Skúrir

Bláa skúrin

 "Einhverjir skúrir" heyrðist mér veðurfrétta daman, sem var að skýra veður næstu daga fyrir áhorfendum sjónvarps allra landsmanna, segja. Satt best að segja hrökk ég í kút, enda alveg fullkomnlega óvön því að að skúrír væru karlkenndar. Þegar ég var rétt búin að ákveða að mér hefði misheyrst kom þetta sama upp  á teninginn aftur, "einhverjir skúrir" hátt og skýrt.

Hvort þessi kona  er veðurfræðingur, veit ég ekki. Hún tekur sér það  bessaleyfi að kynbreyta skúrum, karlkennir blessaða rigninguna þegar hún steypist yfir okkur, en nokkuð kippist maður við þennan talsmáta.

En mér ferst, því vestur á Bíldudal á ég fallega bláa skúr, úr timbri, sem skartar skilti sem á stendur Bláa skúrin. Jú. jú. þetta er venjulegur skúr, eins og við segjum hérna fyrir sunnan, og karlkyns. En flestir þarna vestra, kvenkenna skúra og þar af leiðandi alltaf talað um skúrina. Ég ákvað að vera ekkert að endurbreyta kyninu, enda finnst mér þetta bara skemmtilegt. 

Hvernig á þessum kynskiptum skúra stendur, veit ég ekki, en finnst það afturámóti mjög áhugavert. Ef einhver getur frætt mig um skúrir og skúra og hvernig þetta má gerast, þætti mér gaman að fá tilskrif um það.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurbjörg Eiríksdóttir

Mikið er skúrinn þinn fallegur Beggó!

Sigurbjörg Eiríksdóttir, 6.11.2011 kl. 20:39

2 Smámynd: Bergljót Gunnarsdóttir

Hún er víst ekki skúr lengur. Ég breytti henni, með stanslausri vinnu, heilt sumar, úr skúr í vinnustofur fyrir okkur Odd, og svefnaðstöðu fyrir gesti. 

Auðvitað með annarra hjálp, en sonur minn sem er húsasmiður gerði allt að utan, nema að mála. Svo varð drengurinn ástfanginn og stökk úr verkiniu á lokametrunum Ég smíðaði þar af leiðandi mestallt að innan, hillur, rúmbálka, borð, o.fl. dúklagði gólfin og málaði það sem þurfti.

Bergljót Gunnarsdóttir, 6.11.2011 kl. 20:55

3 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Já ég var einmitt að hugsa þetta í kvöld, við segjum hún skúrin, og hann rigningarskúrinn.  Það er margt svona smotterí sem við segjum öðruvísi vestfirðingarnir.  ég fór sem krakki alltaf út í skúrina að sækja eitthvað fyrir mömmu. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 6.11.2011 kl. 21:14

4 identicon

Sæl Bergljót.

Fjölmörg orð í íslensku eru til í fleiri kynjum en einu, t.d. er skúr karlkyns í merkingunni ‘kofi, skúrbygging’ en kvenkyns í merkingunni ‘regndemba’. Hér ræður merking kyni en í öðrum tilvikum skiptir hún ekki máli.

Óskylt þessu er svo málfræðikyn: kýr, tarfur.
Naut hins vegar í hvorugkyni!

En illa fer um allar tilraunir til að
hafa orðið forseti í öðru kyni en
við blasir.

En ef til vill skiptir ekkert af þessu neinu máli
þegar virt er að Jón prímus talaði um ´það´
í merkingunni Guð.

Húsari. (IP-tala skráð) 6.11.2011 kl. 23:33

5 Smámynd: Jens Guð

  Í minni Orðabók Menningarsjóðs (útgefin 1988) er orðið skúr (í merkingunni regndemba) gefið upp bæði í kvenkyni og karlkyni.

  Mér dettur í hug að þetta sé landshlutabundið.  Ég er fæddur og uppalinn i útjaðri Hóla í Hjaltadal,  Skagafirði.  Mér finnst eins og þar hafi skúr í þessari merkingu verið karlkyns.    

Jens Guð, 7.11.2011 kl. 00:19

6 Smámynd: Bergljót Gunnarsdóttir

 Forsetinn fríða með stórpilsaþyt,

forðar sér senn undan skúrnum.

 Flugstýran Flugleiða alveg var bit.

Það flaut undir skúrina í túrnum.

Já, já og amen, kveðskapurinn er ekki upp á marga fiska, en mér datt þetta svona í hug.

Bergljót Gunnarsdóttir, 7.11.2011 kl. 03:47

7 Smámynd: Bergljót Gunnarsdóttir

Ég þakka ykkur öllum tilskrifið. Það er svo ótalmargt í málinu sem er farið að bjagast, svo ekki sé meira sagt.

Ég læt, því miður, hlutina stundum fara í taugarnar á mér.

Þegar ég var í barnaskóla var mér kennt að orðið vara væri eintöluorð. Maður festi sér þetta í minni og gekk bara ágætlega með notkun orðsins framan af.

Þú keyptir ýmiskonar vöru og fékkst hana senda heim með vörubíl, en þar beiðstu vörunnar .

Þegar ég sá um útgáfu blaðs fyrir Sláturfélag Suðurlands, í tilefni 75 ára afmæli félagsins, rak ég fyrst augun í að vara virtist allt í einu komin í fleirtölu.  Það sem ég skrifaði um vöruna var allt "leiðrétt" af yfirmanni mínum og þannig fór það fyrir augu almennings. og hét nú vörur, en ég átti virkilega bágt með að lesa minn eigin texta, með lýsingum á því þegar flutningur "varanna" gekk ekki nógu vel fyrir sig vegna ýmissa erfiðleika, aðallega veðurfarslegra.

Ég spurði hvort þeir vildu þá ekki nota varabíl líka, en það féll ekki í kramið. Núna er vörur og varanna oftast notað, og mér sýnist ekki neinar reglur gilda um það. Einn skrifar svona annar öðruvísi.

Bæta því við að gamni mínu að Jóhannes í Bónus var á þessum tíma samstarfsmaður minn þarna. Eitt sinn komu erlendir viskiptamenn og varð á að spyrja "fyrir hvað stendur þetta SS. Jói hugsaði sig aðeins um og sagði síðan afburða gáfulegur á svip og grafalvarlegur, að mér skilst, South Coast Killing Company. 

Bergljót Gunnarsdóttir, 7.11.2011 kl. 04:40

8 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

 Hef aldrei leitt hugan að þessu með vöru, auðvitað heitir bíllinn þá líka varabíll, en ekki vörubíll. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 7.11.2011 kl. 11:21

9 identicon

Sæl Bergljót.

Svo er að sjá sem hver tíð hafi sitt
tungutak.
Orðið ´vara´ er vissulega til í eintölu og
fleirtölu en þeir færri er réðu við
eintöluform þess, notkun þess í eintölu
og því fór sem fór og nú eru nokkuð margir
sem "verzla vörur"!
(orðið fólk einungis til í eintölu en
t.d. orðið buxur í fleirtölu)
Samsett orð (tvö eða fleiri) fylgja reglum
um þolfallssamsetningu, eignarfalls, bandstafs
eða svonefndri eignarfalls einkunn.
Orðið ´vörubíll´ dæmigerð þolfallssamsetning.
Orð lifa og þau deyja. Málið tekur sífelldum
breytingum. Á þessari tíð er Halldór Kiljan
og skrif hans þegar óskiljanleg mörgum.
Þérun og tvítala hefur verið felld úr Biblíunni
og allt málfar er þar fátæklegra sér í lagi
eftir að slæddust þar inn málvillur fjölmargar
í þýðingu hennar 2007 auk annarra afglapa.
En jörðin er ekki flöt!
Aukinheldur hef ég heyrt að þar sem mönnum
var hættast við að ganga út af henni og hrapa
heljar til hafi verið í Portugal, sunnanverðu landinu.
Þyrfti nú einhver að líta blogg þetta og
upplýsa hver staður sjá hafi verið!

Bestu þökk fyrir vísuna!

Húsari. (IP-tala skráð) 7.11.2011 kl. 21:27

10 Smámynd: Bergljót Gunnarsdóttir

Sæll Húsari.

Samkvæmt mínum uppl. eiga þrjú börn í Fatima, Portúgal að hafa séð inn í helvíti þann 13. júlí 1917. Það er kaþólsk síða á Google sem heldur þessu fram, og ég sel það ekki dýrara, enda engin kaup gerð.

  Læt kaupmanninn um að stunda sína verslun, en versla alloft við hann er ég kaupi mér eitthvað. Ruglingurinn á hugtökunum að kaupa og versla er orðinn landlægur, og hverfur varla úr málinu aftur héðan af. Heyrði barnaskólakennara segja"þarf að hlaupa og versla í matinn". Eins finnst mér fáránlega pirrandi, að hlusta á allar auglysingarnar sem dynja á manni um "góðu verðin" sbr. góð verð á öllum okkar vörum. Ég gefst ekkert upp þó móti blási, og heimta gott verð á alla vöru.  

Ef jörðin skyldi nú samt sem áður reynast flöt, vonast ég til að komast frekar á sporbaug, en að falla í neðra. Mér er sagt að þar séu svo margir að það taki heila eilífð að komast að eldunum til að hlýja sér.

Bergljót Gunnarsdóttir, 8.11.2011 kl. 16:14

11 Smámynd: Bergljót Gunnarsdóttir

það vantar þarna eitt orð "og versla mér í matinn"

Bergljót Gunnarsdóttir, 8.11.2011 kl. 16:26

12 identicon

Sæl Bergljót.

Nú þegar fremur eru dagar en vikur eða mánuðir
að Bandaríkjamenn, Bretar og Ísraelsmenn
ráðist inn í Íran er rétt að minnast atburðanna
í Fatíma, svo sem þú gerir, er konur þrjár litu
Heilaga Jómfrú og geymdu með sér spádóma
hennar er ekki einasta náðu til ófriðar þeirra
tíma heldur og að talið er til Síðari heimsstyrjaldar
sem og umbreytingar Sovétríkjanna en það kom í hlut
Píusar páfa XII að hafa afskipti af innsigli
þessara spádóma.
Kaþólskum hafa að vonum alla tíð staðið atburðir
þessir ljóslifandi fyrir sjónum sem og þau náttúrufyrirbrigði
sem áttu sér stað í formi einstæðrar ljósasýningar
á himni þar sem sólin steig sinn dans ljóss og litadýrðar
og fjölmargir minntust og urðu vitni að.
Kraftaverkin sem eftir fylgdu hafa æ síðan tengst Fatíma
og uppspretta þeirra staðfest í ummyndun Maríu meyjar
frammi fyrir konum þeim hinum þremur.

Allt þetta er eðlisskylt því er átti sér stað í Hydesville
á Englandi 1844 og birtist hér í Nýguðfræðinni
1908 og fyrr.
Þær Fox systur töldu sig hafa náð sambandi
við annan heim og stendur það enn með svipuðu sniði
og jafnvel enn betur eftir að vísindaruglið var
hreinsað út og eftir stóð hverjum og einum að
trúa hverju þeir vildu.

Trúir þú, Bergljót, að kraftaverk geti átt sér stað?
Ég geri það, tel mig hafa séð þau gerast
fyrir framan augu mér.

Húsari. (IP-tala skráð) 8.11.2011 kl. 23:21

13 Smámynd: Bergljót Gunnarsdóttir

Ég er sannfærð um að kraftaverk geta gerst, annars væri ég í þrígang komin undir okkar endanlegu grænu torfu. 

Síðan langar mig að segja hér stutta sögu sem má flokka undir hvað sem hver vill.

Árið 1988 ákváðum við skötuhjúinað dvelja á Spáni í eitt ár, leggja af stað með Norrænu, en aka síðan suður til Sevilla á Spáni.

Þetta var langt ferðalag, tók 6 vikur, en við vorum ekkert að flýta okkur og nutum ferðarinnar í gegnum allmörg lönd.

Við lágum mest í tjaldi, á hinum ýmsu tjaldstæðum, en þar sem var farið að hausta var vistin oft nokkuð köld, þó ekki fyndi maður fyrir því að viti.

Einn morguninn vakna ég upp við það að ég var gjörsamlega að drepast í bakinu og mátti mig vart hræra. Þetta var í Suður Frakklandi, en ferðaáætlunin gerði ráð fyrir ferð upp Pyreniafjöllinn þann dag.

Við stoouðum í Prad, þorpinu hans Pablo Casals og þar fór minn heittelskaði út til að kaupa rauðvín á kút, ásamt einhverjum pylsum og skinkum í nesti.

Þar sem ég sat í bílnum og beið, heyrði ég rödd segja fyrir utan bílinn, good afternoon madam, are you from Iceland. Þar sem ég hef alltaf verið mjög nösk á raddir hvítnaði ég upp, en leyfði mér þó þann munað, þrátt fyrir minnimárrarkennd og allskyns aulaskap að líta út og segja yes. Fyrir utan stóð goðið, uppáhaldsstjarnan mín til ca. 25 ára Sean Connery. Við áttuum þarna ágætis samtal eftir að ég náði andanum, og ég liði þetta af. Má kalla það kraftaverk nr. 1

Síðan var haldið sem leið lá upp í Pyreníafjöllin. Ég sat alltaf við stýrið því þannig leið mér best. Skyndilega komum við að gömlum virkisveggjum þarna í fjöllunum en þeir umkringdu lítið gamalt þorp sem kallast Ville de France. Stoppum hér sagði Oddur, OK sagði ég og lagði bílnum fyrir utan þorpið .

Ég gekk eins og góður hilluberi í laginu, með hendur á hnjám, þar til ég gat skutlað mér í fyrsta sætið sem ég sá innan veggjanna, en það átti lítið veitingahús. Ég þverneitaði að hreyfa mig lengra, en hann ákvað að líta aðeins í kringum sig.

Skömmu seinna, þegar ég hafði sporðrennt bolla af besta tei sem ég hef nokkru sinni smakkað, kom hann til baka og sagði: Þú bara verður að koma og skoða undursamlega litla kirkju sem er hérna við torgið. Þeir eru að æfa svo fallega tónlist.

Hvað gerir maður ekki til að halda friðinn og hlusta á góða tónlist um leið, jú jú hinn jarðneski hilluberi, hillulaus þó, ekkert í allt of góðu skapi, þrátt fyrir endurminninguna um Sean Connery tölti á eftir honum.

Þegar inn í kirkjuna var komið var tónlistin þögnuð og ekkert að sjá í hálfrökkrinu sem þar ríkti nema allmörg kerti sem einhverjir höfðu kveikt á, líklega guði sínum og látnum ættingjum til dýrðar.

Það var eitt kerti ónotað eftir svo ég tók það, meir af vilja en mætti, en uppgötvaði þá að ég átti ekki minna en 100 franka til að greiða fyrir það. Ég kveikti samt á kertinu, setti 100 frankana í baukinn, blimskakkaði augunum uppávið og sagði, Guð, ég er svo sárþjáð og búin að vera svo oft, þetta helvítis bak er að drepa mig. Ég veit að þetta eru hreinar mútur, en geturðu samt gert eitthvað í málinu.

Auðvitað héldum við leið okkar áfram sem hún lá, en  þar sem dagsbitan entist ekki ákváðum við að gista á fallegu hóteli við vegkantinn.

Mat og drykk fengum við sent upp á herbergið, en ég var ekki fyrr sest niður, úti á svölum, en það var eins og tekið væri utan um mig, mér ýtt ákveðið áfram, alveg niður í gólf og síðan upp aftur, aftur og aftur. Þetta ágerðist smám saman, þar til ég var farin að hreyfa mig á þann hátt að mér hefði aldrei dottið það í hug áður.

Allaf fann ég fyrir þessu afli sem virkaði eins og sterk hendi og svo annarri sem ýtti á móti, þannig að átökin voru stundum allveruleg. Þetta stóð í tæpa tvo klukkutíma, Oddur sat og fylgdist með, en ég sagði honum starx í upphafi að þetta væri ósjálfrátt.

Alt í einu var eins og kippt væri í hendina á mér og ég stóð upp, teinrétt, og fann ekki fyrir bakverkjum í mörg ár eftir það. Semsagt kraftaverk nr. 2. og bæði á sama degi..

Þetta á þó ekkert skylt við þau kraftaverk að ég skuli vera á lífi, enda þolseig við að trúa ekki á þessa hluti, þó svo ég blóti á laun..

En "kraftaverk" hef ég aldrei séð á annan hátt,  fyrir framan augun á mér. Vona bara að ég haldi áfram að vera svo sjálfhverf að það gerist ekki.

Bergljót Gunnarsdóttir, 9.11.2011 kl. 00:46

14 Smámynd: Bergljót Gunnarsdóttir

Aðeins eitt, í mínum heimildum voru það þrjú börn, ekki konur sem urðu þess vafasama heiðurs aðnjótandi að líta inn í helvíti.

Annars er umræðunni um það mál lokið af minni hálfu.  Lifðu heill.

Bergljót Gunnarsdóttir, 9.11.2011 kl. 00:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband