Hvernig er að vera í Kína IX

100_3164

Ég hélt sýningu á mósaikverkum, mest speglum og stórum skálum. Hún var vel sótt og allt seldist á fyrstu þrem dögunum. Hér koma lýsingarnar sem ég bloggaði, bara nokkuð ánægð með sjálfa mig. Þarna var ansi gaman að vera í Kína.

Þetta er allt komið í gang og Beggó hinn stórkostlegi mósaiklistamaður, hefur stigið fram á sviðið og situr hér virkilega auðmjúkur - og aldeilis - virkilega skelþunnur. Það hvarflaði aldrei að mér hversu góð tilfinning það er að slá bara hreinlega í gegn. Á dauða mínum átti ég von - en ekki þessu. Klukkan fimm opnaði sýningin og fólkið byrjaði að koma, að vísu ofurrólega og frú listamaðurinn fór gjörsamlega á taugum og hélt að það kæmu ekki fleiri, því það var verið að frumsýna kvikmynd á sama tíma, en upp úr sex byrjuðu lætin og fólkið streymdi inn. 

Það komu vel á annað hundrað manns jafnvel rúml. það á opnunina og dýrasti spegillinn seldist eftir ca. 5 – 10 mín. og sama fólkið keypti líka skál. Þetta voru eigendur Sheraton hótelsins, en það er nýjasta hótelið hérna. Þau komu fyrst til að geta valið á undan hinum. Það sem seldist var allt það dýrasta, og þó ég segi sjálf frá var alveg ofsa hrifning með litlu mig - "ef mig skyldi kalla". Það er ekki alveg á hreinu hversu mikið er selt, en það kemur í ljós á næstu dögum. Eitt er þó ljóst að við erum búin að fá fyrir húsaleigunni og uppihaldinu í sex mánuði og vel það. Það er rosalega skrítin tilfinning að speglarnir mínir séu að fara inn á amerísk, þýsk og kínversk millaheimili. Maður er bara að verða eins og einhver tískuvörukerling. 100_3166

Manninum sem á íbúðina okkar var boðið, og hann mætti með alla fjölskylduna. Þau brunuðu í gegn um þetta og flýttu sér út aftur, þáðu ekki einu sinni veitingar, þeim lá svo á. Ég var pottþétt á því að þeim fyndist lítið til koma. En viti menn, hálftíma seinna var karlinn, sem er tæplega áttræður, kominn aftur sprengmóður með eldri bróður sinn, ca. hálfníræðan  og æddi að speglinum sem seldist fyrst og þeir áttu einhver orðaskipti. Síðan sagðist hann ætla að kaupa gripinn.
 
Því miður var hann seldur, en ég hélt að karlanginn myndi bara fara að gráta. Þá benti hann á annan spegil, en þá hristi stóri bró bara hausinn, og ekki orð um það meir í þeim bræðraranni. En málið er bara þetta, að samkv. kínverskri hefð ræður elsti karlmaðurinn í fjölskyldunni öllu og velsjötugur maðurinn myndi aldrei voga sér að kaupa sér spegil, að vísu rándýran á þeirra mælikvarða, án þess að sýna þessum áttræða hann - og fá leyfi, jafnvel þó hann sé forríkur, og gæti þess vegna keypt sér marga spegla.
Það er ekkert sem heitir tækifærið gríptu greitt í viðskiptum, þegar alltaf þarf að hlaupa heim og sækja pabba eða stórabróður. Þessi stóribróðir var að vísu ekkert stór, allur samfallinn og krumpaður og komst varla úr sporunum. 

Þetta varð alveg rosalega skemmtilegt kvöld, allir dokuðu lengi við, og Elín, Rúnar og vinur þeirra Hans frá Kanada spiluðu og sungu við góðar undirtektir. Um miðnættið fórum við svo á næturklúbb og ég dansaði af miklum móð til kl. fjögur, enda orðin ansi létt ad öllu kampavíninu og bara hreinlega í sigurvímu. Þá skelltum við okkur út að borða. Hér eru margir staðir sem hafa opið alla nóttina. Komum heim klukkan um sex, og ég er ennþá rangeygð út af öllum litlu körlunum sem eru að smíða inni í höfðinu á mér eins og í akkorði séu.100_3058

 Námskeiðin hefjast á morgun. Það fylltist á þau, þannig ég er bara í góðum málum. Sýningin verður opin til jóla, svo að ég get alltaf bætt í skörðin ef einhver ætlar að gefa þetta í jólagjöf. Nú er bara að fara snemma í rúmið og láta sig dreyma um frekari landvinninga. Lifið heil.

Ég fékk fínar umsagnir í blöðunum, viðtöl og myndir af verkunum. Þetta var allt voða gaman eins og ég sagði í upphafi. Maður verður nú líka að monta sig aðeins.

frh.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband