Dans og dans

539834[1]

Myndin er tekin af mbl.is og allur höfundarréttur er þeirra.

Ég ætla að sleppa öllum yfirlýsingum um darraðadansinn í íslenskum stjórnmálum, og snúa mér að þessum undursamlega dansi sem átti sér stað í kvöld, frítt, fyrir þá sem voru svo heppnir að horfa upp í festinguna, jafnvel alveg óvart, enda alveg bannað að njóta nokkurrar fegurðar á menningarlausum degi.

Ég hef ekki séð svona falleg Norðurljós í áraraðir hérna í borginni. Síðast þegar ég naut Norðurljósanna á Íslandi, var það á skansinum við húsið mitt á Bíldudal, fyrir allmörgum árum.

Það var stjörnubjart, niðdimmt og ískalt um hávetur, en svo fallegt að ég gat ekki setið á mér að fara út, veklædd, með dýnu undir mig, og teppi ofaná, svona rétt til að njóta stjarnanna og alheimsins.

Það er þetta sem sumir kalla karma, aðrir segja "what comes around goes around" eða bara eins og ég kalla það, að hitta sjálfan sig fyrir. Ég lá þarna eins og vel löguð klessa og horfði upp í himininn, orðlaus af hrifningu, ekkert truflaði, þegar allt í einu skaust leiftur yfir himininn, eins og hendi væri veifað, á ógnarhraða.

Ég get ekki einu sinni verið svo ómerkileg að kalla það "ljósashow", svo stórkostlegt var það. Af meiri ógnarkrafti en ég hafði eiginlega skynjað fyrr á ævinni helltust ljósin inn í öllum þeim litum sem norðurljós gefa og voru eins og þeirra er von og vísa síbreytileg í, hvað á maður að segja, í bylgjum og rennibrautum.

Málið er nefnilega að Norðurljós og Norðurljós er ekki það sama. Við hérna í borginni sjáum þau sífellt verr vegna allra rafmagnsljósanna, og mikið af landsbyggðinni svo sem líka, en þetta var virkilega gaman í kvöld þó ekki kæmist það  í hálfkvisti við það besta.

Hvað er ég svo sem að segja landsmönnum mínum um þetta dásamlega fyrirbrigði. Maður gæti haldið að ég væri að tala við útlendinga, eins og þegar ég var að akitera fyrir landinu í Kína, en það hefur skilað sér í nokkrum þakklátum ferðamönnu, þó enginn þeirra hafi ennþá séð þessi ljós sem drógu þá þó hingað, enda allir of snemma á ferð.


mbl.is Norðurljósadans yfir Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurbjörg Eiríksdóttir

Við sjáum þau í dimmunni hérna í Heiðarbæ.

Kveðja til ykkar á Njarðargötuna.

Silla.

Sigurbjörg Eiríksdóttir, 2.11.2011 kl. 10:32

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Já norðurljós eru hrein dásemd, en líka morgunroði og kvöldroði, ég kalla þetta himnagallerí, það er svo margt ókeypis og fallegt, eins og til dæmis frostrósirnar. Því miður hefur ekki sést til himins hjá okkur í nokkra daga núna, en vonandi fer það að lagast. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 2.11.2011 kl. 11:21

3 Smámynd: Bergljót Gunnarsdóttir

..og grýlukertin og haustlitirnir og fuglasöngurinn og lognið og rokið og rigningin og sólin og tunglið og og og og og, mikið erum við annars rík.....

Bergljót Gunnarsdóttir, 2.11.2011 kl. 11:46

4 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Og og og og ....

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 2.11.2011 kl. 11:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband