5.11.2011 | 02:12
Blogg er skrýtin skepna...
..... Þú færð vissa útrás fyrir huganir þínar, svo ekki sé minnst á að taka þátt í þjóðmálaumræðunni, ja svona eins eins og þér er unnt, og í versta tilviki að þenja þig á fullu á móti þeim sem þú ert ósammála. Ég er búin að eiga endalausar ánægjustundir við að reyna að æsa upp fólk, bæði á minni síðu og þeirra, jafnvel þó svo að ég vilji engum illt í því tilliti.
En stundum fara hlutirnir aðeins úr böndunum og það tek ég nærri mér á tíðum, það er þó að ég held, vegna þess að fólk misskilur, gerir manni upp skoðanir og hugsanir, sem mér hefur blásaklausri oft þótt afleitt og sumir, oftast þeir nafnlausu skáka í skjóli hinna og ausa yfir mann óhróðri
Annað allmiklu skemmtilegra fylgir blogginu og það eru bloggvinirnir. Einn slíkur er Axel Jóhann Axelsson, sem var minn fyrsti og leiðbeindi mér í gegnum ferlð sem fylgir því að eignast bloggvin. Ég óð inn í bloggheima, reif kjaft sem mest ég mátti, en fékk engin svör, því enginn var að lesa það sem ég skrifaði.
Ég var alltaf að bögga Axel af litlu viti, og töluverðri óbilgirni. Hann svaraði mér einarðlega út frá sínu sjónarmiði en það varð til þess að ég spurði hann um kerfið og hvort hann væri tilí að leiða mig í gegnum það. Augnabliki síðar var svarið komið, með öllum útlistingum um hvernig hlutirnir gengju fyrir sig á moggablogginu og vinarbeiðni.
Við Axel höfum eldað töluvert silfur saman, en aldrei virkilega grátt, því maðurinn er sjentilmaður og mér þykir virkilega vænt um hann þó hann sé alveg vonlaus íhaldsmaður :)
Síðan þetta var hef ég eignast marga bloggvini, rifið stólpakjaft á hinum ýmsu síðum, og haft bæði gagn og gaman af. Það þýðir ekkert að tjá sig nema á réttum forsendum sé um alvarlegri mál að ræða, en þar sem alltaf er stutt í bullið og einhverskonar grín hjá mér, finnst eflaust mörgum ég gjörsamlega vonlaus. Svona er ég bara , barnabörnin mín elska mig fyrir hversu skrítin ég er og það gerir maðurinn minn líka.
Besta afurðin af bloggvináttu eru samt Silla og Gunni. Við Silla fundum einhverntímann rétta flötinn á hvor annarri hérna á blogginu og bloggvináttuferlið fór í gang.
Ég var að vinna á fullu við mósaikgerð, sem er ansans ári seinlegt listform þó þó ekki sé meira sagt, því það stóð til að halda sýningu. Silla sýndi sýningunni og mér mikinn áhuga, og sagðist strax myndu koma á hana. Jú, jú það leið og beið og í fylligu tímans sendi ég henni boðskort , ásamt öllum bloggvinum sem ég átti á þeim tíma.
Því miður var Silla sú eina sem sá sér fært að koma, en það gerði ekkert til því koma Sillu í salinn var eins og fallegt ljóð. Allt í einu stóð þessi glæsilega kona fyrir framan mig , með fallega blómaskreytingu í höndunum, og sagði Beggó, og ég sagði Silla. Þar með féllumst við mjög dramatískt í faðma og höfum verið alvöru vinkonur síðan.
Silla tók líka upp á þeim fjára að vilja endilega eignast mynd eftir mig, og þá kemur Gunnars þáttur hins góða til sögunnar. Silla átti afmæli einhverntímann í kjölfar sýningarinnar og gat bara ekki hugsað sér að fá neitt annað en mynd eftir mig í afmælisgjöf, en myndin sú er af Björgólfi Thor Björgólfssyni starandi á stórt gullepli, með taflborð í bakgrunni, staddan við skilnings jólatré góðs og ills, með kyrkislöngu um hálsinn, í fínu fötunum af pabba. Kyrkislangan hvíslar í eyrað á honum Bíttu nú og þá byrjar ballið.
En bloggvinátta er ekki svona einföld, því Sillu fylgir Gunni. Gunni er mikill áhugamaður um skák og líka stærðfræði. Hann eyddi löngum tíma í að reikna út hvernig Riddari á taflborði gæti gengið sinn rétta manngang, komið við á hverjum einasta reit á borðinu, en aðeins einu sinni og síðan ekki söguna meir. Þegar hann var búinn að leysa þetta kom út mynstur sem minnir á tvo riddara og inni í þeim stitja tveir menn að tafli.
Þegar ég var boðin heim til þeirra hjóna til að sjá hvernig Björgólfi liði, eins og mér væri ekki sama, en myndin var í góðum höndum, sýndi Gunni mér þetta afkvæmi sitt, sem hann langaði til að láta útfæra á einhvern hátt í gler, spurði hvort ég áliti að það væri hægt. Hann hafði þreifað fyrir sér með þetta, án árangurs og niðurstaðan var sú að það væri ekki hægt.
Ég ætla að stytta mál mitt, svo það sofni enginn yfir lesningunni. Ég leysti málið, gerði myndina fyrir Gunna, með tvennskonar tækni, og þar með eignuðumst við hvort annað að kærum vini líka, blogglaust, en samt allt Sillu að þakka. Gunni er þvílíkur orkubolti og heiðursmaður að hann er búinn að koma hingað og smíða fyrir okkur þröskuld, lána okkur lyftu til að mála undir húsmæninum, og þettikantarnir meðfram úthurðinni eru a la Gunni og svo hefur hann svo góða nærveru að fátítt er. Í kvöld buðu þessi yndislegu hjón okkur í leikhúsið í Gamla bíói, Laddi og Edda Börgvins. Svona skemmtileg leiksýning með þessu frábæra fólki er eitthvað til að minnast lengi.
Takk fyrir okkur!
,
Athugasemdir
Knús og kossar frá Heiðarbæjarhjónum! Takk aftur fyrir samveruna..Magavöðvarnir fengu góða æfingu í gærkvöldi og virðing okkar fyrir Njarðargötuhjónum er gagnkvæm!!!
Sjáumst :)
Silla.
Sigurbjörg Eiríksdóttir, 5.11.2011 kl. 10:06
þau eru bara best mamma og pabbi :)
Linda Ösp Gunnarsdóttir (IP-tala skráð) 17.11.2011 kl. 09:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.