Stutt ferðalag í feb. 2008

"Ég þori varla lengur að minnast á blessaðar helgarnar, en sé þó ekki betur en ein enn sé að renna upp, vonandi í allri sinni dýrð. Ég verð komin heim áður en ég veit af með þessu framhaldi. Hér eru allir í fínu formi, nema ég mætti vera aðeins brattari eftir gærdaginn, eða öllu nær kvöldið.

Þetta var meiri háttar ferð um héraðið hérna fyrir norðan okkur, sem er stærsta og þekktasta teræktarhéraðið hér í Kína. Það er með ólíkindum að sjá hvert fjallið af öðru þettvaxið terunnum. Þetta er allt ræktað á stöllum í fjallahlíðunum, snarbröttum og undurfagurt að sjá. Nú er ég loksins farin að skilja hvað allt fólkið sem maður sér daglega vera að hreinsa telauf er að gera. Terunnarnir eru mjög þettvaxnir og telaufin eru ekki tínd, heldur er runninn klipptur, eins og við klippum hekk, þannig að það þarf að hreinsa burt alla aðskotahluti eins og blóm, smákvisti, greinar o.s.frv. Þetta gerir það að verkum að fjallshlíðarnar líta út eins og snyrtilegar hekkraðir í mismunandi hæð, sem einhver gæti átt þarna á lager til að selja okkur hinum vitleysingunum sem erum léleg í garðyrkju.

Við skoðuðum líka hin margrómuðu hringhús, 4 – 5 hundruð ára gömul, sem voru upprunalega byggð sem virki til að verjast óvinum. Það er ennþá búið í þeim. Að utan líta þau út eins og hár hringlaga múr með smágötum efst, með regulegu millibili. Þegar komið er innfyrir múrinn lítur þetta ansi mikið öðruvísi út. Ég myndi helst segja eins og mjög nútímaleg 3ja hæða blokk, með aðra hringblokk eða raðhús upp á eina hæð, innan í henni. Innst er nokkuð stórt torg með tveim vatnsbrunnum. Húsið sem við fórum inn í hefur í dag tæpl. 60 íbúa, á öllum aldri, en ekki er búið í því öllu vegna viðhaldsleysis, en þetta blessaða fólk hefur enga peninga til slíkra hluta. Þar er sorglegt að sjá þetta undurfagra gamla tréverk sem þarna er vera að grotna niður, allt útskorið af völundum fyrri tíma.

Þarna býr fólkið hvert í sínu hólfi, fátækt, hreinlegt og með eindæmum gestrisið. Við komum þarna um miðjan dag og var strax boðið upp á te, sælgæti og kex, meira en hver gat í sig látið og síðan kvödd, með miklum virktum, eftir langar samræður á íslensku og kínversku, sem hver og einn varð bara að skilja eins og hann vildi.. Ekki var tekið í mál að taka við greiðslu fyrir gestrisnina og beinann. Þarna gerðist það í fyrsta sinn á ferðalögum mínum hér, að heimamenn vildu fá að taka myndir af okkur, ekki síður en við af þeim. Þetta er ekki eitt af þekktum Hakka túristahúsum, og svona snjóhvítar furðuskepnur eins og heilt íslendingastóð á öllum aldri ekki dagleg sjón.

Á bakaleiðinni villtist bílstjórinn með okkur þarna í tefjöllunum, þannig að við vorum orðin sein fyrir, þegar við komum til bæjar þar sem stærsti temarkaðurinn í Kína er, en þá var búið að loka honum. Við borðuðum þó mjög góðan mat á veitingahúsi þarna, uppi á annarri hæð. Þegar borðhaldinu lauk fór fólkið að tínast út í bílinn, en ég skrapp á snyrtinguna. Þá kom að sjokkinu mikla sem gerði það að verkum að ég var ekkert sérlega brött í dag. Hér þekkist ekkert nema svona holuklósett, og þetta umrædda var með þeim óhreinlegri. En þegar neyðin er mikil þýðir ekkert að setja það fyrir sig, heldur bara hætta nánast að anda, á meðan verið er þarna inni. Jú, allt í einu heyrðist eitthvað svamp og stór rotta birist í niðurfallinu. Ég held bara að ég hafi fengið snert af taugaáfalli, meðan ég stóð þarna og hisjaði uppum mig með kvikindð að reyna að komast upp úr skálinni.

Ekki orð um það meir, nema ég sagði ekki orð þegar út var komið, kveikti mér í sígarettu, reykti hana og settist svo bara inn í rútuna, en þar var búið að slökkva ljósin, og fór ég bara að skæla eins og litlu börnin, með trefilinn fyrir andlitinu, svo enginn heyrði til mín. Var þó farin að jafna mig að mestu þegar heim var komið, tveim tímum seinna. Hugsið ykkur, uppi á annarri hæð, eins gott að þetta var ekki í kjallaranum. Skal tekið fram að staðurinn sjálfur var snyrtilegur og maturinn fyrsta flokks.

Lofa að senda ekki fleiri svona lýsingar út yfir heimsbyggðina, en bið ykkur allrar blessunar". 

Eiginlega setti ég þetta blogg inn, af því það tengist myndinni sem er hérna uppi á hausnum. 

Af einhverjum undarlegaum ástæðum birtist hún þarna og ég hef ekki þá kunnáttu að láta hana hverfa. Hún, myndin, er teiknuð við barnasögu sen ég gerði um tefjöllin í Kína, örfáum dögum eftir þetta ferðalag. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Ásdís Sigurðardóttir, 17.10.2011 kl. 18:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband