Færsluflokkur: Bloggar
31.12.2010 | 12:28
Áramót
Að líta yfir farinn veg ársins 2010, er hann eins og venjulega stráður minningum, slatta af góðum, sem betur fer,en líka erfiðum. Um pólitík ætla ég ekkert að ræða hér, leyfa öðrum að blása út á þeim vettvangi.
Árið byrjaði í Kína, við leik og störf. Ef það skyldi hafa farið fram hjá einhverjum er ég myndlistarkona og fæst mest við mósaik og blýgler (steint gler). Ég var á lokasprettinum að undirbúa sýningu, en hún opnaði þ. 27. 01. á afmælisdaginn minn, en þann dag komst ég á áttræðisaldurinn án þess þó að verða þess neitt vör, eða yfir mig hress með það.
Hver aldur hefur sinn sjarma segði einhver "vitleysingur" hérna um árið, örugglega einhversstaðar á milli 30 og fertugs. Sá aldur er áður en vefjagigt, sykursýki, hár blóðþrýstingur og fótaóeirð byrja að herja á líkamann. Að vísu er það örugglega allt áunnið, þó enginn hafi minnst á það í mín eyru, fyrr en til að tilkynna mér að ég væri haldin því.
Ég tók strax í upphafi þá afstöðu að að fara eftir leiðbeiningum læknanna en taka ekkert sérstakt mark á því að öðru leyti, til að detta ekki niður í gryfju sjálfsvorkunnar og þess leiðinlegasta sem ég veit í fari fólks, að tala aldrei um neitt annað en sjúkdoma.
Nú er þó svo komið að ég er farin að finna töluvert fyrir þessu ásamt því að hafa komið mér upp, að öllum líkindum þó, vægu heilablóðfalli, rétt fyrir jólin. Þá uppgötvaðist að hjartalokurnar eru eitthvað slappar, en í fínu formi til að framleiða fleiri og stærri svona tappa þannig að nú fékk ég eitt lyfið enn til að taka ævina á enda, og það á að sjá við frekari tappaframleiðslu. Nú er bara að bregða á gamla ráðið, undirbúa sýningu sem ég ætla að opna 28. apríl í vor, hafa nóg að gera og nýta tímann skynsamlega
Flutningurinn heim frá Kína eftir fjögurra og hálfs árs viðveru þar togaði heldur betur í mann, en samt finnst mér í rauninni komið nóg. Það er viðskilnaðurinn við góða vini sem maður hefur eignast þarna sem er verstur.Það tekur líka smátíma að venjast gjörbreyttu Íslandi,dýrtíðinni, sýnilegri fátækt fjölda manns og almennu ráðleysi fólks, sem og stjórnvalda.
Besti vinur minn, til 28 ára, var þó aðalástæðan fyrir heimförinni, en hann er Alzheimer sjúklingur og skynsamlegast að vera hérna heima í umhverfi sem hann þekkir vel, nú þegar sjúkdómurinn er að ágerast. Langmesta hugarangur liðins árs er hans vegna. Það veit enginn nema sá sem reynt hefur hversu erfiður sjúdómur þetta er og hann bara versnar og versnar, engin lækning. Það fylgir þessu líka mikið og sárt tilfinningaflóð á báða bóga.Hann hefur þó notið dvalarinnar í Kína í botn, eins og hann orðar það sjálfur, en sjúkdómurinn uppg. töluvert áður en við fórum þangað.
Hlýtt og gott loftslagið hafði alveg undraverð áhrif á heilsu okkar beggja til hins betra. Maður liðkast allur upp í hitanum.
En að koma heim, hitta börnin sín barnabörn og tengdabörn ásamt þrem langömmubörnum, en ég hafði aðeins séð eitt þeirra áður og annað rétt í svip. var það besta. Að vera svona heppinn með fjölskyldu er nokkuð sem ber að þakka, það er svo langt frá því að vera sjálfgefið, en fjölskyldan mun halda upp á áramótin saman.
Ég skal viðurkenna að ég er alger rola í sambandi við flugelda. Þegar ég var lítil faldi ég mig inni í skáp til þess að lenda ekki í þeirri aðstöðu að láta alla sjá hversu hrædd ég var. Ég var svo heppin að við vorum fimm systkynin og þess vegna bar ekkert á þó ég léti mig hverfa á meðan. Þarna húkti ég skjálfandi á beinum í skápnum innan um alla kústa og skrúbba og myndi gera enn ef svo biði við að horfa.
Það að vera fullorðinn veitir manni þau forréttindi að geta bara setið rólegur ( á ytra borðinu) inni, á meðan hinir sprengja eins og óðir menn, og notið þess að vera með þessari utan dyra stöddu familíu minni og hlustað á Nú árið er liðið.
Ég vil þakka öllum þeim sem hafa litið inn á síðuna mína á árinu, svo og óska ég ykkur öllum blessunar og hamingju á komandi ári.
,
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
29.12.2010 | 15:26
Andhverfa jólanna
Mikið hlýtur barn konu sem hefur verið beitt ofbeldi til langs tíma að kvíða fyrir jólunum. Þessi svín sem berja konuna sína hljóta að sama skapi að hlakka til þeirra. Líklega undirbúa þeir vel og vandlega að drekka sig fulla, æsa sig, og stofna til andmæla konunnar. Við það eru öll grið rofin og nú er hægt að berja hana hressilega fyrir framan börnin, af því þetta er allt henni að kenna. Það er alveg öruggt að þetta hefur gerst á fleiri en þrem heimilum, þó ekki sé það kært.
Vinafólk mitt upplifði það fyrir nokkrum árum að bankað var uppá kl. 6 á aðfangadag. Fyrir utan stóð 12 ára drengur, vinur sonar þeirra. Hann spurði kurteysislega hvort hann mætti koma inn og bíða. Eftir að gengið hafði verið á hann um eftir hverju þessi bið væri sagði hann á sinn rólega hátt, ég er að bíða eftir að pabbi verði búinn að brjóta alla diskana og síðan að berja mömmu, þetta gerist alltaf á jólunum.
Fyrst ætluðu þau ekki að trúa þessu, en af hverju kemur lítill drengur og leitar skjóls á sjálfum jólunum, hátíð gleðinnar? Þegar drengurinn hafði snætt með þeim sagðist hann vilja fara heim. Honum var fylgt þangað, en við blasti tvö yngri börn hágrátandi, móðirin sem stórsá á, að reyna að taka það mesta til, jólamatinn brotna diska og pottaflóðið út um alla íbúð.
Hún vildi enga aðstoð þiggja, sagði manninn mundu bara ráðast á sig aftur þegar hann kæmi heim ef hann sæi að einhver hefði komið. Hann hafði fengið sér göngutúr til að jafna sig á þessari hryllilegu fjölskyldu sem hann ætti.
Drengurinn kvaddi feðgana sem höfðu fylgt honum heim með þeim orðum að á næstu jólum yrði hann vonandi orðinn svo stór að hann gæti stöðvað ofbeldið. Þetta eru jólin sem börn svona manna þurfa að upplifa árlega á meðan við hin sitjum við jólaborðhaldið með okkar nánustu og njótum jóla helginnar og friðsins sem henni fylgir.
Hvað er hægt að gera til að stöðva þetta?
Nauðganir og heimilisofbeldi um jólin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
27.12.2010 | 15:54
Vísa um fegurð
Í vísnahorni Morgunblaðsins er minnst á að fólk sé fallegra eftir góðan nætursvefn. Hér er mitt tillegg.
Einu sinni mér áður brá,
ung og fögur var ég þá.
Sjálfsagt óggu sjens nú á,
í spegli að morgni - ligga lá.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.12.2010 | 13:00
Líður að nýju ári
Nú er árið að verða liðið, með allri sinni gleði og sorg, svona eftir því hver á í hlut. Sem betur fer upplifðu ekki allir sorgaratburði, en ég held ég geti fullyrt að að allir hafi átt einhverjar gleðistundir og við flestöll margar. Þannig er bara gangur lífsins og enginn fær honum breytt hvort sem okkur líkar betur eða ver.
Það að gleðjast hefur reynst mörgum erfitt núna þegar ástandið er eins og það er í samfélaginu. Að nokkur maður í ríkisstjórninni geti yfirleitt brosað, eins mikla gagnrýni og hún hefur fengið, með réttu eða röngu, kalla ég bara stórkostlegan karakter. Ég væri uppi í rúmi, undir sæng, bara hágrátandi af örvæntingu.
Stjórnarandstaðan getur vel við unað, hún getur bara glott áfram og sett út á allt, án þess að koma með neinar raunhæfar tillögur til úrbóta, vonast bara til að fá kosningar, vinna þær, og komast að sem fyrst. Ef svo verður vona ég að þeir beri gæfu til að ræsa atvinnulífið af fullum krafti. Annars skil ég illa hvernig hún getur verið svona ánægð með sig, það var jú hún sem var bæði hölt og blind í aðdraganda hrunsins og átti stóran þátt í að svo fór sem fór.
Ég mun persónulega aldrei kjósa flokkana, sem þegar við stjórnvölinn, bókstafalega gáfu vildarvinum sínum sameiginlegar eigur þjóðarinnar og litu svo undan þegar nýju eigendurnir með þjóðareignina í höndunum notuðu hana til að svindla og svíkja restina út úr þjóðinni, bókstaflega allt sem hægt var, með þeim afleiðingum sem allir þekkja.
Ég var nánast fædd og uppalin í Sjálfstæðisflokknum, var dyggur stuðningsmaður hans í mörg ár, en í dag fyndist mér jaðra við landráð að leggja honum lið. Við búum í lýðfrjálsu landi og sem betur fer er fólki frjálst að hafa eigin sjálfstæðar skoðanir og kjósa eftir sannfæringu sinni.
Hvað dindilinn sem sem kennir sig við framsókn og sat í stjórn með flokknum varðar, vona ég að hann þurrkist endanlega út í næstu kosningum. Það er synd og skömm að sjá hvernig nútíminn hefur farið með flokka þeirra Ólafs Thors og Hriflu Jónasar. Hvað hefur gerst síðan þeir voru við völd? Því er auðsvarað, þá hafði lítil sem engin spilling grafið um sig í samfélaginu, svo einfalt er það. Því má svo bæta við að stjórnmálaflokkar eru hvorki betri eða verri en fólkið sem kýs þá.
Því miður virðist svo að spilling sem nær að blómstra sé eins og arfi, en eins og allir vita er erfitt að uppræta hann, nema þá helst með eitri og því erfitt að stöðva þessa botnlausu græðgi sem greip um sig og hrjáir víst enn allmarga.
Mín einlæga von er sú að bráðum taki við betri tíð með blóm í haga, ekkert ESB, og almenna gleði megi sjá í andlitum allra íbúa þessa hrjáða lands, þó ég sjái það því miður ekki innan seilingar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.12.2010 | 14:59
Skortur á siðferði?
Ef ég fengi að ráða yrði þessu liði öllu stungið inn, þar sem það eyðileggur ekki jólin fyrir neinum. Síðan mætti gjarnan spila fyrir þá stanslausa fyrirlestra um almennt gott siðferði. Ég er sannfærð um að öllum sem hafa, þó ekki sé nema smá snefil af því líður betur.
Mikið er voðalegt þegar svo er komið fyrir fólki að það getur ekki stillt sig um glæpaverk, innbrot, líkamsmeiðingar og hræðsluáróður í formi skotárása á heimili, yfir hátíðarnar.
Árásarmennirnir yfirheyrðir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (28)
26.12.2010 | 13:56
Ekki er ein báran stök
Það á ekki af þeim að ganga á Þorvaldseyri svo og öðrum ábúendum undir Eyjafjöllum. Ef ekki er eldgos og öskufall af þess völdum, eru það vatnavextir og flóð.
Maður hefur mikla samúð með bændum þarna eftir hamfarir ársins og vonar það besta þeim til handa á nýju ári. Þessi reisulegu býli sem maður hefur svo oft ekið hjá, með sína blómlegu akra í undurfögru landslaginu, eiga dágóðan sess í hjartanu eftir mörg ferðalögn um Suðurland.
Sendi þeim öllum bestu jólakveðjur, ásamt frómum óskum um betri komandi ár.
Vatn flæðir yfir Suðurlandsveg | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.12.2010 | 19:03
Jól í Kína 2006
Kínverskt jólatré.
Læt hérna inn blogg frá jólunum í Kína 2006, ef einhver hefur áhuga.
Í dag er annar í jólum og ekki seinna vænna en að óska öllum gleðilegra jóla. Við erum búin að vera svo upptekin við jólaboð og ofát að ég hef hreinlega ekki haft tíma til að setjast við tölvuna. Ég reikna heldur ekki með að neinn hafi saknað þess í jólaönnunum þó kerlingaranginn þarna austur í Kína hafi hægt aðeins á sér.
Eitt af því sem var að gera mig sturlaða fyrir jólin, var jólapappírinn, fyrst að finna hann, síðan að opna hann, en hann kemur í pínulitlum rúllum ca. ¼ af venjulegri örk heima og hver rúlla er límd með límbandi á 4 stöðum. Þegar búið er að plokka það af, án þess að skemma örkina, byrjar aðaldjobbið, en það er að líma arkirnar saman svo þær nái utan um pakkana. Límbandið er sérkapituli, en það er af uppáhaldsgerðinni minni sem rifnar alltaf í sundur óbeðið og festist síðan við rúlluna og ekki nokkur leið að finna endann. Kannast einhver við þetta?
Hér er yndislegt jólaveður, snjór, 20 m. vindur á sekúndu og 14° frost. O- nei þetta var víst Ísland. Hér er ekki nema svona um það bil bil 20° hiti og hægur sunnan 3 eða þannig.- Best að hætta að vera andstyggilegur, svona rétt um hátíðarnar.
Lífið kennir latri konu að spinna eða naktri að vinna segir víst í málshættinum (alltaf verið að ráðast á konur) og ég held ótrauð áfram að blogga, þótt kominn sé þriðji í jólum. Jólin hjá okkur voru alveg eins og jólin eiga að vera, hátíðleg og björt, allir í góðu skapi og í sínu fínasta pússi. Stórfjölskyldan í Kína var hér hjá okkur á aðfangadagskvöld, ásamt ungum manni sem er hér á ferðalagi og við hittum, eiginlega af tilviljun í skötuveislu á Þorláksmessu og buðum að vera með okkur.
Sá heitir Friðgeir og er nemandi í listaháskólanum heima á Fróni, leiklistardeild, eða öllu heldur nýrri deild tengdri leiklist sem ég kann ekki að nefna.. Hann er aðlandi og ákaflega prúður ungur maður og mér var sönn ánægja af samskiptum okkar við hann.
Skötuveislan er kapituli út af fyrir sig. Haldin heima hjá Óla Jóns, mínum fyrrv. af Finni Arnarsyni myndlistarmanni og fjölskyldu, sem eru hér í 4 mánuði við listaakademíuna og búa í lítilli íbúð með 4 börn. Óli Jóns býr í stórri stórri íbúð á tveimur hæðum, með stórum þaksvölum og þar var skatan soðin og veislan haldin. Foreldrar Finns komu hingað um jólin, klyfjuð íslenskum mat, skötunni að sjálsögðu, hangikjöti, hákarli, rúgb,rauði ofl. ofl., meira að segja smjöri, Mér liggur við að segja sméri, þetta var svo þjóðlegt, stórkostlega flott og GOTT. Með þessu var kneifað öl og snafs. Allir skildu seint um kvöldið, saddir og sælir og komnir í jólaskap. Alveg meiriháttar.
Það er svo margt, eins og ég hef víst nefnt áður, sem er erfitt að fá hérna og eitt af því eru kerti. Kaninn segir What´s Christmas without a tree, en Bergljót Gunnarsdóttir segir hvað er hátíð án kertaljósa. Kertin fundust að lokum í Metro þar sem Beggo Group gerir mest af sínum innkaupum og þar af leiðandi varð allt svo hátíðlegt hjá okkur.
Kínverjar eru svo óvanir kertaljósum, að það er víst ekki nokkur leið að tendra þau nálægt þeim. Þeir vestrænu staðir sem hafa reynt það hafa allir gefist upp utan einn sem er með þau í gríðarháum stjökum. Ástæðan er sú að að þeir fikta í kertunum, pilla og plokka þangað til allt flýtur í vaxi. Tvisvar verður kertaljósbaðaður Kínverji barn ( kannské ég stofni bara málsháttaverksmiðju).
Nýjustu fréttirnar eru þær að Elín og Rúnar eru að flytja. Þau eru búin að fá stórt og fallegt hús á mjög fallegum stað við stóran almenningsgarð hérna í borginni. Þau ætla að búa á efri hæðinni. Í bakhúsi, áföstu, eru fjögur herbergi á tveim hæðum og þar ætla þau að hafa vinnustofur og hljóðstúdíó. Á neðri hæðinni ætla þau að opna lítið veitingahús í heimilislegum stíl. Þau munu hafa fáa en góðan mat og gott kaffi ásamt vínveitingum og smásnarli. Staðurinn á að heita Heima.
Orðið heima er til í kínversku (eins borið fram) og þýðir Svarti folinn, en hann er tákn þess veðhlaupahests sem þykir ólíklegastur til að vinna, en fer fram úr öllum fyrstur í mark. Vona að það viti á gott. Þetta er líka ágætt á ensku, At Home.
Það hefur verið mjög erfitt að komast inn á netið undanfarið og Skype smbandið rofnar nær nudantekningalaust. Þess vegna hef ég ekki getað haft samband við næstum alla, sem ég vildi hafa um jólin. Því óska ég ykkur öllum enn og aftur gleðilegrar hátíðar og gætið þess vel, að vera södd, værukær og sæl það sem eftir er hátíðarinnar.
Nú eru liðnir 12 tímar síðan ég skrifaði þetta, en máttarvöldin eru mér ekki hliðholl því það varð mikill jarðskjálfti á Taiwan í gærkvöldi og endalausir jarðstrengir og dót slitnaði þannig að internetið er óvirkt. Skjálftinn fannst vel hérna í Xiamen, enda sjáum við til Taiwan á góðum dögum, Hann var víst yfir 7° á richter, en við vorum svo heppin að vera úti að ganga og fundum ekki neitt, en fólk sem býr hérna í kringum okkur, efst í húsunum var skelfingu lostið. Við höfum ekki nánari fréttir af þessu, en maður verður bara að vona það besta fyrir þetta vesalings fólk sem hlýtur að missa allt sitt í svona hamförum.
Nú er kominn 28. des og kl. er 12 á hádegi. Við höfum ekki fengið neinar fréttir af jarðskjálftanum, því hér í landi eru slysa og hamfarafréttir aldrei birtar almenningi. Ef við komumst í slíkt er það í gegnum netið en það er ennþá bilað. Mér finnst þetta vera orðin hálfgerð langavitleysa hjá mér, en hún fer í loftið um leið og netið byrjar að virka aftur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
21.12.2010 | 19:46
Jól
Þess vegna er ég að hugsa um að teygja örlítið lopann í þetta sinn og nú getur þú lesandi góður fengið að ráða fram úr smá langhundi. Það er alveg upplagt að leggja slíkt á fólk nákvæmlega núna, þegar allir eru á fleygiferð og enginn má vera að því að lesa. Það að ef þér tekst að klára lesninguna, segir að þú ert undir meðallagi stressaður og líklega í fínu formi að taka á móti jólunum.
Mér finnst nefnilega dálítið sorglegt þegar fólk er búið með alla orku sem það á, þegar stundin mikla, jólin sjálf, koma klukkan nákvæmlega sex á aðfangadag. Ég man þá tíð að hafa sofnað útaf meðan fjölskyldan var að opna jólapakkana. Hvers vegna? Jú, jú, maður var alltaf á síðustu mínútunni með alla hluti og á Þorláksmessumorgun datt mér í hug að það væri gaman að breyta þriggja sæta sófanum okkar í fjögurra sæta, með því að bæta einum lausum stól við hann.
Það var haldið af stað í bítið og keypt áklæði, síðan ráðist á gripinn, annar armurinn rifinn af honum, síðan af stólnum, þessu skeytt saman með einhverjum greinilega mjög góðum aðferðum, því þetta hékk allt saman ennþá þegar sófinn fór á haugana mörgum árum seinna. Síðan var þetta yfirdekkt eftir kúnstarinnar reglum, ásamt stól sem fengið hafði að vera óáreittur fyrir atgangi húsmóðurinnar og mátti heppinn heita að henni fannst nóg að hafa bara fjögur sæti.
Þessu brambolti öllu lauk kl. 8 á aðfd.morgun og þá var eftir að þrífa íbúðina, skreyta jólatréð, uppáklæða þrjú börn, elda jólamatinn og taka á móti tengdaforeldrunum sem voru fastagestir á aðfangadagskvöld. Einhverntímann upp úr hádeginu kom eiginmaðurinn sem var flugvélstjóri heim úr Ameríkuflugi. Hann þurfti að leggja sig, enda ósofinn eftir 12 tíma flug eins og það tók í þá daga.
Á mínútunni sex gengu jólin í garð. Það var svo hátíðlegt, því við bjuggum uppi á sjöttu hæð við hliðina á Langholtskirkju, þe. fyrsta hluta hennar sem er líklega safnaðarheimili í dag. Klukknaportið hafði verið reist fyrir utan og klukkurnar skyldu vígðar til jólamessu. Ég fór út í glugga þegar þær byrjuðu að klingja, Út úr kirkjunni, sem var upplýst, kom geisli þar sem kirkjugestir sáust ganga prúðbúnir til jólamessunnar. Allt í einu byrjaði að snjóa, það snjóaði stórum flyksum og eins og hendi væri veifað varð allt hvítt.
Í því byrjaði jólamessan í útvarpinu, ég byrjaði að tárfella dálítið, eins og alltaf þegar jólin ganga í garð, en á meðan gerðist undrið árlega, að jólin voru bara allt í einu þarna, með sinni helgi og gleði, um leið og grár hversdagleikinn hvarf.
Þetta voru yndisleg jól fyrir mig, svo lengi sem ég mundi, en hinum fannst ég ansi slöpp að geta ekki haldið mér vakandi, því enginn tók eftir nýja fjögurra sæta sófanum með ennþá nýrra áklæði. Það hlýtur að hafa verið meiriháttar flott, úr því það stuðaði engan.
Ég vaknaði á jóladagsmorgun við hlýjan koss á kinn, síðan var hvíslað í eyrað á mér. Mikið rosalega eru mublurnar flottar, þú ert nú meiri brjálæðingurinn. Ég var alveg sammála.
Að lokum vil ég óska öllum bloggvinum mínum og auðvitað öðrum sem þetta kunna að lesa, gleðilegra jóla, friðar og helgi.
Gætið þess að borða ekki yfir ykkur og í guðanna bænum ekki láta ykkur detta í hug að fara að smíða og eða bólstra húsgögn á Þorláksmessu.
Bloggar | Breytt 22.12.2010 kl. 00:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
20.12.2010 | 19:28
Ríkisdalir og spesíur
Allir á móti öllum, en aðallega þrem þingmönnum VG. Það er ekki auðlifað að vera þingmaður í dag. Það liggur við að ég sjái eftir að hafa tekið undir skrif um Lilju, sem enginn vill kveðið hafa í dag, en allmargir vilja kveðja. Það er svo mikil grimmd í sumum skrifunum að mér ofbýður.
Það kemur upp í hugann gömul vísa sem amma mín fór með fyrir mig. Vísan kemur Lilju og Co. svo sem ekkert við en ég læt hana fljóta. Amma talaði um ýmis mæt gildi og meðal annars peningagræðgi, sem henni fannst ljótt að sprengt gæti góðar og gildar trúlofanir í loft upp, utan þess hversu óaðlaðandi á allan annan hátt hún væri. Jæja, þá læt ég gamlan spældan kærasta taka við, eftir að kærastan náði sér í einn útrásarvíking þeirra tíma, eða svo.
Fyrirgefðu mér Gulltunna góð,
í grandleysi hélt ég að værir þú fljóð.
Ég þekki þinn brúðguma þú átt hans von,
það er hann ríkisdalur spesiuson
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.12.2010 | 14:12
Gáfnaljós
Sporin komu upp um kauða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)