Hvernig er að vera í Kína XIV

Áramótin IV                                                                                                    

AlbumImage[11]Rakarastofa, mjög venjuleg í þorpunum. Þarna býr eigandinn og sefur í flatsæng á nóttinni. Þetta er ekkert óvenjuleg íbúðarstærð, smá salernishola einhv.staðar á bakvið og ef heppnin er með, eldhúskrókur, annars er bara eldað fyrir utan og þar er alltaf vaskað upp.

Þetta er tekið á gamlársdag og þið getið séð áramótadinnerinn liggla á borðinu sem er úti á götu. Eigandinn að klára síðasta kúnnan áður en farið er í að undirbúa kvöldið

Á leiðinni, til baka niður fjallið, fór ég að hugsa, eitthvað gekk ekki upp í höfðinu á mér gagnvart yfirgefna syninum og föður hans. Hvers vegna var karlinn að æða með okkur í grenjandi rigningu og kulda, í  gamla húsið sitt þar sem hann geymdi þetta olnbogabarn sitt. Hvað rak hann til þess? Niðurstaðan af þeim hugleiðingum var, að einhversstaðar þarna innst inni voru etv. hlýrri tilfinningar en hann sýndi, og samvikubit, eða eitthvað mannlegt element sem ég átta mig ekki á.  Allavega tókst mér ekki að sýna manninum þá fyrirlitningu sem mér fannst hann eiga skilið. 

Þegar okkur hafði verið ekið að heimili hans aftur, fóru allir inn og skelltu í sig nokkrum tebollum,  Karlarnir fíruðu restinni af kínverjunum, sem tók dágóða stund, en þá var kallað matur!, einu sinni enn. Nú höfðu bæst við enn einn sonur karlsins,  með fallega konu, og son sinn, ásamt einhverju mjög huggulegu ungu fólki sem ég kann engin deilli á. Við vorum því miður aldrei kynnt fyrir neinum, það virðist ekki tíðkast. Ég get mér til að við höfum verið 40 eða 50 í borðstofunni og þétt var setið við stóru hringborðin tvö. 

Maturinn flæddi inn, þrjár eða fjórar mismunandi súpur, ásamt endalausum fisk, kjöt, og grænmetisréttum. Nú byrjaði sko gambeijið fyrir alvöru. Gambei er eins og íþrótt hjá kínverjum, sem flestir þola þó mjög takmarkað áfengi. Þeir grípa saklausa gesti, sem hafa ekki hugmynd á hverju þeir eiga von og gambeija þá. Fyrst stendur sá sem er í forsvari upp og gambeijar við einhvern sem búið er að velja sem fórnarlamb. Sá sem verður fyrir valinu, verður að drekka í botn með þeim sem skálar. Að neita að gambeija við gestgjafa sína þykir hræðileg mógun. Allir standa þeir upp, feður og synir , þó bara einn í einu og gambeija alltaf við sama manninn, sem þarf að drekka í botn í hvert sinn.
 

Að þessu sinni var John sá sem varð fyrir valinu. Aftur og aftur varð hann að standa upp og skála í botn, meðan hver hinna þurfti einungis að gera það einu sinni. John vinur minn stóð sig eins og hetja gagnvart fjölskyldu konunnar sinnar. Hann drakk svona ca. 15 – 20 sinnum í botn og þegar þeir héldu að hann væri alveg búinn á því, stóð hann upp og skálaði við hvern og einn aftur. Hreinlega skoraði þá á hólm og hlaut mikla aðdáun fyrir. Það sá ekki á honum vín þegar við kvöddum skömmu seinna, en þegar hann settist inn í bílinn þar sem farþegarnir samanstóðu eingöngu af  Zhong Yu og okkur Oddi, og hann gat slakað á, varð hann svo pissfullur, að hann steinlá alla leiðina til baka. Skal tekið fram að hann er alger hófdrykkjumaður. En John er þverasti maður sem ég þekki, ef svo ber undir, og hann hefði frekar dottið niður dauður en að láta sjá á sér vín, í þessari prófraun fjölskyldunnar.

Áður en við kvöddum var öll fjölskyldan kölluð saman og tekin ein allsherjar fjölskyldumynd. Ég var að vona að hún yrði komin, svo ég gæti látið hana fylgja þessum skrifum, en verð bara að skella henni inn þegar þar að kemur.. Á þrem stólum í miðjunni situr höfuð fjölskyndunnar, kameljakkinn, og við hliðina á honum Beggó og Oddur, en annað "óæðra" lið varð að stilla sér upp, standandi fyrir aftan okkur og til hliðanna. Ég hlakka rosalega til að fá myndina og vona að staðið verði við að senda okkur hana. 

Við fengum mikið lof og prís, þarna yfir kvölmatnum, fyrir hæð, gæsileika, og klæðnað $#//&%$)(/&%$=)(/ , ha,ha, ha og  við í samfestingunum, eins og ég var farin að kalla fötin okkar, sem ég álít bara hreina heppni að voru ekki farin að límast saman. Þetta endaði sem sagt með að við vorum kvödd með virktum og hlýju handabandi, ásamt því að vera boðin velkomin aftur hvenær sem okkur hentar. Förum við þangað aftur, verður það um sumar. Það get ég fullvissað ykkur, sem þetta lesa, um.

Síðasta nóttin var tíðindalaus. Við sváfum eins og staurar og rumskuðum ekki, þrátt fyrir allar dýnur, eða skort á þeim, kulda og kínverjasprengingar fyrir utan. Stukkum á fætur fullklædd þegar John kom, fölur mjög á kinn, kl. 9 morguninn eftir, því hann vildi endilega sýna okkur hús sem Mao formaður bjó í,  í nokkur ár. Hann leyndist þarna í fjöllunum þegar hann var að brjótast til valda, enda erfitt yfirferðar að leita hann uppi, áður en vegir voru lagðir um fjöllin, lögu seinna. Hann eða réttara sagt konan hans, eignuðust tvö börn þarna, en hann lét skilja þau eftir, þegar þau fóru, og hún sá þau aldrei aftur. 

Húsið sem þau bjuggu í, er stór, gæsileg villa, efst uppi í hlíð, með útsýni yfir dalinn sem bærinn stendur í. Einhver veslings auðmaður byggði þetta, en formaðurinn rak hann bara út og gerði húsið að herbækistöð. Ég tyllti mér aðeins á rúmið sem þau sváfu í og þakkaði mínum sæla fyrir að það var jafn grjóthart og mitt, annars hefði ég orðið virkilega spæld. Mao er afskaplega undarlegt fyrirbrigði í Kína nútímans, að mínu mati. Gamalt fólk dáir hann og sér ekki sólina fyrir minningu hans, en margt yngra fólkið fyrirlítur þennan mann, kallar hann fjöldamorðingja og annað þaðan af verra. Ég legg ekkert mat á þetta, til þess er ég of óupplýst um málavexti. 

Eftir að hafa skoðað þennan bústað formannsins, hittum við Zhong Yu, bara svona rétt til að kveðja og þakka fyrir okkur, en hún hafði farið að gröf afa síns um morguninn,  Rúsínan í pylsuendanum, áður en við fórum í rútuna sem ók okkur heim til Xiamen, var leiguhjólakerru ferðalag, frá hótelinu, að umferðarmiðstöðinni þarna í bænum. 

 Ökumaðurinn var kona, eins og flestir slíkir þarna, og hún steig hjólið, gíralaust, fast og örugglega, upp og niður brekkur. Ég var nærri köfnuð af áhyggjum þegar hún nálgaðist efsta toppinn á síðustu brekkunni. Þá var greinilega farið að draga af henni. Hún rétt hafði það af  að komast yfir síðasta  hjallann, en hefði einhver gengið í veg fyrir hana, hefði hún þurft að stoppa, og við að fara út, eða réttara sagt ofan, til að hjálpa henni að ýta hjólinu áfram, en við vorum svo krókloppin og stíf, eftir að sija grafkyrr í kerrunni, að sú hugsun var bara hreinlega óbærileg.  

Við kvöddum þennan ágæta stað kl. 12 á hádegi, á sama hátt og við heilsuðum, í rigningu og ískulda. Ferðin í rútunni var tíðindalaus, enginn hiti á miðstöðinni, fremur en annarsstaðar, en sætin þau þægilegustu sem ég hef tyllt mínum eðla afturhluta á, í almenningsvagni. Við steinsofnuðum bæði og sváfum alla leiðina heim. 

Ég gerði mér enga grein fyrir, fyrr en ég var komin heim, búin að fara í heitt bað og fá mér G&T í hönd, hversu dásamlega skemmtilegt þetta ferðalag var, og hversu þakklát ég er Zhong Yu fyrir að "kynna mig"  fyrir ættingjum sínum og leyfa mér að eyða með þeim áramótunum. Við erum  sammála um að þessi ferð gleymist aldrei.

Ég held það sé komið mál að linni, svona gæti ég haldið endalaust áfram án þess að skorta efni. Vona að þeir sem lásu hafi einhverja hugmynd um hvernig mér fannst að vera í Kína. Þér sem spurði þakka ég fyrir, vegna þess að mér hefur þótt verulega gaman að rifja þetta upp. Þætti  líka verulega gaman að vita hver þú ert og hvort þú hefur lesið alla pistlana. 


 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Frábærir pistlar og ætti alls ekki að ljúka hér og nú.  Væri tilbúinn til að lesa heila bók frá þér um Kínadvölina og ekki væri vitlaust, að skrifa miklu fleiri pistla og nota þá svo síðar sem uppkast að merkri og samfelldri ferðasögu.

Takk fyrir þennan, vonandi, fyrsta sprett í Kínaskrifum.

Axel Jóhann Axelsson, 9.11.2010 kl. 11:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband