8.1.2011 | 20:03
Ja hérna hér, eða hvað?
Þessi blessuð höfn sem er líklega eitt mislukkaðasta mannvirki síðastliðinna ára, fyllist ekki bara af sandi, sem kostar ærið fé að moka upp aftur, fyrir utan fyrirhöfn og tímann sem það tekur, aðra hverja viku eða svo, heldur státar hún af bílastæði sem hver sá sem þarf að lakka eða láta lakka bílinn sinn getur sparað sér sanblástur á undan þeirri aðgerð.
Ég legg til að komið verði upp stöð, fyrir þennan sandblástur og annan sandlástur fyrir sanngjarnt verð, og þá getur þú treyst því að það verður ekki málningararða eftir á druslunni þegar þú kemur aftur úthvílddur úr helgarfríi í Eyjum, þeir eru jú landsþekktir fyrir gestrisni. Ef það skyldi nú vilja svo til að vind lægði, má bara nota stórar viftur til að halda blæstrinum gangandi, það er jú nóg af sandi þarna sem hefur verið mokað upp úr höfninni.
Þetta verður þá eins og einhverskonar eilífðarvél, moka, moka, blása blása og allir verða kátir. Þá er aðeins eitt smávandamál. þ.e. ef höfnin fyllist ekki nógu hratt, jú, þá má bara moka inn í hana aftur svo það sé hægt að moka upp úr henni aftur, eða beina blæstrinum bara beint út í höfnina aftur.
Vestmanneyingar, ja, jú, þeir verða víst bara að sína biðlund og nota Þorlákshööfn á meðan á sandblæstrinum stendur, en það mætti kannski moka dálítið hressilega upp svona fyrir jól og páska. Þeir þyrftu ekkert að móðgast út af þessum framkvæmdum, því þetta myndi auðvitað stórauka ferðamannastrauminn til Eyja.
Bílar skemmdust í sandfoki | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það er ekki eitt það er allt að þessari höfn, svei mér þá.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 8.1.2011 kl. 20:14
Ég vona svo sannarlega að þessi höfn sé annað "Kröflu-ævintýri", en þar lá allt gegn virkjuninni árum saman, en núna malar hún gull.
Axel Jóhann Hallgrímsson, 8.1.2011 kl. 20:32
Hjartanlega sammála og myndi gleðjast manna mest færi svo, en ég mátti bara til með að benda á skammtíma úrbætur
Bergljót Gunnarsdóttir, 8.1.2011 kl. 22:00
Frábær pistill, búin að hlæja mikið, en versta við þetta er að ég tel að sandurinn muni eigi minka svo gjörla, höfnin verður trúlega alltaf ónothæf, en vonandi er ég ekki sannspá.
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 9.1.2011 kl. 11:58
Það er svolítið öfugsnúið ef til frambúðar þarf að láta dýpkunarskip sigla á undan Herjólfi og dæla uppúr rennu fyrir hann til að sigla eftir.
p.s. Flott fjölskylda í þættinum á Stöð 2.
Axel Jóhann Axelsson, 9.1.2011 kl. 21:17
Takk, það er ekki daglegt brauð að þykja bæði fyndinn og flottur.
Bergljót Gunnarsdóttir, 9.1.2011 kl. 23:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.