10.11.2011 | 11:27
Lína á Sjónarhóli
Þegar ég var lítil stelpa og las bækurnar um Línu Langsokk í fyrsta sinn, var eins og opnaðist fyrir mér ný veröld. Þessi hugrakka stelpa, eldrauðhærð og freknótt, með fléttur sem stóðu beint út í loftið, bjó alein í litlu skrítnu húsi með holu tré í garðinum, hest á dyrapallinum, og stóra kistu fulla af gullpeningum af því pabbi hennar, sem var negrakóngur á Krúsidúlluey, hafði ekki tíma fyrir hana, svo upptekinn var hann við að stjórna ríkinu. Þetta var eitthvað svo nýtt, ferskt og uppörvandi að ég gat ekki sleppt bókinni fyrr en hún var lesin spjaldanna á milli.
Ég var ósköp venjuleg, að ég held dálítið óhamingjusamt barn, en þegar ég las um þessa stelpu sem var svo sterk að hún gat lyft hestinum með annarri hendi, sveiflað lögregluþjónum, sem voru eitthvað að skipta sér af henni, í loftinu, potað i magann á þjófum og illvirkjum, svaf með höfuðið undir sænginni og lappirnar á koddanum, gekk í stórum karlmannsskóm í sitthvorum litnum og alltaf með sokkana hangandi niður um sig, fann ég sterka samsömun með leyndum innri óskum um þor og væntingar. Þessi stelpa sem var sannur vinur vina sinna og hafði hjarta úr gulli, stangaðist á við öll gildi sem þá viðgengust um uppeldi barna og væntingar til þeirra. Þarna var allt í einu komin stelpa sem þorði, gat og vildi og gerði það.
Bækurnar um Línu slógu algerlega í gegn og voru lesnar um heim allan, þar til einhverjir uppeldisspekulantar í Svíþjóð ákváðu allt í einu að þetta væru stórhættulegar antisocial bókmenntir sem varð til þess að Lína var bönnuð í Svíþjóð. Guði sé lof var þessu banni ekki framfylgt utan Svíþjóðar, en "þetta braut í mér hjartað" sagð Astrid Lindgren löngu síðar.
Dettur einhverjum heilvita manni í hug að höfundur Línu og Bróður míns Ljónshjarta, eigi til kynþáttafordóma eða anti social hugsanir. Þessi manneskja hefur örugglega hjálpað stórum hópi barna til að finna sig, komast yfir ótta og takast á við sorgir, á besta mögulegan hátt, með því að skapa heilsteyptar og heilbrigðar fyrirmyndir, sem eru allt öðruvísi en börnin eiga að venjast. Þetta er það sem þau hlusta á og gleypa í sig, sér og öðrum til góðs
Segir bækurnar um Línu langsokk rasískar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þú gleymdir apanum. Algjörlega sammála þér, þetta voru yndislegar bækur og ég er viss um að þær voru driffjöður fyrir stelpur á þessum árum að verða stórar og sterkar .... eins og Lína.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 10.11.2011 kl. 13:50
Þetta eru yndislegar bækur og ekki dettur mér í hug að þessi frábæri höfundur eigi til kynþáttafordóma né aðra illsku.
Ég er búin að hlæja með barnabörnunum í mörg ár af þessum myndum.
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 10.11.2011 kl. 13:57
Hér með bið ég apann Níels afsökunnar.
Bergljót Gunnarsdóttir, 10.11.2011 kl. 14:33
Lína langsokkur er ein af bestu barnabókum sem gefnar hafa út. Hún mun svo sannarlega verða lesin undanbragðalaust áfram eins og hingað til.
M.b.kv.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 10.11.2011 kl. 16:45
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 10.11.2011 kl. 18:40
Sammála að Línu bækurnar eru yndislegar bækur. Það mun enginn segja mér að ekki megi lesa þær fyrir barnabörnin.
Axel Jóhann Hallgrímsson, 10.11.2011 kl. 19:10
Vildi bara seiga að þetta bann er nú ekki í svíþjóð allavegna eru þessar bækur um hanna allstaðar sem maður fer leikföng í öllum búðum og svo myndirna og svo er hún aðal mállið í skemtigarði astrid lindgren .... http://www.alv.se/
Geir Njarðarson (IP-tala skráð) 10.11.2011 kl. 19:44
Þeir höfðu guði sé lof vit á að afnema þetta fáránlega bann nokkrum árum seinna.
Bergljót Gunnarsdóttir, 10.11.2011 kl. 19:57
Lína eða Pippi er orðin goðsögn í Svíþjóð og þeir hafa rakað inn peningum vegna hennar, og sýnt Astrid þann sóma að gera hana að aðalpersónunni í Astrid Lindgren garðinum.
Bergljót Gunnarsdóttir, 10.11.2011 kl. 20:00
Hvernig er óhugsandi að ljómandi góð og yndisleg manneskja geti líka verið rasisti? Það er nóg að vita ekkert sérstaklega mikið um aðrar þjóðir eða kynþætti, og að það litla sem maður veit er fjarskalega brengluð mynd.
Svona eins og ef einhver, snemma á tuttugustu öld, ætlaði að gera myndskreytta barnabók þar sem aðalsöguhetjan er að flækjast í Afríku - og teikna frumbyggjana með bein í gegnum miðnesið, íklædda strápilsum og búa í strákofum. Já, og afspyrnu ýkt varastærð.
Það er ekki eins og höfundur hafi ætlað að draga upp einhverja blábjánalega skrípamynd af blámönnum. Það er bara þannig að eftir því sem hann best vissi, þá voru svertingjar einmitt svona.
Nú hef ég ekki lesið neina af Línu-bókunum (né hef ég reynt - sem barn gaf ég nokkrum Astrid Lindgren-bókum séns, og Ronja er sú eina sem ég man eftir að hafa klárað af áhuga frekar en skyldurækni). Ekki fylgir heldur nein nánari greinargerð fyrir því í hverju þessi rasismi eigi að felast.
En: Samkvæmt Wikipediu kom fyrsta Línu-bókin út 1945. Hugmyndir fólks um hvernig "kynþættirnir eru í raun og veru" voru kannske eilítið aðrar þá heldur en nú. Þannig að ef einhverjar samtímahugmyndir hafi birst í Línu Langsokk - hugmyndir sem flestir myndu nú fallast á í dag að séu eilítið rasískar - þá gerir það bækurnar ekkert verri, ekki frekar en Tinna-bækurnar.
Þorsteinn (IP-tala skráð) 10.11.2011 kl. 20:05
Sæll Þorsteinn.
Allir sem eru komnir til vits og ára sjá að heimurinn hefur breyst mikið síðan við vorum börn og þ.a.l. hugmyndir manna um umheiminn og fólkið sem hann byggir.
Eftir að Lína var bönnuð í Svíþjóð, en það er ansi langt síðan, fór ég í gegnum bókina, og hvernig sem ég reyndi tókst mér ekki að finnast hún andsamfélagsleg á nokkurn hátt. Að vísu hlýddi Lína ekki boðum og bönnum hinna fullorðnu, nema þegar henni hentaði, en það var aldrei sett fram nema í gríni og ég held að allir hafi skilið það, nema einhverjir sænskir félagsfræðingarr eða barnasálfræðingar, eflaust nýkomnir út úr skóla og viljað láta að sér kveða.
Ég ráðlegg þér eindregið svo sem öllum öðrum að lesa Línu, þér til ánægju, svo ég tali nú ekki um að gera það fyrir börnin þín eða barnabörnin.
Lína er einhver hjartahreinasta skrítnasta og skemmtilegasta persóna sem ratað hefur inn í barnabókmenntir heimsins og er ennþá keik á stalli. Tilurð hennar er snilld.
Bergljót Gunnarsdóttir, 10.11.2011 kl. 21:29
Það er engin manneskja á jarðríki sem "á ekki til" kynþáttafordóma og þetta sem þú kallar "anti social" hugsun. Þetta er hlutur af mannlegu eðli. Hrokinn er helsti óvinur mannsins, en hann er sá að halda að við séum yfir mannlegt eðli hafin. Þá hættum við að líta á ályktanir okkar um menn og málefni sem mögulega fordóma, því við eigum þau "ekki til", og þess í stað verða allar okkar skoðanir að allsherjar sannleika í anda kaþólsku kirkjunnar á miðöldum, og við berum hvern þann sem hentar á galdrabálið skinnhelg í framan og fílum okkur afar heilög...Nema þau okkar sem viðurkenna við eigum jú til fordóma, og förum því aðeins hægar í að dæma hlutina. Kynþáttahatarar kalla sína fordóma ekki fordóma heldur sannleika. Þannig eru þeir nákvæmlega eins og hinir sem þykjast heldur ekki eiga fordóma til. Sitt hvor hliðin á sama fasíska peningnum.
Dæmi um alvöru, raunverulega fordóma.
Jean er franskur. Sigga hugsar. Ah, Jean hlýtur að vera kúltíveraður maður með vit á vínum.
Tyrel er frá Afríku. "Það verður aldeilis gaman að fara með honum út að dansa" hugsar Sigga "Að öllum líkindum er hann góður dansari"
Og þeir sem leyfa sér jákvæða fordóma eru líka ævinlega fullir af hinum líka. Bara þora oft ekki að viðurkenna það fyrir sjálfum sér af andlegu hugleysi og leti hvað varðar sjálfsbetrun.
Jóhann (IP-tala skráð) 10.11.2011 kl. 21:41
Þegar við síðan ákveðum að ákveðnir eiginleikar í mannlegu eðli, svo sem fordómar, séu illir, þá höfum við boðið andskotanum heim. Fordómar eru íffræðilega nauðsynlegur, en auðvitað oft til trafala um leið, eiginleiki, sem við þurftum til að geta lifað af hér áður fyrr...Það er að geta undir vissum kringumstæðum verið mjög fljótur að dæma aðstæður og bregðast við þeim...og einnig lífsnauðsynlegi eiginleikinn að sýna varkárni varðandi það sem maður ekki skilur, svo sem aðra menningarheima, því sá sem sýnir ekki dómgreind og varkárni í lífinu er fljótt dauðans matur og kemur sér í hvers kyns vandræði!!! Á miðöldum var almennt ekki viðurkennt að konur hefðu kynhvöt og því voru þær konur sem urðu óléttar utan hjónabands og slíkt einfaldlega ómennskar og illar galdranornir sem mátti drepa fyrir illvirki sín, því eðlilegt fólk ætti svona lagað auðvitað "ekkert til". Pössum okkur að fara ekki eins með þá sem af einhverjum ástæðum eru hræddari við umheiminn en aðrir, eða segja kannski í fáfræði eitthvað sem stenst ekki nánari athugun. Þetta eru samt menn eins og við hin, og það er enginn okkar sem "á ekki fordóma til", frekar en liðið sem samþykkit að konum væri drekkt hér við Drekkingarhyl forðum fyrir að eignast börn í lausaleik hafi verið svona rosalega kynlaust sjálft. Það var bara svo hrokafullt það þóttist ekki "eiga til" mannlegt eðli, og því í fullkomnum rétti að dæma aðra.
Jóhann (IP-tala skráð) 10.11.2011 kl. 21:47
Sæll Jóhann.
Ekki ætla ég að hvítþvo mig af fordómum, þó svo að ég reyni að berjast gegn þeim og það af alefli.
Ég á reyni eins og ég get að stökkva ekki upp á nef mér þegar fólk sem mér þykir vænt um talar t.d. um niggaradjöfla eða hommatitti. Það er aldeilis óþolandi, en er í raun prófraun á mig að hemja skapið og gera ekki allt vitlaust.
Hvað Línu snertir, hún er jú ástæðan fyrir þessum skrifum, og frekar hvatning til góðra verka , myndi ég halda, byggð á heilbrigðri hugsun án verulegra fordóma.
Enginn er fordómalaus, ekki ein einasta lifandi sála, ekki einu sinni þú Jóhann, annars hefðirðu ekki skrifað þetta.
Bergljót Gunnarsdóttir, 10.11.2011 kl. 22:00
Væri mjög þakklát ef þú kæmir þessum pælingum um fordóma á framfæri einhversstaðar annarsstaðar en hér.
Bergljót Gunnarsdóttir, 10.11.2011 kl. 22:03
Takk fyrir góðan pistil Bergljót! Lína hefur alltaf verið í miklu uppáhaldi hjá mér, bæði sem barn og einnig eftir að ég fullorðnaðist.
Ég held að Lína hafi gert mun meira fyrir sjálfstraust ungra stúlkna en fjömargt það sem femínistar og aðrir jafnréttissinnar hafa gert með fundum, bókmenntum og lagasetningum.
Ég vona svo sannarlega að Lína Langsokkur muni fylgja mínum afkomendum í framtíðinni!
BJÖRK , 11.11.2011 kl. 09:28
Takk fyrir það Björk.
Fylgi Bróðir minn Ljónshjarta með, ertu pootþétt með gott vegarnesti í handraðanum
Bergljót Gunnarsdóttir, 11.11.2011 kl. 13:20
Margir rugla hugtakinu "kynþáttafordómar" saman við fáfræði og þá áráttu að dæma fólk fyrirfram á grunnhygginn hátt. Það er skiljanlegt því orðið virðist bjóða upp á það.
Fæstir viðurkenna að kynþáttafordómar eru í eðli sínu ekki vitsmunalegir, heldur tilfinningalegir. Besta skilgreiningin sem ég kann á þeim er að slíkir fordómar séu tilfinningaleg þjónkun við ósannindi.
Takk fyrir góðan pistil Bergljót.
Svanur Gísli Þorkelsson, 11.11.2011 kl. 15:27
Eg ef aldrei heyrt að Lína væri bönnuð í Svíðþjóð.
En varðandi rasismann, að þá var pabbi hennar "negerkung" einhverstaðar í Suðurhöfum. þessu hefur núna í sumum útgáfum verið breytt í Suðurhafskóng.
Ennfremur í einni bókinni þá fer Lína til Suðurhafseyja og þá falla innfæddu börnin fram og tilbiðja hana og hvítu krakkanna sem voru með henni sem eg man nú ekki hvað heita lengur. Lína sagði að vísu í því tilefni að það væri rangt að gera slíkt. Hvítur litur væri ekkert merkilegri o.frv.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 11.11.2011 kl. 18:48
Jú, jú, víst var hún bönnuð en það er ansi langt síðan, líklega í kringum 1970 þó ég þori ekki að fullyrða ártalið.
Pabba hennar Línu tók fyrir borð einhversstaðar og hann endaði sem negrakóngur. Ég af minni grunnhyggni myndi frekar kalla það samræmingu kynþátta að kalla hann negrakóng, hann var jú kóngur í ríki negra eða þeldökkra. Það er að vísu orðið svo vandlifað í þessum heimi sem allt er orðið svo viðkvæmt í. E.t.v. má ekki segja negri lengur, en það var á þeim tíma notað um heim allan og engum datt í hug að neitt væri rangt við það.
Eins og allir sem lesið hafa sögur um ferðir landkönnuða til ókunnra stranda, álitu innbyggjar landa sem þar sem hvítir menn höfðu ekki sést áður, oft að þeir væru guðir vegna hörundslitarins.
Eftir lýsingum á Eiríki Langsokki skipstjóra að dæma, eldrauðhærðum og akfeitum þarf því engann að furða þó hann hafi notið allrar virðingar, þrátt fyrir að vera snjóhvítur þegar hann flaut á land í samfélagi þeldökkra.
Krakkarnir heita ennþá Tommi og Anna.
Bergljót Gunnarsdóttir, 11.11.2011 kl. 19:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.