Bráðum kemur langþráð vor í bæ

Þá er þorrinn liðinn, góan tekin við, þá er nú ekki langt í vorjafndægur, en eftir einmánuð tekur harpa við, með sín hörpuljóð og þá er nú aldeilis von á að vorið guði á glugga.

Bolludagurinn fór eiginlega fyrir ofan garð og neðan hjá mér, en því miður fór sprengidagurinn ekki sömu leið, sem þýddi auðvitað að ég er ennþá að springa, þó kominn sé öskudagur. Mér blöskrar óhemjuskapurinn í sjálfri mér þegar saltkjöt og baunir eiga í hlut.

Ég er að skríða saman hægt og rólega eftir eftir áfallið og sorgina sem því fylgdi þegar maðurinn minn lést, en þar kom til, að mér var bent á af góðum vini, að Sören Kirkegård hefði talað um hversu mikilvægt væri að ganga í gegnum lífið með gleðina í fararbroddi, og jafnvel að takast á við sorgina með gleði. Þetta hljómaði allnokkuð undarlega í byrjun, en það er hægt.

Að gera sér grein fyrir í hverju sorgin felst, og hreinlega flokka tilfinningar sínar og minningar af einlægni og eindrægni gerir mann skyndilega færan um að líta hlutina allt öðrum augum og þá fær þessi umrædda gleði að gægjast upp á yfirborðið.  Söknuðurinn er mikill, en sorgin á undanhaldi. Auðvitað spila fjölskylda mín og góðir vinir inn í dæmið, en stór hluti batans felst í öryggistilfinningunni sem fylgir því að eiga góða að.

Ég veit ekk ihvort það er viðeigandi að blogga á þennan hátt, en einhversstaður verður maður að byrja eftir langt hlé. Síðan vona ég bara að ég verði farin að skrifa á fullu innan skamms, því ég hef virkilega saknað þess, þó svo ég væri hreinlega ófær um að tjá mig vegna hugarróts þegar sest var niður.

Og nú virðist ekkert annað framundan, en maður fari bara að þenja sig á fullu á eigin síðu og annarra.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurbjörg Eiríksdóttir

Gaman að sjá þig aftur á skriði! Áfram Beggó. Þú hefur svo margt til mála að leggja og SVO flottur penni. Takk fyrir síðast!

Sigurbjörg Eiríksdóttir, 23.2.2012 kl. 11:30

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Bergljót mín það er örugglega alveg rétt að við verðum að takast á við sorgina með lífsfyllingu og gleði.  Og það er afar gott að gera skrifað sig frá henni og komið frá sér það sem í huganum býr.  Við skulum muna að ástvinir okkar eru farnir yfir þangað sem við getum ekki heimsótt þá, en við munum hitta þá aftur í fyllingu tímans.  Og með því að syrgja og halda þeim í raun og veru í gíslingu líður okkur illa.  Þess vegna er mikilvægt að við hugum til þeirra með þakklæti og gleði yfir þeim tíma sem við fengum að dvelja með þeim í þessum táradal.  Knús á þig elskuleg og dndilega að byrja að tala með tveimur hrútshornum hér og þar ekki veitir af.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 24.2.2012 kl. 17:29

3 Smámynd: Bergljót Gunnarsdóttir

Takk stelpur mínar.

Bergljót Gunnarsdóttir, 24.2.2012 kl. 20:59

4 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 24.2.2012 kl. 21:00

5 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Sæl og blessuð Beggó mín, lokksins vona ég að tölvan mín sé komin í lag þá get ég farið að blogga aftur.

Það er allt viðeigandi sem þér finnst vera rétt, einu sinni fyrir margt löngu var ég við útför mjög góðra vinkonu minnar presturinn tjáði okkur að hún hefði beðið hann að minna okkur á skemmtilegu stundirnar með henni og mér tókst það, auðvitað var sorg hjá manni og börnum. Eftir þetta hef ég reynt að taka alla sorg út í gleði, það er stundum erfitt en það tekst fyrir rest.

Ég hef nefnilega þá trú að ef við tökum gleðina á sorgina hjálpar fólkið okkar fyrir handa við að láta það takast.

Kveðja Milla

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 28.2.2012 kl. 13:38

6 Smámynd: Eyjólfur G Svavarsson

Bergljót, það er notaleg tilfinning. Ég vona að það vori snemma og það fari að takast sátt í þjóðfélaginu, þá getur vonandi öllum liðið vel:Brosandi

Eyjólfur G Svavarsson, 8.3.2012 kl. 16:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband