Trú eða trúleysi

 

kirkjugrein  Hvernig er hægt að blanda svona saman trú og kirkjunni eins og margir hafa gert undanfarið.  Það að sækja kirkju er ekki endilega trú og það að trúa kallar ekki endilega á kirkjusókn. Fólk hefur lýst yfir trúleysi og sagt sig úr þjóðkirkjunni  vegna hneykslismálanna sem hafa komið upp meðal kirkjunnar þjóna og víst eru þau skelfileg. 

Vonandi tekst að stöðva þessa óáran, vekja aftur traust á kirkjunni sem stofnun, þar sem þeir sem áhuga hafa geta komið saman óáreyttir, óhræddir og sáttir við guð og menn. Allir sem vilja, vita að innan kirkjunnar starfar fjöldi presta af heilindum og góðmennsku.

En þetta kemur bara trúnni ekki við nema að litlu leyti, því trúin er innra með fólki og einhverjir afvegaleiddir prestar geta engin áhrif haft á hana. Að lýsa yfir trúleysi vegna þess að kikjunnar menn bregðast,  er bara uppgjöf og sýnir nánast ekkert nema tækifærismennsku.

Hugsið vel áður en þið lýsið ykkur trúlaus, Hver veit nema það komi að því að þið þurfið á trú að halda, hvaða nafni sem hún nefnist, og þá er gott að hafa ræktað hana með sér. Ekki veitir af á þessum tímum óöryggis og sviptinga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Múgsefjunin og hjarðhegðunin lætur ekki að sér hæða, hvorki í þessum efnum eða öðrum.

Axel Jóhann Axelsson, 3.11.2010 kl. 15:30

2 identicon

Frábær grein Beggó!

María Björg (IP-tala skráð) 3.11.2010 kl. 20:50

3 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Sæl - ég skráði mig utan trúfélaga í vor - af princip ástæðum.  Ég er í fyrsta lagi alls ekki trúlaus, á fjölskyldu, fullt af vinum og kunningjum innan kirkjunnar og lít upp til margra þjóna hennar.

Kirkjan er að glíma við að kirkjan stendur fyrir þrennt, yfirstjórn + biskup,  kirkjan sem hús, kirkjan sem samfélag trúaðra. 

Ég sætti mig við samfélag trúaðra og þeirra sem láta sig náungann varða.  

Ég var innanbúðar, þ.e.a.s. fékk að vera á fundum og á póstlista presta og guðfræðinga,  þegar verið var að ræða hjónavígslu samkynhneigðra,  þar blöskruðu mér viðbrögð biskups og framkoma hans og sumra presta innan kirkjunnar svo svakalega að ég ákvað að fara í mín "þöglu" mótmæli og segja mig frá stofnuninni þar til að mér liði þannig að yfirstjórn talaði máli náungans.  Svo hefur nú bara frekar bætt í heldur en hitt.  Fyrst biskupsmálið (þ.e.a.s. vegna Ólafs Skúlasonar) og hvernig yfirstjórn dró fætur í því máli.  Nú er það nýjasta að prestar hafa misst sig  og þá biskup líka í hvössum yfirlýsingum vegna tillagna mannréttindaráðs.  Yfirlýsingum og orðum sem voru kirkjunni ekki til framdráttar og sýndu engan tón sáttar - umburðalyndis eða neins af því sem kristnin á að standa fyrir. 

Sem betur fer dúkkaði upp prestur, Hildur Eir Bolladóttir, sem var tilbúin að líta í eigin barm - eða réttara sagt barm kirkjunnar og fara í samtal við náungann en ekki bara að tala yfir honum eða siða. 

Hún vakti með mér nýja von hvað þjóðkirkuna varðar og þjóna hennar. Reyndar eru fleiri í þeim hópi - svo sannarlega. 

Biskup sagði að verið væri að höggva að rótum trúarinnar í sinni yfirlýsingu gagnvart mannréttindaráði.  Að sjálfsögðu er ekki höggvið að rótum trúarinnar,  það var höggvið að kirkjunni sem hafði minni möguleika á að hafa áhrif inni í skólakerfinu. 

Ég er ekki viss um að trúin risti djúpt hjá þeim sem lýsa yfir trúleysi þrátt fyrir hegðun ákveðinna aðila eða forsvarsmanna kirkjustofnarinnar.  

Trúin verður seint frá mér tekin.  

Því er ég sammála þessum orðum þínum -  "því trúin er innra með fólki og einhverjir afvegaleiddir prestar geta engin áhrif haft á hana"..

Ég tek það fram að ég hef starfað mjög mikið innan kirkjunnar, ólst þar upp við sunnudagaskóla -  hef prédikað og lært innan þessarar stofnunar - og eins og áður sagði á fjölmarga vini. 

Því var það sárt að segja mig frá stofnuninni Þjóðkirkjunni - en ég tel mig alltaf tilheyra kirkju Jesú Krists á jörðu.  

Axel Jóhann - múgsefjun og hjarðhegðun getur komið úr öllum áttum. 

Jóhanna Magnúsdóttir, 4.11.2010 kl. 11:51

4 Smámynd: Arnar

Afhverju þarf stofnun til að trúa?  Sá guð sem finnst bara í ákveðnum byggingum eða í gegnum sérlega útsendara er frekar óáhugaverður guð.

Arnar, 4.11.2010 kl. 12:32

5 Smámynd: Bergljót Gunnarsdóttir

Takk fyrir Jóhanna ég held að við séum alveg sammála, þó ég hafi ekki sagt mig úr þjóðkirkjunni, ég vil ekki láta ýta mér út á röngum forsendum. Forsendurnar verða að vera mínar, en ekki ofnæmi fyrir gerðum kirkjunnar þjóna,  sem ég er, svo ekki sé meira sagt, mjög ósátt við.

Ég er eins og þú alin upp við sunnudagaskóla, þar sem afi minn séra Magnús Jónsson guðfræðiprófessor byrjaði að kenna mér fræðin. Þar kenndi og biskupinn okkar nýlátni séra Sigurbjörn Einarsson. Þessir menn voru báðir frjálslyndir og einstaklega barngóðir, þannig að trúin læddist inn í sálina, þaðan sem hún fer aldrei aftur ef ég fæ að ráða.

Ég álít kirkjuna nauðsynlega stofnun, sem okkur ber að endurreisa, endurskipuleggja og reka með reisn. 

Bergljót Gunnarsdóttir, 4.11.2010 kl. 12:52

6 Smámynd: Bergljót Gunnarsdóttir

Við skulum heldur ekki gleyma fyrirgefningunni, sem ég er sannfærð um að er eitt stærsta aflið í heiminum. Takist fólki að fyrirgefa er stórum áfanga náð, en sá eða þeir sem fyrirgefið er mega ekki bara stja á rassinum áfram og láta eins og ekkert hafi í skorist. Það er alltaf pláss fyrir nýtt fólk allsstaðar, meira að segja innan kirkjunnar sýni yfirmenn hennar ekki þá auðmýkt að víkja, stofnuninni til heilla. 

Bergljót Gunnarsdóttir, 4.11.2010 kl. 13:02

7 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Sæl aftur Bergljót - við höfum þá báðar átt afa sem voru guðfræðiprófessorar - minn afi hét Björn Magnússon og kenndi aðallega Nýja testamentisfræði.  Björn afi var einn af talsmönnum"Frjálslyndu guðfræðinnar" ég held að hann og Sigurbjörn hafi ekki verið beint skoðanabræður í þeim málum þó alltaf hafi þeim verið vel til vina.

Gaman hvað Ísland er lítið land ;-)

Jóhanna Magnúsdóttir, 4.11.2010 kl. 13:45

8 Smámynd: Bergljót Gunnarsdóttir

Hvort ég man séra Björn og fjölsk. Ég kom oft heim til þeirra á Bergstaðastr. vegna þess að Ingibjörg frænka þín var vink. mín. Svona er nú lífið bara -.

Bergljót Gunnarsdóttir, 4.11.2010 kl. 16:15

9 Smámynd: Bergljót Gunnarsdóttir

Afar okkar voru skoðanabræður, enda báðir merkustu menn. Ég get bætt við að gamni, að ég er fyrsta barnið á Íslandi sem skírt var úr ánni Jórdan eftir Jórsalaför afa.

Bergljót Gunnarsdóttir, 4.11.2010 kl. 16:20

10 Smámynd: Margrét St Hafsteinsdóttir

Mér finnst að ríki og kirkja eigi að vera aðskilið.  Fólk getur stutt kirkjuna sem það vill tilheyra en aðrir sem vilja ekki styða slík batterí eiga ekki að vera neyddir til þess, eins og núna er gert með sköttum fólks.  Það finnst mér svívirða. 

Sjálf aðhyllist ég mannúð og þekkingu

Margrét St Hafsteinsdóttir, 5.11.2010 kl. 16:05

11 Smámynd: Bergljót Gunnarsdóttir

Sammála, bara aðskilnað strax. þó svo ég sé strangtrúuð. Kristin siðfræði Nýja testamentsins er mín siðfræði.

Bergljót Gunnarsdóttir, 5.11.2010 kl. 19:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband