Hvernig er að vera í Kína XI

 

Erum hér í febrúar á þessu ári, en við vorum boðin til Hakka sem er hérað í norður Fujian. Ferðin er með öllu ógleymanleg fyrir ýmissa hluta sakir, en svarar líka spurningunni, "Hvernig er að vera í Kína" mjög vel.

                                                    Kínversku áramótin IAlbumImage[1]                                      

"Ár tígursins er gengið í garð hérna fyrir austan Himalayafjöllin. Hvað okkur snertir, gerðist það alláþreifanlega í þetta sinn. Við vorum boðin með John vini okkar og Zhong Yu konunni hans, eða Phoebie eins og hún heitir á ensku, til Langyan á Hakkalandissvæðinu, eins og John segir alltaf. því hann er stóráhugamaður um íslensku og alveg að drepa mig með löngum háfleygum setningum sem hann ofhleður hátíðlegum orðum, að heimsækja móður hennar og fjölskyldu sem þar búa. Ókum því af stað á nýja BMWinum hennar Phoebiar í prýðis veðri, og hlökkuðum mikið til að sjá allt stórkostlega fjallaútsýnið á leiðinni.

Þegar komið var yfir Hatichang brúna byrjaði að rigna, og rigna og rigna o.s.frv. Á leiðinni sáum við ekkert nema tvær sjoppur, þar sem stoppað var til að pissa og smóka, þarna förlaðist John ofurlítið en þetta eru hans orð. Við ókum þó vongóð um betri tíð í fjórar klst. þar til við komum í bæ sem heitir eflaust einhverju góðu nafni og er næsti bær við þann sem leiðin lá til.

Phoebie segir að fólkið þar sé aldrei kallað annað en kýrhausarnir og bærinn sjálfur beljubærinn. Þetta er af því að börnin þar eru látin drekka útþynnt kýrblóð í bernsku, líklega sökum fátæktar og skorts á kjöti. Við þurftum að taka bensín þarna innan um rusl og sorp, sem lá eins og hráviði um allt, en þetta er sóðalegasti staður sem ég hef séð hingað til og hef þó séð ýmislegt af því tagi víða um lönd.

AlbumImage[6]

Okkur var sagt að fólkið væri jafn ógestrisið og fruntalegt og ruslið væri mikið, og ég fékk smjörþefinn af því þegar ég fór út úr bílnum að taka myndir af allsérstökum reiðhjóla leiguvögnum sem koma í stað bíla og ökuönnunum sem voru alveg kappdúðaðir ásamt einum herlögreglumanni sem virtist vera að frjósa úr kulda, kominn í hálfan frakkann, en síðan gefist upp.

Allt í einu sá ég Phoebie hlaupa inn í bílinn sem Oddur var sestur inn í. Í sama vetfangi greip John í mig og hvíslaði, svo ákveðið að ég hlýddi umyrðalaust, komdu strax inn í bílinn. Síðan greip hann í handlegginn á mér og hálfhljóp af stað, ýtti mér inn, stökk á eftir og skellti hurðinni, bíllinn þaut af stað og þá sá ég að stórt gengi af mótorhjólaköppum var u.þ.b. að umkringja okkur. 

Ég ætlaði, en átti eftir að taka myndir af þeim, því þeir voru svo margir að ég hafði tekið sérstaklega eftir því og hávaðinn yfirþyrmandi. Hefði ég ekki verið með kínverskumælandi fólki hefði ég líklega verið barin. Einhver hafði kallað, við viljum engar myndatökur, hættu - annars berjum við þig. Ég er ekki alveg viss um að mig langi til að koma þarna aftur. Á þessum tímapunkti var orðið allkalt, eins og sá á fólkinu, kannski vill það bara hasar til að halda á sér hita.

Við ókum sem leið lá á leiðarenda u.þ.b. 20 mín upp fjöllin þar til við komum til Wong Ting, en þar er Phoebie fædd. Byrjuðum á því að tékka okkur inn á hótelið sem var bara all þokkalegt og kostaði ekki nema 120 yuan nóttin en það er um fimmtungur af verði samskonar gistingar hér í Xiamen.

Einn galli var þó á gjöf Njarðar, því þar var engin kynding og alveg ískalt og hitinn kominn niður á frostmark með 95% raka. Okkur var tjáð að ekkert hótel þarna utan eitt hefði kyndingu, en það var alveg stappfullt og engin von um herbergi. Við klæddum okkur því bara í allt sem við vorum með af fatnaði og gengum í áttina að heimili gestgjafa okkar í kvöldverð. 

AlbumImage[9] (2)

Byrjuðum öll á því að kaupa okkur ullarvettlinga, en þeir, regnhlífar og kínverjar (þessir sem eru sprengdir), í öllum stærðum og gerðum, virtist eina söluvaran á þessum næstsíðasta degi ársins hérna í Kína. Gengum síðan í gegnum borgarhlið elsta hluta bæjarins og allt í einu var eins og þú værir komin mörg hundruð ár aftur í tímann.

 Húsin öll lágreist, undurfalleg, en mörg að falli komin, göturnar þröngar, engin bílaumferð en því meira af fólki sem þurfti að komast leiðar sinnar með aðdrátt áramótanna í fanginu., komst þó varla áfram fyrir urmul af reið og mótorhjólum. Það var tekið að dimma og út um opnar dyrnar sást inn í húsin, en þar voru ýmist litlar verslanir, heimili, lítil hof, eða jafnvel hárgreiðslu og rakarastofur ásamt allskyns öðru sem of langt yrði að telja upp.

Við gengum í gegnum þetta allt og eftir að hafa beygt ótal sinnum vorum við stödd í götunni sem ferðinni var heitið í, en þar eru nýrri hús og töluvert hærri. Þarna hefur allt verið rifið og byggt nýtt, eftir að eldri húsin gáfust upp fyrir tímans tönn, en eins og allstaðar annarsstaðar er engu haldið við þarna.

Phoebie gekk fyrst innfyrir og heilsaði mömmu sinni og stjúpföður, sem voru klædd úlpum og treflum og hún með stóra svuntu yfir því öllu, svona rétt eins og hún væri að koma inn eftir að hafa skroppið frá í smástund, síðan kinkuðu þau kolli til Johns, eins og hann væri einhver dindill aftan í henni. Þegar kom að okkur voru þau farin að sýsla í eldhúsinu og létu eins og við værum ekki þarna. Guð minn góður, hvað erum við komin út í hugsaði ég, við erum bara alls ekki velkomin, standandi þarna eins og illa gerðir hlutir, skjálfandi af kulda, enda komið 2ja° frost.

Phoebie og John virtust ekkert láta þetta á sig fá, buðu okkur inn í stóra stofu sem var inn af nokkurskonar porti sem var fullt af mat, en þar lágu nýslátraðar hænur, allskyns innmatur og kjöt, stór fiskur synti um í vaskafati, grænmeti, og ávextir voru þarna líka í bunkum á stóru borði. Vatnspóstur var á miðju gólfi, greinilega notaður til að dæla upp vatni til matartilbúnings. Stofuborðið var fullt af allskyns sælgæti og smákökum ásamt hinu ómissanlega tei sem landsmenn drekka í tíma og ótíma, en þarna verð ég að segja að tesopinn, sjóðheitur, var kærkominn.

Ég hugsa að ég hafi drukkið svona tíu bolla hið minnsta, enda eru kínverskir tebollar á stærð við það sem við köllum dúkkbollastell á Fróni. Þarna sátum við og skulfum og þömbuðum te sem mest við máttum, enda jafn ískalt þarna inni eins og annarsstaðar, þar til húsmóðirin stóð í dyrunum og sagði stutt og laggott, matur! Það var ca. hálftíma síðar.

Við gengum inn í gríðarstórt eldhús og þar sauð og kraumaði í pottum og pönnum. Hjónin stóðu hlið við hlið í eldamennskunni og nú birtist hver rétturinn á fætur öðrum á borðinu. Húsbóndinn kom með fulla tinkönnu af Midju, þessum dásalmega þjóðardrykk þeirra í Hakkalandi , hellti í glös og sagði "gambei" en það þýðir skál í botn.

Það læddist svona smábirta fyrir brjóstið á manni, og okkur tókst að ná í matinn með skjálfandi krumlunum, og það með prjónum. Prjónar og ein lítil skál er sá borðbúnaður sem þekkist best á kínverkum alþýðuheimilum, jafnt hjá ríkum og snauðum, ásamt tissuepakka, en það  er óspart notaðað til að þurrka munn og hendur.  Í þessu tilviki einnig til að snýta sér hressilega inn á milli. Borðdúkar, annað prjál og óþarfi þekkist bara ekki..

Eftir að hafa borðað nægju okkar af ótal réttum og þrennskonar súpum og drukkið margar könnur af midju vorum við orðin nokkuð vel haldin , en þá voru gestgjafarnir líka orðnir málglaðir og brosmildir. Húsbóndinn er þekktur þar um slóðir fyrir að reykja ekki, drekka ekki og spila ekki fjárhættuspil, en þetta þykir allt eiginlega sjálfsagt þarna.

Eftir að hafa þó drukkið allvel með okkur af midjuinu og blótað þar með á laun, stóðu allir upp, því hér gilti eins og annarsstaðar reglan, koma, borða, fara, voru gestgjafarnir orðnir afslappaðir og brosmildir, búnir að skoða vel og og láta sér bara vel líka gestirnir, sem voru sama sinnis um þá, og hættir að finnast þeir óvelkomnir.

Frúin hvarf smástund, en kom þó fljótl. aftur með stóran plastpoka fullan af hlýjum fötum okkur til handa. Stóra vatteraða dúnkuldaúlpu á mig og hlý ullarnærföt á Odd. Þetta átti eftir að bjarga lífi okkar í framhaldinu, því hvergi nokkursstaðar þekktist að hita upp húsin.

John gekk með okkur heim á hótelið og sagðist helst óska sér að vera kominn heim til Xiamen, til að vígja nýja trébaðkarið sem þau höfðu keypt sér daginn áður og skríða upp í heitt bólið hjá sinni heittelskuðu. Ég skildi hann vel, þar sem hann stóð gegnkaldur með sultardropann í nefinu og átti eftir að ganga alla leið til baka. Þetta var um korters gangur hvora leið, og Jonh er með grennri mönnum.

Við fórum afurámóti upp á herbergi og skelltum okkur undir sængurnar í flestöllum fötunum og fundum varla fyrir því vegna kulda, að í rúmunum voru kínverskar dýnur, sem eru alveg eins í útliti og vestrænar, nema þú liggur á tréfjöl sem er fest undir áklæðið og fjölin hvílir á stífum gormum. Hvers vegna verið er að hafa fyrir að gera þessar dýnur er mér fyrirmunað að skilja. Því er ekki bara sofið á rúmbotninum, það er alveg eins? Við sváfum í einum dúr til morguns og vöknuðum ekki fyrr en upp var runninn gamlársdagur, jafn ískaldur og sá á undan.

Framhald á morgun. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband