Hvernig er að vera í Kína X

Kínamúrinn ásamt Feneyjum og Hollywood var bernskudraumurinn.  Feneyjar sá ég um fimmtugt og Kínamúrinn rétt nýorðin 67 ára. Hollywood getur bara átt sig héðan af, enda löngu gleymd og grafin. 

Síðasta morguninn okkar í Peking skruppum við, ég meina skruppum, til að skoða Forboðnu borgina enda tíminn orðinn naumur. Þarna áttaði maður sig í raun og veru á glæsileika Ming tímabilsins, því hún hefur fengið að standa óhreyfð í tímans rás undir stöðugu viðhaldi og er eins og það sem enn stendur frá þessum tíma “breathtakingly beautiful”. Að vísu fær maður ekkert að sjá, nema það sem utandyra er, en rigning og kuldi jók ekki beinlínis á viðveruna þarna.

Þetta er löng ganga í gegnum mörg hlið, því fyrsti keisari þessa tímabils var alveg eins og hinir, sem á undan voru og eftir. Hann áleit sig nafla alheimsins og byggði því borgina í miðju þessa alheims sem hann lét reikna út og hefur örugglega þurft til þess mikla útreikninga, landmælingar og fyrirgefið mér, þvælu, til þess að það mætti lukkast. Á núllpunktinum voru vistarverur hans sem enginn fékk að koma í nema hann, svakalega hefur verið gaman hjá honum!

Peking byggðist síðan smám saman upp út frá þessu og skiptist í hverfi eftir mannvirðingarstigum, aðalsmenn og ættingjar og í austur og vestur við Forboðnu borgina og allir hinir í norður og því norðar sem þeir voru lægra settir. Auðvitað bjó enginn fyrir sunnan nafla alheimsins, þeas.í suður innan borgarmúranna sem hann lét reisa, því varla hefur verið hægt að elta vitleysuna út yfir öll þjófamörk. 

Þetta er þó eini staðurinn af öllum þeim mannvirkjum sem ég hef séð og lýst, þar sem lifandi fólk bjó, utan hallarinnar á Torgi hins h........friðar að ég best veit, byggðist þó upp á nákvæmlega sama hátt og grafhýsin, pupullinn að fyrsta hliði og síðan fækkaði þeim sem höfðu aðgang snarlega, þar til komið var að innstu sellu, þar sem hann hlýtur að hafa setið ósköp einmanna blessaður karlinn. Það er örugglega ekki auðvelt að vera nafli alheimsins.

Ég vorkenni þó meira konunum hans sem ekki voru álitnar færri en 300. Þær voru færðar til borgarinar og fengu aldrei að fara þaðan aftur, þó þær fengju sumar aldrei augum litið þennan ástmann sinn, sem eftir málverkum og gömlum teikningum að dæma var hinn mesti rindill og í raun alveg stórhlægilegur. Þarna þurftu þær að dvelja ævina út, með reyrða fætur og til þess að fá einhverja hreyfingu, af því það var þröngt á þingi eða í búri, höfðu þær kaðla til að príla í og láta reyna á aðra vöðva líkamans en fæturna, svo þær fengju ekki blóðtappa og dyttu niður steindauðar áður en ástmögurinn mikli birtist, ef hann þá birtist á annað borð. Jæja stelpur, var einhver að kvarta? 

Þetta er svosem allt sagt án ábyrgðar en þó með bestu vitund. Eitt verð ég þó að taka fram, að Ming keisari hlýtur að hafa verið ákaflega  klókur maður. Áður en hann færði sig úr innstu sellu í þá næstu fyrir framan til að hitta ráðgjafa sína, sem flestir voru geldingar, því hverjum öðrum var treystandi fyrir þessum 300 konum, flestum í kynsvelti, og þegar hann þurfti að skreppa af bæ, kallaði hann þá yfir í helgidóminn, þe. innsta hring. Þakið hafði hann látið gera með stórum opnanlegum gluggum, gólfið með háglansandi gullhúð og spegla í loftinu.

Hann kallaði aldrei á þá nema í sólskini og var þá í gulum fötum, með gluggana opna og þegar sólin skein inn á gullgólfið og endurkastaðist á speglana lýstist hann upp í gullnum ljóma. Þarf nokkur að efast um áhrifin sem þetta hefur haft á karlagreyin, að sjá alvald tilverunnar í gullnum ljóma með stóran geislabaug?  Eigum við ekki bara að segja, að hafi einhver þeirra reynst laungr....  hafi hann örugglega misst alla náttúru á stundinni við þessa, geislandi sýn, þegar keisararindillinn breyttist allt í einu í guðlega veru. 

Það er nú það, ég hef séð, eins og ábyggilega mörg ykkar, myndir af þessu öllu innandyra, en engum er hleypt þarna inn í dag, þannig að maður er í sömu stöðu og pupullinn forðum og  verður bara að standa utandyra og gera sér í hugarlund hvernig þetta var og er  nú alltsaman. Þó hefur nútímafólk það forskot að fá að ganga í gegn um öll hliðin og virða þetta fyrir sér, sem er vel þess virði. Þessa borg í borginni, ásamt öllu því sem inni er, létu Mao og hans menn í friði, guði sé lof". 

Þá er komið að Kínamúrnum. Ég vissi svosem á hverju ég átti von, annað er ekki hægt eftir 60 ára þráhyggju, að lesa og dreyma um að komast einhverntímann til að sjá hann. En  tilfinningin - hún er ólýsanleg einhverri meðaljónu frá Íslandi sem fær augum litið og að stíga upp á þetta ótrúlega afrek sem múrinn er.  Það greip mig þvílíkur fídonskraftur að ég prílaði upp einar 300 misháar steintröppur, margar allt að 50 cm. háar og komst í gegn um þrjá varðturna áður en ég mundi að ég var búin að vera að drepast í bakinu í marga daga, draghölt og skökk. Mikill er máttur þinn Múr. 

AlbumImage[7]

Útsýnið þegar svo hátt er komið er ákaflega fallegt og kínverskt. Niðri sér á þökin á bóndabæjum og öðrum húsum, þessi dæmigerðu fallegu þök sem eru eins og litlir svartir miðar þarna lengst niðri, síðan gróðurinn í fjallshlíðunum og upp úr þessu stendur svo múrinn, óralangur og hlykkjast um fjöllin eins og eilífðin sjálf  Þennan dag bar hann við bláan og  heiðskíran himin  Það veit sá sem allt veit að ég varð ekki fyrir vonbrigðum. 

Svo mörg voru þau orð, en sjaldan hef ég orðið eins þakklát og sæl innra með mér, eins og þegar ég stóð á fjallstindi uppá sjálfum Kínamúrnum og leið örugglega eins og guði almáttugum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Maður verður að hafa sig allan við að fylgjast með þessum stórskemmtilegu greinum frá Kínadvölinni.  Ég segi bara eins og krakkarnir:  Meira, meira....

Axel Jóhann Axelsson, 3.11.2010 kl. 15:27

2 Smámynd: Bergljót Gunnarsdóttir

Takk.

Bergljót Gunnarsdóttir, 3.11.2010 kl. 18:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband