Björk

100_0286 Björk plakat

Fann þessa mynd í pússi mínu, en hana tók ég í Flórens fyrir nokkrum árum. Myndefnið vakti athygli mína því þarna átti Björk hlut að máli og ég var endalaust stolt af því að það var uppselt hjá henni, en ekki Pavarotti. Samt var það nú svo að það var mánuði styttra í hans tónleika.

Björku þekki ég ekkert, en hef hitt hana tvisvar á ævinni, en það var fyrir ansi mörgum árum og hún líklega verið fimmtán ára eða svo.

Málavextir voru þeir að ég var framkvæmdastjóri Hlaðvarpans heitins, en við leigðum út mismunandi stóra sali fyrir ýmisskonar viðburði.

Þar sem ég sat við vinnu mína að berjast við að láta bókhaldið ganga upp, var bankað létt á dyrnar og inn gekk þessi óvenjulega unga stúlka, skal getið að ártalið var ca. 1984-5.

Hún heilsaði kurteysislega, og mér varð örugglega starsýnt á, því hún var vægast sagt óvenjulega klædd fyrir þennan tíma. Æpandi ljósgrasgrænt pils úr tjulli sást undan hálfsíðum leðurjakka, brúnum. Skórnir voru óreimaðir brúnir reimaklossar, nokkuð vel við vöxt, að mig minnir, og þykkir sokkar héngu á leggjunum, a la Lína Langsokkur.

Þessi furðulegi en fallegi unglingur spurði hvort hægt væri að leigja sal fyrir myndlistarsýningu. Jú jú, ég sagði svo vera og sýndi henni hvað í boði væri, eftir að hún hafði sagt mér að amma sín sem væri  myndlistarmaður, ætti afmæli á næstunni, og hana langaði til að gefa henni salinn, í mánuð fyrir sýningu á verkum hennar. Þetta var allt frágengið og bókað og þegar stelpan gekk út fylgdi henni einhver ára sjálfstrausts og ánægju með lífið, allavega þá stundina.

Í seinna skiptið sem ég sá hana, var hún ekki eins ánægð, því amma var eitthvað feimin og treysti sér ekki í þetta. Hún kom til að segja mér þetta og biðjast afsökunar á því að hafa tekið upp tíma minn.

Eftir þetta hef ég alltaf fylgst með Björku. Mig minnir að hún hafi verið í Tappa Tíkarrassi eða kannski Purkinum, á þessum tíma, en ekkert sem hún hefur gert síðan hefur farið framhjá mér.

Stúlkan sú er sigurvegari, algerlega af eigin verðleikum og líklega þekktust allra Íslendinga fyrr og síðar.

Þegar ég sat á frumsýningu Töfraflautunnar um daginn og sýndist hárkollumeistarinn hafa stolið hárkollu Bjarkar og skellt henni á Næturdrottninguna, óskaði ég þess innilega að Björk hefði uppgötvað þetta, kæmi askvaðandi með sinni rögg, og þrifi hárið af henni, og ég fengi að sjá hana svona rétt í svip, því Björk var með tónleika í Hörpunni á sama tíma.

E.t.v. auðnast mér að sjá hana á sviði, einhvern tímann á næstunni, hver veit?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Já hún er frábær og við getum verið stolt af henni.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 27.10.2011 kl. 23:10

2 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Ég hef því miður aldrei "fílað" hana en hún er ekki verri fyrir það, óska henni alls góðs.

Ásdís Sigurðardóttir, 28.10.2011 kl. 12:57

3 Smámynd: Bergljót Gunnarsdóttir

Björk er langt frá því að vera efst á llistanum hjá mér sem uppáhald, en mér finnst hún óumdeilanlega frábær listamaður.

Víst getum við verið stolt af henni og skoðunum hennar, sem hún lætur óspart í ljósi, samanber þegar hún lét frekar reka sig frá Kína en þegja yfir örlögum Tíbets.

Bergljót Gunnarsdóttir, 28.10.2011 kl. 14:42

4 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Já ég segi það, karakterinn er frábær fyrir utan listina.  Þá er hún náttúrubarn og það eitt nægir mér. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 28.10.2011 kl. 16:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband