Töfraflautan

Var að koma heim af frumsýningu Ísl. óperunnar á Töfraflautunni og það var góð, mikil og skrautleg skemmtun.

Ýmsum göldrum var beitt og árangurinn hreint frábær, með smá undantekningum. Uppsetningin er gjörsamlega ólík öllu sem ég hef séð í sambandi við þetta verk, búningar, hárgreiðsla og sviðsmynd svo nýtízkulegt, að það var næstum orðið gamalt aftur (flott), og maður hafði ekki við að verða hissa.

Söngur og leikur var yfirleitt með ágætum, en drengirnir hefðu alveg mátt missa sig, svo lágraddaðir og daufir voru þeir. Því miður fannst mér okkar ágæta Diddú ekki ráða nógu vel við hlutverkið þessu sinni, og það var vægast sagt óþægileg tilfinning.

Það var alveg stappfullt út úr dyrum, sýningunni vel tekið, en einhvern veginn hafði ég á tilfinningunni að ekki hafi allir verið jafnánægðir.

Mér fannst þetta ágætis kvöldskemmtun og afmælisgjöf til mannsins míns.


mbl.is Mikið um að vera í Hörpu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég spyr í einlægni

Á hverju er ætlast til að eldri borgarar á ellilífeyrisbótum eigi að lifa. Er þetta e.t.v. einhver ný lausn til að losna bara við fólk, eftir vissan aldur, fólk sem er löngu búið að leggja þessar bætur fyrir. Þetta er ekkert annað en þjófnaður.
mbl.is Kjaranefnd eldri borgara mótmælir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blönk?

Mér fyndist nær að gefa spjarirnar til Rauða krosssins, þar sem hægt væri að deila þeim milli þeirra sem nánast ekkert hafa, nú í kreppunni. Það myndi örugglega koma sér vel fyrir marga að fá falleg jólaföt, og hugarfarið sem fylgir því að gleðja aðra er af þeim meiði sem Gunnar boðaði á kristilegum samkomum í Krossinum.

Svo getur líka verið að enginn vilji ganga í fötunum þeirra, og þá hefði perlum verið kastað fyrir svín. 


mbl.is Jónína Ben og Gunnar í Krossinum selja fötin sín
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju?

Hvers vegna er svona erfitt að greiða þessari stétt almennileg laun. Þetta er svo miklu meira en að standa bara og brosa framan í farþegana.

Alveg frá því ég man eftir mér, og þó orðin sjötug, hafa þær þurft að sækja eðlilegar launahækkanir á þennan hátt. Ég man þá tíð , þegar Jóhanna Sigurðardóttir fór fyrir samningnefnd þeirra af miklum dugnaði og fylgni, að launin fóru fyrst að skána. 

Líklega er það eina góða við þetta argaþras, að eilífu, að það getur mögulega skapað frábæra stjórnmálamenn og hver veit nema það færi okkur nýjan forsætisráðherra að lokum.

En grínlaust, flugfreyjur og þjónar eru flest einstaklega vel þjálfaðir starfskraftar, og þægilegir í starfi, sérstaklega þau sem hafa elst í starfinu og kunna það til hlítar. Þær og þeir yngri, hugsa sum meir um útlitið, e.t.v. vegna áhrifanna sem nýr einkenningsbúningur hefur. Þar með er ekkert hallað á útlit hinna.

Miðað við öll jafnréttindamál starfshópa, sýnist mér samt, að það halli hlutfallslega töluvert á samkynhneigðar konur í þessu starfi.


mbl.is Nýr fundur í fyrramálið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er stórt við þessar konur?

Hvað er stórt við þessar konur, ef þetta eru þá konur. Að klæðast Búrkum er leið hugleysingjans til að fela sig fyrir umheiminum sem hann er að ráðast á. Ég sem var að vona að aðferðir Ku Klux Klan manna væru úti fyrir fullt og allt. Hver tekur mark á þeim sem ekki þorir að sýna sig, oj bara!
mbl.is Stóra systir fylgist með þér!
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Væri best geymdur í einum slíkum

Og rígbundið fyrir, um aldur og ævi.
mbl.is Jón Ásgeir kom með bónuspoka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stutt ferðalag í feb. 2008

"Ég þori varla lengur að minnast á blessaðar helgarnar, en sé þó ekki betur en ein enn sé að renna upp, vonandi í allri sinni dýrð. Ég verð komin heim áður en ég veit af með þessu framhaldi. Hér eru allir í fínu formi, nema ég mætti vera aðeins brattari eftir gærdaginn, eða öllu nær kvöldið.

Þetta var meiri háttar ferð um héraðið hérna fyrir norðan okkur, sem er stærsta og þekktasta teræktarhéraðið hér í Kína. Það er með ólíkindum að sjá hvert fjallið af öðru þettvaxið terunnum. Þetta er allt ræktað á stöllum í fjallahlíðunum, snarbröttum og undurfagurt að sjá. Nú er ég loksins farin að skilja hvað allt fólkið sem maður sér daglega vera að hreinsa telauf er að gera. Terunnarnir eru mjög þettvaxnir og telaufin eru ekki tínd, heldur er runninn klipptur, eins og við klippum hekk, þannig að það þarf að hreinsa burt alla aðskotahluti eins og blóm, smákvisti, greinar o.s.frv. Þetta gerir það að verkum að fjallshlíðarnar líta út eins og snyrtilegar hekkraðir í mismunandi hæð, sem einhver gæti átt þarna á lager til að selja okkur hinum vitleysingunum sem erum léleg í garðyrkju.

Við skoðuðum líka hin margrómuðu hringhús, 4 – 5 hundruð ára gömul, sem voru upprunalega byggð sem virki til að verjast óvinum. Það er ennþá búið í þeim. Að utan líta þau út eins og hár hringlaga múr með smágötum efst, með regulegu millibili. Þegar komið er innfyrir múrinn lítur þetta ansi mikið öðruvísi út. Ég myndi helst segja eins og mjög nútímaleg 3ja hæða blokk, með aðra hringblokk eða raðhús upp á eina hæð, innan í henni. Innst er nokkuð stórt torg með tveim vatnsbrunnum. Húsið sem við fórum inn í hefur í dag tæpl. 60 íbúa, á öllum aldri, en ekki er búið í því öllu vegna viðhaldsleysis, en þetta blessaða fólk hefur enga peninga til slíkra hluta. Þar er sorglegt að sjá þetta undurfagra gamla tréverk sem þarna er vera að grotna niður, allt útskorið af völundum fyrri tíma.

Þarna býr fólkið hvert í sínu hólfi, fátækt, hreinlegt og með eindæmum gestrisið. Við komum þarna um miðjan dag og var strax boðið upp á te, sælgæti og kex, meira en hver gat í sig látið og síðan kvödd, með miklum virktum, eftir langar samræður á íslensku og kínversku, sem hver og einn varð bara að skilja eins og hann vildi.. Ekki var tekið í mál að taka við greiðslu fyrir gestrisnina og beinann. Þarna gerðist það í fyrsta sinn á ferðalögum mínum hér, að heimamenn vildu fá að taka myndir af okkur, ekki síður en við af þeim. Þetta er ekki eitt af þekktum Hakka túristahúsum, og svona snjóhvítar furðuskepnur eins og heilt íslendingastóð á öllum aldri ekki dagleg sjón.

Á bakaleiðinni villtist bílstjórinn með okkur þarna í tefjöllunum, þannig að við vorum orðin sein fyrir, þegar við komum til bæjar þar sem stærsti temarkaðurinn í Kína er, en þá var búið að loka honum. Við borðuðum þó mjög góðan mat á veitingahúsi þarna, uppi á annarri hæð. Þegar borðhaldinu lauk fór fólkið að tínast út í bílinn, en ég skrapp á snyrtinguna. Þá kom að sjokkinu mikla sem gerði það að verkum að ég var ekkert sérlega brött í dag. Hér þekkist ekkert nema svona holuklósett, og þetta umrædda var með þeim óhreinlegri. En þegar neyðin er mikil þýðir ekkert að setja það fyrir sig, heldur bara hætta nánast að anda, á meðan verið er þarna inni. Jú, allt í einu heyrðist eitthvað svamp og stór rotta birist í niðurfallinu. Ég held bara að ég hafi fengið snert af taugaáfalli, meðan ég stóð þarna og hisjaði uppum mig með kvikindð að reyna að komast upp úr skálinni.

Ekki orð um það meir, nema ég sagði ekki orð þegar út var komið, kveikti mér í sígarettu, reykti hana og settist svo bara inn í rútuna, en þar var búið að slökkva ljósin, og fór ég bara að skæla eins og litlu börnin, með trefilinn fyrir andlitinu, svo enginn heyrði til mín. Var þó farin að jafna mig að mestu þegar heim var komið, tveim tímum seinna. Hugsið ykkur, uppi á annarri hæð, eins gott að þetta var ekki í kjallaranum. Skal tekið fram að staðurinn sjálfur var snyrtilegur og maturinn fyrsta flokks.

Lofa að senda ekki fleiri svona lýsingar út yfir heimsbyggðina, en bið ykkur allrar blessunar". 

Eiginlega setti ég þetta blogg inn, af því það tengist myndinni sem er hérna uppi á hausnum. 

Af einhverjum undarlegaum ástæðum birtist hún þarna og ég hef ekki þá kunnáttu að láta hana hverfa. Hún, myndin, er teiknuð við barnasögu sen ég gerði um tefjöllin í Kína, örfáum dögum eftir þetta ferðalag. 


Ó borg mín borg

100_2109

Það er svo margt að gerast í kringum mann án þess að maður geri sér grein fyrir því, þ.e.a.s. ef maður treystir náunganum og næstu nágrönnum.

Dóttir mín, og fjölskylda semhafa búið við algert afskiptaleysi annars fólks í húisinu, og eiginlega verið nokkuð ánægð með það, fundu alveg ótrúlega sterka, súra og vonda lykt í ganginum hjá sér. Þegar þetta var búið að vara í einhverja tvo , til þrjá daga, bönkuðu þau upp hjá nágrönnunum, en ekkert svar, og lyktin hélt áfram að teygja sig út með hurðinni, einhverja daga í viðbót.

Nú vildi það íbúum hússis til happs, nema þeim sem áttu lyktina, að maður á efri hæðinn þurfti að endurnýja eitthvað í sambandi við sjónvarpið, en rafmagnstaflan fyrir það, er inni í íbúðinni með vondu lyktinni .

Það var hringt í eiganda íbúðarinnar, en hún var eða er í útleigu, sem sagði íbúana erlendis, en gaf leyfi til að farið væri inn. Það sem blasti við var vatn út um öll gólf, sem voru uppbólgin og gjörónýt, en þessi hræðilega lykt ætlaði allt að drepa. Þar sem mennirnir, sem fóru inn, höfðu greinilega bein í nefinu, var hringt í lögregluna, sem kom að bragði. Það sem var borið út var gríðarstór hassverksmiðja, og framleiðslan úr henni. Allir veggir voru klæddir af þannig að myndaðist skilrúm á milli, en íbúðin minnkaði bara ansi mikið,en þegar komið var inn sást ekki neitt, en ræktin fór öll fram með lýsingu á bak við þessar nýju þiljur.

Ef ræktandinn hefði ekki verið svona gráðugur, hefði hann ekki útbúið sér úðunar, eða vökvunarkerfi og grafið niður um eina hæð fyrir affallinu, sem virðist hafa stíflast, allt flætt.

Síðan kom nágranninn sem vantaði að láta fara inn, og allt komst upp, en þetta var svo vel falið, að þeir sem þurftu í töfluna hefðu ekki orðið varið við neitt, hefði ekki allt verið á floti.

Ég er afskaplega fegin að vita af því að þetta var upprætt, og má helst ekki hugsa um að svona getur gerst í mjög huggulegu húsi, í góðu hverfi, og ósköp venjulegu fólki, og engan grunaði neitt.


Ýmislegt úr kýrhausnum

 PB301736100_3289

     

Var að uppgötva að ég er fædd á ári drekans, samkvæmt kínversku almanaksreglunum. Þetta finnst mér alveg frábært. Áhugi minn á drekum, síðan ég kom hingað, hefur nefnilega vakið mér stórfurðu. Hversvegna ég verð að skoða alla drekana og drekamyndirnar sem ég sé svona nákvæmlega veit ég ekki, en stundum gerast skrítnir hlutir á eyrinni.

Ég er búin að gera drekataflið, sem er þarna einhversstaðarí Kínamyndunum, og hálftíma áður en ég fékk þessa vitneskju um ár drekans, fann ég lampa . Ég er löngu búin að sjá svipaða lampa, úr postulíni, alla útbróderaða í götum og rosalega fallega. Í þrjú ár er ég búin að horfa á þá og langa í, en eitthvað stoppaði mig í að kaupa. Í dag blasti lampmpinn við mér í búðarglugga, allt bróderíið var þarna ásamt, ja hvað heldur þú - jú drekamynd. Ég fór inn og keypti gripinn, því þá vissi ég eftir hverju ég hafði verið að bíða allan þennan tíma, nema hvað - drekanum. Læt fylgja með mynd að gamni.

Það er svo undarlegt hvernig hlutirnir gerast án þess að maður beinlínis geri neitt til þess. Mikið finnst mér þó gaman að fá svona einhverkonar tengingu.

Þetta minnir mig á daginn sem ég var að lakka gólfin á Sæbakka á Bíldudal í fyrsta sinn. Ég var ein fyrir vestan að klára endurbæturnar og lokahnykkurinn var sulla lakki yfir stofu, svefnherbergis og eldhússgólfin. Ég var ein, því enginn hafði áhuga á þessu Sæbakka ævintýri mínu, og meira að segja ég sjálf var töluvert hissa á hversvegna mér fannst ég verða að eignast húsið og hvað staðurinn og Arnarfjörðurinn höfðaði sterkt til mín.

Allt í einu stóð ég bara úti á skansi og mátti ekki stígainn í húsið fyrr en eftir átta tíma. Beggó málar sig ekki út í horn, bara út úr húsi. Nú, nú hvað skyldi gera við tímann, bíltúr eða hangs? Ég settist upp í Græna Graðfolann, en það var grænn Subaru sem við áttum á þeim tíma, og ók af stað, kom við á Vegamótum, keypti mér flatkökur, rækjusalat og gos, en áður en ég vissi af var ég allt í einu komin út í Selárdal, en það hafði ekkert verið meiningin. Ég fór út úr bílnum við Selárdasbæinn, kíkti pínulítið á gluggana, en hvað ég sá er leyndarmál, Bærinn var kominn í eyði, annars hefði ég varla gerst gluggagægjir á miðju sumri..

Síðan dýrkaði ég upp kirkjuhurðina, með teskeið sem var í bílnum, (uss ekki kjafta) og gekk inn í þessa gömlu fallegu kirkju. Þarna færðist yfir mig alger ró og vellíðan sem ég finn ekki oft fyrir. Ég átti fábæra hugleiðslustund þarna inni í þessari gömlu kirkju, en þegar ég gekk út aftur fannst mér einhvern veginn eins og eitthvað spennandi væri í vændum.

Því næst var það kirkjugarðurinn sem umlykur kirkjuna, ég fór að skoða leiðin og lesa á legsteinana. Allt íeinu fékk ég öll svörin sem mig vantaði. Nöfnin á legsteinunum voru svo ótrúlega mörg þau sömu og í móðurætt minni, og ein gröfin geymdi langa langafa minn. Þarna stóð ég allt í einu við rætur mínar, í litlum kirkjugarði, úti á annesi nánast, fyrir vestan þar sem ég þekkti lítið sem ekkert til . Það var undarleg en ákaflega góð tilfinning að uppgötva að þetta var Selárdalurinn sem hún amma mín minntist alltaf með svo mikilli hlýju, enda fædd þar og uppalin. Faðir hennar, langafi minn hét séra Lárus og þjónaði þessari sókn.

Þarna fékk Beggó drekalover allt í einu skýringu á þessu undarlega afli sem togaði hana vestur í Arnarfjörð. Hafandi aldrei neinn áhuga á ættfræði eða búsetu ættingja og forfeðra, hafði það bara farið gjörsamlega fram hjá henni að Selárdalurinn, þangað sem afi minn fór til að sækja sína ungu brúði hana ömmu mína, var bara nánast við skansinn á Sæbakka, en þar byrjaði ævintýrið , vegna þess að ég hafði lakkað gólfin, og þurfti að bíða í átta klukkutíma eftir að komast inn aftur. Mér finnst ég sjaldan hafa varið átta tímum svona vel.

Þetta leiddi því af sér að ég uppgötvaði td. að þeir öðlingsmenn, Bílddælingarnir Öddi og Ági eru frændur mínir, að vísu nokkuð fjarskyldir, en frændur þó, en í þeim hef ég eignast tvo af mínum bestu vinum ásamt þeirra ágætu ektafrúm. Ég verð að skella frænda þeirra og uppeldisbróður Hannesi á Vegamótum og Helgu inn í þetta, því hafa svo sannarlega reynst okkur betri en engin. Fleiri ættingjar leynast þarna lí þorpinu, bæði konur og karlar.

Hversvegna. vegna ég er að segja frá þessu veit ég ekki, en þetta rennur bara á blaðið eins og stórfljót, af sjálfu sér.


Smá saga úr dagl. lífinu í Kína

                                                                          065

Þetta eru húsdýr, rétt nýskriðin  úr púpunni, af þeirri teg. sem var í íbúðinni hjá mér. En fullvaxin eru þau ca 2ja til 3ja cm. löng.

Eitt er erfitt hérna í þessu landi - eins og víða annarsstaðar, en það er hversu fáar innstungur eru fyrir raftæki, jafnvel þó búið sé í lúxusíbúð á kínv. mælikvarða. Mér dettur Kalli rafvirki á Bíldudal, aftur og aftur í hug (vona bara að ég sé ekki að verða skotin í honum eða neitt svoleiðis), því innstungur vantar sárlega hér í íbúðina. Til að gera langt mál styttra, var ég búin að leiða langa framlengingarsnúru út um eldhússgluggann öðru megin og inn hinumegin til að fá rafmagn í vinnuljós við eldavélina, en þarna er vaskur á milli, undir glugganum. Engin alvöru húsmóðir vill hafa framlengingarsnúru sem þvælist fyrir á vaskbarminum og getur skapað stóhættu!

Það fór eitthvað í taugarnar á Oddi að ég skyldi gera þetta, og hann vildi endilega breyta því, sem hann og gerði. Þó miklar ástir þrífist á þessu heimili, eru þær ekki endilega alltaf ástir samlyndra hjóna – oftast þó. Þegar hann var í símanum áðan að tala við Sigrúnu systur sína, og þau í miklu kjaftastuði, ákvað ég að breyta þessu aftur svo lítið bæri á. Jú jú - ég setti snúruskrattan aftur út um gluggann og dreif fram ísskápinn til að koma henni í samband á bak við hann, en þá blasti við mér þessi líka yndislega kakkalakkafamilía sem stökk út um allt þarna í horninu bak við skápinn. Hér hefur hún Shjá mín eitthvað svikist um þrifin, svona á ekki að sjást í nýjum íbúðum og alls ekki uppi á þrettándu hæð.

Ég stökk hæð mína í fullum herkæðum, eins og Gunnar forðum, enda varð mér ekki um sel. Gunnar hefði að vísu örugglega þurft hval - til að verða ekki um. Engan hafði ég atgeirinn, enda nútímakona, svo ég greip vopn nútímamannsins – eiturúðabrúsann, og tókst að kála fjölskyldunni á svo skömmum tíma að bæði Saddam heitinn og Bush frændi hans hefðu orðið stoltir af - hefðu þeir verið í mínum sporum, síðan þreif ég þetta allt rólega með vatni og sápu.

Þegar þau systkynin höfðu talað saman drykklanga stund á ljúfum nótum og samtalinu lauk, sat mín bara sallaróleg eins og vanur fjöladmorðingi, og lét sem ekkert væri. En af því ég þarf alltaf að hafa síðasta orðið, liggur snúran núna - mína leið, þrátt fyrir baráttuna við þessa fyrrverandi familíu um plássið á bak við ísskápinn - og vei þeim sem reynir að færa hana aftur, og hananú! Þetta færir mér heim sanninn um að fólk á ekkert að vera að skipta sér af í eldhúsinu hjá snarvitlausum frekjudósum. Það gætti auðveldlega leitt til frekari fjöldamorða í skordýraheiminum. Skal tekið fram að Oddur tekur þessu öllu af sinni alkunnu - oftast rósemi.  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband