22.2.2012 | 21:51
Bráðum kemur langþráð vor í bæ
Þá er þorrinn liðinn, góan tekin við, þá er nú ekki langt í vorjafndægur, en eftir einmánuð tekur harpa við, með sín hörpuljóð og þá er nú aldeilis von á að vorið guði á glugga.
Bolludagurinn fór eiginlega fyrir ofan garð og neðan hjá mér, en því miður fór sprengidagurinn ekki sömu leið, sem þýddi auðvitað að ég er ennþá að springa, þó kominn sé öskudagur. Mér blöskrar óhemjuskapurinn í sjálfri mér þegar saltkjöt og baunir eiga í hlut.
Ég er að skríða saman hægt og rólega eftir eftir áfallið og sorgina sem því fylgdi þegar maðurinn minn lést, en þar kom til, að mér var bent á af góðum vini, að Sören Kirkegård hefði talað um hversu mikilvægt væri að ganga í gegnum lífið með gleðina í fararbroddi, og jafnvel að takast á við sorgina með gleði. Þetta hljómaði allnokkuð undarlega í byrjun, en það er hægt.
Að gera sér grein fyrir í hverju sorgin felst, og hreinlega flokka tilfinningar sínar og minningar af einlægni og eindrægni gerir mann skyndilega færan um að líta hlutina allt öðrum augum og þá fær þessi umrædda gleði að gægjast upp á yfirborðið. Söknuðurinn er mikill, en sorgin á undanhaldi. Auðvitað spila fjölskylda mín og góðir vinir inn í dæmið, en stór hluti batans felst í öryggistilfinningunni sem fylgir því að eiga góða að.
Ég veit ekk ihvort það er viðeigandi að blogga á þennan hátt, en einhversstaður verður maður að byrja eftir langt hlé. Síðan vona ég bara að ég verði farin að skrifa á fullu innan skamms, því ég hef virkilega saknað þess, þó svo ég væri hreinlega ófær um að tjá mig vegna hugarróts þegar sest var niður.
Og nú virðist ekkert annað framundan, en maður fari bara að þenja sig á fullu á eigin síðu og annarra.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
7.2.2012 | 13:54
Tilhlökkun
Náði í miða á Jethro Toll og Ian Anderson, jibbí. Mikið hlakka ég til að hlusta á þann gamla leika sér að flautunni, ásamt öllu showinu sem fylgir. Nú getur maður bara gengið um með tilhlökkunarbros á vör fram í júní.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
7.1.2012 | 21:43
Einvera og eldamennska
Með nýju ári hefjast nýir siðir þar sem ég á í hlut, eins og að borða ein, og elda þar af leiðandi fyrir einn. Fyrir manneskju sem hefur rekið stórt heimili árum saman finnst mér alveg stórhlægilegt að elda einn fiskbita, tvær kartöflur og smá persillesmjör út á, og setjast síðan ein til borðs.
Það að sitja ein til borðs er algerlega ný reynsla, sem margir þekkja eflaust, eftir að þeir eru orðnir einir, nema þeir hafi alltaf verið það. Ég tekst á við þetta þannig að ég legg fallega á borðið, kveiki á kertaljósi, og hef það eins og mér finnst fallegast og best. Maður áttar sig nefnilega á því að maður getur haft það ansi huggulegt þó ekki sé fullt hús af fólki, ekki svo að ég sé að andmæla því, en firður og ró, verandi einn með sjálfum sér, fær mann til að hugsa um tilveruna og öll hennar tilbrigði. Tek þó fram að fjölskylda og vinir slást um að bjóða í mat, en mér finnst bara fínt að vera ein á stundum, þarfnast þess eiginlega.
Þetta fær mann líka til að rifja upp liðna tíma, góða og slæma, mest góða þó og hlýja sér við minningarnar sem eru svo ótal margar. Ég held líka að þetta sé prýðis aðferð við að lina sorg og söknuð, sem býr innra með, og maður þarf tíma til að ganga í gegnum.
Ég er ekki eina manneskjan sem er nýbúin að missa maka sinn, en við bregðumst jafn mismunandi við og við erum mörg. Mín aðferð er því að hluta sú, að borða ein, hafa stundum virkilega mikið fyrir matnum, svo ég geti hrósað sjálfri mér fyrir þennan frábæra mat og hlegið síðan að lokum yfir hversu vitlaus ég sé. Merkilegt nokk, það léttir lundina.
Annars ætla ég að bjóða fjölskyldunni í mat fljótlega og elda þennan rétt sem er hér á myndinni, en hann er með því besta sem ég fékk í Kína og var þó margt gott.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
2.1.2012 | 23:13
Gáfur eru gull
Fullkomin byrjun á nýju ári. Haldið áfram allir þjófar og gangið í lið með löggunni.
Batnandi mönnum er best að lifa. Var þetta e.t.v. bara óvart, eða voru þeir ennþá fullir eftir gamlárskvöld, eða bara að reyna að rugla lögguna?
Þjófar tilkynntu innbrot | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
31.12.2011 | 16:44
2012
Ég óska öllum bloggvinum mínum og öðrum sem þetta lesa og lesið hafa bloggið mitt á árinu, gleðilegs komandi árs, og vona að það verði, ykkur öllum, ár friðar og hamingju .
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
13.12.2011 | 16:54
Eitt bros...........
Ég var að pakka inn jólagjöfum í allan dag, með þyngsli fyrir hjarta og söknuð í huga, eiginlega ekki með hugann við verkið, sem ég hef þó alltaf haft gaman að, enda venjulega komin í jólaskap um þetta leyti. Huguruinn var í rauninni einhversstaðar langt afur í tímanum og dvaldi við ýmsar stundir, flestar mjög góðar og ég reyndi hvað ég gat að ýta þyngslunum burt, án nokkurs sérstaks árangurs þó.
Allt í einu var bankað á útidyrnar. Ég fór að sjálfsögðu til dyra og úti stóð ungur maður sem setti upp samúðarsvip um leið og hann sá svipinn á mér. Hann var að koma með lyfjaskammt frá Lyf og Heilsa og rétti mér hann samkvæmt venju. Bara eitt enn sagði hann þegar hann kvaddi og hálfsneri sér við á tröppunum, eigðu virkilega gleðileg jól. Þetta sagði hann með fallegu brosi. Allt í einu birti til í sálartetrinu og ég komst í jólaskapið langþráða. Takk söuleiðis var svarið, já virkilega gleðileg jól. Ef fólk vissi stundum hvað brosið þess getur glatt aðra, jafnvel bláókunnuga..
Þessi færsla fór óvart inn hálfkláruð í dag og leit út eins og barlómur, þó raunin sé önnur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
7.12.2011 | 15:22
Mugison tónleikarnir
Mugison er búinn að gefa miða á þrenna tónleika sem haldnir verða í Eldborgarsal Hörpu, þ. 22. nk.
Þetta er stórmannlegt af söngvaranum , sem hefur greinilega ákveðið að launa aðdáendum sínum fyrir góða sölu plötunnar sem var að koma út.
Öðru máli gegnir með það skítapakk sem tryggði sé helling af miðum og er nú að selja þá dýrum dómum á facebook. Þetta er svo óþolandi að ég á ekki orð. Ekki það að ég sæktist eftir þessum miðum, heldur það að einhverjir óprúttnir ræflar séu að gera sér að féþúfu, það sem Mugison gaf.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
5.12.2011 | 02:23
Heiðursmaður heiðraður
Sá ánægjulegi atburður hefur gerst að Kópavogsbær hefur heiðrað Jónas Ingimundarson með því að kjósa hann heiðursborgara bæjarins.
Jónas sem hefur unnið af lífi og sál í áratugi að framgangi tónlistar, tónlistarkennslu og verið atkvæðamikill tónlistarflytjandi, er flestum sem hafa notið tónlistargáfu hans, nær stanslaus uppspretta ánægju. Hann hefur skapað sér virðingarsess meðal íslenskra tónlistarmanna fyrir löngu.
Ég óska bænum til hamingju, með að sjá hversu vel hann var að heiðrinum kominn, jafnvel þó tími væri löngu tilkominn að heiðra hann. En betra er seint en aldrei.
Jónas heiðraður í Salnum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
25.11.2011 | 06:11
Oddur
Nú er hann farinn til betri heima, ástin mín og besti vinur, hann Oddur Björnsson. Þetta eru erfiðir dagar, en minningin um góðan dreng mun lifa og hugga.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
17.11.2011 | 00:29
Spítalalíf.
Er búin að sitja meira og minna allan sólarhringinn við sjúkrabeð mannsins míns, en hann fékk mjög alvarlegt heilablóðfall sl. laugardagskvöld og hékk líf hans á bláþræði til að byrja með, en þráðurinn sá er óðum að þykkna og smá von að kvikna hjá mér um einhvern bata.
Þar sem ég er oftast meir en fús að skrifa um það sem miður fer og mér blöskrar, er ég að hugsa um að venda mínu kvæði í kross og skrifa einu sinni um það sem mér líkar og hrífur mig.
Hérna starfar sægur af fólki, en eins og gefur að skilja eru störfin jafn misjöfn og þau eru mörg. Hér skokka um gangana léttfættar hjúkkur, sjúkraliðar, og allskyns annað fólk sem ég kann ekki að nefna starfsheitin á, og svo líka, þó ekki eins oft, læknar af ýmsum gráðum og á ég þá við unglækna, og líklega nokkra mismunandi sérfræðinga. Deildin heitir B2 og er taugadeild Landsspítalans í Fossvogi.
Eitt á þetta fólk, allt með tölu sameiginlegt, að það er að vinna vinnuna sína af vandvirkni og alúð. Öll umönnun er unnin af öryggi og allt viðmót er jákvætt ásamt því að ættingjarnir sem hér bíða milli vonar og ótta fá adeilis sinn skerf af hlýlegu andrúmsloftinu sem hér ríkir.
Á þessum síðustu og verstu tímum, þegar margt er í kaldrakoli, kemur fyrir að fólk er ekki alveg að standa sína pligt í vinnunni og gleymir sér í amstri og áhyggjum dagsins.
Þessi vinnustaður ætti að vera öðrum fordæmi um að láta ja, kúnnunum ef svo má segja, líða eins vel og kostur er, og fyrir það vil ég þakka af heilum hug.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)