7.1.2012 | 21:43
Einvera og eldamennska
Með nýju ári hefjast nýir siðir þar sem ég á í hlut, eins og að borða ein, og elda þar af leiðandi fyrir einn. Fyrir manneskju sem hefur rekið stórt heimili árum saman finnst mér alveg stórhlægilegt að elda einn fiskbita, tvær kartöflur og smá persillesmjör út á, og setjast síðan ein til borðs.
Það að sitja ein til borðs er algerlega ný reynsla, sem margir þekkja eflaust, eftir að þeir eru orðnir einir, nema þeir hafi alltaf verið það. Ég tekst á við þetta þannig að ég legg fallega á borðið, kveiki á kertaljósi, og hef það eins og mér finnst fallegast og best. Maður áttar sig nefnilega á því að maður getur haft það ansi huggulegt þó ekki sé fullt hús af fólki, ekki svo að ég sé að andmæla því, en firður og ró, verandi einn með sjálfum sér, fær mann til að hugsa um tilveruna og öll hennar tilbrigði. Tek þó fram að fjölskylda og vinir slást um að bjóða í mat, en mér finnst bara fínt að vera ein á stundum, þarfnast þess eiginlega.
Þetta fær mann líka til að rifja upp liðna tíma, góða og slæma, mest góða þó og hlýja sér við minningarnar sem eru svo ótal margar. Ég held líka að þetta sé prýðis aðferð við að lina sorg og söknuð, sem býr innra með, og maður þarf tíma til að ganga í gegnum.
Ég er ekki eina manneskjan sem er nýbúin að missa maka sinn, en við bregðumst jafn mismunandi við og við erum mörg. Mín aðferð er því að hluta sú, að borða ein, hafa stundum virkilega mikið fyrir matnum, svo ég geti hrósað sjálfri mér fyrir þennan frábæra mat og hlegið síðan að lokum yfir hversu vitlaus ég sé. Merkilegt nokk, það léttir lundina.
Annars ætla ég að bjóða fjölskyldunni í mat fljótlega og elda þennan rétt sem er hér á myndinni, en hann er með því besta sem ég fékk í Kína og var þó margt gott.
Athugasemdir
Blessuð Beggó mín, ég vona að þetta komment komist í gegn og segi því gleðilegt ár með hjartans þökk fyrir það gamla.
Auðvitað er ekki auðvelt að segja þér til um hvernig þú munir spjara þig ja svona með tímanum, það er eitthvað svo innantómt, að spjara sig er ekki það sama og að sætta sig við að missa ástina og besta vininn sinn í 30 ár, en það kemur með tímanum að læra að lifa með því.
Allar sorgir eru sárar, þær eru sorgir okkar sem eigum þær og engin getur sagt neitt til um það hvernig við eigum að kljást við þær, gerum það á okkar máta.
Segja þér fallega sögu, hitti í gær unga konu sem ég er búin að þekkja afar lengi hún var með syni sínum 8 ára, hún spurði hvort hann mindi eftir mér, hann gerði það ekki enda hafði hann ekki séð mig síðan hann var smápolli í kerru þá sagði hún: " þessi kona heitir Milla og hún var besta, besta vinkona hennar ömmu Möggu og þá kekktumst við afar vel", Magga vinkona mín dó fyrir mörgum árum og ég ásamt systrum hennar og öðrum vinkonum komum til hennar á hverjum degi, eftir því sem við gátum þar til yfir lauk, við táruðumst báðar minningin var svo sterk, ég gleymi aldrei Möggu vinkonu hugsa daglega til hennar, en bara með gleði í hjarta því hennar stríði lauk eins og best var fyrir hana.
Kærleik og ljós til þín Beggó mín
Milla
Ps.Það er eitthvað bilað hjá Millu svo ég sendi þetta fyrir hana.
Knús í rautt hús!
Silla.
Sigurbjörg Eiríksdóttir, 8.1.2012 kl. 10:56
Ásdís Sigurðardóttir, 8.1.2012 kl. 12:29
En hve ég skil þig vel Bergljót mín. Það er einmitt styrkur hverrar manneskju að líða vel í sinni eigin návíst, rétt eins og með öðru fólki. Og þessi fallegi siður að setjast niður með kertaljós og fallega lagt á borð fyrir einn er frábær lausn. Gangi þér vel ljúfust mín.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 8.1.2012 kl. 14:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.