Hverrnig er að vera í Kína XIII

Kínversku áramótin III

 

AlbumImage[5] (2)

Ég held að enginn alki eða dópisti, hafi nokkurntímann þráð skammtinn sinn, eins og ég þráði heitt rjúkandi kaffi þennan fyrsta morgun nýs árs. Auðvitað var það borin von, því kaffi fæst ekki nema á örfáum vestrænum veitingastöðum í borgunum.

Ég gat þó yljað mér við tilhugsunina, smástund, áður en ég  ákvað að sýna af mér þann hetjuskap að afklæðast öllum fötunum, sem ég hafði á tilfinningunni að væru farin að gróa við mig, og láta mig síðan hafa  það að fara undir ískalda sturtuna, því ekki var neitt heitt vatn á þessu lúxushóteli okkar. Þegar til kom gat ég þó ekki, með nokkru lífsins móti, fengið líkamann til að hlýða höfðinu og þetta endaði með ísköldum kattarþvotti, sem ég skal þó viðurkenna að var allhressandi, svona eftirá, þegar ísinn fór að bráðna í blóðinu.

Raufjólublá á litinn, gvöð það fer mér svo illa, hófst ég síðan handa við að dulbúast, svo enginn sæi að þetta voru alltaf sömu fötin sem ég var í. Fyrst var það mohairpeysan, síðan svört, og sú röndótta yst. Guð hvað mér leið vel, nýþvegin fra top til to, í síðasta nærfatasettinu, tvennum þykkum sokkabuxum og tvennum legglífum undir gallabuxunum sem ég hreinsaði með blautu handklæði til að hressa aðeins upp á þær. Ég reyndi aldrei að fara í pilsið sem ég tók með, það hefði verið óðs manns æði og líklega valdið uppþoti að klæða sig svo glænepjulega :-D

Á slaginu 11 fh. komu gestgjafar kvöldsins áður, að sækja okkur, ásamt flestum gestanna, því þetta er jú allt sama familían. Við settumst upp í þrjá bíla og ókum sem leið lá, fram hjá beljuþorpinu, og síðan aftur ofar í fjöllin, ekið var  í sömu þéttu úðarigningunni, þannig að varla sá handaskil í u.þ.b. klst.

Þegar við komum að húsi elsta bróður fjölskyldunnar, stóðu 6 - 8 karlmenn úti, en þegar við stigum út úr bílunum var kveikt í heilli stæðu af kínverjum, okkur til heiðurs. Stæðu, ég meina STÆÐU! Hávaðinn var svo ærandi að ég var með hellu fyrir öðru eyranu allan daginn, og hef grun um að svo hafi verið um fleiri. Sprengjendurnir skemmtu sér þó konunglega, enda orðnir góðu vanir, því rauðu skaflarnir fyrir utan húsið voru af hærri gerðinni.

Þessu næst vorum við boðin að ganga í hús, ekkert smáhús, upp á fjórar hæðir og hver þeirra örugglega ekki minni en 300 ferm. Þetta var allt ein opingátt, en á borðum stóð heitt te og sælgæti í hrúgum. Enginn var kynntur fyrir neinum, fólkið, það sem þekktist, heilsaðist ekki með neinum sérstökum virktum, þó ekki væri það neitt kuldalegt hvert við annað. Við Oddur stóðum þarna gjörsamlega óáreitt, svona rétt eins og enginn tæki eftir okkur og biðum þess sem verða vildi. Þá tók einn bróðirinn sig út úr hópnum og rétti okkur sígarettur, Oddi þrjár, mér tvær. Við vorum rétt búin að kveikja í, þegar sá næsti kom og síðan koll af kolli, með smáhléum þó, þar til allir vasar voru fullir af tóbaki.

Nú var boðið til borðstofu og þá fyrst gekk húsbóndinn í salinn, mesti myndarkarl, dökkbrúnn á hörund og bar það greinilega með sér að hann hefur unnið hörðum höndum að velsæld dagsins í dag. Þar með upphófst átveisla sem sló öllu því sem á undan var gengið við. Það var setið við tvö gríðarstór hringborð og réttirnir flæddu yfir okkur hver af öðrum. Síðan kom Midjuið og nú upphófst eitt allsherjar gambei, allir skáluðu við alla og meira að segja ég stóð upp og gambeijaði við húsráðendur til að vera ekki síðri hinum, þetta líkaði þeim greinilega vel. Að vísu sá ég frúna aldrei, hún var alltaf í eldhúsinu, en þrír synir tóku hennar stað. Það skal tekið fram, að til sveita má eignast mörg börn, því þar er alltaf skortur á vinnuafli.

Eftir matinn ákváðum við, ásamt  John og Zhong Yu að fá okkur göngutúr, vopnuð stórum regnhlífum. Þetta er fremur lítið þorp, en nokkuð ríkmannlegt, þó sýndist mér hús gjestgjafa okkar stærst. Við höfðum gengið svona 100 metra þegar hann birtist, á sparifötunum, yfirhafnarlaus, en hann virtist sá eini sem ég sá í allri ferðinni, sem kuldinn virtist ekki hafa nein áhrif á, jafnvel þótt hann væri rennblautur í lappirnar. Sparskyrtan, flottur kamelullar jakki og blankskórnir báru þess merki, ásamt stórri, risastórri regnhlíf, að hér fór fyrirmaður og þeir geta greinilega ekki veitt sér þann lúxus að vera kalt.

Hann dró okkur á eftir sér meðfram löngum hrísgrjónaakri, ca 3 til 4 km. og þá fór að grilla  í hús. Við eltum hann allangan veg að einu þeirra. Hann óð inn í einhversskonar stóra forstofu og kallaði fullum hálsi  þar til kona ein lítil og grönn, með afbrigðum roluleg, jafnvel hrædd birtist.

Hann skipaði henni nokkuð valdsmannslega fyrir og innan tíðar kom hún með rjúkandi te, en fyrir voru hrúgaðir bakkar af sælgæti og ávöxtum. Allt í einu stóð ungur maður inni á gólfinu, án þess að ég sæi hann koma, skælbrosandi og óðamála mjög. Hann talaði á mállysku sem hvorki Zhong Yu eða Jonh skildu, en hvert þorp hefur sína mállýsku og enginn skilur neinn, nema talað sé mandarin, sem er hin opinbera kínverska. Skyndilega sá ég að þessi brosmildi, málglaði ungi maður var vangefinn, en alsæll að fá gesti. Fylgdarmaður okkar byrjaði að gefa honum einhverjar bendingar um að þegja, sem hvarflaði ekki að honum að gera, en hann er sá eini þar sem við komum í hús, sem tók okkur fagnandi við fyrstu sýn. Þökk sé honum.

Við höfðum gengið frá þorpshúsi þessa fylgdarmanns okkar, til borgarinnar og nú vorum við stödd í borgarhúsinu hans. Það var gríðarstórt, en að niðurlotum komið og skítugt eftir því. Þessi karl var svo ríkur að hann byggði bara nýtt hús í næsta þorpi þegar honum leist ekki lengur á blikuna, flutti með sér stórfjölskylduna, fimm syni og þrjár dætur og parkeraði frúnni í nýtt eldhús, eflaust alsælli, ásamt einhverju af tengdadætrum og barnabörnum.

Dæturnar voru ekki sjáanlegar, því þær voru allar giftar, fluttar að heiman og tilheyrðu þar af leiðandi nýrri fjöskyldu, fjölskyldu mannsins, og þar með orðnar eign hennar. Eiginkonur kínverja eru eiginkonur í orðsins fyllstu merkingu, þær eru eign mannanna og hafa ekkert um neitt að segja, nema maðurinn af örlæti sínu samþykki það. Engin furða að kínverskar konur ásælist erlenda menn, jafnvel 50 árum eldri.

Nú þreyttist maðurinn á að skipa þessum syni sínum, sem hann hafði skilið eftir í borgarhúsinu þegar hann flutti, að þegja og öskraði á hann, eldrauður í framan og ungi maðurinn hraktist frá um stund. Það virðist engum finnast neitt tiltökumál að hann var skilinn eftir þegar fjölsyldan flutti, ásamt þessari rolulegu tilsjónarkonu sinni, sem var honum þó greinilega góð.

Eftir að hafa drukkið teið stóð maðurinn upp og byrjaði að tala í símann og var mikið niðri fyrir. Greinlegt var að þarna var hann að stjórna einhverri aðgerð. Hann sagði að við yrðum við að bíða eftir að synirnir kæmu á bílum úr þorpinu, og nú yrði haldið að gröf föður þeirra bræðra, og elstu synir þeirra allra  kæmu líka.. Við biðum dágóða stund eftir þeim, en þegar við settumst inn í bílana var yfirgefni sonurinn kominn aftur, skælbrosandi og málglaður sem fyrr, en þó brá brosinu þegar ekið var burt, og hann skilinn eftir aleinn í rigningunni, þarna við húsdyrnar.

Leiðin lá upp í fjall eitt og bílunum lagt þar. Síðan gengum við í grenjandi rigningu upp leðjukenndan leirstíg, einhveja par hundruð metra uppímóti, þar til komið var að grafhýsinu. Ég hefði sprungið hefði ég þurft að ganga skrefinu lengra, en nú var mér þó orðið sjóðheitt.

Grafhýsið var skærbleikt að lit, með stórri verönd og allt flísalegt að utan sem innan með allskyns blóma, fiska og fuglamyndum. Inni fyrir var fallegt altari með Búddalíikneski, og í krigum það var raðað allskyns táknrænum hlutum og fórnargjöfum, svo sem fallegum skeljum og allskyns glingri. Karlarnir og synir þeirra voru allir kampakátir, greinilega stoltir mjög og hlógu mikið, það var sko ekki aldeilis nein fýla á ferðinni þarna þrátt fyrir stífa serimóníu. Fyrst var kveikt á kertum og ljóskerjum, síðan á nokkrum tugum reykelsisstanga, sem loga upp undir sólarhring, og okkur réttar þrjár til fjórar á mann.

Við stóðum fyrir utan meðan þessu fór fram, en nú steig Kameljakkinn innfyrir, hneigði sig tvisvar og tautaði eitthvað, kom reykelsum sínum fyrir í keri við fótstall Búdda, en síðan gerðu allir karlarnir það sama í réttri goggunarröð, eftir aldri. Að lokum kom að okkur. John hinn trúlausi fór fyrstur og  síðan Zhong Yu. Oddur benti mér að fara á undan sér, karlarnir urðu svolítið skrítnir á svipinn eitt augnablik, en sögðu ekkert.

Þar sem ég er hvorki búddatrúar eða veit hvað þeir sem hana stunda hugsa á svona stundum, hallaði ég mér bara einu sinni fram og hugsaði, guð hvað mér er kalt, síðan beygði ég mig aftur og hugsaði megi friður fylgja þeim sem hér hvíla, og svo beygði ég mig í þriðja sinn og hugsaði, eða tuldraði upphátt  Viltu góði guð hugsa um þennan einmanna vangefna mann, sem var skilinn eftir aleinn og var ekki nógu góður fyrir fjölskylduna. Að lokum  bætti ég við í Jesú nafni, signdi mig, stakk niður reykelsinu og fílaði mig eins og hálfvita í þessari undarlegu situasjón. Þetta var léleg frammistaða miðað við samúðina sem ég hafði með manninum, en þó það eina sem ég gat gert í stöðunni. 

Oddur fór síðastur inn. Hann stóð þarna án þess að bukta sig, stakk reykelsunum varlega en vandlega niður, sneri sér síðan við og horfði á alla viðstadda með fallegt en dauft bros á vör. Þetta var eitt af þeim augnablikum sem ég veit hvað ég elska hann mikið.

Þetta er nú að verða allmikil langloka en ég ætla að ljúka henni á morgun. Þið ráðið hvort þið nennið að lesa þetta allt, en ég er haldin óþrjótandi ritgleði og veð bara áfram, þar til ferðinni lýkur.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband