La Boheme

Hvað fólk var að gera með húlagjarðir, sem ég held að hafi bara alls ekki verið búið að finna upp á seinni hluta 19. aldar, í listamanna og fátækrahverfum Parísar , er mér hulin ráðgáta. Það er þó svo sem í anda alls þess kraðaks sem fer fram á sviðinu, og utan,  í flutningi Íslensku óperunnar á La Boheme, sem verið er að flytja í Hörpu þessa dagana.

Sýningin fær rífandi góða dóma hjá þeim sem ég hef heyrt eða séð fjalla um, alveg öndvert við mitt álit á þessum gjörningi. Húsið, það er sviðið, tekur engan veginn allt þetta  haf leikara og kórfélaga, sem er svo sem skiljanlegt að þurfi að vera þarna, en það bókstaflega þvælist hvert fyrir öðru, uppi á sviðinu eða niðri í sal. Maður bíður bara spenntur eftir að eihver detti kylliflatur eða þaðan af verra.

Þetta var þess utan í fyrsta sinn sem mér fannst ég ekkert vera á óperusýningu, hljómburðurinn þar sem ég sat var afleitur, á 23. bekk í sal, fyrir sönginn, betri fyrir tónlistina og með öllu yfirskrautinu og þessu eilíft villuráfandi fólki sem átti þó að vera þáttakendur í sýningunni var bara hreinlega pínlegt að horfa upp á aðstöðuleysi Óperunnar í þessum flotta hljómleikasal Hörpu, sem er aðeins eitt lítið skref í rétta átt fyrir óperusýningar miðað við Gamla bíó, en langt frá öllu sem kallast getur fullnægjandi óperuhús.

Satt best að segja botna ég ekkert í þessum rífandi dómum, mér fannst þessu svo rosalega ábótavant. Það er asskoti skítt þegar maður verður bara hálffegin þegar Mímí  Huldu Bjarkar geyspar loksins golunni, þó hún syngi töfrandi vel, og maður kemst út úr húsinu.  Hljómsveitin var góð, söngurinn, það sem ekki barst hálfkafnað  á 23. bekk líka, en þetta bara gekk engan veginn   upp sem heild.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Það er eins gott að ég er ekki á leiðinni að sjá La Boheme.

Kveðja til þín Bergljót mín

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 21.3.2012 kl. 08:50

2 Smámynd: Sigurbjörg Eiríksdóttir

Ég læt mér nægja Vesalingana í Þjóðleikhúsinu. Þeir voru flottir..Ég lifi enn á þeim. Takk fyrir þá samveru Beggó mín og gaman að sjá blogg frá þér vinkona!

Sigurbjörg Eiríksdóttir, 21.3.2012 kl. 09:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband