær voru nánast tabú.

Hvað homma snerti, voru þeir upp til hópa kallaðir viðbjóður, og jafnvel barnaníðingar og þóttu sórhættulegir sonum þessara grandvöru borgara sem höfðu siðferðið á hreinu, rétt eins og gagnkynheigðir karlmenn hefðu aldrei brotið nokkurn hlut af sér. 

Það var ekki fyrr en undir tvítugt að ég fór að átta mig á að þetta gæti ekki verið allsherjar rétt.

Ég er alin upp á svokölluðu "betri borgara" heimili, þar sem mikið var um gestagang og margar veislur haldnar af ýmsu tilefni, opinberu- sem einka, en þar upplifði ég samt oft töluvert siðleysi, í flottum veislum þegar áfengið fór að segja til sín og  losna fór um  siðferðisspennitreyjurnar, og einum of margir fóru að líta og þreyfa í aðrar áttir en á sinn ektamaka, ekkert síður en tíðkast oft í dag.

Þetta var alltsaman í fínu lagi, því þetta annars ágæta fólk, sem átti það til að vera ansi lausgirt á tíðum, var allt gagnkynhneigt, og leit alveg takmarkalaust niður á þá sem voru samkynhneigðir, en þeir máttu varla draga lífsandann, þá voru þeir að hórast.

Eftir því sem mér óx aldur, fór hugrakkt hýrt fólk smámsaman að leita réttar síns við ódulda óvild "betri borgaranna", sem skildu ekkert í þessar ósvífni hinna "sódomisku". Ég fylgdist vel með þessu, enda hafði ég þá kynnst fólki sem laðaðist að sínu eigin kyni, en var  þó ekkert öðruvísi en við hin. Flest var það besta fólk, en þar var samt stöku sinnum misjafn sauður í fjárhópnum, en ekkert fleiri en í þeim sem var "rétt kynnhneigður".

Smám saman fór það að opnast fyrir mér að auðvitað væri barátta þessa þjóðfélagshóps, sem telur fleiri en mig hafði nokkru sinni grunað, fullan rétt á sér. Hroki okkar hinna átti afturámóti engan rétt á sér, og að við erum ekkert betri á nokkurn hátt, ef eitthvað er verri, því ekki hafa þau lagt sig í framkróka við að særa, meiða eða niðurlægja okkur, og ekki hafa þau reynt að troða á mannréttindum okkar.

Samstöðubarátta samkynhneigðra  er líklega einsdæmi á Íslandi. Ég veit engin dæmi um pólitíska samstöðu sem kemst í hálfkvisti dugnað og æðruleysi þeirra sem að henni hafa staðið, allir sem einn. Hún hefur tekið langan tíma, og enn er spölur í land, en hugsið ykkur allt það unga fólk sem ekki þarf að kveljast og vera hafnað vegna kynhneigðar sinnar. Það eru bjartari tímar framundan, vonandi, bjartari og bjartari! 

 Ég óska öllum landsmönnum til hamingju með hinsegin daga 2014. 

 


mbl.is Hinsegin dagar byrja á blóðgjöf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er undarleg lesning. Líklega þarf maður að vera "betri borgari" í eigin augum til að skilja hana. Ég sem Íslendingur hef engan Íslending hitt sem er haldinn fjandsemi í garð samkynhneigðra. Ég hef hitt fullt af fólki haldinn viðbjóðslegum fordómum í garð alls konar fólks, manngerð sem veigrar sér ekki við að rægja hópa sem telja milljónir, til dæmis ameríkana, múslima, araba og ísraela í sömu setningunni og annað sem þykir nú ekki í lagi hjá "betri borgurum" hins stærri heims, en hefur aldrei séð neitt athugavert við homma eða lesbíur þó það hafi einhverjar óljósar hugmyndir um að einhvern prest, sem er kannski kunningi frænda manns, sem sé ekki sammála og talaði einhvern tíman í sjónvarpið. Nýlega las ég grein þar sem asísk kona lýsir því að hún fari aldrei svo í bæinn að einhver haldi ekki hún sé hóra. Ég efast um hommar og lesbíur lendi í áreiti út í bæ. Þessi gleðiganga er bara meirihlutinn að fagna sínum eigin nú orðið. Ekkert flóknara en það. Jónar og Gunnur að koma saman til að styðja aðra Jóna og aðrar Gunnur. Æðsta ráða manneskja þjóðarinnar var lesbía og það þótti ekkert tiltökumál eða í frásögu færandi. Þú lifir í eitthvarð öðruvísi veruleika en við hin.

Steinn (IP-tala skráð) 6.8.2014 kl. 04:40

2 identicon

Í veislum heima hjá mér var reyndar aldrei neitt siðleysi, svo kannski það fari saman, siðleysið og viljinn til að ætla öðrum það versta í eigin fari. Gæti trúað því. Það myndi skíra margt í fari rasistanna sem tala um "helvítis Ameríkanana" og "handklæðahausana" og "asísku mellurnar". Ég gæti sem best trúað þeir væru bara að tala um sjálfa sig eins og "betri borgararnir" vinir þínir þuklandi á hver öðrum heima hjá foreldrum þínum fordæmandi homma og lessur um leið fyrir meint kynferðislegt siðleysi.

Steinn (IP-tala skráð) 6.8.2014 kl. 04:44

3 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

En af hverju "Hinsegin" dagar? Af hverju ekki Gleðidagar? Eða Regnbogadagar? Eða Litadagar? Eða Frjálsir dagar?

Erlingur Alfreð Jónsson, 6.8.2014 kl. 05:00

4 identicon

Mér líst vel á "allskonar dagar." Hætta alveg að tengja þetta við sérstaklega við samkynhneigð. Samkynhneigðir eru velliðinn hópur sem þarf ekki að upplifa mikla fordóma lengur. Samkynhneigðir ættu að vera velkomnir eins og allir aðrir, en sviðsljósið ætti frekar að vera á fólki sem upplifir alvöru fordóma, eins og til dæmis fólki með Downs syndrome eða öðrum sem sumum finnst enn annars flokks borgarar og hafa meira að segja sumir skert mannréttindi. Gangan eins og hún er núna er úrelt, gamaldags og óþörf. Það er ekkert róttækt eða þarft við þessa göngu lengur og ef við víkkum hana ekki út þá er þetta bara orðið að einhvers konar aumum staðgengili fyrir karnival, fjöldinn að koma saman um eitthvað sem 99% landsmanna eru alveg jafn sammála um og að konur eigi ekki að múlbinda í eldhúsinu.

Steinn (IP-tala skráð) 6.8.2014 kl. 05:11

5 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Nákvæmlega það sem ég vildi sagt hafa. Gleðigangan eins og hún er framkvæmd í dag er karnivalganga og minnir ekkert á kröfur um samstöðu við samkynhneigða sem minnihlutahóp. "Hinsegin" dagar er úrelt hugtak um þessa hátíð.

Erlingur Alfreð Jónsson, 6.8.2014 kl. 09:17

6 Smámynd: Bergljót Gunnarsdóttir

E.t.v. er ég ekki nógu skýrmælt, en ég var að reyna að benda á hversu tímarnir hafa breyst.

Það sem ég er að tala um eru fordómar og hræsni sem voru ríkjandi á árunum upp úr seinna stríði í aldurshópi foreldra minna, en fer nánast ekkert fyrir í dag, sem betur fer, en það hefur kostað svita og tár margra í langan tíma að breyta þessu viðkorfi.

Hvers vegna breyta nafni Hinsegin daga og Gleðigöngunnar? Gleðigangan er einskonar uppskeruhátíð samkynhneigðra, fjölskyldna þeirra, vina og annarra sem vilja samgleðjast yfir unnum sigrum í baráttunni fyrir að vera viðurkenndur á jafnréttisgrundvelli. Forsvarsmenn þeirra hafa ákveðið að þetta skuli heita Hinsegin dagar og er það vel.

Ég sé enga ástæðu til að hrifsa þessa hátíð af þeim, það er fullt af lausum dögum yfir sumarið fyrir ykkur til að njóta lífsins.

En mergurinn málsins er að þið voruð greinilega ekki komnir til vits og ára þegar baráttan hófst og skiljið því ekki hversu mikið hefur áunnist, og þess vegna hversu mikið að gleðjast yfir.

Bergljót Gunnarsdóttir, 6.8.2014 kl. 14:00

7 identicon

Sannleikurinn er sá að þetta er málstaður sem allir eru sammála og allir litlu smáborgararnir geta sameinast yfir á sömu forsendum og þitt fólk og þú sjálf hér áður fyrr í fordæmingu samkynhneigðra. Alvöru baráttumál geta aldrei verið þau hin sömu og láta litlum smáborgurum og góðborgurum líða betur, heldur bara þau sem stór hluti samfélagsins er ekki enn sammála um. Allt sem ríkir meira en 80% eining um er orðinn óþarfur málstaður og er ekkert nema óþarfa gagg í hænsnakofa, amen-kór og jarm í sauðum.

Óskar (IP-tala skráð) 7.8.2014 kl. 16:27

8 identicon

Ég segi látum okkur nægja einn dag í gamla málstaði eins og réttindi samkynhneigðra, konur megi vinna úti, konur megi kjósa og allt þetta gamla góða. Höfum einn dag á ári til að þakka fyrir allar framfarir sem hafa unnist. Skiptum hinum "hinsegin dögunum" út til þeirra sem þurfa á þeim að halda, til dæmis greindarskertra, fatlaðra og jafnvel útlendinga sem því miður búa enn ekki við jafnrétti eða almenna virðingu á þessu innræktaða og fáfróða skeri við ystu nöf.

Óskar (IP-tala skráð) 7.8.2014 kl. 16:29

9 Smámynd: Bergljót Gunnarsdóttir

Þú hefur kannski ekki gert þér grein fyrir því Óskar að Gleðigangan er ekki bara það sem þið sem hér hafa lagt orð í belg virðist skilja. Hún hefur áhrif langt og út fyrir landssteinana og er örugglega ekki síður haldin til þess að hvetja, og sýna samstöðu með þeim, sem ennþá búa við fordæmingu og jafnvel dauðarefsingar fyrir það sem þykir sjálfsagt hérna á Íslandi í dag. Það er víst kallað frelsi.

Anars átti þetta alltsaman aðeins að vera smá hugleiðing um hvað tímarnir hafa breyst til hins betra og og hversu vel mér þykir það.

Ég stend alveg föst á því að það þurfi ekkert að ryðja neinu úr vegi til að halda almennan mannréttindadag, sem ég er mjög hlynnt, ekki veitir

af.

Þú vilt e.t.v. leggja niður 17. júní af því við erum löngu orðin fullvalda lýðræði. Ég held nefnilega að það sé ansi gott að muna líka að hlutirnir hafa ekki alltaf verið eins og þeir eru í dag, um leið og við sækjum fram á veginn til aukinna mannréttinda, réttlætis og betri lífskjara fyrir alla landsmenn og á ég þá við fyrir alla, hvort sem þeir teljast til hópa eða einstaklinga.

Það sem hefur að mínu mati aðallega staðið í vegi fyrir því er ekki fáfræði, heldur peningahyggja og græðgi hvert sem litið er, og þar er ekkert verið að pæla í þeim sem verða undir. Samúð og samhyggð með náunganum er á undanhaldi því miður. Þess vegna finnst mér gott að fá svona svar, sem segir mér að það sé ennþá ennþá til gott fólk sem vill samfélaginu vel og ég tek heilshugar undir það.

Bergljót Gunnarsdóttir, 8.8.2014 kl. 00:58

10 identicon

Það er öllum sléttsama um hvað Íslendingar gera. Næstum öll þessi lönd sem hafa dauðarefsingu gegn samkynhneigð eru islömsk lönd. Það stríðir gegn pólítískri réttsýni að gagnrýna neitt sem múslimar gera og þess vegna hafa Samtökin 78 eða ríkisstjórnin aldrei færdæmt þetta og munu aldrei gera. Það kom til tals með Úganda og einhver undirskriftarsöfnun fór á stað afþví Úganda er kristið land og það þykir í lagi að gagnrýna kristna menn. Þú ofmetur mátt peningahyggjunnar svkölluðu. Nú sýna allar tölur frá Bandaríkjunum að samkynhneigðir hafa hærri tekjur og eru hærri í stétt en gagnkynhneigðir. Ástæðan er að því hærri stétt, því minni fordómar og því auðveldara að koma út úr skápnum. Fordómarnir eru helst hjá minnihlutahópum og fátækum og í Evrópu eru þeir mestir hjá múslimum. Á því máli verður aldrei tekið heldur. Aldrei nokkurn tíman. Fjöldinn er ekki hugrakkur og hefur bara tískuskoðanir. Það eru tugþúsundir Yezidi í Írak upp á fjalli núna vatnslausir og á að fremja á þeim fjöldamorð því ISIS hefur lýst alla Yezidi trúar réttdræpa villutrúarmenn. Það mun engin undirskrifasöfnun fara af stað fyrr en hver einasti Yezidi er dáinn, afþví þetta eru múslimar sem eru að drepa aðra araba og það er bara "önnur menning" en ekki mannréttindabrot í hugum fjöldans. http://www.washingtonpost.com/blogs/worldviews/wp/2014/02/24/here-are-the-10-countries-where-homosexuality-may-be-punished-by-death/

Óskar (IP-tala skráð) 8.8.2014 kl. 01:19

11 identicon

Ég hef ekkert á móti múslimum eða Islam. Alla vega ekki jafn mikið og á móti áhangendum pólítískrar réttsýni og þeim hættulega átrúnaði sem þeir aðhyllast: hugleysi.

Óskar (IP-tala skráð) 8.8.2014 kl. 01:22

12 identicon

Hver ætlar að skrifa undir? Dreifa á Facebook? Mæta á mótmælin? Enginn. Dauði þinn telst ómerkur og einskis virði af réttsýna fjöldanum nema Bandaríkjamaður eða bandamaður hans drepi þig. Og réttur og eðlilegur ef múslimi drepur þig. Alla vega betra að tala ekki um hann til að búa ekki til fordóma. Skítt með mannslíf! http://www.veooz.com/news/OHOEWte.html

Óskar (IP-tala skráð) 8.8.2014 kl. 01:25

13 Smámynd: Bergljót Gunnarsdóttir

Heyrðu, heyrðu, heyrðu mig nú Óskar minn!

Eigum við ekki að taka einn hlut í einu? - kannski tvo eða svo.

Víst er heimurinn óréttlátur og andstyggilegur, en við getum ekki þanið okkur um víðan völl og bjargað honum með því að reyna að kæfa einhvern á Moggablogginu.

Er ekki affarasælast að halda sig innanlands þar sem við eigum smásjens í að breyta einhverju, þó auðvitað eigi maður að láta rödd sína um mannréttindamál heimsins heyrast hvar sem hún gæti mögulega heyrst.

Ég þverneita að blanda þessu öllu í eina bendu og líkar illa að fá svona reiðilestra.

Ég skil að vísu reiðina vel og þá tilfinningu að geta ekkert gert.

Það eina sem ég get bent þér á er að byrja smátt, eða í heimaranni og ef það gengur vel má e.t.v. reyna að bjarga heiminum, skref fyrir skref.

Bergljót Gunnarsdóttir, 8.8.2014 kl. 02:06

14 Smámynd: Skeggi Skaftason

Fínn pistill, Bergljót.

Frekar slöpp komment, fólk þykist ekkert muna hvernig samfélagið var fyrir 15-20 árum síðan, hvað þá lengra aftur.

Það er ekki lengra síðan en um síðustu aldamót sem t.d. prestar Þjóðkirkjunnar mótmæltu hástöfum að hommar og lesbíur ættu að mega gifast og notuðu orð eins og ónáttúru og afbrigðilegt.

Fyrir ca áratug var samþykkt á Alþingi að hommar og lesbíður mættu stjúpættleiða börn maka sinna/sambýlisfólks. En baráttufólki fyrir því máli var gert grein fyrir að það þýddi ekki þá að leggja fram frumvarp sem myndi heimila almennar ættleiðingar samkynhneigðra. Fyrir því væri ekki meirihlutastuðningur á Alþingi, það væri of "róttækt".

Skeggi Skaftason, 8.8.2014 kl. 13:05

15 identicon

Meðalaldur mannkynsins er 24,3 ár = Flestir í heiminum eru á aldrinum 24,3 ára. Ef maður er kominn vel yfir það telst maður til minnihlutans sem "man hvernig þetta var fyrir 15-20 árum", en ef maður man það ekki þá tilheyrir maður meirihlutanum. Hvorum hópnum sem maður tilheyrir þá tilheyrir maður hópnum "heimskingjar" ef maður heldur að það brýnast sem blasir við deginum í dag sé að fagna stanslaust yfir framförum gærdagsins frekar en halda áfram veginn og finna baráttumál sem skipta nútíman máli.

Óskar (IP-tala skráð) 8.8.2014 kl. 21:04

16 Smámynd: Skeggi Skaftason

Óskar,

ert þú svona ekta leiðindagaur sem situr á rassgatinu fyrir framan tölvuna og amast útí hvaða baráttumál ANNAÐ fólk lætur sig varða.

Finnd þú þér þín eigin baráttumál fýlupúki!

Skeggi Skaftason, 8.8.2014 kl. 23:11

17 identicon

Það sem allir eru orðnir sammála um er ekki lengur baráttumál, heldur Halelúja-samkoma og allur salurinn sagði: Amen. Allt í lagi með það, svo sem, en það er ekkert baráttumál, heldur bara karnival. Mér finnst þetta fullmargir dagar í landi þar sem viðgengst svona mikið misrétti gagnvart svona mörgum aðþrengdum hópum.

Óskar (IP-tala skráð) 9.8.2014 kl. 01:00

18 identicon

Ég fer niður í bæ á morgunn, eins og ég hef alltaf gert, öll þessi ár. Það er svona bara jafn sjálfsagt og að mæta á 17.júní. Ég þekki engan sem mætir ekki á Gaypride og ég þekki alls konar fólk. Þetta eitt sannar nú að þetta er ekki baráttumál lengur. Það er gott, en þá er líka tími til að snúa sér að öðru. Af nógu er að taka.

Óskar (IP-tala skráð) 9.8.2014 kl. 01:02

19 Smámynd: Ingibjörg Axelma Axelsdóttir

Ég held svei mér þá, að innlegg þessa Óskars séu afbragðs gott dæmi um forréttindablindu á háu stigi.

Hann sér ekki vandamálið, eða afhverju það ætti að vera vandamál, og því er ekkert vandamál! Vandamálið leyst. Amen.

En pistillinn þinn Bergljót var afskaplega skemmtileg lesning.

Ég er rétt að nálgast þrítugt, og ég þarf ekki að hugsa mjög langt aftur til að sjá hegðunar- og hugarfarsbreytingu í þjóðfélaginu er varðar mannréttindi samkynhneigðra sem og annarra hópa.

Ingibjörg Axelma Axelsdóttir, 15.8.2014 kl. 01:51

20 Smámynd: Bergljót Gunnarsdóttir

Þakka þér innleggið Ingibjörg Axelma. Ég hef örugglega sagt þér það áður, en mikið finnst mér nafnið þitt fallegt, og það fer þér örugglega vel!

Bergljót Gunnarsdóttir, 16.8.2014 kl. 22:58

21 Smámynd: Ingibjörg Axelma Axelsdóttir

Þakkir fyrir fallegt hrós!

Ég er nefnd í höfuðið á föðurömmu minni heitinni, og var alnafna hennar. Við vorum tvær einar með þetta nafn á sínum tíma, og ég held að ég standi ein að því núna.

Ég á mér lúmska ósk um að a.m.k eitt barnabarnið mitt fái þetta nafn. Kannski of snemmt að vera að huga að því núna, frumburðinn rétt nýorðinn 10 ára! En hann ef einmitt nefndur eftir föður mínum, svo ég get enn vonað!

Ingibjörg Axelma Axelsdóttir, 17.8.2014 kl. 00:57

22 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Frábær pistill!

Það er undarlega margt fólk, sem ekki vill taka þátt í gleði  samborgara sinna, en telur sér samt skylt að eyða tíma sínum og annarra á blogginu í leiðinda þras og jafnvel skítkast - út í einkalíf annarra, sem því kemur ekki rassgat við.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 17.8.2014 kl. 17:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband