27.10.2010 | 16:00
Hvernig er að vera í Kína III
Datt í hug að setja hérna inn gamalt blogg frá fyrstu dögum mínum í Kína. Þessi atburður sem er fjallað um gerðist í markaðsgötu, þar sem fólk kom saman með allskyns dót til að selja, bæði keypt og ábyggilega oft stolið. Þetta var ákaflega vinsælt, en þar sem oft var þröng á þingi var markaðurinn bannaður, því samkomur fleiri en 10 - 15 manna eru leystar upp af hernum og engin miskunn sýnd. Þess vegna stendur gatan auð í dag, en salan á vörunni fer fram innan dyra í litlu búðarholunum sem þarna eru. Þar er engin hætta á ferðum, enginn að plotta, því oftast komast ekki fleiri en 2 - 3 inn í einu.
Þetta skemmtilega skilti er á dæmigerðri kíverskri ensku, sem gengur undir nafninu Chinglish.
"Í dag ætla ég að ræða aðeins um verslunarmátann hérna. Eins og allir vita, viðgengst prútt um allan heim, en það er nokkuð sem ég hef aldrei getað haft mig í og þess vegna ekki verslað á þannig stöðum, nema þegar löngunin að eignast eitthvað (oftast algeran óþarfa) hefur borið mig ofirliði og þá hef ég alltaf verið höfð að fífli og seljendur stórgrætt á túristahálfvitanum.
Kína er engin undantekning frá prúttinu, en nú er það bara yours truly, sem er farin að færa sig upp á skörina og hefur gaman af. Það er svo gaman að stúdera þetta og núna þegar ég er orðin klár á reglunum er þetta eins og skemmtileg íþrótt, skylmingar eða eitthvað svoleiðis.
Maður velur sér hlut, spyr um verð, fær það og ákveður síðan hvað maður er tilbúinn að borga. Því næst fer maður töluvert niður fyrir sitt fyrirfram ákveðna verð og býður þá upphæð. Nú byrja lætin, sölumaðurinn verður alveg steinhissa, alveg eins og ég varð á upphaflega verðinu, og segir þvert nei. Ég verð alveg ógurlega móðguð og þykist ætla að fara. Núna lækkar hann sig aðeins og ég segi aftur nei, þá horfir hann á mig spurnaraugum og ég hækka mig örlítið. Hann brosir og hugsar, jæja það er hægt að mjaka kerlingunni og lækkar sig aftur, bara örlítið. Ég segi þvert nei og stend við mína tölu alveg harðákveðin á svip og skjálfandi innan í mér.
Núna hættir honum að lítast á blekuna og verður alveg rosalega aumingjalegur á svip (svona, ætlarðu virkilega að svelta konuna mína og börnin) og horfir fast í augun á mér. Ég stend alveg gallhörð, ennþá töluvert undir verðinu sem ég var búin að ákveða í upphafi og þá byrjar showið. Hann hendir sér í gólfið eða götuna, hágrátandi og lætur öllum illum látum á kínversku, en ég læt mér fátt um finnast (enda skil ég ekki stakt orð) og þá rís hann á fætur aftur og lækkar sig aðeins, ég hugsa mig um og hækka mig örlítið, hann hristir hausunn og ég býst til að fara. Hann verður eins og hundur í framan og segir ok.ok.
Eftirleikurinn er það skemmtilegastia, því nú hefst lokakaflinn. Hann snýr sér undan, og ég held að hann sé í ógurlegri fýlu, en hann nær í einhverjar blaðadræsur og pakkar öllu undurvel inn, margvefur allt með tágabandi, réttir mér pakkan stoltur á svip, skælbrosir og segir, thank you, come again (það er eina enskan sem þeir kunna fyrir utan ok. ok.) og ég geng burt alsæl, staðráðin í þessu come againi. Það skal tekið fram að allt prútt fer fram á vasatölvum, svipbrigðum, kínversku og íslensku.
Það sem maður verður að passa er virða reglurnar og bakka aldrei með það sem maður er búinn að bjóða og hann hefur samþykkt. Það þykir slæmur skortur á siðferði og þú byrjar aldrei að prútta ef þú ætlar ekki að kaupa. Einu skiptin sem þú getur hætt við er, ef þér finnst verðið of hátt þegar hann hefur gert sitt lokatilboð sem þú vilt ekki taka.
Kínverjum finnst ógurlega gaman að fylgjast með prútti og stundum safnast stór hópur í kring um mann þegar á þessu gengur og endrum og eins hef ég fengið lófaklapp að viðskiptum loknum og klappar þá sá sem seldi ekkert síður með. Ég held að þeir klappi fyrir útlendingi sem hefur tekist að láta ekki plata sig , því ég held að kínverjar sjái stórt $ á enninu á öllum útlendingum. Þegar þetta gerist sný ég mér við og klappa fyrir þeim líka. Semsagt, þetta er íþrótt með leikreglur og heila gillið, þar sem allir brosa að leikslokum.
Svo eu það umbúðirnar í þessu blessaða, fyrrverandi keisarans, Kína. Hér er öllu pakkað ákaflega fallega og vandlega inn, svo vel og vandlega að það er nánast ógjörningur að opna pakkana og dugar þá ekkert til nema hnífar og skæri. Mér verður oft hugsað til gamla fólksins, þegar ég hálfþrítug, ræð varla við þetta! Það er alveg sama hvort það er matvara, klósettpappír, fatnaður eða what have you, þetta kostar allt slagsmál við umbúðir.
Ef til vill er þetta einhver stjórnskipuð leið til sparnaðar, því það gæti verið að fólk léti ekki eftir sér að kaupa hluti sem tekur margar klst. að ná umbúðunum utan af".
Svo mörg voru þau orð.
Frh.
Athugasemdir
Yndislegar lýsingar sem fyrr!
Sigurbjörg Eiríksdóttir, 27.10.2010 kl. 16:54
Bráðskemmtileg færsla!
Axel Jóhann Hallgrímsson, 28.10.2010 kl. 07:23
Mætti ég fá meira að heyra (lesa).
Axel Jóhann Axelsson, 28.10.2010 kl. 09:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.