Hvernig er að vera í Kína V

 

 P7212314 Tvær litlar vinkonur mínar.

Ég reyni að minnast á sitt lítið af hverju sem við upplifðum í þessu nýja og algerlega ólíka umhverfi sem við vorum allt í einu dottin inn í. Upphafið að dvölinni þarna var heimsókn til krakkanna okkar, sem langaði til að skoða heiminn og reyna fyrir sér í leiðinni með að reka veitingastað sem lifibrauð og tónlistarflutningi. Við heilluðumst svo af landi og þjóð að við ákváðum bara að gera það sama, utan tónlistarinnar, enda ekki rokkarar af guðs náð. Það sem hér fer á eftir er frá 2007 - byrjunar 2008.

Fyrsta verslunarferðin okkar hér var í gríðarstóra verslun, sem sérhæfir sig í öllum vörum og búnaði fyrir hótel, Þarna keyptum við allt sem við þurftum í þessa dásamlegu íbúð sem við höfum. Til þess að versla þarna þarftu að vera á vegum einhvers fyrirtækis.  Þar sem þetta er eina verslunin sem selur evróskan mat og krydd verður venjuleg kona frá Íslandi að stofna fyrirtæki á staðnum og helst auðvitað að vera alveg svakalega merkileg á svipinn á meðan.

Ég leit, þegar ég var spurð, alveg ísköld í framan á manninn og sagði bara Beggó Group, og þar með er ég komin í hóp með Bónusfeðgum og þeim öllum. Bara smásvindl eða þannig og maður er  nánast kominn með mikilmennskubrjálæði að vera heilt Group.  Ekki það að feðgarnir séu neinir svindlarar, vinir  fáfæka mannsins og margdæmdir saklausir af öllu slíku. Það er nánast guðlast að nefna þá í þessu sambandi.

Hér ferðast allir sem vettlingi geta valdið á reiðhjólum eða leigubílum, auðvitað eru almenningsvagnar, en þar sem maður kann ekkert í málinu og getur þess vegna ekki lært á vagnana verður útslagið oftast leigubíll eða bara tveir jafnfljótir, allavega á styttri vegalengdum, og ég sem hef alltaf notað bílinn minn sem yfirhöfn á Íslandi. Skal tekið fram að það er enginn leikur að segja hvert skal halda, því enginn skilur neitt nema kínversku. Ráðið er því að hringja í einhvern kínverskan vin og biðja hann um að tala við bílstjónann.

Semsagt, leigubíllinn er oftast ferðamátinn hérna að reiðhjólunum undanskildum. Þetta er mjög þægilegt, því það er alltaf nóg af leigubílum og þeir kosta yfirleitt 8 – 10 yuan sem er uþb. 90 kr. íslenskar, strætó heima stenst engann samanburð, því bílarnir taka eins marga og hægt er að troða inn í þá með góðu eða illu. Við sáum ma. 8 kínverja koma út úr einum í gær. Þeir tíndust út hver á eftir öðrum og ætluðu aldrei að hætta. Ég hef grun um að við rithöfundurinn höfum verið orðin ansi langleit þegar runan  stoppaði.  Ég þorði ekki annað en að stinga hausnum inn og ath. statusinn áður en ég settist sjálf. Maður er ekkert sérstaklega fyrir að kremja litla sæta kínverja undir sér svona rétt fyrir kvöldmat.

Fyrst þegar ég kom hingað, hélt ég að það væru löggur og hermenn um allt og gætti þess vandlega að hegða mér eins og vera ber, sem er svo sem enginn sérstakur vandi fyrir fágaða dömu eins og mig. Nú er komið á daginn að get bara farið að hegða mér eins og ég vil, því hérna er alveg dásamlegt einkennisbúninga- brjálæði. Að vísu eru nokkrir hermenn og löggur á stangli eins og vera ber, en stöðumælaverðir, húsverðir, dyraverðir, móttökufólk á hótelum, veitingastöðum og fótanuddstofum og er þá fátt eitt talið, er allt í einkennisbúningum og þeim alveg rosalega flottum.

Bílastæðaverðirnir hérna í nágrenninu eru í dökkbláum ”hátíðahermannasparifötum”(eða þannig) af flottustu gerð. Þau eru með gylltum og rauðum snúrum og svona hermanna strípum á ermum og brjósti, gylltum hnöppum og guð veit hvað. Húfurnar eru eins og amerískar admirálshúfur með þykku gylltu gullskrambúli á derinu. Þeir eru ansi flott, þangað til þeir fara að skammast í fólki og leggja sig svo í öllu skrautinu í næsta skúmaskoti í hádeginu.
.

Mér finnst líka rosalega gaman að sjá hvað allt þetta einkennisbúningalið er ósköp venjulegt fólk, sem sest bara niður þar sem því hentar, þegar því hentar og vantar þá oft eitthvað til að setjast á.  Þá er það bara gatan, næstu tröppur eða bara bílarnir sem þeir eru að passa. Það skal tekið fram að búningarnir eru alltaf hreinir og fínir eins og fólkið upp til hópa.

Götusópararnir eru allir í hvítum skyrtum og svörtum buxum með kínverska stráhatta en eðli máls samkvæmt verða þeir einir manna stundum nokkuð rykugir, þannig að það sést varla í þá en á morgnana eru þeir allir tandurhreinir og fínir.

Byggingaverkamenn, múrarar, ravirkjar o.s.frv. eru oftast í sparifötunum og á ég þá við jakkaföt og hvítar skyrtur, og jafn hreinlegir með sig og götusópararnir en þeir virðast bara skitna minna út yfir daginn.



Ég verð að fylgjast vel með þessu fólki því ég get aldrei farið hérna inn á verkstæði í fimm mínútur, án þess að verða eins og drulluhaugur. Við skulum vona að svo lengist lærið sem lífið í þeim efnum.

Við fengum okkur langan göngutúr í gær til að ná úr okkur hrollinum eftir alla kampavíndrykkjuna á gamlárskvöld. Við gengum niður í gamla hverfið við höfnina, en þar eru langar, alveg dásamlegar, götur sem eru útimarkaður. Þarna er allt selt, matur, þe. kjöt og fiskur ýmist í lifanda líki, eða eins og við kaupum það heima, alveg steindautt og hanterað. Þarna eru ótrúlegustu tegundir af ávöxtum og grænmeti sem ég kann ekki aðeinu sinni að nefna. En aðal attraktsjónin fyrir mig er allt "skranið” sem þarna er selt. Maður hefur ferðast víða um heim en aldrei séð annað eins úrval. Það ægir af öllu, gömlu og nýju og þarna kemst maður aldeilis í essið sitt við að prútta.

Við vorum bara að rölta og skoða í rólegheitunum þegar ég sá alveg yndislega fallegt slagverk með 2 áttundir, úr einhverri steintegund, Hljómurinn í því er alveg dásamlega fallegur og berst langar leiðir. Beggó setti sig í stellingar og byrjaði prúttið og fékk gripinn þegar kaupmaðurinn var kominn með stóra skeifu, eins og þeirra er von og vísa, og nú prýðir þetta stofuna okkar og ég get spilað Yesterday þangað til Oddur fær líka skeifu af því að hlusta. En æfingin skapar meistarann og hann fer örugglega að brosa aftur eins og sá sem seldi mér steinhörpuna góðu. 

Ég komst að þeirri sorglegu staðreynd að flestir þeirra sem sofa á vinnustaðnum, t.d. í byggingavinnu, menn og konur, sofa þarna vegna fátæktar. Þetta er mikið til fólk, úr litlum þorpum hérna í kring, sem kemur og púlar 18 – 20 tíma á sólarhring, sefur á staðnum og borðar núðlur eða hrísgrjón í öll mál. Afraksturinn er uþb. 300 yuan á mánuði eða 2700 kr. íslenskar. Með þetta fer það heim og framfleytir fjölskyldunni. 

Eins og ég hef nefnt áður eru miklar framkvæmdir í gangi hérna og allt yfirfullt af vinnuafli sem þessu. Það þykir mikil heppni að fá vinnu. Allt er byggt af handafli og á ég þá við að maður sér næstum aldrei stóra byggingakrana, lyftara, vélskóflur o.s.frv., en þeir sem eru til staðar eru þeir stærstu, sem allavega Oddur hefur séð.

Húsin eru flest 30 – 40 hæðir og rísa mjög hratt og fólkið er eins og maurar utan á þeim. Þeir slá upp mótum, reisa stillasa úr bambus, sem bambusmottur eru lagðar á. Þetta eru feikilega flott og falleg mannvirki, með svona fyrst kemur spýta, svo kemur spýta og svo kemur spýta í kross systemi, allt mjög traustvekjandi. Síðan er steypunni hellt í mótin úr fötum og svo koll af kolli, upp í hæstu hæðir. Það er fremur fátítt að steypuhrærivélarnar hér hafi mótor, oftast handsnúnar eins og í gamla daga á Fróni.

En þið ættuð að sjá hraðann sem allt rís á, maður gæti haldið að þeir notuðu skriðmót. Margar hendur vinna létt verk, en svo stendur mikið af þessu autt í langan tíma, en það margborgar sig fyrir eigendurna, því þessari borg er ætlað að verða alheims viðskiptaborg og er hún strax komin á góðan rekspöl með það.

 Þetta sama vinnuafl leggur göturnar hérna. Öllu er handmokað, steypunni dreift með handafli og sléttað yfir með múrskeiðum. Það er unaðslegt að horfa á handbragðið og nákvæmnina. Það er ekkert verið að kasta til höndunum og fólkið vinnur af reinsn þó launin séu lág. Það eina sem er jákvætt við þennan tækjaskort og það mjög svo, að mínu mati, er að fleiri fá vinnu, og þetta er eflaust ákveðið af stjórnvöldum, þó það séu bara mínar getgátur".

Læt þetta duga í dag.

frh.

     


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Áhuginn á að fylgjast með þessum frásögnum fer ekkert minnkandi.

Axel Jóhann Axelsson, 29.10.2010 kl. 11:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband