Færsluflokkur: Bloggar
15.11.2011 | 22:45
Hvað??????
Hverslags perraviðbjóð menn komast upp með á þessu skipi með er mér hulin ráðgáta. Er ekki skipstjóri um borð, og ef svo undarlega vill til samkvæmt lýsingunum, hvað var hann þá að gera. Er ekki skipstjórinn yfirvald sem ber að hlýða, og hvers vegna tók hann þá ekki í taumana.
Mér er spurn, hvernig koma þessir menn fram heima hjá sér, fá þeir félagana til að koma og ganga svona að börnunum sínum og konunni jafnvel, í 10 faga samfleytt, sjálfum sér til skemmtunar. Ef þetta er einhver lenska á skipaflotanum er kominn tími til að hreinsa til, nógir eru um stöðurnar.
Þó þetta hefði ekki verið nema ein klst. af þessum hryllingi er það óafsakanlegt, og dómurinn yfir þeim ekkert annað en hlægilegur, þó ekki sé mér hlátur í hug.
Eru einhverjir perrar sem skipa dómsvaldið í Héraðsdómi Reykjaness. Hvernig dettur nokkrum heilvita manni í hug að dæma, þetta arma úrhrak manna í áhöfninni í nokkurra daga skilorðsbundið fangelsi, sem þýðir að þeir ganga um frjálsir menn.
Ég segi og skrifa SKAMMIST ÞIÐ YKKAR, BÆÐI ÚRHRÖK OG DÓMARI!
Níddust á 13 ára dreng í veiðiferð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
15.11.2011 | 12:31
Sparað í kreppunni?
Er fólk alveg búið að missa sig. Er það e.t.v. búið að hafa það svo gott að það kann ekki að spara og leggja fyrir. Ég hef nú grun um að þetta sé fatnaður fyrir yngra fólkið sem er margt svo kröfuhart að foreldrarnir eru á hausnum vegna þess.
Það gleymdist nær alveg að kenna góðæris kynslóðinni sem er ca. 30 ára og yngra í dag, að það kemur dagur eftir þennan dag og þá þurfa pabbi og mamma líka að eiga peninga til að lifa af.
Þessu unga fólki gengur ver að spara og spjara sig þegar það fer að heiman, vegna þess að það hefur aldrei þurft að hugsa um peninga og kann ekkert með þá að fara.
Loka vegna vöruskorts | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
11.11.2011 | 17:10
Lifað með lyginni?
Langar að ympra á máli málanna í dag, því það hafa sótt mjög svo á mig hugsanir vegna þess sem ég kalla aðfararinnar að Guðrúnu Ebbu. Skal tekið fram að þetta er einlæg skoðun mín.
Umræðan um fjölskyldu séra Ólafs Skúlasonar tröllríður öllu í samfélaginu í dag og ásakanir frá elsta barninu hans, Guðrúnu Ebbu, um gróf kynferðis brot gengn henni þegar hún var barn og síðan aftur seinna, efaðar af mörgum.
Eftir að bróðir hennar, sjálfur prestur, kom fram í Kastljósi og lýsti því yfir að þetta væru einhverjar uppdiktaðar falskar minningar, heimilislíf þeirra og bernska hefði verið með eðlilegum hætti, og enginn á heimiliniu þ.e. móðir hans, ekkja Ólafs, og systir þeirra Guðrúnar Ebbu, hefðu fundið eða séð neitt óeðlilegt. Þar með var hann í raun búinn að lýsa GE lygara og hafði móður sína og systur að bakhjalli..
Ég get ekki annað en trúað hverju orði sem GE segir. Frásögn hennar virkar ákaflega sannverðug, fyrir utan að maður var búinn að heyra sögur af hverkyns káfari og ruddi maðurinn væri, í mörg ár.
Hvernig stendur á því, ef hún skyldi nú hafa eitthvað brottgengt minni eftir löng samtöl við allskyns meðferðarfulltrúa og sálfræðinga, að hún fór til sálfræðinga til að leita sér hjálpar, þ.e. áður en þeir fóru að rugla hana í ríminu.
Hvað getur smábarn, sem var fjögurra ára þegar ofbeldinu lauk að mestu leyti, þ.e. kynferðisofbeldinu, vitað um þessa hluti. GE segir sjálf að hún hafi gert allt til að leyna þessu. Ofbeldið átti sér stað inni á prívatsalerni Ólafs, sem sonur hans kallar gestaklósett, en Ólafur geymdi þar rakdót og snyrtivörur.
Á þessum árum voru svokölluð gestasalerni yfirleitt ekkert notuð af heimamönnum, en Ólafi hefur greinilega þótt þægilegt að geta snyrt sig í friði og stundað þá hluti sem honum bauð við að horfa þarna inni. Sonur hans var svo ungur á þessum árum að hann hefur varla getað farið á salernið sjálfur, hvað þá fylgst með hvað aðrir voru að gera þar.
Þáttur móðurinnar er eins og hann snýr að okkur, þáttur vonsvikinnar og niðurlægðar eiginkonu, sem skiljanlega á svo erfitt með að kingja lífi sínu að hún kýs að þegja, og hylma yfir með manninum sem hélt alla tíð fram hjá henni, með valdi eða bara hinsegin, og misnotaði síðan dóttur þeirra í öll þessi ár.
Þetta er skelfilegur harmleikur, og ennþá skelfilegri fyrir það að lygin virðist eiga að fá að ráða ferðinni, systkyni GE og börn móður hennar eru neydd til að lifa í efanum alla ævi, vegna þess að þau sáu ekkert heyrðu ekkert og vissu ekkert. Þau kusu að rengja systur sína og nánast að taka hana af lífi opinberlega, til að reyna að slétta málin út fyrir móður sína, og hreinsa margásakaðan glæpamanninn föður sinn af ódæðunum.
Mér finnst Guðrún Ebba mjög heilsteypt persóna í dag og ég ber mikla virðingu fyrir henni að vilja flagga sannleikanum, mér þykir bara hreinlega vænt um hana.
Móðirin sem ber það fyrir sig að vera orðin gömul og vilji ekkert með þetta hafa, fær því miður ekki sömu einkunn, þó henni sé mikil vorkunn, en henni á eftir að líða illa öll elliárin þar til hún deyr , því hver getur yfirgefið barnið sitt á þennan hátt, til að lifa við lygina, vitandi innst inni að maðurinn hennar var búinn að sitja á svikráðum við hana áratugum saman.
Því miður er valdurinn að þessu öllu farinn yfir móðuna miklu og sleppur illu heilli við að standa fyrir máli sínu hér á jörð. En ég held ekki að það hvarfli að nokkrum heilvita manni að hann sé saklaus, þrátt fyrir að sannleiksgildi orða Guðrúnar Ebbu sé efað.
Vonandi hefur kirkjan augun opin eftir þessa hræðilegu reynslu, og kannar öll mál sem kunna að varða afbrot þjóna hennar vel, og bregst við á viðunandi hátt, svo við þurfum ekki að minnast fleiri biskupa sem afbrotamanna.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
10.11.2011 | 11:27
Lína á Sjónarhóli
Þegar ég var lítil stelpa og las bækurnar um Línu Langsokk í fyrsta sinn, var eins og opnaðist fyrir mér ný veröld. Þessi hugrakka stelpa, eldrauðhærð og freknótt, með fléttur sem stóðu beint út í loftið, bjó alein í litlu skrítnu húsi með holu tré í garðinum, hest á dyrapallinum, og stóra kistu fulla af gullpeningum af því pabbi hennar, sem var negrakóngur á Krúsidúlluey, hafði ekki tíma fyrir hana, svo upptekinn var hann við að stjórna ríkinu. Þetta var eitthvað svo nýtt, ferskt og uppörvandi að ég gat ekki sleppt bókinni fyrr en hún var lesin spjaldanna á milli.
Ég var ósköp venjuleg, að ég held dálítið óhamingjusamt barn, en þegar ég las um þessa stelpu sem var svo sterk að hún gat lyft hestinum með annarri hendi, sveiflað lögregluþjónum, sem voru eitthvað að skipta sér af henni, í loftinu, potað i magann á þjófum og illvirkjum, svaf með höfuðið undir sænginni og lappirnar á koddanum, gekk í stórum karlmannsskóm í sitthvorum litnum og alltaf með sokkana hangandi niður um sig, fann ég sterka samsömun með leyndum innri óskum um þor og væntingar. Þessi stelpa sem var sannur vinur vina sinna og hafði hjarta úr gulli, stangaðist á við öll gildi sem þá viðgengust um uppeldi barna og væntingar til þeirra. Þarna var allt í einu komin stelpa sem þorði, gat og vildi og gerði það.
Bækurnar um Línu slógu algerlega í gegn og voru lesnar um heim allan, þar til einhverjir uppeldisspekulantar í Svíþjóð ákváðu allt í einu að þetta væru stórhættulegar antisocial bókmenntir sem varð til þess að Lína var bönnuð í Svíþjóð. Guði sé lof var þessu banni ekki framfylgt utan Svíþjóðar, en "þetta braut í mér hjartað" sagð Astrid Lindgren löngu síðar.
Dettur einhverjum heilvita manni í hug að höfundur Línu og Bróður míns Ljónshjarta, eigi til kynþáttafordóma eða anti social hugsanir. Þessi manneskja hefur örugglega hjálpað stórum hópi barna til að finna sig, komast yfir ótta og takast á við sorgir, á besta mögulegan hátt, með því að skapa heilsteyptar og heilbrigðar fyrirmyndir, sem eru allt öðruvísi en börnin eiga að venjast. Þetta er það sem þau hlusta á og gleypa í sig, sér og öðrum til góðs
Segir bækurnar um Línu langsokk rasískar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
9.11.2011 | 20:43
Stórkostlegt
Stórkostlegt, en er þetta eitthvað sem lamað fólk getur eignast til að hafa heima hjá sér, og nýta til að komast leiðar sinnar, hjálparlaust. Þá er ég að tala um kostnaðinn, skyldi hann vera á færi þeirra sem svona tækniundur gætu notað.
Ég vona svo sannarlega að þetta verði þróað þannig að það verði á færi allra sem eru bundnir við hjólastól að eignast búnaðinn og það sem fyrst.
Steig upp úr hjólastólnum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
8.11.2011 | 19:24
Hjálp til handa öldruðum?
Samkvæmt frétt Stöðvar 2 núna rétt áðan, á að loka öldrunardeild Landakotsspítala á næstunni, vegna sparnaðar. Það kostar síðan skv. áætlun, um 80 milljónir að breyta öldrunardeildinni í Kópavogi, svo hún megi anna þessum misgjörðum fólks að verða gamalt og lasburða.
Það setur að manni ugg um að næsta skref verði að slá bara gamla fólkið af, svona til léttsparnaðar í kerfinu. Hvort sú aðgerð mun ná fram að ganga eða ekki, er ég ansi hrædd um að hræðsla um líf og lifibrauð eigi eftir að slá góðan slatta af gömlu fólki af, eins og þjarmað er að því, bæði launa og heilsuhjálparlega
Það þarf engin svartsýnisgleraugu til að sjá hvernig hlutirnir eru að arta sig.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
8.11.2011 | 17:06
Jóla
Þetta eru fyrirmyndir af jólaplöttum sem nota má undir heitt, og einn glasabakki, eða platti undir sprittkerti sem ég var að gera fyrir jólaföndursdag í skólanum hjá einu barnabarna minna. Þetta er mjög auðvelt fyrir mig því ég á glerafganga í stæðum, undirlagið er ódýrir korkplattar, sem fást víða og ég sem glerlistamaður er ekki lengi að klippa þetta niður fyrir krakkana.
Liggur ekki víðar á heimilum hentugt efni og hugmyndir, sem mætti nýta í skólum landsins, til ánægju fyrir nemendur, foreldra og kennara. Foreldrarnir gætu tekið þátt og/eða leiðbeint krökkunum. Það er enn nægur tími til stefnu fyrir þessi jól, svo ég skora á fólk að kíkja inn í sín hugskot og önnur skot sem kunna að leynast á heimilinu, alveg stappfull af hugmyndum og hafa svo virkilega ánægjulegt jólaföndur í skólanum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
7.11.2011 | 12:30
Fastir?
Ja hérna hér. Hvers konar verkfæri skyldu þeir hafa notað við við að losa mennina. Ætli tól og tæki kókainneytenda dugi til þess, eða skyldi þurfa stórvirkari vinnuvélar?
Þetta minnir mig á þessa eilíflega föstu frumsýningagesti í leikhúsunum. Ég vorkenndi þeim alveg ógurlega þegar ég var krakki, sérstaklega þeim sem voru fastir í Iðnó, grjóthörð sæti og örugglega draugar.
Lausir úr varðhaldi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.11.2011 | 20:17
Skúrir
"Einhverjir skúrir" heyrðist mér veðurfrétta daman, sem var að skýra veður næstu daga fyrir áhorfendum sjónvarps allra landsmanna, segja. Satt best að segja hrökk ég í kút, enda alveg fullkomnlega óvön því að að skúrír væru karlkenndar. Þegar ég var rétt búin að ákveða að mér hefði misheyrst kom þetta sama upp á teninginn aftur, "einhverjir skúrir" hátt og skýrt.
Hvort þessi kona er veðurfræðingur, veit ég ekki. Hún tekur sér það bessaleyfi að kynbreyta skúrum, karlkennir blessaða rigninguna þegar hún steypist yfir okkur, en nokkuð kippist maður við þennan talsmáta.
En mér ferst, því vestur á Bíldudal á ég fallega bláa skúr, úr timbri, sem skartar skilti sem á stendur Bláa skúrin. Jú. jú. þetta er venjulegur skúr, eins og við segjum hérna fyrir sunnan, og karlkyns. En flestir þarna vestra, kvenkenna skúra og þar af leiðandi alltaf talað um skúrina. Ég ákvað að vera ekkert að endurbreyta kyninu, enda finnst mér þetta bara skemmtilegt.
Hvernig á þessum kynskiptum skúra stendur, veit ég ekki, en finnst það afturámóti mjög áhugavert. Ef einhver getur frætt mig um skúrir og skúra og hvernig þetta má gerast, þætti mér gaman að fá tilskrif um það.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
5.11.2011 | 21:56
Í alvöru talað
Er ekki alveg einstakt að lögreglan á Selfossi hafi ekki annað og betra að gera en að liggja fyrir 30 bílum, mönnuðum rjúpnaskyttum, til að geta lagt hönd á byssur þeirra sem ekki voru með bæði veiðikort og skotleyfi, þó alls ekki væri sannað að þeir væru án þeirra. Eftirtekjan var 2 byssur, sem líklega verða leystar út þegar eigandinn er búinn að róta í skúffunum heima hjá sér og finna pappírana.
Það er sífellt verið að tuða á því að það vanti fólk í lögregluna, allsstaðar, að mér hefur skilist. Væri ekki nær að lána Reykjavíkurlögreglunni þetta varalið, þar sem mennirnir gætu orðið til ómetanlegrar aðstoðar, og jafnvel fengið dýrmæta reynslu í því að fást við skuggahliðar borgarinnar
Byssur teknar af rjúpnaskyttum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (34)