31.5.2012 | 22:05
SUMAR OG SÓL - REIÐI OG MYRKUR
En hvað tilveran var björt í dag. Það hljóp í mig einhver fídonskraftur, mér liggur við að segja til orðs og æðis. Ég var búin að stinga upp og flytja til jarðveg í lóðinni, jarðveg sem ég hélt að ég réði bara ekkert við, þyngslanna vegna. En þegar sólin brosti og fuglarnir sungu sitt dirrindí, gerðist þetta bara svona eins og af sjálfu sér. Ég hljóp, hummandi allskyns tónlist fyrir sjálfa mig, með moldina um víðan völl og allt í einu var verkinu lokið. Það er með ólíkindum hvað ég get raulað mikið þegar svona vel liggur á mér.
Allt í einu heyrði ég hávær óp og vein, eins sog niðurbæd, og nokkuð í burtu. Þetta var kvenmannsrödd sem argaði á hæsta. Eftir smástund fór ég á stjá, því hljóðin hækkuðu og hækkuðu og mér var ekki orðið um sel. Innan stundar gat ég staðsett þau í húsi hérna í næsta nágrenni. Ég stóð úti í gangstétt og sá þá að þetta var ung kona sem gekk um gólf innan við stóran glugga og öskraði eins og hún ætti lífið að leysa.
Skyndilega heyrði ég einhvern dynk og hún snarþagnaði. Eftir smástund sá ég hana koma út í glugga, með þvílíkan tryllingssvipsvip á andlitinu að seint gleymist. Þegar það gerðist var ég komin með símann í hendurnar, til að hringja á lögregluna. Konugarmurinn dró gardínurnar niður í snatri, en mér leið eins og ég hefði staðið á hleri. Síðan ekki söguna meir.
Þegar ég gekk inn aftur fattaði ég að ég var hágrátandi og gersamlega miður mín. Allt í einu sá ég ekki sólina lengur, né heyrði í fuglunum, eða gladdist yfir vel unnu dagsverki.
Ég vona að konan sé búin að jafna sig á þessari trylltu reiði sem hún var að fá útrás fyrir, ekki heyrðist í neinum öðrum, enda ekki á margra færi að garga svona hátt. Það hlýtur að vera skelfilegt að líða svona, en ég get varla vikið þessu burt úr huganum og er ennþá í hálfgerðu sjokki.
Athugasemdir
Elskuleg mín, þú mátt ekki láta svona reiði eyðileggja fyrir þér daginn. Þú átt rétt á þínu sólskini og góða skapi. Ef til vill var hún bara brjáluð af frekju. Ef hún hefði verið í nauð, hefði hún örugglega nýtt sér björgunina sem stóð út í garði og horfði á. Svo endilega gleymdu þessu bara og sendu henni ljós og kærleika og búið spil.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 31.5.2012 kl. 22:37
Þú hefur víst alveg rétt fyrir þér í þessu máli, svo sem flestum öðrum.
Viðtalið í blaðinu í dag var mjög gott. Hafi ég einhverntímann efast um að þú værir hörkutól og dugnaðarforkur, með hjarta úr gulli, þá er sá efi gufaður upp. Að gefast aldrei upp Ásthildur, eins og þú og þið hafið mátt þola er ofar mínum skilningi.Gangi þér allt í haginn mín kæra!
Bergljót Gunnarsdóttir, 1.6.2012 kl. 15:22
Takk Bergljót mín. Ég er ánægð með þetta viðtal. Vona bara að það opni einhverjar dyr. Það hringdi í mig gömul vinkona Jóhönnu og ræddi lengi við mig, vinkona sem stóð með henni þegar hún þurfti og var á götunni. Þetta blessara fólk stendur svo oft eitt af því að það hefur sjálft komið sér út úr fjölskyldum og rótum, en það er ekki þar með sagt að þau eigi ekki að fá umönnun eins og aðrir sem hafa lent illa í lífinu.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 1.6.2012 kl. 17:33
Elsku kellan mín..Hræðilegt að dagurinn hafi verið eyðilagður!
Við verðum að fara að hittast og fá okkur kaffi. Það bætir auðvitað ekkert upp þessi ósköp en samt ;)
Sigurbjörg Eiríksdóttir, 1.6.2012 kl. 22:49
Silla mín. Ég held ég lifi þetta nú af, en kaffið líst mér vel á, og það sem allrafyrst,og ekkert slór í þeim efnum.
Bergljót Gunnarsdóttir, 1.6.2012 kl. 23:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.