23.12.2010 | 19:03
Jól í Kína 2006
Kínverskt jólatré.
Læt hérna inn blogg frá jólunum í Kína 2006, ef einhver hefur áhuga.
Í dag er annar í jólum og ekki seinna vænna en að óska öllum gleðilegra jóla. Við erum búin að vera svo upptekin við jólaboð og ofát að ég hef hreinlega ekki haft tíma til að setjast við tölvuna. Ég reikna heldur ekki með að neinn hafi saknað þess í jólaönnunum þó kerlingaranginn þarna austur í Kína hafi hægt aðeins á sér.
Eitt af því sem var að gera mig sturlaða fyrir jólin, var jólapappírinn, fyrst að finna hann, síðan að opna hann, en hann kemur í pínulitlum rúllum ca. ¼ af venjulegri örk heima og hver rúlla er límd með límbandi á 4 stöðum. Þegar búið er að plokka það af, án þess að skemma örkina, byrjar aðaldjobbið, en það er að líma arkirnar saman svo þær nái utan um pakkana. Límbandið er sérkapituli, en það er af uppáhaldsgerðinni minni sem rifnar alltaf í sundur óbeðið og festist síðan við rúlluna og ekki nokkur leið að finna endann. Kannast einhver við þetta?
Hér er yndislegt jólaveður, snjór, 20 m. vindur á sekúndu og 14° frost. O- nei þetta var víst Ísland. Hér er ekki nema svona um það bil bil 20° hiti og hægur sunnan 3 eða þannig.- Best að hætta að vera andstyggilegur, svona rétt um hátíðarnar.
Lífið kennir latri konu að spinna eða naktri að vinna segir víst í málshættinum (alltaf verið að ráðast á konur) og ég held ótrauð áfram að blogga, þótt kominn sé þriðji í jólum. Jólin hjá okkur voru alveg eins og jólin eiga að vera, hátíðleg og björt, allir í góðu skapi og í sínu fínasta pússi. Stórfjölskyldan í Kína var hér hjá okkur á aðfangadagskvöld, ásamt ungum manni sem er hér á ferðalagi og við hittum, eiginlega af tilviljun í skötuveislu á Þorláksmessu og buðum að vera með okkur.
Sá heitir Friðgeir og er nemandi í listaháskólanum heima á Fróni, leiklistardeild, eða öllu heldur nýrri deild tengdri leiklist sem ég kann ekki að nefna.. Hann er aðlandi og ákaflega prúður ungur maður og mér var sönn ánægja af samskiptum okkar við hann.
Skötuveislan er kapituli út af fyrir sig. Haldin heima hjá Óla Jóns, mínum fyrrv. af Finni Arnarsyni myndlistarmanni og fjölskyldu, sem eru hér í 4 mánuði við listaakademíuna og búa í lítilli íbúð með 4 börn. Óli Jóns býr í stórri stórri íbúð á tveimur hæðum, með stórum þaksvölum og þar var skatan soðin og veislan haldin. Foreldrar Finns komu hingað um jólin, klyfjuð íslenskum mat, skötunni að sjálsögðu, hangikjöti, hákarli, rúgb,rauði ofl. ofl., meira að segja smjöri, Mér liggur við að segja sméri, þetta var svo þjóðlegt, stórkostlega flott og GOTT. Með þessu var kneifað öl og snafs. Allir skildu seint um kvöldið, saddir og sælir og komnir í jólaskap. Alveg meiriháttar.
Það er svo margt, eins og ég hef víst nefnt áður, sem er erfitt að fá hérna og eitt af því eru kerti. Kaninn segir What´s Christmas without a tree, en Bergljót Gunnarsdóttir segir hvað er hátíð án kertaljósa. Kertin fundust að lokum í Metro þar sem Beggo Group gerir mest af sínum innkaupum og þar af leiðandi varð allt svo hátíðlegt hjá okkur.
Kínverjar eru svo óvanir kertaljósum, að það er víst ekki nokkur leið að tendra þau nálægt þeim. Þeir vestrænu staðir sem hafa reynt það hafa allir gefist upp utan einn sem er með þau í gríðarháum stjökum. Ástæðan er sú að að þeir fikta í kertunum, pilla og plokka þangað til allt flýtur í vaxi. Tvisvar verður kertaljósbaðaður Kínverji barn ( kannské ég stofni bara málsháttaverksmiðju).
Nýjustu fréttirnar eru þær að Elín og Rúnar eru að flytja. Þau eru búin að fá stórt og fallegt hús á mjög fallegum stað við stóran almenningsgarð hérna í borginni. Þau ætla að búa á efri hæðinni. Í bakhúsi, áföstu, eru fjögur herbergi á tveim hæðum og þar ætla þau að hafa vinnustofur og hljóðstúdíó. Á neðri hæðinni ætla þau að opna lítið veitingahús í heimilislegum stíl. Þau munu hafa fáa en góðan mat og gott kaffi ásamt vínveitingum og smásnarli. Staðurinn á að heita Heima.
Orðið heima er til í kínversku (eins borið fram) og þýðir Svarti folinn, en hann er tákn þess veðhlaupahests sem þykir ólíklegastur til að vinna, en fer fram úr öllum fyrstur í mark. Vona að það viti á gott. Þetta er líka ágætt á ensku, At Home.
Það hefur verið mjög erfitt að komast inn á netið undanfarið og Skype smbandið rofnar nær nudantekningalaust. Þess vegna hef ég ekki getað haft samband við næstum alla, sem ég vildi hafa um jólin. Því óska ég ykkur öllum enn og aftur gleðilegrar hátíðar og gætið þess vel, að vera södd, værukær og sæl það sem eftir er hátíðarinnar.
Nú eru liðnir 12 tímar síðan ég skrifaði þetta, en máttarvöldin eru mér ekki hliðholl því það varð mikill jarðskjálfti á Taiwan í gærkvöldi og endalausir jarðstrengir og dót slitnaði þannig að internetið er óvirkt. Skjálftinn fannst vel hérna í Xiamen, enda sjáum við til Taiwan á góðum dögum, Hann var víst yfir 7° á richter, en við vorum svo heppin að vera úti að ganga og fundum ekki neitt, en fólk sem býr hérna í kringum okkur, efst í húsunum var skelfingu lostið. Við höfum ekki nánari fréttir af þessu, en maður verður bara að vona það besta fyrir þetta vesalings fólk sem hlýtur að missa allt sitt í svona hamförum.
Nú er kominn 28. des og kl. er 12 á hádegi. Við höfum ekki fengið neinar fréttir af jarðskjálftanum, því hér í landi eru slysa og hamfarafréttir aldrei birtar almenningi. Ef við komumst í slíkt er það í gegnum netið en það er ennþá bilað. Mér finnst þetta vera orðin hálfgerð langavitleysa hjá mér, en hún fer í loftið um leið og netið byrjar að virka aftur.
Athugasemdir
Hvar í Kína varst þú? Hefur sjálfsagt dvalist í "útlendingabúðum", eða sérstökum íbúðum sem ætlaðar eru útlendingum.
Í fyrsta lagi er nú einfalt að fá kerti í Kína, það er bara að fara í næsta IKEA, þar er nóg af þeim. Síðan nota Kínverjar kerti, ef það er ekkert ljós til staðar. Síðan hvað varðar hamfarafréttir, þá er þetta bara bull ... það er nóg af slíkum fréttum í Kína. Hérna má líta á nóg af slíkum fréttum kringum óveðrið sem nú herjar.
http://news.baidu.com/z/r/2010hanchao/index.html
Bjarne Örn Hansen (IP-tala skráð) 23.12.2010 kl. 21:09
Ég dvaldist í tæp fimm ár þarna, í Xiamen, en þar er ekkert IKEA. Að vísu hafa fréttir af hamförum breyst aðeins til hins betra síðan 2006, en þetta var ekkert bull þá. Hef ekki fylgst með óveðrinu sem nú herjar á Kína. Ég átti mitt heimili þarna innan um kínverskar fjölskyldur og varð ekki vör við neinn útlending framan af, dvaldist ekki í neinum búðum. Varst þú í svona búðum, ef svo, hvenær og hvar og hvers vegna eru svoleiðis búðir? Ég hef aldrei heyrt þær nefndar, en finnst áhugavert að einhver hafi mögulega verið á svoleiðis stað..
Bergljót Gunnarsdóttir, 23.12.2010 kl. 21:24
Skemmtileg frásögn, og vekur furðu að jólapappírinn og límbandið sem við þrívefjumm utan um stóru pakkana hér og er framleiddur í Kína, skuli ekki vera til innanlands.
Þeim er misskipt þessum reglum um innflutning á "jólamat". Sunnan landamæra, getur fólk flutt inn lambakjöt, hangikjöt og þorramat, en hér aðeins norðar fáum við ekki að smakka neinn íslenskan jólamat nema gerast lögbrjótar.
Það hefur örugglega verið skemmtileg upplifun að búa í fjölmennasta ríki veraldar, en vera samt ekki með agnarögn af minnimáttakennd.
Gleðileg jól, mín kæra
Jenný Stefanía Jensdóttir, 23.12.2010 kl. 22:11
Gleðileg jól, kæra bloggvina:)
Sigurbjörg Eiríksdóttir, 24.12.2010 kl. 10:06
Mínar bestu jólakveðjur til þín og þinna, kæra bloggvinkona.
Axel Jóhann Hallgrímsson, 24.12.2010 kl. 12:24
Gaman að lesa þessa frásögn af hátíð í Kína. Takk fyrir það. Gleðileg jól og farsælt ár til þín líka Bergljót mín.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 24.12.2010 kl. 13:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.