Fáum við pakka?

 

Allsnægtatréð (Beggó 2006)

 100_0363_1

 

Það líður að jólum og allt er að renna í þennan venjulega jólafarveg. Auglýsingarnar dynja á manni í fjölmiðlum, auglýsingapésum sem hrynja inn um póstlúguna í tugatali og á allskyns annan hátt. Kaupmenn segja segja að jólasalan í ár sé með betra móti og nóg virðist að gera í Kringlunni og hvað þetta heitir nú alltsaman.

Andstæðurnar í samfélaginu sjást svo vel á þessum tíma, ef maður má vera að því að líta upp og hætta smástund að hugsa um sjálfan sig. Ég átti erindi í Kringluna í sl. viku og hraðaði mér um ganga og gólf þar til ég kom að jólatré einu svo stóru að það náði milli hæða. Undir þessu tré var töluvert af jólapökkum en þar hefur fólk tækifæri til að kaupa eitthvað, pakka því inn, merkja dreng eða stúlku og setja undir tréð. Þarna stóð ung, hugguleg, en þreytuleg kona, með þrjá stráka, sem henni gekk afleitlega að draga burt frá trénu.

 "Mamma heldurðu að við getum fengið eitthvað af þessum pökkum", var spurt, en svarið var "ætli það". "Eigum við að spyrja" sagði einn þeirra. Svarið var "nei, það þýðir ekkert". "Gerðu það", "nei". "Fáum við nokkurn pakka sagði sá elsti". Allt í einu tók konan á sig rögg, togaði í strákana og þegar þau fjarlægðust heyrði ég hana segja, "þið fáið pakka, engar áhyggjur" Mér varð litið á hana, eitt augnablik, á andlitinu var stór skeifa og tonn af áhyggjum. Drengirnir eltu hana, en tóku ekkert eftir hvernig henni leið, alsælir með jólapakkana sem þeir fá - kannski?

Ég veit ekki hvernig þessum pökkum er útdeilt, eða af hverjum, vona þó að þeir fari á sem flesta staði, þar sem þörfin er mest. Ég vona líka að fólk hætti að andskotast smástund út í ríkisstjórnina, þó hún eigi það fyllilega skilið, svona eins og til jóla, og snúi sér að því að tæma vasana og gá hvort ekki finnist einhverjur smáaurar sem safna má saman í sjóðina til styrktar þeim sem ekkert eiga en langar að gleðja börnin sín á jólunum. Munið að margt smátt gerir bara töluvert stórt ef margir leggja til. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk fyrir að vekja athygli á þessu Bergljót mín.  Það er alveg rétt, það er gott að stoppa augnablik og hugsa um þá sem ekki hafa það svo gott. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 13.12.2010 kl. 09:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband