Færsluflokkur: Bloggar

Ástæða til að vakta svæðið

Katla

Jæja og hvað nú?


mbl.is Ástæða til að vakta svæðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undanfari einhvers?

569920[1]

Það er til lítills að byggja varanlega brú yfir Múlahvísl, ef sú gamla, Katla, ætlar í gang. Hún er búin að sitja á sér síðan hún gaus 1918 þangað til nú. Búist hefur verið við gosi síðan 1968, enda oftast gosið á u.þ.b. 50 ára fresti.

Hjálpi okkur allir heilagir þegar það gerist. Lansmenn verða að snúa bökum saman og jafnvel ferðaþjónustan verður að hætta að væla. Auðvitað hefur ferðaþjónustan gert margt vel, þrátt fyrir að hafa gengið fram af allmörgum hingað til. Vil taka afram að ég er að tala um Samtök ferðaþjónustu, en ekki ferðaþjónustu bænda.

Mér er enginn hlátur eða ábyrgðarleysi í hug, til þess er tilhugsunin of skelfileg.


mbl.is Jarðskjálfti í Mýrdalsjökli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Smáfrí í London

 

Brugðum okkur til London sl. mánudag til að vera við útskrift Heru Hilmarsdóttur barnabarns, en hún útskrifast á morgun frá Lamda leiklistarskólanum hér í borg. Að vísu er stúlkan sú flogin til Ungverjalands til að leika í nýrri þáttaröð sem BBC er að gera og allt í kring um hana verða þekktir leikarar, en við náðum bara lokasýninguna af skólaverkefnunum, vegna anna Heru,en þú lætur ekki BBC með stórt hlutverk í boði bíða eftir þér.. Skólasýningin verður að duga okkur að sinni því BBC gat ekki beðið, og við eigum því í raun og veru ekkert erindi á útskriftina sjálfa.

Veðrið er alveg í lagi, þó fullkalt sé fyrir heitfenga Íslendinga. Við höfum gengið mikið og skoðað margt, fengið gott að borða, ásamt því að setjast aðeins inn á pöbbana sem er jú eins og smá afthöfn, ef maður kann að meta þá.

Um helgina förum við í leikhús á söngleikinn Ghost, sem er nýr af nálinni og sagður mjög góður. Það verður spennandi. Þá hemur annað barnabarn til sögunnar, en það er hún Brynja Eiríksdóttir sem kemur með lest fá Reading, en þar stundar hún Au pair- mennsku í sumar. Hún ætlar að gista hjá okkur fram á sunnudag, en þá um kvöldið fljúgum við svo heim.

 


Brosleit ferðaþjónusta?

Mikið er þetta látlausa væl í ferðaþjonustunni hvimleitt. Það er eins og þeir haldi að vegagerðin stjórni eldgosum og öðrum náttúruhamförum í landinu. Hvernig væri nú að þeir tækju á sig rögg einu sinni og björguðu málunum sjálfir, án þess að vera með stanslausar óframkvæmanlegar kröfur á aðra.

Hvernig væri að láta hendur standa fram úr ermum, finna bara nýja staði og leiðir fyrir ferðamennina á meðan þetta varir, og gera ferðina að skemmtilegri óvissuferð. Ég hef ekki trú á að fólk bregðist illa við ef tekið er á móti því með brosi og röskleika, í stað þess að allir séu með skeifu á munninum, yfir því að eitthvað fór úrskeiðis.

Býr þessi blessuð ferðaþjónusta ekki yfir neinu sem heitir plan B. Hrynur bara allt ef eitthvað kemur uppá?

Útlendingarnir vita vel hvað hefur gerst og þeir vita líka að enginn mannlegur máttur byggir brú á tveim til þrem dögum.


mbl.is Neyðarástand í ferðaþjónustu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Velviljuð heyrúlla

 

 569990[1]

 

Mér finnst þetta ekkert nema falleg saga af vel meinandi heyrúllu sem vildi gera húsbónda sínum, bóndanum, þann greiða að þurfa ekki alltaf að vera að bera hey í fjósið. Bændur hafa ýmislegt annað við tímann að gera, t.d. að stoppa í gatið sem svona rúllur skilja eftir.


mbl.is Heyrúlla braut sér leið inn í fjós
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Æi - Össur minn!

Það þyrfti kraftaverk til að þeir hlustuðu, hvað þá hlýddu. Það er eflaust vel meint, en gjörsamlega gagnslaust að krefjast einhvers þarna.
mbl.is Gagnrýnir herkví
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gaman hjá forsetanum

569270[1]

 

Loksins gekk hann út blessaður prinsinn þeirra í Monaco. Að vísu held ég ekki að neinn hafi áhuga á því nema kóngar og drottningar, prinsar, prinsessur, Morgunblaðið og auðvitað Ólafur og Dorrit.


mbl.is Kirkjubrúðkaupið var í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinarminning

Picture_0080

Í dag verður borinn til grafar á Bíldudal, vinur okkar Odds, Hafliði Magnússon. Mér  er dálítið erfitt að skilgreina atvinnu hans, því hann var bókstaflega allt. Sjómaður á fyrri árum, síðan rithöfundur sem samdi nokkrar skáldsögur og leikrit, einhver flinkasti flakari sem um getur, lagasmiður, textahöfundur og lífskúnstner par exellence.

Fundum okkar bar fyrst saman þegar Oddur minn kæri,  var fenginn til að setja upp leikritið Fjársjóð Franklins greifa á Bíldudal, en það var einmitt eftir Hafliða. Skáldið bjó eitt og þar af leiðandi hefur stjórnendum Leikfélagsins Baldurs þótt alveg gráupplagt að finna Oddi bústað hjá því.

Hafliði var í vinnu þegar Odd bar að garði, þannig að hann gekk bara inn og fékk sér sæti og beið húsráðanda. Allt í einu birtist hávaxinn maður með stóran Mexicanahatt í dyrunum og blimskakkaði augunum á Odd, eða þannig lýsti hann því, gekk að honum, og hringinn í kring, og athugaði vandlega. Að því loknu heilsuðust þeir, og þarna byrjaði vináttan.

Þegar ég kom í heimsókn til míns manns nokkru seinna brá mér allverulega, því Hafliði var greinilega engin  tuskukerling. Hans fallega heimili bar ekki vott um að hafa verið í neinu sérstöku þrifauppáhaldi hjá þessum tilvonandi vini mínum. Hann hafði verið fráskilinn allengi og einhvernveginn hafði allt sokkið niður á óhreina planið, líklega án þess að hann tæki eftir því.

Ég safnaði kjarki daginn eftir að ég kom, þreif allhressilega og þvoði gluggana sem mest ég mátti, enda vissi ég af stórkostlegu útsýni fyrir utan, og viti menn það birtist, og það birti líka í stofunni. Ég beið hálfsmeik eftir að húsráðandi birtist, í óvissu um hvernig hann brygðist við þessari framhleypni minni. Áhyggjurnar voru óþarfar því Hafliði ljómaði upp og var yfir sig hrifinn af framkvæmdinni.

Ekki var eldamennskan hjá vini mínum margflókin, einn pottur með fiski og annar af hafragraut stóð á eldavélinni og beið þess að bætt væri út í daglega.

Ég hafði tekið með mér nautalund að sunnan til að gefa þeim félögum til hátíðabrigða, lagði á borð og byrjaði að steikja eina steik á mann, þegar Hafliði stakk skyndilega gaffli í stærsta stykkið,  áður en ég gat stöðvað hann, tuggði  með hraði og sporðrenndi steikinni. Ég stóð orðlaus og hugsaði eflaust ýmislegt, en þá sagði hann,  ég hef aldrei á ævi minni borðað svona góðar kjötbollur. Að vísu var vinurinn dálítið spældur að það voru ekki fleiri kjötbollur til skiptanna og hann fékk bara kartöflur og kál í matinn.

Þegar frá leið reyndist Hafliði okkur hinn besti vinur og honum fylgdu endalausar ánægjustundir  oft í sambandi við Leikfélagið, hann samdi bragi okkur til handa og þar var ekkert leirbull á ferðinni.

Hafliði var í innsta eðli mjög rómantískur maður, og sú rómantík fann sér útrás þegar hann  kynntist   konu sinni Evu, sem nú sér á eftir manni sínum. Eva er mesta sómakona, var fljót að koma sínum manni í samband við eðlilegt heimilishreinlæti, sem hann hafði eins og áður sagði, eiginlega gleymt, og hefur verið honum góður og dyggur lífsförunautur. Þau fluttust til Selfoss og hafa búið þar undanfarin ár.

Hafliða er saknað og honum þakka ég öll uppátækin og skemmtilegheitin, en fyrst og fremst  þakka ég vináttuna.

 



 


Húsin í Miðbænum

 

blómin í stofunni

 

Það gleður augað að sjá borgina okkar verða smám saman fallegri þegar gömul hús eru gerð upp, og sett í því sem næst upprunalegt horf. Fátt er leiðinlegra ásýndar en illa farnar byggingar þar sem viðhaldi  hefur ekki verið sinnt árum saman.

Miðbær Reykjavíkur, svo sem Þingholtsstræti, Njáls- og Grettisgata eru óðum að taka á sig nýja mynd snyrtimennsku og augnayndis fyrir vegfarendur ásamt Laugavegi og Austurstræti. Svo eru allar litlu göturnar í Þingholtunum sem bera húseigendum gott vitni.

 Við Lækjargötu, vantar bara herslumuninn sem liggur að mestu í málningar og ýmissi dútlvinnu ásamt því að fjarlægja gamla Iðnaðarbankann, sem hefur alltaf verið hornreka og mætti hverfa "med det samme".


mbl.is Líf færist í húsin á ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Smá hugleiðing um blogg

 

 IMG_0047

 

Einn ágætis bloggari hér á Moggablogginu talar oft um eitthvað sem hann kallar dómstól götunnar og fjölmiðla. Þar fer hann stórum, alveg steinhissa á landslýð, hversu óréttlátur og fljótfær hann sé í sleggjudómum sínum um náungann.

Þetta væri allra góðra gjalda vert, ef þessi sami bloggari væri ekki einn alharðasti sleggjudómafíkill bloggheima,  þegar ríkisstjórnin og skjólstæðingar hennar eiga í hlut. Þá virðast allar leiðir færar og ekki hvarflar að honum að á neinn sé hallað með fljótfærni og óréttlæti.

Víst eru sleggjudómar leiðinlegt fyrirbrigði, en þeir virðast  þó oft tilbúnir af bloggurum og klínt á þá  sem eru ósammála þeim sem skrifar hverju sinni, og eru  oftar en ekki á öndverðri stjórnmálaskoðun.

Lýðræðið, sem allir geta verið sammála um að enginn vill glata, leyfir skoðana og málfrelsi okkur til handa, en auðvitað er affarsælast að hafa aðgát í nærveru sálar, þ.e. ef sú sál á það skilið. Þar kemur að því sem kallað er varkárni og ekki síður almenn kurteisi. Oftast er nokkuð auðvelt að gera greinarmun á venjulegu fólki og drullusokkum og er ég þá að tala um hvað mér finnst hver eiga skilið, en látum fólk lesa meiningu okkar, án þess að setja okkur á þeirra plan.

Fátt er leiðinlegra en skítkast og dónaskapur sá sem oft er gusað yfir fólk af hinum og þessum, sem virðast ekki hafa fengið almennilegt uppeldi og því varla til að taka mark á, því það fólk kæfir sjálft sig í svívirðingum og ljótu orðbragði.

Að virða skoðanir annarra er líka keppikefli að mínu mati. Á ég þá ekki við að vera sammála, heldur að leyfa öðrum að hafa þær, en geta lagt sitt til málanna sértu ekki sammála.

Að vera ruddalegur, til að ná athygli segir ekkert annað um gerandann en að hann skortir oft illilega sjálfsrýni og sjálfstraust. Mér hálfbrá þegar ég sá einn af þeim forhertustu svara bloggi frá  mér af skynsemi og áhuga fyrir efninu í stað þess að rjúka upp með svívirðingum eins og honumog öðrum sem ekki skrifa undir nafni er annars svo tamt. Þetta gladdi mig mjög svo.

Ég er ekkert saklaus af allskyns fullyrðingum og jafnvel sleggjudómum, en svo lengi lærir sem lifir.

Að deila hart er ekkert nema skemmtileg íþrótt og mættu margir taka það til sín. Slíkt  myndi oft  lyfta Moggablogginu á hærra plan væri það gert án grófra persónulegra svívirðinga og skítkasts.

Eitt virðist líka algert "tabú", en það er að biðjast afsökunnar á því sem skrifað hefur verið og of langt gengið. Það virðist vera einhver lenska að álíta það aumingjaskap eða þaðan af verra. Hver sá sem kann að biðjast afsökunnar er miklu meiri manneskja að mínu viti.

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband