Sumardagar

100_0304

 

Nú er maður kominn í óða önn með að mála húsið að utan, og innan skamms breytist litla grámyglulega húsið mitt í nýmálaða höll. Ég keypti það fyrir 36 árum og þá var það ljósgult bárujárnshús. Síðan gerði ég það upp, með þeim peningum sem ég fékk á milli, þegar ég seldi íbúð sem ég átti, en í þá daga kostuðu timburhús ekki nema hluta af fjögurra herbergja íbúðum.

Þar sem ég hef aldrei talist neitt sérlega auðug af peningum, var mikið pælt í hvernig gera mætti það upp á sem hagkvæmastan hátt og úr varð að langódýrasta lausnin var að tilburklæða það að utan. Timbur í einhverri óvenjulegri lengd, sem var þó einmitt sú sem ég þurfti, fékkst á mjög niðursettu verði, þannig að járn kom ekki lengur til greina, þó það færi á þakið.

Ég fékk alveg einstakan smið mér til hjálpar Guðjón Guðlaugsson hét hann og var völundur af gamla skólanum. Hann vann allt timbrið heima hjá sér, fræsti nýja glugga að utan og innan, dyrakarma í allt húsið og heflaði og skáskar hverja einustu spýtu sem fór utan á það. Hann vildi aldrei taka neitt í laun fyrir utan tímavinnuna sína, sagðist hafa afskrifað vélarnar og þar með tók hann ekkert í mál að fá borgað fyrir þær.

Þetta allt unnum við svo í sameiningu, hann smíðaði allt að utan, síðan málaði ég og vann eins og berserkur innan í húsinu með hjálp frá ýmsum góðum vinum.

Þegar upp var staðið var húsið orðið svart tréhús, með fyrsta hvíta þakinu í Reykjavík. Þetta vakti mikla athygli í den, enda voru allflest timburhús í Þingholtunum í niðurníðslu á þeim tíma og endaði síðan með að húsið fékk viðurkenningu sem fallegt mannvirki á afmælisdegi borgarinnar.
 
Svo vill til að fyrir utan húsið stendur stór og mikill hlynur, feykilega fallegur, en að sama skapi ekki jafn hagkvæmur fyrir hvít þök. Óhreinindin frá trénu urðu til þess að ég gafst upp og málaði þakið grátt, en húsið hefur ekki borið sitt barr síðan.

En núna ákvað ég áður en ég verð alltof gömul að mála það bara fagurrautt (ég er svo mikill kommi í eðli mínu), og get varla beðið eftir að sjá hvernig það verður, með gráa þakinu, gulum gluggum og gráum grunni. Það eru fleiri jafnspenntir, því tengdasonur minn ætlar að eyða sumarfríinu sínu í að mála fyrir þá gömlu.
 
 Ég vona að hann hafi ekki tekið það að sér af  því hann sé svo hræddur um að sú gamla fari sér að voða, en það er engin hætta á öðru samt, en ég taki  til hendinni líka, án þess hann segi múkk, ég er nefnilega svo afskiptasöm að það er líklegra skárra að hafa mig með pensil í hæfilegri fjarlægð frá jörðu, en að fjargviðrast í honum.

En þetta eru semsagt góðir sumardagar og svo sjáum við bara til hvernig útkoman verður. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Það væri gaman að sjá mynd af höllinni þinni þegar hún er klár. Örugglega gott að búa í þessu húsi.

Ásdís Sigurðardóttir, 21.7.2011 kl. 10:29

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Bergljót ertu á Njarðargötunni?  Þar var myndarlegur hlynur, sem er í raun orðin sögulegur.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 21.7.2011 kl. 18:01

3 Smámynd: Bergljót Gunnarsdóttir

Jú, jú Ásthildur mín, sá er hlynurinn. Hann var gróðursettur 1923, alltof nálægt húsinu, en sem betur fer hafa ræturnar ekki náð að lyfta því, en þær teygja sig í allar áttir.

Það þurfti að grafa upp alla götuna fyrir nokkrum árum til að skipta um rafm, hita skólp o.fl.o.fl., en þeir ætluðu aldrei að ná að grafa út af rótunum sem liggja yfir götuna og langt inn í nærliggjandi garða.

Víst er þetta frægt tré, því það er ættstofn flestra hlyna í borginni. Skógræktin kom í mörg ár og fékk bæði fræ og græðlinga hjá mér.

Því miður tekur það þó næstum alla birtu úr stofunni hjá mér á sumrin þegar það er laufgað, en laufið er svo þétt að það vöknar ekki gangstéttin undir því í rigningu, svo hef ég oft séð fólk standa af sér skúrir á eina auða blettinum í götunni.

Bergljót Gunnarsdóttir, 21.7.2011 kl. 20:19

4 Smámynd: Bergljót Gunnarsdóttir

Ásdís mín, ef engar myndir koma geturðu reitt þig á að þetta voru herfileg mistök, en ef þær koma, verð ég sæl í sinni, örugglega úti á miðri götu að glápa á dýrðina.

Bergljót Gunnarsdóttir, 21.7.2011 kl. 20:29

5 Smámynd: Sigurbjörg Eiríksdóttir

"Sæl í sinni, örugglega úti á miðri götu að glápa á dýrðina."

Ég ætti að koma og taka þá mynd. Hlakka til að sjá breytingarnar..tröppurnar er ég búin að sjá.

Bíð eftir heimsókn fyrst, bestu kveðjur og knús.

Silla og Gunni.

Sigurbjörg Eiríksdóttir, 24.7.2011 kl. 10:39

6 Smámynd: Bergljót Gunnarsdóttir

Því miður er þetta komið svo langt ennþá að glápa megi götumegin, en þetta mjakast. Afurámóti geta nágrannar mínir í bústað Kínverskra sendiráðsmanna notið þess, eða ekki, nógu rautt er það allavega. Datt í hug að setja eina pínulitla stjörnu á rauðan flötinn, svona rétt til að þakka fyrir dvöl mína í landi þeirra og keisaranna fyrrverandi. Það var þó bara hugdetta sem ekki kemst í framkvæmd.

Bergljót Gunnarsdóttir, 24.7.2011 kl. 11:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband