Kínverskt Spa

  

Í gærmorgun rigndi eins og sá sem stjórnar sturtuhausunum þarna uppi ætti lífið að leysa . Við Elín lögðum af stað út á Gulangiu, því það hafði stytt upp, regnhlífalausar eins og bjánar og himnarnir opnuðust eins og sturtukarlinum hafi fundist einum of langt síðan við fórum í bað síðast. Komumst þó ódrukknaðar heim aftur eftir stuttan stans í eynni, og alveg rennandi blautar.


Um hádegi stytti upp aftur svo við ákváðum að leggja í spaið. Þetta er ca. 20 km. fyrir utan Xiamen og tengist Tailensku lúxushóteli. Við tókum okkur leigubíl og þökkuðum okkar sæla þegar við sluppum lifandi út úr honum aftur. Bílstjórinn hafði fengið einhvern ömurlegan farþega, að ég hygg, til að kenna sér ensku og afraksturinn var very good, fuck og love you. Hann notaði loveyouið  þegar hann lenti í umferðarteppum, og var alveg greinilegt að hann meinti eitthvað allt annað en það, en fuck you dundi eins og úr hríðskotabyssu allan tímann, sem ástarjátning til Elínar. Þá leit hann jafn mikið í spegilinn og út um framrúðuna, til að gá hvort Elín væri ekki imponeruð yfir þessu stanslausa fucki, akstrurshraðalum og ökulaginu sem var þannig að við ríghéldum okkur í allt sem fyrir var af skelfingu.

 Önnur hvor okkar hafði að orði að við gætum bara þakkað fyrir að hann dró ekki upp slátrarasveðju í lokin, svona rétt til að fullkomna verkið, og hin kinkaði kolli fullkomnlega sammála, enda báðar vart mælandi af hræðslu.

Hann skilaði okkur þó á réttan leiðarenda.

Leiðarendinn sá var með þeim bestu sem ég hef lent á, í langan tíma. Það er gengið inn í fallegt og glæsilegt hús við hliðina á hótelinu. Fyrst kemur þú við í afgreiðsunni og borgar 1700 kr. og er allt innifalið hvort sem það er matur drykkur, nudd etc., þaðan er gengið inn í baðklefana, allt hreinlegt og flott, allir baða sig vel eins og heima og klæða sig í sundfötin. Þarna færðu góðan slopp, handklæði og ilskó.
Úr þessu baðhúsi er gengið út í gríðarstóran garð, allan þakinn fallegum runnum og trjám, allt í fullum blóma, blómabeðin skarta angandi blómum í öllum litum og inn í þetta allt eru felldir litlir lundir.

Hver þessara lunda sem ég get ímyndað mér að séu ca. 50 án þess að hafa nákv. tölu hefur heita laug, sem er felld inn í nátúruna sem er öll mishá, með litlum göngustígum, brúm og lágum klettasyllum. Hver laug hefur sína hönnun og er engin þeirra eins, allar manngerðar, en engin þeirra minnir á venjulegan heitan pott. Allar eru þær útaf fyrir sig og sést ekki á milli.
Hver laug hefur sitt aroma, það eru margskonar teböð, mörg kryddjurtaböð með mismunandi kryddjurtum, endalaus ávaxta og græmnetisböð, mjókurbað, bjórbað, vínbað, vodkabað, whiskybað ofl. ofl, nefndu það bara. Við röltum þarna á milli og skelltum okkur í nokkra af þessum dásamlegu pottum, sem höfðu allir nákvæmlega rétt hitastig. Þar sem hitinn skifti ekki máli var hægt að velja um þrjár mismunandi heitar laugar, allar haganlega gerðar og stundum voru þær hver innan í annarri, þá gastu sest í hverja þeirra sem var og ausið yfir þig, heitara eða kaldara, úr hinum.

Þarna voru þrjár fallegar sundlaugar, ein þeirra var öll í litlum básum og þar var hægt að fá kröftugt vatnsnudd af öllum gerðum, sumt var svo öflugt að það voru bæði fótstig og handföng til að maður fyki bara hreinlega ekki út í buskann.

En þá kemur að pottarúsínunni, fiskapottinum. Þar lágu nokkrir karlar með vellíðunarsvip og teygðu úr sér í allar áttir. Jæja sagði Elín hin lífsreynda, þorirðu í þennan, þetta eru lifandi fiskar sem éta af manni allt dautt skinn. Ég skal alveg viðurkenna að það fór heldur betur um mína. Því stóð ég þarna smástund og horfði á karlana sem leið svona undur vel. Jæja, maður verður víst að hafa eitthvað til að blogga um, sagði ég og skellti mér ofaní af ofurmannlegri hreysti. Elín lagði ekki í þetta og horfði á mig full undrunar og aðdáunar.

Það var eins og við manninn mælt, eða réttara sagt í kroppinn nartað, að svona 2ja - 3ja cm. kvikindin byrjuðu að hamast, ég hugsa að þeir hafi aldrei verið undir 1000 í einu. Fyrst kitlaði mig svo, að ég varð að gera mig alveg grjótstífa í framan til að fara ekki að flissa framan í þessa alvöruþrungnu menn sem lágu við hliðina á mér. Það tókst, og svona um það leyti sem ég var orðin eðlileg í andlitinu aftur var þetta orðið alveg ótrúlega þægilegt. Þarna lá ég eins og skata í 40 mín. og upp steig Beggó-díta, eins og frænka hennar Afródíta forðum. Þetta er alveg fullkomnlega ótrúlegt, fiskarnir hætta að borða þegar allt dautt skinn og sigg er farið, þeir synda bara í burt í leit að meiri mat. Eitt skal ég þó viðurkenna, þó ekki sé ég þekkt fyrir sjálfshól hm..., ég var nú bara nokkuð ánægð með mig, og húðin virkar svona nokkrum árum yngri en restin af mér. Engin fótsnyrting framar, bara að gefa fiskunum í kínaspainu! Ég hefði helst viljað setja andlitið ofaní líka, en þá drukknar maður víst. Þetta er það eina sem kostar aukalega, kr. 300.

Fengum okkur kvöldmat á staðnum og fórum síðan í nudd. Það eru endalausar tegundir af því, sem ég kann ekki einu sinni að nefna, en við völdum steinanudd. Þá liggur maður á vel volgum steihellum sem heitt vatn rennur undir, meira man ég ekki því ég steinsofnaði og vaknaði aftur nýnudduð og spræk. Heimferðin var ekki eins ævintýraleg, því bílstjóri frá hótelinu keyrði okkur heim. Sá vissi allt um umferðareglur og ökuhraða - og kunni sem betur fer ekkert í ensku.

Nú þarf ég ekki að velkjast í neinum vafa um hvað almennilegt spa í Kína er. Það er fullkomið ævintýri! - og það merkilega gerðist, að það rigndi ekkert á meðan við vorum í því.


Ferðin, framhalds framhald

Konan sem seldi rósaknúppana, var skælbrosandi allan tímann, með gull í hverri tönn. Hún gætti þess vandlega að það sæist vel og gekk að hverjum og einum með brosið út að eyrum. Þetta er nefnilega stöðutákn í þessu fátæka þorpi og ekki á allra færi að eignast svona “hræðilega” fallegt stell upp í sig. 

IMG_0086           

Salernisaðstaðan í þorpinu.

Verðmætamatið er einhvernveginn allt öðruvísi kortlagt hjá þessu fólki. Það býr í litlum herbergjum með rúmbálkum og stundum sjónvarpi. Utandyra er alltaf smá forgarður og í honum er brunnur með handdælu, eldunarhella, vaskur og nokkurskonar arinstæði. Salernisaðstaða er upp við múrinn á tveim stöðum í þorpinu. Hún er alveg eins og fyrir ellefu hundruð árum síðan, og vægast sagt - gamaldags. Allt er höggvið út í stein og svo er þetta bara undir berum himni, come rain or shine, því þarf bara að standa í röð og treysta því að hinir séu áhugalausir um það sem maður er að gera.
Ekki vildi ég búa lengst frá þessari aðstöðu og verða brátt í brók, djísös maður!!

Allir hafa nokkrar hænur, oft geit og jafnvel kú. Þarna er líka urmull af hundum og köttum. Við sáum alveg stórskrítnar hænur, sem virtust vera með angóraull, snjóhvíta og einstaklega fallega. Fiður á þessari furðuskepnu var ekki sjáanlegt. Getur verið að angórakanína hafi bara orðið ástfangin af hænu?

IMG_0055

Undir litlum skjólþökum er fullt af hrísi, sem þeir brenna örugglega í arinstæðinu og hlýja sér aðeins á köldum vetrardögum. Meiri veraldargæði sá ég hvergi, fyrir utan gulltennurnar, og allir virtust una glaðir við sitt.

Þarna vantar alltaf fólk í vinnu á akrana, og þess vegna má eignast fleiri en eitt barn. Hvort þetta er undantekning frá stjórnvöldum, fyrir þetta sérsamfélag mongólanna, skal ósagt látið.

                                                                                      Þessi undi vel uppi á virkisveggnum.

Allavega var þarna mikið af fallegum og hýrum krökkum að leik, en þau stukku alltaf hlæjandi burt þegar hvíti maðurinn nálgaðist. Þó voru tvær unglingsstelpur sem höfðu uppburði til að spyrja hvort við vildum pósa með þeim á mynd, sem var að sjálfsögðu gert. Þær kvöddu alveg alsælar, þannig að maður getur bara búist við að vera orðinn stofustáss á einhverju heimilinu.

Þess ber að geta að flestir þarna hafa aldrei séð vesturlandabúa og finnst þeir alveg stórmerkilegir,Þessi staður er ekkert inni í túristamyndinni ennþá.IMG_0064      Virkisveggurinn í kringum þorpið.

Mér datt í hug, sí svona, í sambandi við allar mállýskurnar í Kína, hvort þær séu ekki bara ansi heppilegar fyrir stjórnvöld, þar sem allir tala sitthvort málið og meginþorrinn er ólæs. Það getur því engin samstaða myndast um nokkurn skapaðan hlut nema þá innan tiltölulega lítilla hópa. Að þetta sé heppilegt, meina ég, að stjórnvöld eru á fullu að reyna að bæta lífskjörin, á því tel ég engann vafa leika, og góðir hlutir gerast hægt. Semsagt það heldur friði í landinu að flestir eru ólæsir og enginn skilur náungann, eða þannig, ja hérna hér. Skal þó tekið fram að nú er komin skólaskylda í Kína, frá sjö ára aldri í níu ár.

IMG_0099Eldhúsið sem allar krásirnar komu úr. Þetta er á háum standard miðað við mörg önnur, sem skarta bæði kakkalökkum og svona einni og einni rottu sem skýst um.


 

Eftir að hafa skoðað seinna þorpið rækilega, gengið þar um stræti og brýr, en þær eru ótalmargar á stórfallegu síki sem hlykkjast þar um, var haldið heim á leið. Klukkan var orðin hálf sjö og aldimmt. Áður en ekið var yfir brúna sem tengir Xiamen við meginlendið, var stoppað smástund.

 Við gengum út og horfðum á Xiamen, þessa borg ljósanna sem lá bara í kyrrðinni, öll uppljómuð og beið eftir okkur. Maður verður bara svolítið sorry að vera á heimleið. Þar með lauk þessari dagsferð með sínum fæðingarhríðum, en það veit sá sem allt veit, að henni hefði ég ekki viljað missa af. Til Xiamen komum við um klukkan níu, ánægð og þreytt.

 Ps. Því miður er ég ekki flinkari en þetta við að setja texta við myndirnar. En hversu sem ég reyni virðist textinn hafa sjálfstæðan vilja og birtist þar sem honum þóknast, jafnvel þó ég sé á fullkomnlega öndverðri skoðun.

046


Ferðin, frh.

Kínapistill frá nóv ´08.

Vegna þess hvað matur, sem er auðvitað mannsins megin, er alltaf ofarlega í huganum, rákumst við inn á veitingastað í þorpinu hinu fyrra. Hann virtist óhrjálegur mjög, sem og allir veitingastaðir á kínversku landsbyggðinni. Okkar var vísað til sætis uppi á lofti, í sérherbergi, sjúskuðu mjög, en slíkt er ákaflega vinsælt í þessu landi, ekki sjúskheitin, heldur prívatið. Maður gæti næstum haldið að landsmönnum fyndist þeir vera að fremja glæp með því að borða, svo spenntir sem þeir eru fyrir að loka sig af í allskyns kytrum á meðan á þeirri athöfn stendur.

Öll vitum við að þessu er þveröfugt farið með Íslendinga, sem fara ekki síður út að borða til að sjá mann og annan, en að snæða. En kínverska athöfnin, koma, borða, fara, lætur ekki að sér hæða, því hér sjá menn ekkert annað fyrir sér, en að snæða í friði og hlaupa svo heim, ótruflaðir af umhverfinu.

Trufluð eða ótrufluð og algerlega kompanílaus, í þessari litlu skonsu uppi á lofti, fengum við til að byrja með algerlega ómótstæðilega góða fiskisúpu, og síðan hvern réttinn á fætur öðrum og skal ekki dæmt um hér hver var bestur, því allir voru þeir mjög góðir, fimm eða sex talsins og viti menn, þegar upp var staðið virtist þessi umræddi matsalur ótrúlega vistlegur. Svona virkar þetta bara þegar maturinn er góður og viðmót eigendanna ásamt stoltinu, sem ég er alltaf að tala um, er til staðar, þá breytist lítill hádegisverður í sjúskuðu veitingahúsi í stórveislu, öllum til ánægju.

Með þessu drukkum við bjór, fimm stórar flöskur. Allaf er ég jafnheppin, því ég ákvað af mínu einstaka örlæti að greiða reikninginn, en hann hljóðaði upp á 75 yuan, eða 1400 kr eftir að gengið gagnvart ísl. krónu hefur hækkað um 120%. Alltaf jafnheppin ég!

Í þessum bæ, utan þorpsmúranna, er stór útimarkaður sem selur allt milli himins og jarðar, eða allavega það sem bæjarbúa vantar, eða þeir vilja koma á framfæri til annarra, en það er jú þeirra himinn og jörð. Þarna kennir ýmissa undarlergra grasa, allt frá sólderum með rafknúinni viftu til að kæla ennið, niður í allsvakalega stórar rottugildrur, matvæli af öllum toga og svo fatnaði. Þetta er meiriháttar litríkt og skemmtilegt, eins og allir vita sem sótt hafa slíka markaði erlendis.

Ég lét freistast og keypti svona sólder handa Sindra Hrafni, mér fannst það passa svo vel fyrir aldurinn. Hann varð alsæll og skellti því á sig, en viftan var svo sterk að það drundi í höfðinu. Þrátt fyrir góðan vilja og mikla hrifningu reif hann það af sér eftir ca. hálftíma. Því vona ég svo sannarlega að það sé ekki þessari velhugsuðu hönnun og góðvilja ömmunnar, sem hreifst af tækniundrinu, að kenna að hann með er hita í dag.

Ég vænti þess bara að svona stórvísindalegar uppgötvanir landsbyggðarmanna í Kína séu ekki stórhættulegar aðstandendum þeirra sem falla fyrir þeim. En grínlaust, var þetta óvenjulega skrautlegt og skemmtilegt.

Í seinna þorpinu þeirra fornaldarmongóla var mikið af allskyns afurðum úr jurtaríkinu, enda hæg heimatökin. Ég kann ekki að nefna nema smáhluta af því sem á boðstólum var, endalausar tegundir af nýþurrkuðu telaufi, þurrkuðum berjum og kjörnum af allskyns runnum. Bar þar hæst rósablöð, sem eru heimsþekkt fyrir gæði og seld þurrkuð og mulin víða um heim, notuð í heilsute, enda nærri hreint C vitamín.

John gaf mér stóran poka af þeim þurrkuðu til að taka með heim í íslenska veturinn, ásamt öðrum af þeim nýjum. Ég ætla ekket að orðlengja hvernig þau eru á bragðið - bara guðdómleg! Þessi fersku ætla ég að kýla í okkur fyrir brottför, enda stór og þung, en þau þurrkuðu fara sko aldeilis með til Íslands, jafnvel þó maður þurfi að henda svo sem einum nærbuxum eða svo út úr farangrinum.

Jæja, ég er eins og mín er von og vísa, farin að gægjast allverulega út fyrir efnið, þess vegna held ég bara áfram að segja frá þessari eftirminnilegu för okkar í næsta pistli.

Lifið heil og sæl, jafnvel þó ég sé hætt að sinni! 


 IMG_0035

Blessaðar skepnurnar lágu þarna í leibrúnu vatninu,  og reyndu að kæla sig. Hitinn var einhversstaðar rétt undir 40° á celsius.


Ferðalag

P6060882

Kínapistill, nóv. ´08.

Ferðinni sem loksins var farin lauk í gær. Það er dálítið erfitt að lýsa henni, því svo lærdómsrík og falleg var hún, að það gleymist seint eða aldrei. John og Zhong Yu, eða Phoebie sem er enska nafnið hennar, sóttu okkur um tíuleytið, og héldum við sem leið lá yfir á meginlandið og til suðvesturs. Veðrið var fullkomið, u.þ.b. 20° hiti og blæjalogn.

Ekið var í gegnum eitt frjósamasta héraðið í Kína sem er suðurhluti Fujianfylkis. Útsýnið endalausir grónir grænmetis og kryddjurta akrar, ásamt ávaxtatrjám af öllum toga, og yrði manni litið upp frá dýrðinni, blöstu tefjöllin við í fjarlægð, háreist og undrafögur. Frjósemin minnti mig á Andalúsíu, en að öðru leyti eru þetta gjörólíkir heimar. Kína hefur þessa ótrúlegu dulúð sem ríkir yfir landslaginu og má vel sjá í kínverskri málaralist. Mér hefur alltaf þótt hún ævintýralega yfirdrifin, en svona eru hlutirnir bara raunverulega, í þessu einkennilega dulúðuga landi.

Fyrsti áfangastaðurinn, eftir 2ja klst. akstur, var smábær, á kínverska vísu, nokkuð stór á okkar, en inni í honum er ævagamalt þorp, byggt af Mongólskum flóttamönnum, heilum ættbálki, Jong ættbálknum, fyrir u.þ.b. 300 árum síðan. Þeir tóku sig upp undan árásum Kínverja, byggðu múra og voru á varðbergi gagnvart óvininum, sem var allt um kring. Að vísu er mér gjörsamlega óskiljanlegt hvernig þeir komust upp með þetta, en það er önnur saga.

Þorpið sem er orðið 300 ára er þarna ennþá í upprunalegri mynd, en farið að láta allverulega á sjá vegna fátæktar íbúanna. Þetta virðist þó ekki trufla þá mjög, því þeir eru glaðlyndir, allstaðar bros á vör, gestrisnir með afbrigðum, og ganga til vinnu sinnar með þessu stolti sem virðist einkenna svo mjög hinn vinnandi mann í þessu landi, og því meir sem hann er fátækari.

Frá þessum stað lá leiðin að öðru þorpi, en þangað komu forfeður fyrri þorpsbúa einum 600 árum áður frá Mongolíu, þegar þeir sáu sér ekki lífsvon vegna stanslausra hernaðaraðgerða nágranna sinna í suðri, og ferðuðust suður fyrir þá langar og efriðar vegalengdir. Höfðingjar ættbálksins, létu reisa þorpið í fallegri hlíð með ótrúlegu útsýni yfir, mér liggur við að segja guðs ríki á jörð. Allt var þetta mjög ríkmannlegt á þeirra tíma vísu, og þarna tókst þeim að leynast í Kínaveldi, í einangrun allan þennan tíma, þar til þeir neyddust til að færa sig um set.

Þess ber að geta að á þessum tíma höfðu Mongólar sótt allhart að Kínverjum. Þegar þeir sneru vörn í sókn, neyddust Mongólarnir til að flýja og byggja þorpið, það fyrra, en það mun hafa verið í kringum árið 1100. Þar lifðu þeir að mestu í friði í þessi 600 ár, áður en þeir fluttu sig um set og létu fara minna fyrir sér.

Afkomendurnir búa enn þann dag í dag, í báðum þessum þorpum, og hefur fólkið verið svo einangrað fram að þessu, að það talar ennþá eldgamla mongólsku, sem er svo sem ekki undarlegt, því fólkið, utan múranna, í þessum bæ talar ennþá sína upprunalegu kínversku mállýsku, og þess vegna m.a. gengur þeim báðum mjög erfiðlega að skilja samlanda sína sem tala mandarín eða eitthvað af stærri málunum.
Annars er þetta með talmálið hérna hinn mesti hrærigrautur sem er ekkert undarlegt , sé tekið mið af því að það eru um 50 – 70.000 mállýskur í Kína, að mér er sagt. Þess vegna ferðast þú ekkert um þetta land og skilur alla, þó svo þú hafir lært ríkismálið. Það er bara talað af svo örfáum, miðað við allan mannfjöldann hérna. En eitt heldur þessu þó saman, sem er ritmálið, eða táknmálið, því það er bara eitt og það skilja allir, séu þeir á annað borð læsir.

Eitt er sammerkt með öllum Kínverjum, hvar sem þú kemur, að þú sérð hvergi útréttar betlihendur og ert ekki hundeltur af fólki sem vill hafa af þér fé. Að vísu eru betlarar í borgunum, en þeir sjást ekki nema endrum og eins. Þetta er yfirleitt mjög fatlað fólk sem situr þögult og bíður eftir að einhver setji í baukinn þess. Sölumenn geta verið allaðgangsharðir, en ekki fyrr en þú hefur gefið þig að þeim. Þess vegna er svo afslappað gott að ferðast um og dvelja í landinu þar sem þjófar og allskyns hyski fyrirfinnst varla, en fólkið vinnusamt og alúðlegt með afbrigðum.

Læt þessu lokið í dag, en held áfram næst. Góðar stundir ykkur öllum til handa!


Yfirlit yfir íslenska myndlist

Ég óska Forlaginu og Listasafni Íslands til hamingju með það afrek að gefa út Íslenska Listasögu. Að fá svona vandaða útgáfu með ríku myndefni, ásamt því auðvitað að hafa á einum stað aðgang að allri myndlistarlistarsögu landsins, alveg til dagsins í dag, er ekkert annað en stórkostlegt.
mbl.is Listasaga kemur út í fimm bindum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stutt ferð til Oslo

DSC00034 Gosbrunnur í miðborg Oslo

Ég virðist vera alger veðurfarsleg óheillakráka fyrir Norðmenn. Þegar ég kom þangað fyrir rúml. þrem mánuðum, byrjaði að rigna eftir nokkuð langan kafla með sól og blíðu, og sú rigning var með afbrigðum hressileg. Síðan rigndi í allt sumar, þar til u.þ.b. viku áður en ég kom þangað aftur, en þá stytti upp og sólin skein í heiði.

Norska þjóðin gladdist að vonum, en sú gleði stóð ekki lengi, því Bergljót mætti aftur á svæðið og það rigndi hressilega allan tímann sem hún dvaldi í landinu, en það voru sex dagar. Það síðasta sem ég heyrði í útvarapinu áður en ég yfirgaf landið, var að þetta sumar væri eitt af þrem verstu rigningarsumrum í 130 ár, eða síðan mælingar hófust.

Þrátt fyrir allan þennan vatnsaustur var þetta einstaklega góð ferð, en þar er margt sem spilar inní. Fyrst skal nefna fermingu Hildar, barnabarnsins míns, en hún var fermd í Holmens kirkju í Asker. Kirkjan er svona sveitalega nútímaleg, úr timbri og vantar allt sem heitir yfirlæti, en fallegt látleysi fær að njóta sín.

Mér fannst gefa athöfninni mikið gildi að Norðmenn eiga og nota þvílík reiðinnar ósköp af þjóðbúningum. Þessir búningar eru allstaðar frá í landinu og sumir hrein listaverk. Þeir eru allir handbróderaðir og flestir mjög fallegir. Ég held að hvert hérað hafi sinn eigin búning og mikið stolt lagt í að hafa þá sem fallegasta.

Vegna þessa skapast alveg sérstök stemmning í kringum þetta alltsaman, en fermingarathöfnin samanstóð af miklum söng og hæfilegu guðsorði, viss léttleiki og gleðistemmning ríkti vegna þessa tilefnis. Það er kannski ekki ætlast til að maður skemmti sér við fermingarathöfn, en það gerði ég vissulega og leið vel með það.

Síðan var dýrðleg fermingarveisla að íslenskum sið, með hnallþórum, brauðterum og jafnvel flatkökum með hangikjöti.

Oslo er alltaf að verða fallegri og nútímalegri og ákaflega gaman að rölta um í rigningunni og njóta. Allskyns útilistaverk eru mjög áberandi og svo eru blómaskeytingar og annar gróður í borginni alveg einstaklega fallegur.

Daginn áður en ég kom þarna var sturtað og breitt úr nokkrum tonnum af einhverskonar rauðamalarvikri fyrir framan konungshöllina, til fegurðar og yndisauka fyrir íbúa borgarinnar, en ég hef það svona létt á tilfinningunni að það sé óveðurskrákunni að kenna að allt flaut af stað í rigningunni, sem minnti helst á Gullfoss eða eitthvað slíkt, og flaut niður á aðalgötuna þeirra, Karl Johann, sem varð eins og rauð froða, og kannski ekki öllum til mikillar ánægju.

Eitt sá ég þarna sem vakti óskipta athygli mína, en það var skreyting á neðanjarðarstöð við Munch safnið. Til að vekja athygli á safninu hafa þeir gert gríðarstorar eftirmyndir af Ópinu á brautarpallinum. Þegar út er komið eru síðan skilti sem vísa fólki styttstu leið að safninu. Þetta finnst mér mikið framfararspor, því ég fór þessa leið einu sinni og fann aldrei safnið. Fyrst fór ég framhjá stoppistöðinni og síðan þegar ég loksins fór út á réttum stað, fann ég aldrei leiðina að safninu.

Oslo er að breytast í stórborg og sveitamennskan sem einkenndi hana áður, er ekki til staðar lengur í miðborginni. En sem betur fer eru öll fallegu timburhúsin þeirra ennþá til staðar um leið og komið er út fyrir hana, og er það vel.

Líklega verður Oslo alltaf í uppáhaldi hjá mér, þó svo að hún sé að verða jafn grimm, eða sumir íbúanna, eins og það versta sem við þekkjum í alþjóðlegu umhverfi okkar.


Ást á ýmsa vegu

Charlie elskar að búa hjá mömmu sinni. Mel C, eða hvað hún nú heitir, elskar að vera allsber og Ítalskur lögregluþjónn fær enga ást frá eiginkonu sinni sem byrjaði bara strax á því að halda framhjá. Þau eru flókin þessu svokölluðu ástarmál fræga fólksins og löggunnar á Ítalíu.InLove
mbl.is Elskar að búa heima hjá mömmu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gáfnaljós eða hvað?

Hefur manneskjan aldrei heyrt talað um svuntur?
mbl.is Elskar að vera allsber
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Slátrari

Hún hegðar sér eins og slátrari í þessu máli. Þráinn skilur líklega manna best hvað er í gangi og nefnir hlutina bara sínu rétta nafni.
mbl.is Þráinn rekinn úr ræðustól
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Göngutúr í Kína 2007

 

 

100_2346100_2370

Við skötuhjúin brugðum okkur í göngutúr í gær, sem oft áður. Að þessu sinni lá leiðin niður í miðbæinn sem er í kringum höfnina. Þetta er ákaflega skemmtileg gönguleið og margt að sjá. Stór hluti leiðarinnar er í gegnum gamalt hverfi og þar eru litlar verslanir á báða bóga. Þessar verslanir eru allar eins og opnir básar út að götunni. Þarna gætir ýmissa grasa og kemur nú upptalning af því helsta, en tekið skal fram að þetta eru allt sérverslanir, hver með sína vöru. Grænmetisbúð, ávaxtabúð og eru þær allmargar. Rusla og flöskumóttökur, þar sem fólk er að flokka ruslið sem er af öllum toga, og þarna er verið að reyna að pranga inn á þig notuðum ljósaperum, gömlum rafmagnssnúrum, notuðum nöglum, spýtnarusli af öllum toga og allskyns öðru góssi. Það sem ekki tekst að selja til baka, er sett í endurvinnslu. 

  

Næst kemur kannski lítill veitingastaður sem selur allskyns dumplings, sem eru æðislega góðir - oftast.  Ein búð með plastfötur og bala, önnur með rúmdýnur og þriðja selur handklæði. Næst kemur síðan píulítið skot, þar sem skósmiður gerir við skóna þína meðan þú bíður, tebúð, stimplabúð, sem býr líka til hvers kyns stimpla eftir pöntun. Svo kemur lítil og umkomulaus saumakona sem saumar listavel á eldgömlu fótstignu saumavélina sína ,en tekið skal fram að langflestar saumakonur, og þær eru margar út um allt, nota handsnúnar vélar. Saumavélar af íslenskum standard þekkjast ekki. Þessar saumakonur, sem hafa enga fasta vinnu, sitja oft með vélina sína fyrir utan litla vefnaðarvöruverslun, þú ferð inn, velur efni og hún saumar – á staðnum.

                                                                Brúðarmynd                                                                    

100_2372

  

Þarna eru alveg endalausar listaverkabúðir, sem selja allskyns myndlist og útskurð, og alveg urmull af  listmálarabúðum, sem selja allt sem til þarf til þeirrar iðju. Þarna fást litir af öllum gerðum, sumir stundum orðnir dálítið harðir – en penslarnir maður minn, þeir eru af öllum stærðum og gerðum úr ekta hári og kosta, afsakið orðbragðið, skít á spýtu. Þarna innan um eru alltaf öðru hverju litlir, eigum við að segja syndastaðir, og held ég að það sé oftast einmenningsútgerð. Stúlkurnar eru eins mismunadi og þær eru margar og standa þær oftast í húsasundinu heima hjá sér, sem er alltaf bæði þröngt og skítugt. Raftækja og verkfærabúðir. Búðir sem selja allskyns gúmmíborða, vír og málmplötur. Er nú aðeins fátt upp talið, en fjölbreytnin er ótrúleg.  

Þar sem ég var stödd inni í einni litabúðinni og var í óðaönn að skoða, heyrðist í Oddi,   hann er nú all aðgangsharður þessi. Ég var eitthvað upptekin af sjálfri mér og fylgdist ekkert með framhaldinu, en sá Odd, svona útundan mér, reyna að losna við karlinn sem lét ekki segjast. Þegar ég hafði lokið erindinu héldum við áfram og karlinn elti. Hamaðist hann nú heldur betur við sölumennskuna, þar sem við vorum orðin tvö. Ég reyndi aftur og aftur að reka hann í burtu, með engum árangri. Karl var með poka yfir öxlina, og nú spurði ég minn mann – Hvað er í fj. pokanum. Slanga, sagði hann, rólegur að vanda. Slanga, át ég upp eftir honum og í því dreif karl upp stóra slöngu og veifaði henni framan í okkur. Upphófst síðan þvílíkur orðaflaumur um ágæti vörunnar, að ég held, - að við vorum bara orðlaus.

100_2384100_2389

  

Karlinn hætti ekki þrátt  fyrir að ég setti upp “svipinn”, sem dugar þó oftast og Oddur reyndi margoft að ýta honum burt. Nú var svo komið að ég var farin að hugsa – hvar getum við geymt slönguna! - Guð minn góður hugsaði ég allt í einu, er ég orðin vitlaus – kaupa slöngu. Það var eins og himnafaðirinn hefði heyrt til mín, því allt í einu gafst karlinn upp og gekk burt, alveg rosalega sorry á svipinn. Sektarkennd, það veit ég ekki, en eitthvað fékk mig til að vorkenna honum alveg ógurlega. En fari það í heitasta, maður getur ekki tekið að sér slöngu, sem gæti jafnvel drepið mann, bara af því einhver verður svona rosalega sorry í framan

  Svona er nú upplifunin, að ganga niður í bæ og erum við ekki enn komin nema tæplega hálfa leið. En restin af leiðinni er ekki eins spennandi, bara fínar og dýrar vestrænar búðir og ekkert svona dásamlegt og einstakt mannlíf. - En þar er samt skemmtilegt mannlíf, bara allt öðruvísi.         

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband