Færsluflokkur: Bloggar
5.8.2011 | 09:45
Kínadvöl
Verksmiðjuframleiddur Mao ásamt öðrum dýrðlingum á framleiðslustað
Margir hafa beðið mig að endurtaka, eða bæta við, pistlum um dvöl mína í Kína, sem lauk í lok sl. árs. Ég er að hugsa um að skjóta þeim hér inn á milli og jafnvel að bæta nokkrum nýjum inn.
Ég var spurð hérna á blogginu "Hvernig er að vera í Kína?". Einfaldasta svarið er fínt. En eins og allir hljóta að sjá er það ekkert svar í sjálfu sér. Eftir rúmlega fjögurra ára dvöl í landinu, með smá hléum, myndi ég segja stórkostlegt, en bæta þó við, oftast. Þetta er ægifagurt og gríðarstórt alltsaman og fólkið yfirleitt með afbrigðum vingjarnlegt.
Til að byrja með hafði maður ekki við að verða hissa, hissa á fátæktinni og fallegu stolti hinna fátæku og síðan á ríkidæminu sem virðist ekki eiga sér nein takmörk. Þar varð ég lítið vör við stolt, aðallega frekju og yfirgang. Mest var ég þó þó hissa á að sjá harðan kommúnisma rekinn samhliða jafn gallhörðum kapitalisma, þarna leiddust þeir hönd í hönd "ismarnir" eins og ástfangið par.
Talandi um fallegt stolt hinna fátæku, sem hafa aldrei verið annað en fátækir, og nægjusömu, varð mér oft starsýnt á fólk við vinnu. Það skipti engu máli hversu erfið vinnan var líkamlega, það skein oftast úr andlitunum hér er ég og ég hef vinnu. Þeir sem hafa komist í álnir hafa ekki þetta fallega yfirbragð að öllu jöfnu. En þarna fastklemmt einhversstaðar á milli er hellingur að fólki sem vill komast í hóp hinna ríku og vílar ekki hlutina fyrir sér, treður á öllu og öllum og er óheiðarlegt með afbrigðum. Þetta fólk minnir mann á einhverskonar sníkjudýr.
Hinir snauðu eru ekki allir af bestu sort heldur, þarna mátti sjá börn og unglinga sem höfðu verið lemstruð á fótum þannig að vonlaust var að þau gætu gengið aftur, síðan send út af foreldrunum á trébrettum til að betla, og þar með orðin fyrirvinna fjölskyldunnar. Mér var sagt að þeim væri talin trú um að þetta væri stórt hlutskipti og þeim einum ætlað. Í dag sést þetta ekki lengur sem betur fer, en hvað hefur orðið um þessi börn veit ég ekki, þau bara hreinlega hurfu. Afturámóti er ennþá töluvert af fólki með lítil börn sem er alla daga betlandi. Þessi börn eru alltaf sofandi, en guð einn veit hvernig þau eru á sig komin þegar þau vakna, ef það er þá einhverntímann.
Ég bjó lengst af í borginni Xiamen, sem er stór og nútímaleg hafnarborg, höfnin ein sú stærsta í Kína. Íbúatalan er einhversstaðar á bilinu 3 til 5 milljónir að sögn, en nú er manntal í gangi, þannig að það kemst fljótlega á hreint. Xiamen er að stærstum hluta á eyju hæðóttri og skógi vaxinni að hluta. Að norðanverðu er höfnin sem teygir sig tugi kílómetra meðfram ströndinni, en að sunnan og austan er strönd sem teygir sig tandurhrein og hvít svo langt sem augað eygir.
Borgin er nútímaleg mjög, enda ásetningur stjórnenda að gera hana að einni stærstu viðskiptaborg Kína. Þarna rís hver glerhöllin á fætur annarri, allar um 30 til 50 hæðir. Innan um hallirnar eru víða gömul hverfi, en þeim fer óðum fækkandi vegna þessa byggingaræðis, þó svo flest af nýju húsunum standi auð ennþá. En þeir hafa biðlund, og peninga til að hafa efni á henni, þarna austurfrá og vita sem er, að þetta á allt eftir að fyllast.
Verst finnst mér þó, að þeir hafa engan sans fyrir að halda í neitt af fortíðinni og rífa bara allt sem fyrir verður. Hús sem einu sinni hafa greinilega verið undurfögur, í mjög sérstæðum kínverskum stíl, eru bara látin gossa eins og ekkert sé, enda þekkist ekki viðhald húsa og allt látið drabbast niður, ekkert skal skilið eftir sem minnir á fortíðina, ekki smáskiki.
En borgin er bæði falleg og heillandi og mikið um stóra almenningsgarða, sem fólk notar sér óspart. Morgunleikfimi ásamt tónlist er daglegt brauð og mjög vel sótt. Hundruðir manna koma þarna og teygja sig saman, sér til heilsubótar, enda auðséð hversu fólk er vel á sig komið, og það á öllum aldri. Það eru eingöngu útslitnir erfiðismenn sem ekki ganga um teinréttir og tágrannir, þeir eru bara tágrannir.
Þessir garðar hafa margir hverjir stór útisvið og sumir mörg. Þarna eru fluttar kínverskar óperur, leiksýningar, og tónlist af öllum toga, bæði vestræn og austurlensk. Dóttir mín Elín og tengdasonur Rúnar, sem kalla sig Heima sem tónlistarmenn, héldu allmarga tónleika í þessum görðum. Þar kemst enginn að nema eftir vali, en þau hlutu alltaf mjög góðar móttökur. Þau ráku einnig veitingastað í borginni sem hét Heima og var vinsæll meðal bæði kínv. og vesturl.búa.
Þarna sá ég í fyrsta sinn kínv. óperu. Stórkostlegt "show" búningarnir engu líkir og litríkið ótrúlega flott, en söngurinn maður, honum þarf að venjast svo ekki sé meira sagt. Fyrsta tilfinningin var eins og að fá sturtubað af skrækum hljómum niður eftir öllum líkamanum og ekki endilega mjög þægilegt. Þetta hefur þó vanist smátt og smátt, þannig að ég er næstum því farin að njóta skrækjanna.
Frh.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
2.8.2011 | 00:15
Dolly Parton er bara sjálfri sér lík.
Ef fólk vill láta yngja sig upp, sem virðist vera krafan í skemmtanabransanum, þá er það þess mál. Ég er ekki viss um að Dolly væri jafn vinsæl ef hún væri bæði gömul og hrukkótt.
Mér finnst bloggið hérna farið að gefa sig töluvert út fyrir einhvað antipati á fegrunaraðgerðum og megrun.
Auðvitað er allt sem fer yfir strikið ljótt, það geta víst flestir verið sammála um, en heilsusamleg megrun og gott útlit, þó með smá hjálp sé, ætti ekki að skaða neinn.
Hefur nokkur tekið eftir hversu ung og frískleg Ragga Gísla er, hún er þó ekkert unglamb lengur, eða Vigdís Finnbogadóttir á níræðisaldri?
Hikar ekki við að leggjast undir hnífinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
1.8.2011 | 00:26
Stormur karlinn á leiðinni
Er þessi Stormur einhverskonar Súperman utan úr geimnum?
Stormur á leið til Eyja | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
31.7.2011 | 14:35
Stór - mannlegt
Fyrirgefningin, er liklega það eina sem getur læknað andlegar kvalir þess sem verður fyrir svona ótrúlega ómanneskjulegri árás og missir sjónina um aldur og ævi. Að hatast við þann sjálfhverfa bastarð sem gerir þér svona hlut, og gjalda líku líkt, er engin lausn, því hatrið gerir ekkert annað en að éta innanfrá.
Ef allur heimurinn hugsaði eins og konan, væri hann, að mínu mati, ansi mikið betri og fallegri. Þessi kona á alla mína samúð og virðingu.
Hún var heppin að játast ekki manninum, sem nú hefur sýnt að hann hefði heldur betur kúgað hana í hjónabandinu.
Fórnarlamb náðaði mann sem átti að blinda | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
30.7.2011 | 14:29
Drullumall á Ísafirði
Hvað skyldi það vera sem fær fólk til að hafa gaman af svona lágmenningu á lægsta plani. Ísfirðingar eru jú vanir að geta skemmt sér og sínum með ýmsum öðrum aðferðum, sem eru bæði skemmtilegar og á ansi mikið hærra plani. Tónlist myndlist og leiklist er þar með miklum blóma, svo og allskyns íþróttir og leikir. Mann setur bara hljóðan. Ég hef alltaf talið bæinn á mjög háu menningarlegu stigi og er því virkilega brugðið.
Drullumall á Ísafirði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
29.7.2011 | 19:37
Dagur hjá Sillu og Gunna
Vorum að koma heim eftir að hafa eytt meirhluta dgsins með Sillu bloggvinkonu og manninum hennar, honum Gunnari. Þau búa á Heiðarbæ í Stafnnesi, eða suður með sjó, eins og við malbiksfólkið köllum það. Það vildi þannig til í vor þegar ég hélt sýningu á Mósaik, að þau keyptu af mér mynd, sem ég gerði af syndafalli íslenskra auðmanna, en Björgólfur Thor var þar pars par toto (hluti fyrir heild) þessa siðferðislausa hóps Íslendinga. Myndin heitir Bíttu nú og þá byrjar ballið, og er tileinkuð Birni Birgissyni bloggara, sem þykist hættur þó hann svíki stundum lit á nóttinni
Þarna leikur sjávargolan við mann og maður sér öldurótið ekki svo langt frá. Mér skilst að á góðum degi sjái til Eldeyjar, en því miður var rigningarsuddi og hálfgert dimmviðri svo ekki sýndi hún sig í þetta sinn.
Eftir kræsingar miklar, svo miklar að ekki verður kvöldmatur á þessum bæ í kvöld, og kaffi, fór Silla með okkur í skoðunarferð um nágrennið og þá opnaðist fyrir manni nýr heimur sem liggur þarna í friði og ró fyrir átroðningi fólks eins og mér, en ég efast um að margir viti hversu fallegt er þarna.
Eftir mikið spjall og hlátur, héldum við heim á leið, en bundumst áður fastmælum um að styrkja vináttuböndin enn frekar.
Takk fyrir daginn elskulegu hjón!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
27.7.2011 | 09:29
Margt í mörgu
Afar skemmtileg frétt í ljósi þess að maður fær ekki annað séð en að maðurinn sé að stinga sér á grunnsævi. Hann hlýtur að hafa stundað þetta einhvern tíma því hann virðist orðinn hauslaus, en sá sem stendur við hliðina á honum kippir sér ekkert upp við þetta.
Ég held að þeir sem höfðu hæst, um árið, út af svokölluðum Skítaskatti Ingibjargar Sólrúnar hljóti að hafa fengið fullvissu um að hann var nauðsynlegur og framkvæmdin við hreinsun sjávar við strendur borgarinnar með ágætum, eins hryllilega sóðaleg og ströndin var
Hreinn sjór við strendur Reykjavíkur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
23.7.2011 | 21:26
Sorg
Var að koma frá því að leggja fallegan fjóluvöndvönd og kveikja á kerti við Norska sendiráðið. Þessi atburður hefur haft svo lamandi áhrif á mig að ég man varla eftir öðru eins. Ég var stödd úti á himneskri eyju sem liggur ekki langt frá Utöja fyrir einum mánuði síðan og hugsaði með mér að á svona stað gæti ekkert illt gerst, svo friðsælt og fallegt sem það er þarna í Oslóarfirðinum.
Sonur minn og systir búa í Osló ásamt fjölskyldum sínum og manni brá heldur betur, en þau eru öll við góða heilsu. En því miður er ekki langt í vinatengsl, þar sem fólk er ekki jafnheppið. Barnabarn systur minnar á fimm vini sem voru á eyjunni, fjórir náðu að forða sér, einn þeirra á sundi til lands langa vegu í ísköldum sjónum, einn var skotinn, brjálæðingurinn skaut alla tvisvar, en þessi drengur liggur helsærður á sjúkrahúsi, en líklega er hann einn af þessum heppnu og fær að lifa. Þetta eru fimmtán ára unglingar.
Hugur minn eins og svo margra annarra er hjá öllum þeim sem eiga um sárt að binda, svo og Norðmönnum öllum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
21.7.2011 | 01:06
Sumardagar
Nú er maður kominn í óða önn með að mála húsið að utan, og innan skamms breytist litla grámyglulega húsið mitt í nýmálaða höll. Ég keypti það fyrir 36 árum og þá var það ljósgult bárujárnshús. Síðan gerði ég það upp, með þeim peningum sem ég fékk á milli, þegar ég seldi íbúð sem ég átti, en í þá daga kostuðu timburhús ekki nema hluta af fjögurra herbergja íbúðum.
Þar sem ég hef aldrei talist neitt sérlega auðug af peningum, var mikið pælt í hvernig gera mætti það upp á sem hagkvæmastan hátt og úr varð að langódýrasta lausnin var að tilburklæða það að utan. Timbur í einhverri óvenjulegri lengd, sem var þó einmitt sú sem ég þurfti, fékkst á mjög niðursettu verði, þannig að járn kom ekki lengur til greina, þó það færi á þakið.
Ég fékk alveg einstakan smið mér til hjálpar Guðjón Guðlaugsson hét hann og var völundur af gamla skólanum. Hann vann allt timbrið heima hjá sér, fræsti nýja glugga að utan og innan, dyrakarma í allt húsið og heflaði og skáskar hverja einustu spýtu sem fór utan á það. Hann vildi aldrei taka neitt í laun fyrir utan tímavinnuna sína, sagðist hafa afskrifað vélarnar og þar með tók hann ekkert í mál að fá borgað fyrir þær.
Þetta allt unnum við svo í sameiningu, hann smíðaði allt að utan, síðan málaði ég og vann eins og berserkur innan í húsinu með hjálp frá ýmsum góðum vinum.
Þegar upp var staðið var húsið orðið svart tréhús, með fyrsta hvíta þakinu í Reykjavík. Þetta vakti mikla athygli í den, enda voru allflest timburhús í Þingholtunum í niðurníðslu á þeim tíma og endaði síðan með að húsið fékk viðurkenningu sem fallegt mannvirki á afmælisdegi borgarinnar.
Svo vill til að fyrir utan húsið stendur stór og mikill hlynur, feykilega fallegur, en að sama skapi ekki jafn hagkvæmur fyrir hvít þök. Óhreinindin frá trénu urðu til þess að ég gafst upp og málaði þakið grátt, en húsið hefur ekki borið sitt barr síðan.
En núna ákvað ég áður en ég verð alltof gömul að mála það bara fagurrautt (ég er svo mikill kommi í eðli mínu), og get varla beðið eftir að sjá hvernig það verður, með gráa þakinu, gulum gluggum og gráum grunni. Það eru fleiri jafnspenntir, því tengdasonur minn ætlar að eyða sumarfríinu sínu í að mála fyrir þá gömlu.
Ég vona að hann hafi ekki tekið það að sér af því hann sé svo hræddur um að sú gamla fari sér að voða, en það er engin hætta á öðru samt, en ég taki til hendinni líka, án þess hann segi múkk, ég er nefnilega svo afskiptasöm að það er líklegra skárra að hafa mig með pensil í hæfilegri fjarlægð frá jörðu, en að fjargviðrast í honum.
En þetta eru semsagt góðir sumardagar og svo sjáum við bara til hvernig útkoman verður.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
19.7.2011 | 20:28
Kúplingslaus og blýfastur
Hvað geta íslenskir björgunarveitarmenn ekki?
Ég tek ofan minn andlega hatt fyrir þeim.
Aðstoðuðu ferðamann á hjóli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)