13.12.2011 | 16:54
Eitt bros...........
Ég var að pakka inn jólagjöfum í allan dag, með þyngsli fyrir hjarta og söknuð í huga, eiginlega ekki með hugann við verkið, sem ég hef þó alltaf haft gaman að, enda venjulega komin í jólaskap um þetta leyti. Huguruinn var í rauninni einhversstaðar langt afur í tímanum og dvaldi við ýmsar stundir, flestar mjög góðar og ég reyndi hvað ég gat að ýta þyngslunum burt, án nokkurs sérstaks árangurs þó.
Allt í einu var bankað á útidyrnar. Ég fór að sjálfsögðu til dyra og úti stóð ungur maður sem setti upp samúðarsvip um leið og hann sá svipinn á mér. Hann var að koma með lyfjaskammt frá Lyf og Heilsa og rétti mér hann samkvæmt venju. Bara eitt enn sagði hann þegar hann kvaddi og hálfsneri sér við á tröppunum, eigðu virkilega gleðileg jól. Þetta sagði hann með fallegu brosi. Allt í einu birti til í sálartetrinu og ég komst í jólaskapið langþráða. Takk söuleiðis var svarið, já virkilega gleðileg jól. Ef fólk vissi stundum hvað brosið þess getur glatt aðra, jafnvel bláókunnuga..
Þessi færsla fór óvart inn hálfkláruð í dag og leit út eins og barlómur, þó raunin sé önnur.
Athugasemdir
Knús til þín elsku vinkona. Var að koma heim frá Akureyri..rétt áðan..Kíki á þig fyrir jólin!
Sigurbjörg Eiríksdóttir, 13.12.2011 kl. 17:17
Sorgin er erfiður förunautur Bergljót mín. En mitt í verstu sorginni lifa minningarnar þessar góðu sem gefa birtu og yl. Sendi þér stóran knús með óskum um að jólin verði þér þrátt fyrir allt gleðitími.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 13.12.2011 kl. 20:17
Skil þig elsku Beggó, gleymi seint fyrstu jólunum eftir að maðurinn minn dó, einhvernvegin seiglast maður í gegnum hlutina en það tekur á. Guð geymi þig yndið mitt
Ásdís Sigurðardóttir, 14.12.2011 kl. 10:25
Takk elsku stelpur mínar. Það er gott að hafa góða í kringum sig og ekki þarf ég að kvarta undan skorti á því. Víst er sorgin stór, en góðu minningarnar vega hana upp, og af þeim er gnótt. Takk enn og aftur , það er gott að vita af ykkur.
Bergljót Gunnarsdóttir, 14.12.2011 kl. 13:44
Bergljót Gunnarsdóttir, 14.12.2011 kl. 13:45
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 14.12.2011 kl. 21:25
Rlsku Beggó mín, yndislegt þetta með unga manninn með lyfin rétt eins og hann hafi verið sendur til að létta á sálartetrinu þínu ljúfust mín.
Bros eru svo yndisleg, það er að segja brosið sem gleður
Kærleik til þín
Milla
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 15.12.2011 kl. 05:35
Beggó mín, ýttu samt ekki sorginni frá þér, hún þarf sinn tíma.
Ásdís Sigurðardóttir, 15.12.2011 kl. 11:18
Takk mín kæra.
Ég geri mér fulla grein fyrir því, en ég gekk í gegnum þetta sama fyrir 40 árum þegar ég missti fyrri manninn minn, en hann var aðeins 32ja ára. Ég hef alltaf sagt við þá sem misst hafa og leitað svara hjá mér að best sé að ganga í gegnum sorgina hversu erfitt sem það er, og þá birtir framundan að lokum.
En þar sem ég er dálítið brött að eðlisfari getur verið að ég virki stundum hressari en ég er, þó það segi ekki endilega að ég sé alltaf með grátstafinn í kverkunum.
Sorgin fer ekkert fyrr en ég er búin að vinna úr henni.
Bergljót Gunnarsdóttir, 15.12.2011 kl. 17:20
Takk fyrir stundina í dag mín kæra og eina sanna Beggó.
Sigurbjörg Eiríksdóttir, 15.12.2011 kl. 20:57
Það þarf enginn að skammast sín fyrir að syrgja þegar nánir ástvinir kveðja.
Samkvæmt mínum skilningi, þá er það barlómur ef fólk hefur þokkalega heilsu og ástvinirnir líka, en tímabundin blankheit eru til staðar, þá er engin þörf að kvarta.
En þegar makinn hverfur til annarra heima, þá er svo stór hluti af manni horfinn og þá vantar svo mikið í hið daglega líf.
Sterk kona eins og þú finnur örugglega eitthvað til að fylla upp í tómarúmið með tímanum, en sorgin verður líka að fá útrás eins og þú bendir réttilega á.
Guð veri með þér um jólin Bergljót mín og gefi þér styrk í sorginni.
Jón Ríkharðsson, 20.12.2011 kl. 11:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.