24.8.2011 | 12:37
Kraftaverk, kínapistill
Í dag er allsnarpur vindur, óvenju lítill raki og sól - og það gerðist kraftaverk. Allt í einu fauk öll mengun í burtu og þá birtist ægifögur fjallasýn, allt um kring. Ég er búin að standa úti á svölum og njóta dýrðarinnar, sem ég hef aldrei séð áður, því þetta gerist ekki á hverjum degi. Að vísu hafði maður óljósa hugmynd um að þessar dökku þústir, sem stundum sjást óljóst í sortanum væru fjöll, en núna sjást þau langar, langar leiðir, skógi vaxin, eins og gríðarstórir verðir umhverfis borgina, en á milli er fagurblár sjór, því Xiamen er eyja, en liggur þó þétt við land.
Þetta minnir mig óþægilega á áform íslendinga um að byggja fleiri álver og allt hvað verra. Það mætti alveg bjóða þeim sem ganga með þann hrylling í maganum, hingað til þessa fallega lands, sem sést ekki í fyrir dökkum mengunarþokum, allflesta daga ársins. Samt er ég stödd í hreinustu borginni. En þvílík upplifun að sjá, hversu fallegt umhverfið er þarna undir eiturhulunni, og gleðileg vísbending um að baráttan við mengunina er að bera árangur hér, á þessu svæði.
Þegar rignir, ganga allir með regnhlífar og núna í sólinni ganga allir með regnhlífar. Maður gæti haldið að það rigndi svo mikið að það væri orðið ávani að spenna upp reghlífina, rétt eins og að fara í nærbuxurnar á morgnana. Það er nú öðru nær. Þegar sólin skín, breytast þær automatiskt í sólhlífar og þarf engan hókus pókus til þess. Ég yrði geðbiluð á að halda á regnhlíf sem sjálfsögðum hlut alla daga. Mín rigningarvörn er góð íslensk regnkápa og gúmmístígvél og sólinnni er vel tekið þegar hún skín á mig í allri sinni dýrð.
Ég vil gjarnan fá á mig ljósbrúnan, hraustlegan lit, en fólkið hérna vill helst vera sem allra hvítast. Einn er þó galli á gjöf Njarðar, að ég verð alltaf eins og indíáni og síðan hvít aftur, sem leiðir hugann að því, hvort indíánar með sinn lit, séu bara ekki alveg eins fallegir og allir hinir. Vilja ekki allir vera með slétt hár ef þeir eru með krullur og öfugt, ljóshærðir vilja vera dökkhærðir og öll sú della. Ergo, allir keppast við að vera öðruvísi en guð gaf þeim að vera. Hvort þetta allt gerir okkur eitthvað hamingjusamari, er stóra spurningin.
Ég hef aldrei getað séð að lítið, feitt og ljóshært fólk, með krullur, væri neitt óhamingjusamara en hávaxið og horað, dökkhært fólk, sem er með aftursleikt hár. Málið er að öll viljum við líta vel út, en gætum þó stöku sinnum leitt hugann að, hvort kannski sé óþarfi að breyta sköpunarverkinu mjög drastískt. Ég hef aldrei séð neitt misræmi í náttúrinni (nema af mannavöldum) og hef stundum leitt hugann að því, hvers vegna við eyðum svona miklum tíma í þessa dellu. Skal tekið fram að ég tek fullan þátt í henni.
Það er nú meiri runan sem vellur upp úr manni, bara svona rétt við að sjá fallegt útsýni. Ég vona að landið okkar sleppi við öll þessi áform sem eru í gangi um að slöra íslenskt útsýni af, hægt og rólega. Það heitir á góðu máli að fljóta sofandi að feigðarósi. En hvort þið eruð löng, stutt eða feit eða mjó og allt það, er mér alveg sama um, það er bara lífsis gangur. En fólk mætti alveg eyða smávegis af öllum þeim tíma, sem fer í svona pjattpælingar, til að hugsa um hvernig því liði, ef öll þau forréttindi sem fylgja því að eiga hreint land, og lítið mengað væru ekki lengur fyrir hendi! - Bestu kveðjur til ykkar allra þarna í hreina loftinu.
Athugasemdir
Flottur pistill og ég tek undir hvert orð.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 24.8.2011 kl. 13:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.