Blogg, myndir og önnur vandræði

100_3164P1152624100_3165       Fjórar skálar og eitt tafl.

P1202641P2012691

 Þessar myndir eru allar af hlutum sem ég er að vinna að til að sýna í vor í Iðuhúsinu, Lækjargötu. eins og sjá má eru þær misstórar og allar í einum graut, en það er algerlega skrifað á klaufaskap minn við að stjórna því að koma þeim sómasamlega á síðuna. Þetta stunda ég með íhlaupum í bloggið, en ég hef ótrúlega gaman af að tjá mig um allt sem ég hef áhuga á og aðrir skrifa.

Ég er svo heppin að vinnustofan er hérna í kjallaranum og ég stekk bara milli hæða, annað hvort til að blogga um eitthvað sem mér datt í hug niðri, eða gera einhvern hlut sem mér dettur í hug meðan ég blogga. Nú verð ég að fara að minnka bloggið og vinna meira, örugglega mörgum til léttis, því ekki dugar að halda sýningu í hálftómum sýningarsal. Það er víst, því miður, ætlast til að maður hafi eitthvað til sýnis.

Í gærkvöldi tók ég þátt í  umræðu á blogginu Hans Axels Jóhanns Axelssonar, sem endaði í hundleiðinlegum langhundi sem var bara orðinn að þvælu. Axel stoppaði þetta bara, eða reyndi það, en mér sýnist það nú ekki alveg hafa tekist. Ég var svo heppin að vera búin að lýsa mig hætta, þegar hann tók af skarið. Mikið getur argaþras með fákunnáttu verið leiðinlegt, en ég lýsi mig alveg blanka, fyrir utan að ég vil banna búrkur. Fyrirgefðu Axel minn að ég skyldi ekki hætta fyrr.

Ég er algjör þorramatsfíkill, en því miður virðist góður þorramatur vera að hverfa. Hann er illa eða ekkert súrsaður, stundum bara fúll og rándýr í ofanálag. En hákarlinn í Fiskikóngnum toppar tilveruna á meðan hans er neytt. Ég ákvað bara að ég yrði fárveik ef ég fengi hann ekki á hverjum morgni, allan þorran því auðvitað vil ég ekki leggjast í rúmið núna í skammdeginu. Það er bara eitt sem truflar þessa kenningu mína, en ég slæ bara á það, það er, hvers vegna ég er búin að vera stálslegin án hans alla mína ævi - hm. Það er verst að maður getur ekki verið þekktur fyrir að drekka Brennivín, með kalla, eldsnemma á morgnana, en gvöð hvað hann er góður með og án þeirra veiga.

Fékk mér stuttan göngutúr um miðnættið, veðrið var svo gott að ég naut hans virkilega. Ekki var verra að sjá að nágranni minn og fjölsk. voru búin að slökkva á ljótustu útseríu sem ég hef nokkurn tímann séð. Þau gleðja mig með henni á hverju ári, en hún hékk fram í apríl fyrir ári eða tveim en var hengd upp fyrir jólin. Liturinn er eins og að koma inn í illa lýst líkhús og stærðin maður. 

Þetta er beint fyrir utan stofugluggann okkar, en eldhúsið hjá þeim, þannig að þau fá ekki að kveljast eins mikið og við hérna beint á móti. Að seríunni undanskilinni hefur þetta fólk aldrei sýnt mér nein leiðindi,  er afskiptalaust, svipfallegt og virkar alveg prýðisfólk. Ég er svo mikil gunga að ég hef aldrei getað drifið mig yfir og spurt í góðu, svona upp úr miðjum febrúar, hvort þau væru ekki til í að hætta til næstu jóla. En það er nú kannski hámark frekjunnar að leyfa sér að engjast yfir einhverri jólaseríu sem nágrannanum finnst falleg, en ég fæ hugsunarleg frekjuköst þegar ég horfi á. Þarna sannast enn einu sinni að beauty is in the eye of the beholder.

Best að drífa sig í háttinn og hætta að skrifa mikið um ekkert.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Mikið eru þetta fallegir hlutir sem þú ert að búa til Bergljót mín, ef ég verð fyrir sunnan þegar sýningin verður þá droppa ég við.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 1.2.2011 kl. 07:22

2 Smámynd: Yngvi Högnason

Fallegar skálar Bergljót. Það er ekki kastað höndum til verka þarna.

Yngvi Högnason, 1.2.2011 kl. 07:43

3 Smámynd: Sigurbjörg Eiríksdóttir

Alltaf gaman að lesa skrifin þín..Ég ætla að skoða sýninguna þína..Það væri ekki lakara að hitta þig í kaupbæti:)

Sigurbjörg Eiríksdóttir, 1.2.2011 kl. 09:14

4 Smámynd: Bergljót Gunnarsdóttir

 Takk öll! Sýningin opnar 28. apríl og ykkur er öllum boðið, ef þið sjáið ykkur fært að koma.

Bergljót Gunnarsdóttir, 1.2.2011 kl. 09:43

5 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Verð að öllu forfallalausu í bænum, það á að ferma eitt barnabarn og svo eru tvibbarnir mínir og mamma þeirra að fara til Japans um þessi mánaðamót, ætla nú að fylgja þeim úr hlaði, eigi mega þær fara með allt vitið frá Íslandi.

Hlakka til að koma og skoða.

Kveðja
Milla

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 1.2.2011 kl. 15:27

6 Smámynd: Bergljót Gunnarsdóttir

Vertu velkomin! Mikið hlakka ég til að hitta ykkur!

Bergljót Gunnarsdóttir, 1.2.2011 kl. 18:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband