Hundalíf

7439-cavalier-king-charles-spaniel6Þetta er ekki minn hundur, en samt alveg eins.

Að mér skildi detta í hug að fá mér hund er svona álíka fáránlegt og að ætla að kaupa eiturslöngu, eða fíl til að rembast við að troða hérna inn um dyrnar hjá mér, svo fjarri var hugsunin. En einhvernveginn æxlaðist það þó svo að ég var að vafra um á netinu, og var af einhverjum ástæðum allt í einu stödd inn á síðu Hundaræktunarfélags Íslands og þar voru auglýstir King Charles Cavalier Spaniel hvolpar til sölu.

Ég varð meira en lítið forvitin að vita hvernig hundar með svona virðulegt nafn líta út, og þá voru örlög mín og 10 vikna hvolps af því kyni ráðin. Þetta er undursamlega fallegt dýr, hvítt, svart og brúnt á lit með hvítt ljós á skottinu, sem varð til þess að ég skírði hann Geisla.

Ég fékk að skoða hann og nokkur systkyni hans, alls 7 stk., en þrjú þeirra voru ennþá föl. Allt í einu tók þessi litli angi sig út úr hópnum og skundaði til mín, en það varð ást við fyrstu sín. Hann var með lausan tárakirtil, sem eitthvert systkyna hans hefur líklega krækt loppunni í, og þurfti þ.a.l. að fara í aðgerð til að festa kirtilinn, en hann var eldrauður og huldi stóran hluta augans.

Daginn eftir fór hann í aðgerðina, en bar sig vel og lét eins og ekkert væri. Ég kom í heimsókn strax og hann fékk að fara heim, og fékk að taka hann með mér heim í smástund. Hann var fluttur á milli í litlu hundabúri. Þegar ég lagði búrið á stofugólfið og opnaði það gekk minn maður út af álíka virðuleik og faðir minn heitinn hefði gengið á konungsfund. Síðan gekk hann rólega um híbýlin, þefaði af öllu, þáði smá hundamat og vatn og steinsofnaði.

Eftir þetta heimsótti ég hann tvisvar, en þá var útséð um að augað var á réttri leið, hvutti orðinn minn hvolpur í huganum, og þar með var hann var tilbúinn til afhendingar.

Þegar ég var sjö ára var mér hent út í djúpu laugina í sundhöllinni, ósyndri, en sá sem það gerði varð að henda sér á eftir mér, þegar hann sá að ég myndi drukkna, ef ekkert yrði að gert. 

Núna stökk ég bara út í hana sjálf og enginn til bjargar. Ég veit ekkert um hunda og því minna um uppeldið á þeim. Íbúðin er öll útbíuð í dagblöðum sem vinurinn á, ég tek fram á, að gera stykkin sín á, en einhvernveginn gengur honum heldur illa að skilja þetta hreinlætisæði í mér og víkur snyrtilega frá blöðunum þegar hann hleypir ósómanum niður á gólfin. Ef þetta lendir óvart á pappírnum, horfir hann virkilega sorry og afsakandi á mig þegar ég hæli honum í hástert og gef honum nammi að launum.

Þar sem ég vil ekki venja hann upp í mublurnar, klórar hann og rífur allt sem að kjafti kemur og horfir, að mér finnst, ögrandi á mig og úr augunum les ég, jæja góða þetta vildirðu. Þar sem ég er heldur enginn unglingur nenni ég, og get, illa skriðið þorra dagsins um öll gólf til að leika við þetta óþrjótandi energíbunkt sem ég hef tekið að mér, og másið og hvásið í mér heyrist örugglega út á götu. Það gerir þó ekki svo mikið til því nágrannarnir vita að ég er með hund og mér er alveg sama þó þeir haldi að másið sé í honum.

En svona er tilveran bara, hún býður manni stanslaust upp á eitthvað nýtt, maður gerir stöku sinnum eitthvað gáfulegt, þó vissulega sé ekki allt gáfulegt sem manni dettur í hug. Ég held þó bara að eftir að ég verð búin að ljúka námskeiði í hvolpafræðum, hætti ég vonandi að mása í tíma og ótíma, og mér eigi eftir að líða mjög vel með honum Geisla mínum, sem kemur örugglega til með að læra á mig um leið og ég læri á hann. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Til hamingju með hvutta, get bara sagt þér frá gömlu húsráði en það er heldur leiðinlegt en snarvirkar, þegar hann gerir stykkin sín á gólfið, þarf að nudda trýninu hans upp úr ósómanum og setja hann síðan þar sem hann á að gera stykkin sín.  Í einhverskonar hundasand eða hvað þar nú er.  Hann verður fljótur að læra að þetta er ekki í boði. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 23.9.2012 kl. 22:40

2 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Til hamingju með hundinn, vonandi gegnur ykkur vel að venjast hvort öðru, ég held ég nenni ekki að fá mér hund, prófaði í fyrra um tíma, en fann að þetta var ekki fyrir mig, allavega ekki í blokk. knús á ykkur Geisla.

Ásdís Sigurðardóttir, 24.9.2012 kl. 12:12

3 Smámynd: Ingibjörg Axelma Axelsdóttir

Ef að hundurinn er að gera stykkin sín inni, skaltu ekki skamma hann fyrir það. Settu hann út fyrir áður en þú þrifur upp.

Svo þegar hann gerir stykkin sín úti, er þú ferð út að ganga með hann, skaltu verðlauna hann með hrósi og nammi.

Að nudda trýninu uppúr þvagi hans eða hægðum flokkast undir neikvæða þjálfun (og satt best að segja skilur hundurinn það ekki eins vel og þú vilt að hann geri), hún er ekki eins góð og sú jákvæða, þar sem hundur *lifa* fyrir hrós.

En innilega til hamingju með hundinn. :)

Ingibjörg Axelma Axelsdóttir, 24.9.2012 kl. 21:06

4 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Til hamingju með hann Geisla þinn. Hann verður sólargeisli, sannaðu til.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 25.9.2012 kl. 00:10

5 Smámynd: Sigurbjörg Eiríksdóttir

Til hamingju með Geisla..Ég kem í vikunni og skoða gersemið!

Knús til ykkar beggja úr Heiðarbæ ;)

Sigurbjörg Eiríksdóttir, 25.9.2012 kl. 08:52

6 identicon

Innilega til hamingju með þennan gleðigjafa sem ég veit að hann Geisli verður. Ég er svo sammála henni Ásthildi með að setja trínið á honum að stykkjunum hans ( kannski ekki ofaní það )  og segja stórt NEI og fara svo með hann þangað sem hann má gera þau er það besta til að kenna honum. Þeir eru mjög fljótir að læra að þetta er ekki í boði. Ég veit að það eru ekki allir sammála því og alls ekki HRFÍ hundaeigendur. Það getur nefnilega seinna orðið erfitt að venja þá af blöðunum, það er allavega mín reynsla :) Gangi þér vel, þetta kemur alltsaman :)

Sjáumst í vikunni með Sillu :)

Kveðja. Svandís

Svandís Georgsdóttir. (IP-tala skráð) 25.9.2012 kl. 11:33

7 identicon

Innilega til hamingju með hann:) langar að koma og skoða Geisla fljótlega,gangi þér vel að aga hann, en án gríns þá verður hann besti vinur þinn:)

Jóhanna(Silludóttir) (IP-tala skráð) 25.9.2012 kl. 19:25

8 Smámynd: Bergljót Gunnarsdóttir

Þakka ykkur öllum innlitið.

Ég tók mig til í gærmorgun og henti öllum dagblöðunum sem lágu eins og hráviði um allt, setti þó nokkur þeirra út á sólpall og Geisla á eftir. Vinurinn starði á mig smástund og gerði sér síðan lítið fyrir og skilaði því sem ætlast var til af honum, ja svona á og utaní blöðin. Ég gaf honum hundanammi og hrósaði auðvitað í hástert.

Hafði síðan smárifu á hurðinni út og vinurinn fór bara aftur og aftur og hélt uppteknum hætti við mikinn fögnuð og hrós. Í dag var það svo sama sagan. Ef þessu heldur fram sem horfir er greinilegt að hann er fljótur að læra og ekki skaðar klappið, hrósið og nammið.

Á morgun ætla ég að fjarlægja blöðin af pallinum og hreinsa hann, pallinn, bara á kvöldin þar til Geislinn minn  verður orðinn nógu stór til að fara niður í garðinn og gera það sem hann þarf án minnar íhlutunar.

Bergljót Gunnarsdóttir, 25.9.2012 kl. 22:41

9 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Æðislegt alveg.  Duglegur hundur.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 25.9.2012 kl. 22:48

10 Smámynd: Sigurbjörg Eiríksdóttir

Takk fyrir móttökurnar í dag. Ég setti tvær myndir af Geislaprinsinum inn á FB.

Knús.

Sigurbjörg Eiríksdóttir, 27.9.2012 kl. 08:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband