Færsluflokkur: Bloggar

Ja hérna hér!

 

100_2108

Misyndismenn eltir uppi frá Selfossi til Hveragerðis, handteknir og settir í gæsluvarðhald fyrir stuld á gaskútum, eftir að hafa gert tilraun til að selja fjóra.

Ok. fínt, en væri nú ekki þessu blessuðu embætti á Selfossi nær að eyða meira gasi í að fangelsa stórglæpaenn og perra, sem ganga lausir innan lögsögu þess?


mbl.is Gaskútaþjófar stöðvaðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Engin sálarkreppa hér

 

Undanfarin vika var einkar viðburðarík og ánægjuleg. Fór í fimm daga ferð til Noregs ásamt tveim systrum mínum að heimsækja þá fjórðu, en hún er búsett þar.

Veðrið var eins og best lætur á Íslandi við svona stórviðburð, alveg grenjandi rigning og slagviðri, enda flæddi allt og einhverjir skaðar hlutust af. Síðasta daginn stytti þó upp með sól og öllu því sem hún getur skartað. Það minnti mig á part úr ljóði Tómasar Guðmundssonar um hana Hönnu litlu. „ Heyrirðu ekki sólskinshafið silfurtært um bæinn falla.“ Þannig vill einnig til, að Tómas samdi þetta ljóð, að mér er sagt, til föðursystur minnar sem hét Hanna. Hún var víst gullfalleg og vinsæl mjög, en lést úr „innanmeini“ aðeins 20 ára gömul, en það er nú önnur saga.

Þennan síðasta dag vorum við boðnar í fjölskyldugrillveislu út á einni af þessum unaðslegu eyjum í Oslóarfirðinum , en þar á fjöskylda systur minnar þrjú hús í þyrpingu, alveg prívat og bara æði.

Elsta systir mín, sem hefur ekki hreyft sig af nokkru viti í hundrað ár, og komin langleiðina í hjólastól að fullu, var hin sprækasta þegar hún var studd niður í bátinn sem flutti okkur út í þessa undraveröld á ca. 10 mín., en það kom örlítið annað hljóð í strokkinn þegar fara skyldi frá borði, það hljóð kom eiginlega í skrokkinn, eða þannig. Hún þorði ekki fyrir sitt litla líf að láta lyfta sér upp úr bátnum og gaf frá sér nokkur angistarvein, sem endaði auðvitað með að henni var bara bannað að láta svona, ekkert múður og bara skutlað upp á bryggjuna eins og fisi.

Þegar við fórum svo tilbaka með bátnum um kvöldið allar rallháfar og kátar, gleymdi mín alveg að æmta og horfði bara í kringum sig með bros á vör og barði ekki lóminn. Guði sé lof ganga valtarar ekki á sjónum, hún hefði skellt sér fyrir einn á nóinu, af tómri hamingju. Það er ábyggilega rosalega ljótt að tala svona um heittelskaða systur sína, en svona er þetta bara.

Þrátt fyrir alla rigninguna tókst mér þó að skoða óperuna þeirra sem stendur á fallegum stað við ströndina. Þetta er glæsileg bygging, þó ekki jafnist hún á við Hörpu, sérstaklega að innan, og skoða nokkur söfn, ásamt því að heimsækja gamalt þorp suður með ströndinni. Hver getur munað nafnið á litlu fallegu norsku sveitaþorpi þegar það rignir svona rosalega. Það sem hafðist út úr þeirri dagsferð var extra góð pizza, innandyra og rigningartaumarnir á rúðunum, innanbíls, gott kompaní og mikill hlátur.

Jæja þá kemur mitt rétta innræti í ljós, ég á nefnilega son, tengdadóttur og tvær yndislegar dætur þeirra þarna líka, sem ég var nærri búina að gleyma að minnast á. Þau hafa búið í Noregi í 16 ár og farnast vel. Ég hef ekki heimsótt þau lengi, en nú var bætt úr því og þau kokkuðu þennan líka fína mat, tóku á móti okkur með kampavíni og jarðarberjum, nýrri norskri, safaríkri uppskeru, jum jumm.

Þau koma oft til Íslands þannig að það eru svo sem engin drottinssvik að gleyma þeim í frásögninni, en það var gott að koma eina kvöldstund og knúsa þau og rabba við.

Heimkoman var nú samt það ánægjulegasta, því á fimmtudaginn var Oddur Björnsson, besti vinur minn og sálufélagi, ásamt því að við eigum víst nálægt heimsmeti í trúlofun, eða ca 28 ár, sæmdur heiðursverðlaunum Grímunnar fyrir framúrskarandi ævistarf í formi sviðslista. Hann hefur samið 22 verk fyrir útvarp sem hafa öll verið flutt og tíu fyrir leikhúsin ásamt því að vera leikhússtjóri á Akureyri um tíma og setja upp svona ca. 10.000 sinnum með áhugaleikhópum víða um land.
Jú hann setti upp Beðið eftir Godot, eftir Samuel Beckett hjá leikfélagi Akureyrar og fór með sýninguna til Írlands á Beckett hátíð í Bantry um árið, við mikinn fögnuð og prís. Fyrir þá uppfærslu hlaut hann menningarverðlaun DV á sínum tíma.

Þessi Beckett sýning var með eindæmum illa sótt á Akureyri og sýningarnar urðu ekki nema þrjár. Þess má þó geta að fullorðin kona sem kom á frumsýninguna, sótti hinar tvær líka og hafði á orði að þetta væri eins og níunda sinfonia Beethovens?? Hún sat ásamt þrem öðrum í salnum á síðustu sýningunni og naut hennar í botn. Þetta er eitt af því eftirminnilegasta og á vissan hátt fallegasta sem Oddur hefur upplifað í leikhúsinu.

 Gagnrýnandi  þarna norðan heiða kunni lítið að meta þetta framlag leikfélagsins og rakkaði sýninguna niður sem mest hún mátti. En þegar þessi sama sýning var fengin á listahátíð í Reykjavík, þustu norðanmenn suður til að upplifa þessa dásemd úr heimaranni, og yrði ég ekki hissa þó gagnrýnandinn hefði verið þar fremstur í flokki, en það er mér þó alls ókunnugt um. Ekki ætla ég að verða til þess að bera upp á listrýninn, að hún hafi séð svona ferlega sýningu aftur, bara af því hún var á Listahátíð  Það er víst alltaf þessi spurning um spámennina og föðurlandið.

En fátt hefur glatt mig eins mikið um dagana og þessi nýfengna viðurkenning Odds. Hann er kominn á efri ár, og löngu tímabært að heiðra hann, að mínu viti. 

 Ég elska þennan gaur, og samgleðst honum, það má alheimur vita. InLove




 


mbl.is „Kreppulög“ á Ingólfstorgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Björgun í hita leiksins?

Kapp er líklega best með smá forsjá og væri e.t.v. ráð, svona í hita leiksins, að telja mennina upp úr sjónum. Það væri sorglegt ef sýning á björgun endaði með dauðaslysi.

Kæruleysi í þessum málum er ekkert grín.


mbl.is Gleymdust í sjó í klukkutíma
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Congress

100_1431

 

 

Sá auglýsingu um aðstoð við ráðstefnuhald hérna á mbl.is og þá rifjaðist upp fyrir mér gömul saga.

Þannig var, að hér var haldin norræn læknaráðstefna á árum áður, stórglæsileg og vel sótt að mér var tjáð.  Fjórir bestu vinir föður míns voru allir læknar og þ.a.l. þáttakendur í ráðstefnunni og a.m.k. tveir þeirra fluttu erindi. Faðir minn sem var skipamiðlari var fenginn til að halda tölu, að ég held um tengsl heilbrigðisstétta og businessmanna, en það er ekki til umfjöllunar hér, heldur þessi saga sem mér er í fersku minni, þó ég hafi vart verið meir en 12 ára þegar hún gerðist.

Ráðstefunni lauk með Gala dinner í Hótel Valhöll á Þingvöllum. Allir áttu að mæta prúðbúnir, konurnar í síðum kjólum og karlarnir í smoking.  Þar sem faðir minn átti sumarbústað við vatnið var ákveðið að bjóða fernum hjónum af sitthverju þjóðerninu, ásamt þessum fjórum vinum foreldra minna og frúm þeirra til coctail drykkju í bústaðnum og sigla svo þaðan í hófið á tveim bátum. Mér er í fersku minni hversu prúðbúið og glæsilegt fólkið var, allt á besta aldri, og virtist svo lífsglatt og kátt.

Þar sem gestirnir voru svona á öðru eða þriðja glasi, sá ég mink skjótast á milli steina í fjöruborðinu og tilkynnti það hástöfum. Það var eins og sprengja hefði fallið í hópinn, því allir stukku upp til handa og fóta að elta dýrið sem hljóp allt hvað það mátti og endaði inni í bátaskúr. Ég stóð á veröndinni við bústaðinn og horfði á eftir öllu liðinu hverfa inn í skúrinn, og þar með var minkurinn króaður af.

Allt í einu heyrðist rosalegt hvæs og í kjölfarið hentist fólkið skrækjandi afturábak út úr skúnum og valt hvert um annað. En það var ekki gefist upp og allir skutust inn aftur til að þjarma að aumingja minknum sem gat ekkert gert annað en að hvæsa aftur, og aftur bakkaði hersingin, en eftir þriðja eða fjórða hvæs gáfust allir upp, enda held ég að enginn hafi vitað hvað hann átti að gera, annað en að verða bara skíthræddur við að láta hvæsa á sig.

Í endurminningunni er þetta eins og fyrsta flokks Fellini mynd. Allir þessir skrautlegu kjólar í sitthvorum litnum, skartgripirnir og svört smókingfötin með harðflibba, þverslaufu og ekki má gleyma lakkskónum, var orðið svo absúrd eftir að sýningin hófst. Einhverjir skóhælar brotnir, ásamt moldarstettum á pilsum jafnt sem buxum. Það var rennblaut möl fyrir utan skúrinn, enda uppsprettur þar undir, þannig að flestir hafa örugglega orðið hressilega blautir í fæturna.

Nú var andlitið aðeins farið að detta af sumum frúnna, en eftir að mestu blettirnir höfðu verið hreinsaðir úr fötunum, skómálum bjargað, nýtt andlit komið á, og svona eins og einn eða tveir kokkteilar til viðbótar komnir í magann var haldið í sjóferðina.

Hún gekk bara nokkuð vel, utan að annar báturinn varð bensínlaus á leiðinni, en varabrúsi var um borð og því ekkert mál að fylla á tankinn. Þegar komið var á grynningarnar við ós Öxarár var einhver snillingur sem reykti í vandræðum með að slökkva í rettunni og losa sig við stubbinn. Hann brá á það ráð að opna tóma bensínbrúsann og henda stubbnum í hann.

Eins og  flestir vita og þarf ekki læknismenntun til, sprakk brúsinn og það kviknaði í bátnum.  Farþegarnir  urðu bara einfaldlega að stökkva í vatnið með kolsvört andlit og skeifu á munninum.  Það var ekki djúpt þarna í ósnum, en ef þú ert í sparifötunum, góðglaður á leið í veislu, er óskastaðan e.t.v. ekki að standa í ísködu Þingvallavatni upp í háls

Nú upphófust skrækir miklir af fimm þjóðernum, en þar sem skrækir eru eins á öllum tungumálum voru engir erfiðleikar með tjáninguna. En þá gerðist hlutur sem ég hef aldrei getað botnað í. Konurnar byrjuðu að rífa af sér skartgripina og alla lausa muni og létu þá gossa í vatnið ásamt minkaslám og allskyns fíneríi sem fólkið klæddist . Ég held að mamma hafi pælt í því til dauðadags hvers vegna.

Blessuðu fólkinu var að lokum  bjargað á land, hríðskjálfandi, flutt á samkomustaðinn, ekki í  veisluna, nei, nei, upp á loft og flestallt háttað ofan í rúm. Þess má geta að vatnið er í mesta lagi 5° heitt.

Daginn eftir voru tveir frændur mínir um tvítugt fengnir til að fara á staðinn og kafa, í leit að týndum munum, og eftirtekjan þar var ekki aldeilis rýr. Skartgripir, fullt af þeim,  örugglega allir ekta, skór í bunkum, kven og karlveski, jafnvel sígarettuveski úr gulli, ásamt einni mikaslá, aðra hafði rekið á fjörur.

Þeir sem lentu í vatninu misstu af ballinu, en hinir skemmtu sér vel. En endurminningin um þetta allt, þ.e. hjá þeim sem lentu í vatninu var víst þannig að þeir höfðu aldrei lent í öðru eins ævintýri og skemmt sér svona vel.

En enginn minntist nokkurntímann á minkinn í skúrnum. Það geri ég afturámóti, því það verða ekki allir áhorfendur að bíómynd a la Fellini, löngu áður en þeir vita að Fellini er til.

 


Mont, ánægja og vorið góða grænt og hlýtt

 

Þetta blessað veður er nú búið að skemmta okkur með skini og skúrum á víxl okkur mörgum til yndis og ánægju, en vonandi ekki fleirum en mér til geðvonsku.

Loksins, loksins, eftir 36 ár komu menn til að leggja almennilegar útidyratröppur hérna að minni eldrauðu útidyrahurð. Ég horfði á þá með ánægjusvip leggja þessar líka fínu granittröppur sem ég lét sníða til eftir máli og tók með frá Kína þegar við komum heim í haust. Þeir hömuðust allan daginn, því auðvitað pössuðu þær ekki, þannig að saga varð allt til, og síðan var undirlagið, 80 eða 90 ára uppslitnar steintröppur, allt skakkt og bjagað.

Þetta eru tengdasynir mínir, báðir ljúfustu menn og þeir unnu þegjandi og hljóðalaust við að sníða þetta allt til þar til það passaði. Aftur og aftur urðu þeir að lyfta þesssum níðþungu hellum og færa milli staða, bera allskyns efni og flot undir endanlega límið, þar til allt passaði.

Það sem hélt þeim gangandi  í lokin var tilhugsunin um stórmáltíð, en dætur mínar tvær voru inni að útbúa endalaus spjót að kínverskum hætti, með öllum réttu kryddunum og hinum ýmsu sósum sem eru alltaf til staðar í Kína, og síðan skyldi grilla allt á pallinum bak við húsið, um leið og þeir væru búnir með verkið.

Klukkan var orðin sjö og þeir voru virkilega farnir að skotra augunum, ekki að, heldur nánast í kringum húshornið, orðnir dauðsvangir og þreyttir, ég sá fram á að verkið myndi líklega ekki klárast þá um kvöldið, og rigningu spáð daginn eftir.  Oft er þörf, en nú var nauðsyn. Ég fór inn, fann til þessi fínu tinstaup hellti í þau Grappa og bar þeim með viðhöfn ásamt Tigerbjór frá Singapore. Kínverskur er ekki seldur hérna. Þeir skelltu þessu í sig og hýrnuðu allir upp, og áfram var haldið.

 Þegar sú gamla sá að þeir voru eitthvað að slappast aftur, var auðvitað hlaupið út með annan skammt og viti menn verkinu lauk kl. átta, og þá byrjaði að rigna. Það var allt í lagi, því tröppurnar voru komnar á sinn stað. Þá sá sú sem öllu ræður á heimilinu um að bera þeim einn verðlauna Grappa um leið og þeir settust niður á pallinum eftir dagsverkið , en það verður að segjast eins og er að líklega var það vegna þess að hana langaði bara í sjálfa.

Rigningin hafði engin áhrif á grillveisluna, sem var æðisleg og maturinn meiriháttar, því veröndin er með þaki að hluta. Ég fór södd, sæl og rallhálf í rúmið upp úr miðnætti, tröppurnar á sínum stað og allt í sómanum.

Þegar stytti upp tveim dögum seinna  fúgaði ég á milli en það er mín sérgrein úr Mosaikinu . Þær eru orðnar svo fínar að það er álitamál hvort ég tími að nota þær.

 Þegar sólin fór að skína aftur tók við málningar og viðgerðarvinna hér og þar á húsinu, og þá vann ég það AFREK að smíða hálfa svalahurð. Ég ætlaði að skafa og mála hana en hún er staðsett undir rennu sem er beint fyrir ofan. Rennan sú fylltist af laufi, líklega fyrir einhverjum árum, þannig að vatnið af þakinu hefur svettst á hurðina í öllum rigningum meðan enginn ath. að losa hana . Því fór sem fór, þegar ég beitti minni alkunnu verksnilld að henni, að það kom bara gat, þó er hún tvöföld með panel beggja vegna. Snillingurinn ég sagaði bara allt draslið burt og smíðaði að mestu nýjan neðrihluta, setti ný panelspjöld og gekk frá öllu. Rétt áðan fór síðan fyrsta umferð af málningu á hana, eldrauð, eins og á aðalhurðinni (líklega er ég bara svona mikill kommi). InLove

Hann Siggi dóttursonur minn sem er snillingur í að mála, er að hjálpa mér við að gera allt hreint og snyrtilegt sem þarf að mála, svo sem handrið, húsgrunninn og dekkið á veröndinni. Annar ungur maður sem er líklega ömmu tengdasonur, eða eitthvað svoleiðis, málaði alla glugga og gerði rosa fínt í fyrra áður en við komum heim.

Þegar ég keypti húsið fyrir 36 árum og gerði það allt upp, var fólk eitthvað að tala um að timburhús þyrftu svo mikið viðhald að ég myndi fljótlega gefast upp á því. Það er engin uppgjöf í sjónmáli, en þetta eru bara vorverkin. Maður yrði fljótt leiður á að horfa bara á einhverja eign og þurfa aldrei að lyfta hendi til neins.

Þar til ég byrjaði á að vera stóran hluta ársins í Kína var þetta ekkert mál, en þrátt fyrir ýmsa krankleika sem fylgja því að vera orðinn sjötugur, og geta alveg þegið hjálp, skal ég ekki gefast upp á meðan einhver nennir að halda í stigana hjá þeirri gömlu og styðja hana síðan í hjólastólinn. Undecided

Alveg harðákveðin í að drepa alla úr leiðindum með frekari frásögnum af drykkjuskap, fúatimbri  og fleiru sem til fellur á næstunni.

Lifið heil!.

 


Lýst eftir 15 ára stúlku

Ég er alveg steinhætt að botna í samlandanum. Lýst er eftir stúlku, sem er aðeins barn að aldri 15 ára, og strax byrjar fólk að lýsa því yfir á facebookaðað  því líki þetta , eða alls 572 núna þegar ég skrifa þetta. Er ekki allt í lagi með fólk?
mbl.is Lýst eftir 15 ára stúlku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tiltekt í neðra?

Það svona létthvarflar að manni að sá Lljóti sjáfur hafi í tilefni heimsendisspárinnar ákveðið að taka til og stækka hjá sér í neðra. Það er jú góður slatti af fólki búinn að tryggja sér örugga vist þar, en ekki eins víst um pláss ef allir hefðu mætt í einu.Devil  !
mbl.is 2198 eldingar á klukkustund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimur stækkandi fer

 

Það hefur dunið í eyrum manns undanfarin ár að heimurinn væri alltaf að minnka. Ástæðurnar eru auðvitað auðveldari samgöngur, tölvunotkun og internetið, sem gerir það að verkum að þú getur verið í stöðugum samskiptum við fjarlæagar heimsálfur, jafnt og nágranna þinn í næsta húsi. Ekkert virðist ómögulegt.

Þess vegna brá mér heldur í brún þar sem ég sat við kvöldverðarborðið og heyrði Icelandair auglýsingu, sem fullyrti að heimurinn væri alltaf að stækka. Þar sem ég veit að heimurinn er engin harmonikka sem dregst sundur og saman, datt mér í hug að þetta gæti e.t.v. verið eitthvað „smart trikk“ til að verða ofaná í umræðunni um mögulegan heimsendi, sem gæfi félaginu virkilega Framsóknarlegt  já, já, nei,nei  tækifæri til að finnast þeir alltaf hafa rétt fyrir sér.

Það eina sem virðist þó minna á mögulegan heimsendi og útþenslu jarðarinnar er gosið í Grímsvötnum, sem við vonum bara að verði minni háttar og trufli ekki allar flugsamgöngur þeirra og annarra um norðurhvel jarðar.

Vona einnig að Icelandair verði ekki fyrir miklum vonbrigðum, hvernig sem fer, en auðvitað verður enginn til frásagnar ef heimurinn stækkar svo mikið að hann springur.

 


Skítapakk!

Ég endurtek, skítapakk!!!


mbl.is 23 sænskar konur ákærðar fyrir barnaklám
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sumar á næsta leiti

 

Jæja, þá sannast hið fornkveðna einu sinni enn, að sumarið kemur að öllum jafnaði ekki fyrr en í júní, sama hvað okkur finnst um það, og þannig verður það líklega um ókomna tíð. Vorið kemur og blekkir okkur með góðu veðri í nokkra daga, en áður en hendi er veifað skellir það bara á okkur kalsa og hreti þegar síst varir - og mun líklega halda því áfram svo lengi sem elstu menn munu tóra. (Þetta með elstu mennina og auðvitað konurnar líka, finnst mér svo gáfulegt að ég mátti til með að skella því þarna).

En fátt er svo með öllu illt, því nú eigum við bara gott í vændum, þegar sumarið brestur á með öllu sínu dirrindíi.

Skellti mér í útiverkin í garðinum, eftir að tveir ungir menn komu og rökuðu allt laufið eftir veturinn. Nú byrjar uppáhalds vinnnan mín, að slá grasið. Ég held ég viti fátt jafn leiðinlegt. Síðan tekur við málningarvinna og allskyns dútl, þangað til kemur að því að slá aftur. En ég held nú samt að inn við beinið og að velhugsuðu máli, að mér sé ekki eins leitt og ég læt með sláttuvélina, en stundum tekur þó allt of langan tíma að koma sér í gang með hana.

Nú er Listahátíð á næstu grösum og margt spennandi framundan. Keypti miða Faust þeirra Vesturports snillinga og mikið hlakka ég til. Þá bíða mín miðar á 4. sinfoníu Mahlers í Hörpu daginn eftir.

Sýningunni minni í Iðusalnum lýkur þann 25.þm. og ekki get ég kvartað undan aðsókn eða undirtektum. Ætla að vera við á sýningunni á laugardag og sunnudag, þ.e. núna um helgina. Ef einhverjir sem þetta lesa hafa áhuga á að koma eru þeir hinir sömu velkomnir og ég mun taka vel á móti þeim.

Vona að veðrið verði Listahátíðargestum, svo og þeim sem ætla að skemmta okkur utandyra, hagstætt t.d. spænsku loftfimleikadönsurunum, sem ég hlakka mikið til að sjá, ásamt öllum hinum sem koma til með að gleðja geð okkar borgarbúa, sem og aðra gesti hátíðarinnar, innlenda og erlenda.

Menningin á eftir að setja sitt mark á þessa daga, flestum til ánægju, en fýlupúkarnir sem væla undan öllu verða örugglega í miklum minnihluta.




« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband